Föstudagur 08.07.2011 - 16:44 - 14 ummæli

Gott hjá Össuri

Össur Skarphéðinsson hefur heitið stuðningi Íslendinga við fyrirhugaða umsókn Palestínuríkis um aðild að Sameinuðu þjóðunum á allsherjarþinginu í september. Þetta er mikilvægt framlag af okkar hálfu við baráttu Palestínumanna fyrir mannsæmandi lífi og sjálfstæðu ríki á heimaslóðum sínum. Ýmsar ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa þegar heitið stuðningi við málið – í trássi við Bandaríkjastjórn sem sífellt heldur hlífiskildi yfir apartheid-kerfinu í Ísrael, og stuðningur Íslendinga skiptir sannarlega máli í þeim kapal.

Stefna Abbasar Palestínuforseta um formlegt sjálfstæði nú er nánast örþrifaráð til að koma hlutunum á hreyfingu suður þar – og það er auðvelt  að hafa þær mótbárur uppi að ríkið er enganveginn sjálfstætt hvað sem aðild að SÞ líður. Sú aðild yrði fyrst og fremst táknræn – en táknin skipta líka óvenjulega miklu máli í stjórnmálum Miðausturlanda.

Ég fór til Palestínu fyrsta sinni í ferðahópi með Jóhönnu Kristjónsdóttur í fyrrahaust. Það var sannarlega merkileg upplifun – tvöföld eiginlega, því óvíða rennur saman jafn-einkennilega saga og nútími. Ferðalangur er eiginlega í þremur löndum í senn, í Palestínu og í Ísrael og svo í Landinu helga sem við kynntumst í barnaskóla og á biblíumyndunum. Og í slíkri ferð á maður alveg endilega að hafa með sér bók bóka og fletta á víxl upp í Gamla testamentinu og því nýja: Höfuðskeljastaður, og Getsemanegarður þar sem postularnir sofnuðu, og samverska konan með lifandi vatnið og Jeríkó þar sem lúðurinn glumdi, rétt hjá fjallinu þar sem okkar manni voru boðin öll ríki veraldar …

Við komumst ekki á Gasaströndina, en þrátt fyrir augljósa vankanta á samfélagi Palestínumanna á vesturbakkanum varð maður eiginlega mest hissa á því að á þeim var allsekkert fararsnið. Þeir búa í borgum sínum og þorpum – við gistum í sjálfri Betlehem – en minna í sveitunum sem Ísraelsmenn hrifsa til sín smám saman – en þarna er fullkomlega arabískt land, með palestínskum sérkennum auðvitað en meira og minna einsog í grannríkjunum, hluti annars menningarheims en Ísrael vill standa fyrir. Pattstaðan og ofríki nágrannans dregur úr Palestínum efnahagslegan mátt en þetta  er duglegt fólk og vel menntað – og ekki í neinum uppgjafarhugleiðingum.

Myndir (hér og hér!) sem okkur berast af utanríkisráðherranum í ferðinni sýna að Mister Skarphéðinsson er greinilega í essinu sínu meðal Palestínumanna, að láta vel að börnum og ræða við kallana við höfnina. Félagi Össur hefur gert til Palestínu góða reisu sem er bæði honum og okkur til sóma.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Uni Gíslason

    Ekki gott hjá Össuri, enda er svona stuðningur til þess eins líklegur að framlengja þjáningar og átök fyrir botni Miðjarðarhafs.

    Þetta er sennilega mikið tilfinningamál fyrir hann.

  • snæbjörn Brynjarsson

    Þú ættir nú að skýra mál þitt Uni. Heldurðu að Palestínumenn séu á förum?

  • Mörður ástandið á Gasa er hörmulegt, fyrir það fólk sem þar býr, og meðan alþjóðasamfélaginu tekst ekki að koma á sáttum þar, dreg ég í efa að Össuri takist það.

    En ég kýs að halda mig á heimaslóðum, þar sem þú ert stuðningsmaður þeirrar ríkistjórnar sem fer með stjórn á landinu. Það er aldeilis furðulegt að lesa fréttir um það að hótel í Borgarnesi, sem óskaði eftir 1.5 miljón í yfirdrátt á reikningi sýnum hjá Arion banka í nokkra daga, hafi fengið synjun hjá bankanum, nú spyr ég þig hvernig á að vera hægt að byggja upp atvinnulíf í landinu við svona fyrirgreyðslu í bankakerfinu.
    Síðan les maður fréttir um það að þessi sami banki hafi borgað bónuskóngnum 90 miljónir þegar hann hætti viðskiptum við Arion banka eftir að hafa skaðað bankan um miljarða með einkahlutafélögum sínum. Og eftir þessi viðskipti, segist bónuskóngurinn eiga höllina sína í Flórida skuldlausa, er það þetta sem norræna velferðarstjórnin ætlar að bjóða landsmönnum upp á í framtíðinni.

  • Marteinn

    Reynið nú að styðja Íslendinga þarna álfarnir ykkar.

  • Umræðan hér að ofan í athugasemdunum er á afar lágu plani.

    Ég er bæði glöð og stolt vegna heimsóknar Össurar Skarphéðinssonar til Palestínu. Allur stuðningur við þetta fólk skiptir máli.

  • Einar Guðjónsson

    Þetta er um það bil það eina sem Össur hefur gert í ráðuneytinu á tíð sinni sem ráðherra og er það vel að hann gerði á endanum eitthvað enda kominn fast að sextugu. Þetta er einnig í samræmi við vilja þjóðar og þings og sjaldan sem hann fer saman. Þá “ verðleikaréði“ hann Önnu Pálu Sverrisdóttur á ríkiskaup í ráðuneyti sínu þannig að nú er hún orðin seif á Beibípensjóni kristilegra demókrata. Hafði mestu reynslu en hún hafði verið formaður ungra jafnaðarmanna, unnið hjá LÍN og setið 3 vikur á Alþingi. Starfið hlýtur að felast í því hvernig spillingunni er háttað hjá öðrum þjóðum í Mið-Afríku.

  • Einar Guðjónsson

    Svo sem sammála Hólmfríði en vel hefði dugað að senda góðan leikara því það veit engin hver Össur er nema þessir 400 eigendur Samfylkingarinnar.

  • Uni Gíslason

    Þó ég horfi með gagnrýnum augum á „umræðuna hér fyrir ofan“, þá fæ ég ekki séð að hún sé á lágu plani eins og Hólmfríður Bjarnadóttir vill halda fram – ekki eru allir sammála henni, Össuri eða Merði, en það lyftir jafnvel umræðunni upp á hærra plan ef eitthvað er að ekki séu allir sammála í gagnrýnislausum já-kór.

    Staðreyndin er sú að svona einhliða yfirlýsingar eru aldrei til að skapa frið, en ef Össur lofaði að styðja sjálfstætt ríki Palestínumanna með samþykki og stuðningi Ísraelsmanna, þá mætti tala um uppbyggilegan stuðning sem gæti leitt af sér friðsamlega framtíð.

    Að velja sér „góða gæjann“ til að styðja og gera slíkt einhliða er nákvæmlega það sem BNA hefur gert lengst af með einhliða (og oft ógagnrýnum) stuðningi sínum við Ísrael hefur réttilega verið gagnrýnt.

    Þegar hið sama er gert, nema með öfugum formerkjum, þá er það jafn gagnrýni vert og til einskis líklegt nema að framlengja átökin á umræddu svæði.

    Einhver spurði hvort ég teji að Palestínuarabar séu á förum, en maður hlýtur að spyrja á móti, hvort sá hinn sami telji Ísraelsmenn vera á förum?

    Nú sé hvorugur aðilinn á förum, þá er réttast friður sé saminn þeirra á milli og slíkt jafnhliða samkomulag stutt af íslenskum yfirvöldum – en einhliða stuðningur að Ísraelsmönnum óspurðum er jafn vanhugsað og jafn ólíklegt til friðar á svæðinu eins og einhliða stuðningur við Ísraelsmenn.

    Er þetta á lágu plani Hólmfríður? Þá það.

  • Össur á að vera heima og spara peninga en ekki spila sig stórann í útlöndum. Er ekki nauðsynlegt að setja gjaldeyrishömlur á Utanríkisráðuneytið?

  • Sverrir Agnarsson

    Þetta er ekki á lágu plani Uni, heldur neðanjarðar, ég efast um að þú hafir nokkurn tíman verið ofanjarðar.

  • Uni Gíslason

    Að vera þér ósammála Sverrir Agnarsson, er ekki „að vera á lágu plani“ – þvert á móti, þá er það sennilega merki um hið gagnstæða.

    Svo [url=http://www.dv.is/frettir/2011/7/9/israelar-ruddu-grjoti-i-veg-bilalestar-ossurar/]notar utanríkisráðherra[/url] orð eins og [i]“frekjan“, „yfirgangurinn“, „ómanneskjulegur“, „herskáum“, „ofstatrúamönnum“, „hatursfullir“, „kúga“,[/i] etc.

    Svona talar utanríkisráðherra um hinn aðilann sem þarf að semja líka við til að fá nokkru sinni frið þarna. Ég get ekki mælt með slíku orðræði, sé friður markmið.

    En utanríkisráðherra stoppar ekki í níðvísum sínum gagnvart Ísraelsmönnum yfirleitt:

    [b]Ég hef gengið svo langt að segja að þetta minni á suður-afrísku aðskilnaðarstefnuna á sínum tíma.[/b] segir ráðherra að lokum.

    Sem sagt, ég mæli ekki með þessu og tek því ekki undir orð sumra hérna sem segja „Gott hjá Össuri!“. Nei, þvert á móti „Slæmur leikur hjá Össuri“.

    Þetta er honum greinilega tilfinningamál.

  • Uni Gíslason

    PS, þar sem síðan styður ekki (lengur) BB-code, þá bið ég lesanda að horfa framhjá öllu sem er í hornklofa, eða ímynda sér bara formateringu þá sem hornklofinn hefði valdið.

    Ég setti þetta inn til að auðvelda lesturinn, en eins kaldhæðnislegt og það er, þá gerði ég þetta að ólæslegu rugli, því ekki er hægt að breyta innleggjum eftir að þau eru skrifuð og ekki styður síðan BB-code (og hvergi kemur það fram að svo sé ekki)

    Kannski styður hún html code? Gífuryrði Össurar

  • Frikki Gunn.

    Hvað er Össur að álpast þarna niður frá með einhverja stórumáttarkend á sínu einka egóflppi?

    Hver gaf honum leyfi til þess?
    Vill hann að Ísland verði í hópi þeirra ríkja sem styðja Gyðingahatur vegna andstöðu við Ísrealsríki?

    Honum væri nær að rækta garðinn hér heima heldur en ferðast um á okkar kostnað sem einhverskonar mankynsfrelsari.

    Þjóðin gaf honum ekki umboð til að lýsa yfir stuðningi við sjálfstætt ríki Palestínu sem stjórnað er af hryðjuverkasamtökunum Hamas.

    Og svo drullast Ísland ekki til að viðurkenna sjálfstætt Suður-Súdan í algjörum aumingjaskap til að styggja ekki nýja arabíska vini sína.

  • Frikki Gunn.

    Svo á Össur að hætta þessu óráðshjali niður í Brussel.
    Meirihluti þjóðarinnar vill ekki að hann sé að fíflast þarna niður í Brussel.

    Hann gerði sig að algjöru fífli þarna niður frá.

    Hann hegðaði sér eins og krakki í nammibúð þarna niður í Brussel.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur