Miðvikudagur 06.07.2011 - 10:13 - 15 ummæli

Fundur um keisarans skegg

„Össur standi fyrir máli sínu“ er fyrirsögn Vísis.is á frétt um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi krafist fundar í utanríkismálanefnd þingsins þar sem Össur á … að standa fyrir máli sínu.

Það er orðinn siður stjórnarandstöðuþingmanna að krefjast fundar í aðskiljanlegum þingnefndum þegar þeir þurfa að komast í blöðin. Svo heyrist yfirleitt minna í þeim þegar fundurinn hefur verið haldinn, enda tilganginum náð með fyrstu fréttinni.

En fyrir hvaða máli á Össur Skarphéðinsson að standa gagnvart Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni? – spyr maður við þennan fréttaflutning. Á að hafa heilan fund um mitt sumar til að Össur og Sigmundur Davíð spjalli um það hvort lausn sem við getum unað við í sjávarútvegsmálum heitir undantekning eða sérlausn?

Og við sem héldum að það sem öllu skipti væri að ná fram markmiðum okkar í sjávarútvegsmálum í þessum viðræðum! – og ekki hvað þau eru kölluð í Brussel eða í höfuðstöðvum Framsóknarflokksins við Hverfisgötu.

Það markmið okkar að stjórna áfram veiðum við Íslandsstrendur eftir aðild að Evrópusambandinu er fullkomlega raunhæft þótt búast megi við snarpri andstöðu helstu fiskveiðiríkja innan ESB. Fordæmin eru þegar til – svo sem sjálfstjórnarsvæðið kringum Möltu og ýmsar ámóta lausnir hjá ESB-ríkjum með sérstöðu á ákveðnum sviðum, þar á meðal „heimskauts-“landbúnaður Svía og Finna.

Svo vill til að orðið undantekning er ekki vel séð innan Evrópusambandsins. Engar eiginlegar undantekningar eru til frá grunnprinsippum í sáttmálum þess – svipað og við líðum engar eiginlegar undantekningar frá prinsippum í stjórnarskrá okkar. Hinsvegar er mannlífið flókið, og stjórnmálalífið líka, og víða þarf sérstakar lausnir vegna sérstakra aðstæðna, tímabundnar eða viðvarandi. Það er líka þannig í ESB að hver nýr aðildarsamningur er viðbót við grunnreglur sambandsins, og ,undantekningarʻ sem þar kann að semjast um verða hluti af lagaverkinu öllu.  

Þetta veit Sigmundur Davíð ágætlega, en nú þykir honum rétt að nýta gúrkutíðina og fylgja eftir stórkostlegri fylgisaukningu Framsóknarflokksins í einni Gallup-könnun með því að herða ennþá frekar á pópúlismanum í flokkslínunni. Og ekki verra að berja enn betur á ESB-fylgismönnum innanflokks.

Endilega halda fundinn þar sem Össur verður látinn „standa fyrir máli sínu“. En þá verður fundurinn að vera opinn – þannig að landslýður allur geti fylgst með samtali þeirra Össurar og Sigmundar Davíðs um Evrópusambandsins orðfræðilegu kategóríur og um Framsóknarkeisarans skegg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Samspillingin

    Hvernig dirfist einhver að kalla eftir skýrum svörum frá Össuri um aðlögunarferlið og samning um það. Hvað í anskotanum þarf Össur að tjá sig um það. Hann er Ráðherra!!

    Og kalla eftir þessu um mitt sumar!!! Þvílík hneysa!!

    Það er enginn tími til þess! Við erum að tjatta í Brussel! Þurfum að flétta doublespeak-spinnið og alls konar! Enginn tími til að upplýsa íslenskan almenning um hvað nákvæmlega er í gangi í aðlöguninni. Þvílík móðgun.

    Það erum við sem skipum fyrir. Við erum svvooo merkilega, sitjum í ríkisstjórn og alles. Við ráðum. Ekki þjóðin. Þú ert ekki þjóðin, svo fokkaðu þér bara. Og við erum frek og hrokafull, enda höfum við efni á því.

    Ef þið vissuð ekkert um aðlögunarferlið þegar við lugum að ykkur að við ætluðum bara að kíkja í pakkann í aðildarviðræðum, þá er það bara ykkur að kenna að vera ekki jafn frábær og við!! Reynið bara að skilja það! Losers!!

    Við ráðum. Við erum best. Þið eruð hálfvitar sem engu ráða og engu skipta. Við þurfum ekki að svara fyrir okkur og það er bara guðlast að óska eftir slíku.

  • Samspillingin í Essinu sínu.

  • Pétur Fannberg

    Gríðarlega málefnaleg svör hér að ofan.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Er jú ekki einmitt full ástæða til að fá eitt skipti fyrir öll niðurstöður í orðagjálfur utanríkisráðherra sem virðist frekar vera staddur í ævintýrheimi næturbloggsins en raunveruleika íslensku þjóðarinnar. Eins og fíkla er siður, þá á það líka við evrópusambandsfíkla að ekki orð er að marka sem frá þeim kemur vegna raunveruleikaflótta og afar frjálslega umgengni við sannleikann.

    „Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB,“ sagði Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel þegar spurt var út í sjávarútvegsstefnu sambandsins, og Össur gerði sig að þorpsfífli þjóðarinnar með að svara efnislega – „Að það væri ekkert mál að semja um varanlegar undanþágur“.

    Eftir að Össur hafði svarað spurningunni bætti Füle við.: „Að í sambandi við þessi mál yrði að hafa í huga að ESB veitti ekki varanlegar undanþágur frá lögum sambandsins.“

    Um hvað þykist þið Baugfylkingarmenn með laxfiskafræðinginn sannsögla i farabroddi að semja?

    Eða er Stefan Füle bara að bulla um eitthvað sem hann veit ekkert um..????

  • Ómar Kristjánsson

    Málið er að líklega er óvinnandi verk er að fá suma innbyggjara hérna til að skilja nokkurn hlut þessu viðvíkjandi. Óvinnandi verk. Reynum samt.

    Staðreyndir er, eins og ég hef marg bennt á, að engin ástæða er til að fá undanþágu frá meginramma EU laga og regluverks varðandi þennann blessaða sjávarðútveg. Ekkki nokkur ástæða. Sá rammi er í meginlínum sá sami og hér. Og hvað? Vilja Andsinnarþá fá undanþágu frá sjálfum sér eða?

    Það sem Utanríkisráðherra lagði fram í gær eða fyrradag hefur verið opinber afstaða íslands frá byrjun í umræddri aðildarumsókn og marg kemur fram í orðum og öllum skjölum. (þannig að menn hafa augljóslega ekki verið að fylgjast vel með sumir) . Að ekki sé gerð athugasemd við meginramma – heldur er sóst eftir sérsniðinni lausn inní rammanum. þetta margkemur fram í orðum og skjölum. Svipað og finnar fengu varðandi sinn landbúnað. það var ekki undanþága. þar voru/eru öll megin lög og regluverk EUhöfð í heiðri en sniðið inní hana ákveðin innrétting.

    það hefur líka margkomið fram á mörgum póstum hjá EU, og það hefur mér fundist dáldi merkilegt og þá sérstkalega hve því hefur lítill gaumur verið gefinn af ákveðnum ofstækis og leiðinda öfgaöflum hérna uppi – hvað kemur fram hjá ýmsum EU póstum? Jú, það er tekið undir þetta sjónarmið! Að ísland hafi ákv. sérstöðu þarna varðandi fiskinn á flestann hátt.

    Fólk verður bara að kynna sér þetta miklu betur áður en það fer að babúa. það er átakanlegt að horfa uppá fáfræði fólks. Og lofar eigi góðu varðandi framtíð íslands. Maður fyllist svartsýni varðandi ísland þegar maður sér slíka innilega fáfræði ásamt fáránlegru própandaþvaðri sem kemur frá ákveðnum öflum í landinu.

    Varðandi Fule, þá sagði hann ,,acquis“. þetta er alveg vitað. það er ekki ætlast til að acquisarnir séu endurskrifaðir í aðildarviðræðum. Acquisar eru heildarrammi. Ísland hefur nánast alveg sömu ramma varðandi sjávarútveg. það er engin ástæða til að vera hræddur við acquisana og hefur aldrei verið. Snýst aðallega um umhverfissjónarmið og verndun fiskistofna oþh.

  • Ég er farinn að vorkenna ykkur esb sinnum. Sennilega enn vonlausari barátta en icesave og er þá mikið sagt.

  • Ómar Kristjánsson

    það er nú alveg ótengd mál… en gefur jú innsýn inní hve fólk er ginkeypt fyrir allskyns própagandþvaðri öfgaafla. Og það er alarming fyrir landið sem slíkt.

    Núna er það skuldarmál á leiðinni fyrir alþjóðlega dómstóla þar sem sjallar og aðrir öfgamenn verða settir á sakamannbekk og verða náttúrulega dæmdir til að borga skuld sína. Sem vonlegt er.

    EU málið er allt annars eðlis. En líklega hafa innbyggjarar ekki þann þroska sem þarf til að bera ennþá til að getað tekið þátt í samstarfi lýðræðisþjóða á jafnréttisgrundvelli. þarf líklega um 20-30 ár í viðbót. Eina kynslóð. því miður.

    þjóðrembingshnúturinn er ennþá alltof ginkeytur fyrir própagandaþvælu öfgaafla.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Forsvarsmenn ESB hafa alla tíð verið ærlegir gagnvart Íslendingum um það að Ísland yrði með inngöngu í ESB að beygja sig undir sameiginlegar samþykktir ESB….. PUNKTUR… !!!!

    Í fréttablaðinu 8. nóvember sagði Olle Rehn, stækkunarstjóri ESB.:

    „Það væru engin fordæmi fyrir varanlegri undanþágu.“

    Emma Bonino, framkvæmdarstjóri sjávarútvegsmála ESB sagði í viðtali við Morgunblaðið 1995 þegar hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún.:

    „Meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrr alla.“

    Svo mörg voru þau orð. Séð í þessu ljósi þarf vart að undrast þegar rifjuð eru upp orð Norska stjórnmálaforingjans Erik Solheim sem sagði varðandi tvær árangurslausar inngöngutilraunir norskra inngöngufíkla.:

    „Það er mjög lítill skilningur innan EB á sérstöðu Norðmanna. Fiskurinn er undirstaða búsetu eftir allri strandlengju Noregs. Þessu hefur EB ekki sýnt áhuga.“

    Nú vill Þorsteinn Pálsson koma Íslandi inn í Evrópusambandið eftir að hann gerðist hirðmaður eigenda Samfylkingarinnar, en hafði ma. þetta að segja við Morgunblaðið og kom fram í fréttpistli fyrir nokkru.:

    „Þorsteinn Pálsson telur hagsmuni Íslendinga bærilega tryggða með samningnum um evrópska efnahagssvæðið og við hefðum ekki hag af aðild að Evrópusambandinu. Miðað við þá samninga sem séu í deiglunni milli sambandsins og Norðmanna myndi aðild Íslands að ESB ekki þýða bættan aðgang að Evrópumarkaðnum svo nokkru næmi en hins vegar þyrfum við að fórna yfirráðum yfir auðlindum sjávar.

    Þorsteinn segir að Norðmenn séu ekki að bæta markaðsstöðu sína með aðild að ESB svo nokkru nemi. Hins vegar séu þeir að gefa Evrópusambandinu eftir yfirráð yfir norskum sjávarútvegi. 80% af útflutningstekjum Íslendinga komi frá sjávarútvegi og meðan við getum ekki bætt aðgang að Evrópumarkaði með aðild en þyrftum að fórna yfirráðum yfir auðlindinni komi ekki til álita að ganga í sambandið.

    Þorsteinn segir Evrópubandalagið skuldbundið til þess að standa við EES-samninginn þótt hin EFTA-ríkin gangi í bandalagið. Þorsteinn segir tæknilegt úrlausnarefni að breyta EES-samningnum í tvíhliða samning milli Evrópusambandsins og Íslands.

    „Mér sýnist að við höfum tryggt okkur. Með hinu værum við að fórna yfirráðum yfir landhelginni. Ég held að íslenskir sjómenn myndu aldrei sætta sig við að ákvarðanir um möskvastærð og friðunaraðgerðir með lokun á ákveðnum veiðisvæðum yrðu settar undir valdið í Brussel. Við ætlum okkur að ráða þessari auðlind, hún er undirstaðan undir okkar sjálfstæði,“ sagði Þorsteinn Pálsson.“

    Hefur Þorsteinn skýrt hvað hafi breyst varðandi ESB..??? Eitthvað annað en að hann fór að ganga erinda Baugsfeðga og flokksins þeirra Samfylkingarinnar…???

  • Ómar Kristjánsson

    Blah.

    Já já, sjómenn ráða möskvastærð og lokun svæða. ´

    Fól ætti nú bara að kynna sér hvernig þetta er á Íslandi.

    Hins vegar gæti verið, eða eg er farinn að hallast að því. að eitthvað sé bogið við eftirlit með sjávaræutvegi hérna og það sé það sem LÍÚ sé svona hrætt við.

    þá væri þetta svipað og í bakaeftirliti þeirra sjalla, allt í ruglinu og óreiðunni og svindl og og prettum. Gæti alveg verip eitthvap svipað í sávardæminu.

    En jú jú, það er alveg í takt við vitleysis própaganda heimsýnar og annara öfgamann og fáfræðinga að – vilja eigi gerast aðilar að Sambandi lýðræðisþjóða vegna einhverrar ,,möskavstærðar“.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Já verst hversu fáfróður Þorsteinn er … og það kallaður til starfa af utanríkisráðherranum sjálfum.

    Haltur leiðir blindan .. myndi einhver segja.

  • Ómar Kristjánsson

    það er sem eg segi. Óvinnandi verk.

  • Halldór Halldórsson

    Hvílík andskotans hneisa, að dirfast að fara fram á að stjórnarþingmenn haldi fund á sumarleyfistíma sínum!!?? Það hlýtur að vera hægt að kæra mann eins og Sigmund Davíð til einhvers dómstóls fyrir að krefjast vinnu af fólki sem allir vita að eru þrautpínd í tuttugu tíma á sólarhring, meira og minna allt árið, nema í þennan tittlingaskítstíma sem það er í sumarleyfi! Auðvitað eru þingmenn vel komnir að þessum 4 – 5 mánuðum á ári í fríi til að hlaða batteríin til að þræla fyrir okkur pöpulinn!!!!!!!!

  • Mörður Árnason

    Þú hefur ekki tekið eftir því, Halldór Halldórsson, að í pistilslok er einmitt hvatt til þess að fundurinn veri haldinn, og hafður opinn til að allir geti fylgst með erindi Sigmundar Davíðs. Að vísu þyrfti til þess að kalla starfsfólk alþingis úr sínu sumarfríi nú í júlí — sem það á svo sannarlega skilið hvað sem þingmönnum líður.

  • Halldór Halldórsson

    Já, auðvitað eruð þið aðeins að hugsa um starfsfólk Alþingis. En gætum við ekki bara sleppt því að kalla það úr fríinu sínu, ef ég fengi t.d. Þrastasalinn í Hafnarfirði gratís undir fund nefndarinnar og ég stilli sjálfur upp stólum og borðum og svoleiðis? Ég myndi jafnvel hella upp á könnnuna, en þið verðið sjálf að koma með meðlætið; ég hef bara ekki efni á meiru verandi á lágum skrifstofumannslaunum plús úttekt séreingasparnaðar! Ég myndi svo fá einhvern kunnáttumann, líka gratís, til að taka þetta upp á band og senda til Alþingis, hvar starfsmenn geta svo komið herlegheitunum á pappírsform þegar það kemur úr fríi. Hvað segirðu?

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Í gær kom svo heppilega út bók um landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins eftir Stefán Má Stefánsson, prófessor í lögfræði og sannanlegan sérfræðing í Evrópurétti, ólíkt Árna Páli Árnasyni ráðherra sem skreytir sig með sama titli eftir sumarnámskeið við evrópskan háskóla. Undarlegt að Baugsmiðlarnir kynni sér ekki betur titlana sem hann skreytir sig með svona í stíl við áhuga þeirra á titlum formanns Framsóknarflokksins sem beðið hefur um fundinn.

    Bókin er mjög gott og þarft innlegg í meinta „upplýsta umræðuna“ sem Baugsfylkingin og inngöngufíklar hafað kallað eftir. Undir landbúnaðarlöggjöfina falla bæði landbúnaður og sjávarútvegur, sem Össur þykist getað fengið allan þann reglugerðaafslátt ESB og honum hugnast, þó svo engin framámaður í Evrópusambandinu kannist við slíkt. Sannleikurinn hefur ekki þvælst fyrir Baugsflokksmönnum í ESB málefnum frekar en öðrum, og fara forsætisráðherra á mútum (eins og Mörður kallar það) og laxfiskafræðingurinn, utanríkisráðherra fremst í flokki. Ekki nema von að virðing þjóðarinnar fyrir störfum þings nær ekki nema rétt í tveggja stafa prósentutölu áfengis í léttvíni.

    Laxfiskafræðimaðurinn og aðrir þeir sem berjast fyrir því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu fullyrða um alla möguleikana á mögnuðustu „UNDANÞÁGUM“ á regluverki sambandsins stórkostlega, og þeim jafnvel gefin önnur fín nöfn til að auka ruglingsstig „upplýsandi“ umræðunnar.

    Stefánr Már fjallar sérstaklega um möguleika nýrra aðildarríkja á undanþágum frá reglum Evrópusambandsins um landbúnaðar – og sjávarútvegsmál og þar er niðurstaðan afar einföld og skýr AÐ MÖGULEIKARNIR ERU EINFALDLEGA EKKI TIL STAÐAR.

    Stefán Már segir í bókinni.:

    „ESB setur ÁVALLT fram þá meginkröfu í aðildarviðræðum að viðkomandi ríki GANGI AÐ ÖLLU ÞEIRRA REGLUVERKI ÓBREYTTU“…!!!!!

    Og koma svo inngöngusinnar.

    Stefán Már segir.:

    Ástæðan sé sú að ríkin eigi öll að sitja við sama borð og það eigi „auðvitað alveg sérstaklega við þar sem tekin hefur verið upp sameiginleg stefna eins og í landbúnaðar- og fiskveiðimálum. Sameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum. Frá þessu eru í grundvallaratriðum aðeins veittar tímabundnar undanþágur.“

    Athyglisvert að Baugsfylkingarmenn í ESB herfeð skuli aldrei treysta sér til að taka slaginn um nákvæmlega þessi mál, heldur forðast að ræða þau og í mesta lagi halda fram einhverjum fáránlegum ímynduðum og hreinlega upplognum undanþágum sem eiga sér engan stað í raunveruleikanum og hefur verið ítrekað hafnað af ráðamönnum ESB og stækkunarstjóranum. Það eru nákvæmlega þessi atriði sem fundurinn átti að fjalla um og Baugsfylkingarmenn hræðast svo og skipta öllu máli fyrir „upplýsta umræðuna“ sem þeir kalla eftir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur