Þriðjudagur 12.07.2011 - 10:03 - 18 ummæli

Fyrsta vindmyllan!

Rokið – helsta auðlind Íslands? Það er að vísu nokkuð langt í að sá draumur rætist en allt í lagi að láta sig dreyma eftir sögulega stund á laugardaginn þegar Haraldur orkubóndi Magnússon á Belgsholti í Melasveit vígði fyrstu vindmylluna sem tengist rafkerfinu, og byrjaði þarmeð að selja rafmagn úr rokinu vestan Hafnarfjalls.

Þetta er talsvert mannvirki og sést vel af hringveginum, þrír spaðar og snerust glatt í gjólunni á laugardag. Þarna er sífelldur vindur, einsog víðar við strendurnar, og lítil hætta á að tækið stöðvist. Afköstin 30 kílóvött, en til heimanota fara um 11 kílóvött þannig að sirka 20 kaupir Rarik. Og nú geta landsmenn að fylgst með öllum gangi vindorkumála í Belgsholti á netinu (hér), á samvinnuvef Belghyltinga og Orkusetursins á Akureyri þar sem nýorkumál eru í öndvegi.

Það var skemmtileg íslensk sveitagleði þarna á laugardaginn, fólk úr sveitinni og ættinni og vinahópnum, frá stofnunum og fyrirtækjum sem þau Haraldur og Sigrún hafa haft samstarf við um þetta –  yðar einlægur var þarna meðal annars í hlutverki stjórnarformanns í Orkusjóði sem styrkti verkefnið á fyrri stigum – og veitingar voru úr búskapnum sjálfum: Bakkelsi og bjór úr heimaræktuðu byggi. Nokkur óhátíðleg ávörp við mastrið og svo settu þrír afastrákar vindmylluna af stað.

Nokkrir gesta og heimamanna tóku myndir (hér, myllan sjálf í gangi hér) en þarna voru af einhverjum ástæðum engar sjónvarpsvélar og fátt um fjölmiðlamenn, sem vekur furðu á miðri gúrkutíð. Ekki síst vegna þess að eftir nokkra áratugi kynni þetta húllumhæ í Melasveitinni að teljast einn merkasti fréttaviðburður sumarsins, að minnsta kosti í orku- og umhverfismálum.

Fyrst þarf auðvitað að bíða og sjá hvernig Belgsholtsmyllan stendur sig, en mér skilst að nokkur fjöldi bænda og landeigenda sé í startholunum að hefja viðlíka búskap, sem vel gæti orðið þokkalegur hluti af raforkuframleiðslu í sveitum þegar fram í sækir. Tölur að utan um kostnað við stórfellda orkuframleiðslu  benda ekki til þess í bili að vindorkan verði samkeppnisfær við aðra kosti hér í almennri sölu, hvað þá stóriðjusölu. Ég hef samt á tilfinningunni að forustumenn í orkuiðnaði hérlendis hafi verið nokkuð fljótir á sér að afgreiða vindinn sem vitleysu. Það er allt á fleygiferð í þessum málum í heiminum, og dæmið er þegar orðið verulega miklu hagstæðara í nýjum risa-vindmyllum í Evrópu en fyrir bara nokkrum árum.

Gleymum því ekki að það er nýkominn feikilegur kraftur í allar rannsóknir og tækniþróun eftir slysið mikla í Japan – og það er alveg óhætt að gera ráð fyrir að ákvörðun Angelu Merkel og þýsku stjórnarflokkanna (í hægristjórn!) um að yfirgefa kjarnorkuna verði sá dropi sem mælinn fyllir og kemur af stað raunverulegum orkuskiptum í okkar heimshluta. Þýskaland er helsta forusturíki Evrópusambandsins – og þeir hafa töluverða reynslu af stórframkvæmdum Þjóðverjar, síðast var það sameiningin, þar áður tvær heimstyrjaldir, að ógleymdri iðnbyltingunni, heimspekinni, tónlistinni … þannig að líklega taka þeir „die Wende“ í fullri alvöru.

Einn ræðumanna við vindmylluvígsluna í Belgsholti minnti á að allir þekktu Neil Armstrong en enginn myndi eftir því hver var númer tvö á tunglið. Það er samt aldrei að vita nema númer tvö í vindmyllunum á Íslandi gæti fest í minni landans. Ef Landsvirkjun vinnur sín verk af viti.

Það á að gera. Umræður um orkukosti og umhverfismál að undanförnu sýna ágætlega að við erum á krossgötum í þessu ferðalagi, engu síður en Þjóðverjar þótt með öðrum hætti sé. Orkulindir vatns og jarðhita eru ekki óþrjótandi á Íslandi og umhverfiskröfur aukast í sífellu. Einnig hreinir viðskiptahagsmunir sífellt mikilvægari atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar. Líka þessvegna kann vindmylluvígslan í Belgsholti að vera merkari viðburður en nú er talið á fréttastofum Stöðvar tvö og Rúvs.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Er ekki Haraldur Magnússon að nýta sér sameign þjóðarinnar án þess að greiða ríkinu rentu?

  • Það á auðvitað að skattleggja þetta. Rokið er klárlega takmörkuð auðlind og sjónmengun af vindmyllum alveg hrikaleg…

  • Þegar orkustrengur er kominn til Evrópu og greitt verður fyrir orkuna í evrum þá er ég viss um að athyglin verði meiri framtaki sem þessu.

    Ekki er víst að orkuverð á Íslandi geri vinmyllur sjálfbærar. En það er gott að sjá svona tilraunir og hvað kemur úr þeim.

  • Þór Eysteinsson

    Þetta er gott framtak og virðingarvert. En vindmyllan virðist ekki vera af stærstu gerð. Að segja að „sjónmengun“ af þessu sé „hrikaleg“ eru miklar ýkjur. Háspennumöstur eru mun ljótari mannvirki fyrir minn smekk. En nú er oft sagt að rafmagn framleitt með vindorku sé margfallt dýrara en hagkvæmustu aðferðir skila af sér. Er það raunin í þessu tilviki?

  • Eyjólfur

    Ó guð, eins og við höfum ekki nóg að berjast við fyrir, svo vindmyllur bætist ekki við…

    Kynntu þér gögn um outputtið frá þessum fokdýra og gagnlitla óskapnaði. Jarðvarmi og fallvötn eru margfalt ódýrari og baseline-tæk (skila orku allan daginn, allan ársins hring). Reyndar höfum við þá sérstöðu að geta geymt eitthvað af peak vindorku í uppistöðulónum (sem er svo sleppt í gegnum túrbínur til að jafna út), en þetta verður samt ALDREI hagkvæmt í samanburði við þá frábæru kosti sem við erum þegar að nýta.

    Málið er svo einfalt að stundum blæs vindurinn einfaldlega ekki, en eftirspurn eftir orku lýtur að sjálfsögðu öðrum lögmálum. Þess vegna þarf önnur framleiðslugeta alltaf að vera á stand-by. Við erum með gríðarlega áreiðanlega 24/7/365 kaupendur að ca 80% af raforkunni sem við framleiðum, svo þetta er algjörlega pointless.

  • Mörður Árnason

    output — baseline — peak — stand-by — pointless

    Maður auðvitað bara á ekki orð eftir svona snilld … nema að hér er því engan veginn haldið fram að vindorka geti með núverandi tækni keppt við núverandi orkukosti á Íslandi, sérstaklega vegna þess að í reikningum um framleiðlsukostnað er aldrei reiknað með kostnaði vegna náttúruspjalla, og reyndar engin auðlindarenta heldur. Um framtíðina vitum við hinsvegar ekki margt, nema að orkulindir eru ekki óþrjótandi og umhverfiskröfur eiga bara eftir að aukast. Nú getur vindorka borgað sig í jaðartilvikum og smáum stíl, búum okkur undir að það geti breyst og leggjum fé og tíma í rannsóknir og tilraunir.

    Við fáum auðvitað aldei allt fyrir ekkert — og vindorkan getur líka valdið umhverfissjöllum. Þar á meðal sjónmengun, og ytra taka menn bæði um hávaða og fugladráp. Þetta þarf bara að meta einsog annað — meðal annars í formlegu umhverfismati. Myllurnar hafa þó þann mikla kost að vera nokkurnveginn algerlega afturkræf framkvæmd — og sjónmengunin fer auðvitað eftir því hvað er að sjá. Vindmyllur eiga til dæmis ekki heima í óspjölluðu víðerni — frekar en stíflur og borar.

  • Skemmtilegt. Við Íslendingar megum ekki horfa bara í eina átt eða tvær í orkumálum. Við höfum beislað vatnsorkuna og háhitann. Vindorkan, sæorkan og ruslorkan (metangas) eru líka orkulindir sem við eigum og skynsamlegt er að nýta. Öll nýting hefur sýna kosti og galla og best að hafa ekki neina fordóma. Vafasamt að við eigum eftir mjög marga möguleika í stórum vatnsvirkjunum og beislun háhitans hefur reynst vafasamur til stóriðju.

    Olían mun verða dýrari í verði og rafmagnsverð sömuleiðis. Mér finnst kominn tími til að gera stórátak í rannsóknum á hinum nýju orkumöguleikum okkar. Einkum til sparnaðar fyrir fyrirtæki, heimili og einstaklinga. Markmiðið ætti að vera að spara og helst draga algjörlega úr brennslu óendurnýjanlegra innfluttra orkugjafa. Þarna er að finna geysilegan gjaldeyrisauð að spara. Mörður ætti að ganga skipulega í það að „virkja“ vini sína á Alþingi í þessu skyni. Er mögulegt að Ísland verði algjörlega sjálfbært með orku? Mér finnst það spennandi framtíðarsýn.

    Einkennilegt að sjá að í útlöndum er miklu hraðari þróun í þessu en á Íslandi. Rafmagnsfarartæki, sólarsellur, vindmyllur gætu verið á hverju heimili.

  • …ég gleymi náttúrulega eldsneyti sem rækta má á landi og jafnvel inni á fjörðum…Sjálfsagt að rannsaka þetta allt og skoða fordómalaust.

  • Eyjólfur

    Vei, frábær röksemdafærsla að tína nokkur stikkorð úr athugasemdinni minni. Bravó!

    Þjóðverjar eru annars mikið fyrir að tala um græna hluti, en hérna eru nokkur dæmi um efndirnar. Þetta eru kolakynt raforkuver sem tekin hafa verið í notkun þar síðustu 2 ár (og sum eru á leiðinni í gang síðar á þessu ári):

    EVONIK, Walsum (Duisburg), 800 MW black coal (2010)
    RWE, Neurath (Cologne), 2 x 800 MW lignite (2009)
    RWE Westfalen (Dortmund-Hamm, 2 x 800 MW black coal (2011)
    EON Datteln (Dortmund), 1 x 1100 MW black coal (2011)
    ENBW Karlsruhe, 1 x 800 MW black coal (2011)
    Trianel (municipality) Lünen, 1 x 800 MW black coal (2011)
    Vattenfall Moorburg (Hamburg), 2 x 800 MW black coal (2011)
    Vattenfall Boxberg (close to Leipzig), 1 x 800 MW lignite (2011)

    Orkuframleiðsla þessara virkjana einna samsvarar um fjórtán Kárahnjúkavirkjunum – bara frá kolum, bara í Þýskalandi og bara árin 2009-2011. Það er lengi búið að reyna að selja Íslendingum gjörsamlega fráleitar hugmyndir um Saudi Arabíu norðursins og fleira í þeim dúr, hvað orkumál varðar. Sæstrengur fyrir hundruð milljarða til að skila nokkrum dropum í þetta haf? Einhverra hluta vegna fer þá líka minna fyrir gagnrýnisröddunum sem dúkka upp þegar til stendur að nýta orkuna á Íslandi. Hvar á að virkja o.s.frv?

    Það er varla nokkur spurning lengur að stórlega niðurgreidd og óskilvirk græn orka hefur alla burði til að verða að næstu stóru fjárfestingabólu og skattgreiðendur eru heldur betur þræddir á þann öngul. Þú segir „(við) leggjum fé og tíma í rannsóknir og tilraunir.“ og nefnir Landsvirkjun. Neitakk.

    Um framtíðina vitum við eitt: við munum þurfa orku og mikið af henni.

  • Hrafn Arnarson

    Táknrænt séð er atburðurinn mikilvægur. Mig skortir forsendur til að meta annað. Hvað um fallorku sjávar, sjávarstrauma og að koma vindmyllum á flot á hafi úti? orka hlýtur að vera mest í sjónum.

  • Sæll Mörður,
    er þetta arðbært, að þínum dómi, þessi mylla, ef ekki hefðu komið til styrkir?
    Er þetta eitthvað sem þú myndir mæla með við bændur, styrkjalaust, að svo stöddu, eða að því gefnu, skulum við segja, að það verði engir tæknilegir örðugleikar, sem slái þetta út af borðinu?
    Kv.
    Ragnar

  • Mörður Árnason

    Ragnar — Það á eftir að koma í ljós. Það þarf að styrkja frumkvöðulinn en reynsla hans getur svo nýst hinum, annaðhvort til að fara í sporin eða gleyma dæminu. En mér sýnist að við ákveðnar aðstæður geti þetta verið arðbært. — Dæmið var um 11 milljónir plús hjá Haraldi, þar af komu um 4–5 í styrkjum og vinnuframlagi. Nú er að sjá hvort reynsla hans verður til þess að aðrir geti gert þetta ódýrar. Orkusetur á Akureyri er að vinna að skýrslu um málið …

  • Jón Þórisson

    Þetta er ágætt – en aðeins eitt smáatriði, Ísland er, miðað við höfðatölu, eitt mesta orkustórveldi heims.

    En vandinn er að mestöll orkan er seld á kostnaðarverði til þungaiðnaðar.

    Ríki og sveitarfélög eru í milljarðaábyrðum fyrir byggingu virkjana sem afhenda erlendum auðhringum orkuna á kostnaðarverði.

    Verkefnið er ekki að virkja meira, heldur að selja orkuna á verði sem skilar arði í sameiginlega sjóði.

    Við getum lært af Norðmönnum, þeir taka rúmlega 70% af andvirði allrar olíu sem unnin er í Norðursjónum og setja í sameiginlegan sjóð.

    Á vakt Samfylkingarinnnar og VG var erlent eignarhald á HS Orku fest í sessi. HS Orka greiddi Reykjanesbæ auðlindagjald fyrir árið 2009 sem nam um 0,8% af bókfærðum hagnaði.

    Allir samningar um orkusölu til stóriðju eru glæpagjörningar sem gerðir eru með leynd og án lýðræðislegs eftirlits – og þeim ætti að rifta umsvifalaust.

    Ef við seljum orku til stóriðju á heimsmarkaðsverði þurfum við ekki að virkja frekar, hvorki fallvötn né aðra orkugjafa.

  • Eyjólfur

    Eitt enn úr ranni þýskarans, með sín raunverulegu orkuskipti í okkar heimshluta:

    http://www.thelocal.de/national/20110713-36277.html

  • Jón Sig.

    Væri ekki nær að hugsa um hag heimilanna, og sleppa vindmillunum í bili, því það fer að styttast í kosningar.

  • Þórarinn

    Mörður áður en þú snýrð þér að vindmillum, skaltu fyrst kynna þér nauðungarsölu í Þorlákshöfn, fyrir heilar 80.000 kr, og dóminn sem sýsli fékk,
    ef þið í Norrænu velferðarstjórninni, látið það viðgangast að skattborgar þessa lands sem eru nú þegar blóðmjólkaðir, séu látnir borga fyrir embættismistök sýsla, með þvaglegginn, og skaðabætur vegna nauðungarsölunnar í þorlákshöfn, þá ætti Norræna velferðarstjórnin eins og hún leggur sig að sleppa því að bjóða fram fyrir næstu kosningar. Því ef þetta eru ekki afglöp í opinberu starfi, eru þau einfaldlega ekki til.

  • Jón Ólafs.

    Það á náttúrlega að kæra kallinn fyrir húsbrot, síðan á blessuð konan að krefjast hárra skaðabóta.

  • Birkir Friðbertsson

    Framtak Magnúsar í Belgsholti er virðingarvert. Styrkir til frumkvöðuls voru eðlilegir. Innan stutts tíma mun liggja fyrir hagkvæmni slíkrar orkuvinnslu þar sem má telja vindasamt. Fyrst og fremst kemur slík orkuvinnsla til greina þar sem meginhluti framleiðslunnur er nýttur á staðnum. Orkuverð í landinu ræðst af ákvörðunum stærstu orkuframleiðenda. Það verð var líka niðurgreitt samkvæmt sérlögum hvers orkufyrirtækis við stofnun og þeirrar niðurgreiðslu gætir í orkuverði dagsins í dag.
    Mörður Árnason mætti líka sýna í verki áhuga fyrir því að fleiri landeigendur eða aðrir áhugasamir settu upp litlar vatnsaflsvirkjanir á hentugum stöðum, og sjá til þess að þar yrði farið t.d. í spor Norðmanna um aðkomu yfirvalda. Til hamingju Magnús.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur