Fimmtudagur 30.06.2011 - 09:33 - 7 ummæli

Isavia spurt um auglýsingar

Sérkennileg viðbrögð hjá opinbera hlutafélaginu sem rekur Leifsstöð að taka niður hvalaauglýsingar Alþjóða-dýraverdarsamtakanna, IFAW, án almennilegra skýringa og ástæðu. Skil ágætlega að halveiðimenn kvarti – en er eitthvað rangt við þá ábendingu að til að geta selt ferðamönnum hvalkjöt að éta þurfi að veiða hvalinn og drepa?

Hvernig sem menn snúa sér í hvalamálinu – sem nú hefur staðið í ein 25 ár, frá banninu 1986! – vita það allir Íslendingar innan og utan ferðaþjónustu að um hvalveiðar við Íslandsmið eru vægast sagt deildar meiningar, og ekki undarlegt að erlendir eða innlendir aðilar vilji koma sjónarmiðum sínum á framfæri, meðal annars við ferðafólk á Íslandi. Hver ætlar eiginlega að koma í veg fyrir það? Og á hvaða grundvelli bregst opinbera fyrirtækið Isavia við auglýsimgunum sem það samdi sjálft um að setja upp í Leifsstöð?

Ég tók eftir því í Fréttablaðinu í morgun að það stendur á svörum hjá upplýsingafulltrúa fyrirtækisins – og þá er best að snúa sér að forstjóranum. Hér er bréf sem ég sendi honum út af þessu núna áðan – birti svörin strax og þau berast:

Til Björns Óla Haukssonar forstjóra Isaviu ohf.

Í tilefni af fréttum um auglýsingar á vegum Alþjóða-dýraverndarssamtakanna, IFAW, í Leifsstöð óska ég eftir svörum við þessum spurningum:

Hvaða reglur gilda um auglýsingar sem Isavia selur í Leifsstöð?

Hver tók ákvörðun um að þessar auglýsingar brytu í bága við reglur, og við hverja þeirra?

Hver önnur tilvik eru um að Isavia hf. hafi rift samningum um auglýsingar í Leifsstöð?

Vinsamlegast svarið sem fyrst, í tölvupósti á netfangið, mordur@althingi.is, eða með bréfi til mín á vinnustað, Alþingi, 150 Reykjavík.

Reykjavík 30. júní 2011

            Mörður Árnason alþingismaður,

            formaður umhverfisnefndar, fulltrúi í samgöngunefnd

Afrit:

Þórólfur Árnason stjórnarformaður Isaviu

Sigursteinn Másson, fulltrúi IFAW á Íslandi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Mörður þetta var ekki auglýsing heldur áróður af versta tagi sem beindist gegn ákveðinni starfstétt.

  • Rafn B. Halldórs.

    Mörður, fólk er orðið þreytt á pólitískri rétttrúnaði núverandi stjórnvalda, og almennt orðið þreytt á mannréttinda- og umhverfisverndarpólitík sömu stjórnvalda.

    Þetta eru hlutir sem ekki gefa peninga í kassann þannig að fólk geti borgað reikningana sína og keypt sér mat.

  • Mörður þetta er áróður, gegn einni starfsstétt, hver er munurinn á því að senda , naut í sláturhús, og éta það síðan, eða drepa hval, og setja hann á grillið, munurinn er enginn.

    Mörður það er annað sem þú þarft að hafa meiri áhyggjur af.
    Það var níðingsverk af verstu gerð, af norrænu velferðarstjórninni, að gefa erlendum vogunarsjóðum, ótakmarkað skotleyfi á atvinnulaus íslensk heimili, og fyrirtæki, með gengisbundin ólögleg lán, og stökkbreytt innlend verðtryggð lán.

    Nú er komið í ljós að sú fáfræði og heimska verkalýðforustunnar, að hafna því að taka verðtrygginguna, úr sambandi tímabundið, eins og Ögmundur lagði til í Ráðherrabústaðnum í okt. 2008, er nú búin að valda félagsmönnum ASÍ og öðrum landsmönnum meiri hörmungum og skaða, en fordæmi eru fyrir í Íslandssögunni.

  • Enn er til fólk sem heldur að hvalveiðar séu mikilvæg atvinnugrein á Íslandi.

    Og að landsmenn séu ólmir í hvalkjöt og borði það oft.

    Og að það muni takast að markaðssetja hvalkjöt (ódýrt og gott!) víða um lönd.

  • Ég skal segja þér það Anna að þeir sem stunda hvalveiðar þiggja laun fyrir það og sjá jafnvel fyrir fjölskyldum sínum fyrir þau laun.Það eru allar atvinnugreinar mikilvægar og ef þú ert í vinnu þá er ég viss um að þín atvinnugrein er mikilvæg. Það er ömurlegt þegar fólk er að setja út á hinar og þessar atvinnugreinar. Tek það fram að ég hef aldrei unnið við hvalveiðar eða annað sem tengist hval.

  • Marteinn —

    Segjum sem svo að einhver samtök vildu setja upp auglýsingu í Leifsstöð til að hvetja túrista til að sniðganga æðardúnsængur vegna þess að fuglinn gengur í gegnum hræðilegar þjáningar þegar fiðrið er reitt af honum lifandi. Slíkar auglýsingar ættu ekki að líðast vegna þess að þetta eru rakalausar fullyrðingar.

    Auglýsingin sem hér er til umræðu virðist fyrst og fremst vera beint gegn langreyðaveiðum íslendinga (a.m.k. sé ég ekki betur en að myndin sé af langreyði). Það er hægt að færa mörg góð og gild rök fyrir því að þær veiðar eigi engan rétt á sér. Náttúruverndarsjónarmið vega þar þungt á metunum. Það má líka benda á að þessi hvalastofn er alls ekki í „eigu“ íslendinga, hann er í alþjóðlegri „eigu“ og dvelur hér við strendur einungis lítinn hluta ársins. Þessar veiðar fara fram eiginlega í allra óþökk. Og síðan en ekki síst er ekki hægt að koma þessu kjöti í verð. Vegna þess að flest lönd banna innflutning á hvalkjöti. Og þar sem þar er leyft hefur almenningur ekki áhuga á að kaupa það. Ég nefni sem dæmi að Japönsk stjórnvöld gripu til þess ráðs að niðurgreiða hvalkjöt til skólaeldhúsa í grunnskólum til að reyna að saxa eitthvað á birgðirnar í frystigeymslunum. Sjá þessa grein með tenglum:

    http://www.wordpress.tokyotimes.org/?p=872

    Túristar eru ekki skynlausar skepnur. Þeir vita fullvel að skoðanir eru mjög skiptar hér á landi. Að banna andstæðingum hvalveiða að básúna sínar skoðanir á auglýsingaskiltum er hrein afdalamennska, í raun atlaga að málfrelsinu.

    PS
    Ef einhverjar íslenskar fjölskyldur geta lifað af hrefnuveiðum og -vinnslu þá er það bara hið besta mál.

  • Þetta snýst um hvort, og þá hvernig, fyrirtæki geti ritstýrt auglýsingum.

    Um það þurfa vitanlega að vera skýrar og sanngjarnar reglur!

    Það heyrir því til Isavia að útskýra hvaða reglur hún styðst við þegar eðlilegar auglýsingar náttúruverndarsamtaka eru teknar niður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur