Mánudagur 04.07.2011 - 10:05 - 11 ummæli

Isavia: Svör í skötulíki

Björn Óli Hauksson forstjóri Isaviu ohf. hefur vinsamlegast sent mér svör við spurningum sem ég sendi honum í síðustu viku um auglýsingar Alþjóða-dýraverndarsamtakanna IFAW í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bréf Björns Óla er hér.

Um leið og þökkuð eru skjót svör verð ég að lýsa vonbrigðum yfir því að þau eru í skötulíki. Opinbera hlutafélagið er greinilega í vandræðum með að skýra viðbrögð sín í málinu og virðist hafa leikið af fingrum fram við undirleik hagsmunaafla.

Ég spurði þriggja spurninga. Fyrst um það hvaða reglur giltu um auglýsingar í Leifsstöð. Svarið er að um þær gildi siðareglur SÍA (hér) – samtaka auglýsingastofa. Það er klént svar, því þær reglur gilda um allar auglýsingar sem félagar í SÍA senda frá sér, sem eru yfirgnæfandi meirihluti allra almennra viðskiptaauglýsinga. Svarið leiðir þessvegna strax til næstu spurningar: Við hvaða siðareglu SÍA telja forsvarsmenn Isaviu að umræddar auglýsingar varði?

Frekari skýring forstjóra Isaviu ohf. við svar sitt er þessi: „… ekki er venja að birta auglýsingar sem varða afstöðu í álitamálum á borð við stjórnmál, trúmál eða auglýsingar sem fela í sér mismunun eða neikvæða afstöðu, t.d. til manna, málefna eða einstakra atvinnugreina.  Samgöngumiðstöð Íslands við umheiminn er Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hana ber ekki að nýta í þessum tilgangi. Í umræddri afstöðu felst ekki ritskoðun eða atlaga að tjáningarfrelsi.“

Þessi skýring vekur fleiri spurningar en hún svarar, en hér skal þessi látin nægja: Hvar kemur þessi meinta venja fram í kynningargögnum Isaviu ohf., stjórnarsamþykktum eða starfsreglum, og með hvaða hætti?

Önnur spurning mín var um það hver hefði tekið ákvörðunina um að að auglýsingarnar brytu í bága við augýsingareglur Isaviu. Því er ekki svarað, nema í ljós kemur að markaðsdeild fyritækisins samþykkti auglýsingarnar í einhverri gerð. Svarinu fylgir saga málsins af hálfu Isaviu. Þar er sagt öðruvísi frá en í máli auglýsandans, og er fróðlegt. Ég spurði hinsvegar ekki um þetta heldur um það sérstaklega hver hefði tekið ákvarðanirnar og á hvaða forsendum. Þessvegna er rétt að spyrja aftur: Hver tók lokaákvörðun um að þessar auglýsingar brytu í bága við reglur, og að þær skyldi taka niður án samráðs við auglýsandann?

Í þriðja lagi spurði ég um fordæmi. Það svar er sem betur fer tiltölulega skýrt: Ekkert.

Orðrétt:

Það eru þó nokkur dæmi þess að samningum um auglýsingar hafi verið rift eða einstökum auglýsingum verið hafnað. Dæmi um það er auglýsing þar sem auglýsandi gerir lítið úr samkeppnisaðila. Einnig hefur  verið neitað að gera samning við einstaka auglýsendur. Til dæmis var hafnað að birta auglýsingar frá nektarstöðum.

Þ.e.a.s.: Engin dæmi eru þess að auglýsingum hafi verið hafnað eða auglýsingasamningum rift á forsendum álíkum þeim sem við sögu koma í IFAW-málinu. Hér þarf því ekki frekari spurningar.

Sendi þennan pistil því vinsamlegast áfram til forstjóra Isaviu ohf. með þökkum fyrir þau svör sem þegar hafa borist og óskum um frekari upplýsingar hið fyrsta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Ef ég man rétt þá voru Sigursteinn Másson og þeir hjá IFAW beðnir um að taka auglýsingarnar niður. Þeir neituðu því. Þá voru þær teknar niður. Ekki er hægt að kalla það „án samráðs við auglýsandann“ eins og þú laumar svo pent inn í textann þinn hér að ofan.

    Spurningar þínar eru svo sem ágætar en mín spurning til þín er þessi: Hafa stjórnarþingmenn ekkert betra við tímann sinn að gera en að elta ólar við þetta mál? Eru engin verkefni brýnni í dag? Ég held ég geti lofað því að stærstum hluta íslensks almennings eru önnur mál ofar í huga en þetta.

  • Dofri Hermannsson

    Stundum hefur verið sagt (með háðstóni) að það væru engin vísindarök á bak við hvalvernd. Þetta væru trúarbrögð.

    Mér sýnist hins vegar (af takmörkuðum svörum ISAVÍA að dæma) að þarna sé verið að taka úr umferð auglýsingar sem móðga hvalveiðimenn.

    Með því er staðfest það sem mig hefur lengi grunað. Það eru engin efnahagsrök á bak við hvaveiðar. Þetta eru trúarbrögð.

    Múhameð hvað?

  • Ingólfur G.

    Hvernig væri að birta auglýsingu þess efnis, að það sé staðreynd að hvalir éti um 2,0 – 2,5 mio. tonna af nytjafiskum úr höfunum kringum Ísland?

    Á meðan þurfum við Íslendingar að skera niður aflaheimildir og verða fyrir búsifjum vegna þessa.

    Minni á að enn eru um 13-14.000 manns atvinnulausir á Íslandi, og enn situr hér ríkisstjórn sem er ófær um að leysa þennan vanda.

    Atvinnuleysi er félagslegur harmleikur sem kostar þjóðarbúið ca. 40 mia.kr. á ári, beint og óbeint.

  • Marteinn

    Mörður farðu að andskotast til að gera eitthvað sem skiptir einhverju máli. Þessar auglýsingar skipta engu máli nema fyrir fámennann hóp öfgamanna sem gera allt sem þeir geta til að leggja niður heila atvinnu grein. Svo ef þú ætlar að aðstoða þá við það ættirðu að skammast þín.

  • Pétur Maack

    Ingólfur G.:
    Þér er í lófa lagið að birta auglýsingar þess efnis.

    Marteinn:
    Það vill til að á Íslandi ríkir tjáningarfrelsi. Hvalverndarsinnar voru að nýta sér þetta frelsi, gerðu viðskiptasamning við ISAVIA um að birta auglýsingar með boðskap þeirra og ISAVIA riftir síðan þeim samningi einhliða.
    Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna að standa vörð um þetta frelsi. Þetta mál er enn verra fyrir þær sakir að ISAVIA er ríkisfyrirtæki.

  • Sigurður

    Ómar,
    „annað hvort tekur þú auglýsingarnar niður, eða ég geri það“

    Er þetta samráð?

    Tek annars undir að það eru stærri og meir áríðandi mál í gangi en þetta, væri t.d. óskandi að Mörður hefði jafn mikinn áhuga á félaga sínum Árna Páli sem hefur ráðist með harkalegum hætti á heimili landsins með því að reyna að setja á afturvirk lög um vexti á fjársvik fjármálastofnanna til að útvega erlendum vogunarsjóðum tugi miljarða frá fórnarlömbum pýramídasvindlara í bankakerfinu.

    En þessi ríkisstjórn hefur frá fyrsta degi varið öllum sínum tíma í árásum á heimili landsins til að verja nokkra stórtækustu fjámálaglæpamenn veraldar.

  • Guðrún Jónsdóttir

    Það er nú soldið merkilegt hvernig vinstrimenn vilja einatt tryggja að þeirra sjónarmið komist að í opinberri umræðu á sama tíma og andstæð sjónarmið skuli bönnuð.

    Bókstafstrúin í ykkur er hreint með ólíkindum. Það er bannað að tala um kosti og ágóða virkjana, það má bara tala um hversu hræðilega ömurlegar þær eru. Það er bannað að tala um mikilvægi álfyrirtækja fyrir íslenskt hagkerfi, það má bara tala um „álbræðslur“ í eigu „erlendra auðhringja“.

    Það mátti ekki tala um Icesave ánauðina og það helvíti sem hún hefði þýtt fyrir land og þjóð, það mátti bara tala um einhverja „siðareglu“ sem skyldaði okkur að taka á okkur drápsklyfjarnar.

    Það má ekki tala um galla ESB aðildar (sem eru ótal margir) heldur bara kosti. Meira að segja dóttir háaldraðs fyrrum formanns kratanna er dregin fram og látin stofna einhver „óháð“ samtök sem eiga að skilgreina hvað er yfirveguð umræða og hvað ekki. Og skilgreiningin er þá sú að yfirveguð umræða snýst um kosti ESB aðildar, og umræða í ójafnvægi og skítkastsdrifin einkennist af umræðu um galla ESB.

    Það má ekki ræða um þá fjölmörgu kosti kvótakerfisins og þá mörg hundruð milljarða sem það hefur fært þjóðarbúinu í formi skatta og tekna undanfarna áratugi. Nei, það má bara ræða um hversu ósanngjarnt það var hvernig kvótanum var úthlutað í upphafi og hversu hræðilegt það er að það skuli vera til fyrirtækja sem græða á rekstrinum og hvernig gróðinn skuli allur fara til „þjóðarinnar“ – sem mér hefur lærst vera faguryrði yfir að færa völd og peninga til stjórnmálamanna sem margir hverjir eru gáfnafarslega ófærir um að reima á sig skó.

    Svona mætti lengi telja, en læt ég hér staðar numið. En spyr nokkurra spurninga.

    Þú vilt vita hvaða siðareglur voru brotnar, og hvar þær er að finna. Ég vil þá vita eftirfarandi:

    Hvaða siðareglur var verið að brjóta þegar þjóðin hafnaði að taka á sig Icesave, getur þú vísað í þær?

    Hvaða siðareglur eru forsenda þess að skattleggja skuli útgerðarfyrirtæki til bana og þjóðnýta kvótann? Hvar eru þær reglur?

    Erinda hverra gengur Samfylkingin í offorsi sínu gegn sjávarútveginum, því í ljós hefur komið að margir af dyggustu stuðningsmönnum ykkar í þessari aðför eru gamlir kvótagreifar sem seldu sig með miklum hagnaði út úr greininni og sjá sér leik á borði að komast inn í hana á ný, fyrir brot af kostnaðinum.

    Væri gaman að sjá svör við þessu, en á síður von á að fá þau, enda þið í Samfylkingunni ekki vön að svara spurningum sem koma sér illa við ykkur.

  • Guðrún: skrif þín virðast benda til þess að þú sért ómeðvituð um ýmsar borðleggjandi staðreyndir:

    1) Handhafar kvótans eru þjófar eða í besta falli þjófsnautar.
    2) Við skuldum Icesave og getum ekki óskað okkur burt frá því.
    3) ESB væri það besta sem gæti komið fyrir Ísland. Engir gallar, bara kostir.
    4) Þú hefur engin dæmi um að „vinstrimenn“ séu að banna andstæð sjónarmið. Varstu kannski að plata? Hins vegar hefur greinin hér að ofan dæmi um einmitt hið gagnstæða.
    5) Hvalveiðar eru einkaflipp Kristjáns Loftssonar og munu aldrei borga sig.

  • Marteinn

    Elías Halldór þú ert afskaplega sorglegur samfylkingar pési.Komdu með dæmi um útgerðarmann sem stal kvótanum. Ekki skulda ég krónu í icesave. Segðu Grikkjum Portúgölum og fleirum hvað sé æðislegt í esb.Um vinstri menn þarf ekki að hafa mörg orð þeir hafa marg dæmt sig sjálfir. Hvalveiðar skapa mörgum vinnu.

  • Sigurður

    Elías Halldór.
    Ég held að það sé orðið hægt að telja þá á fingrum annarrar handar sem ennreyna að halda þessu bulli fram um Icesave að þar sé um einhverja skuld skattgreiðenda að ræða.

    Meira að segja Steingrímur og Jóhanna eru hætt að reyna að halda þessu fram.

  • Marteinn voðalega ertu sorglegur einstaklingur. Það er tjáningafrelsi í landinu!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur