Fimmtudagur 11.08.2011 - 19:50 - 13 ummæli

Bakkabræður veiða hval

Bakkabræður pössuðu sig að ávarpa hver annan alltaf með öllum þremur nöfnum sínum af því þeir voru aldrei alveg vissir hver var hver. Gísli, Eiríkur, Helgi. Eitthvað sérlega íslenskt við þetta. Við erum einmitt ekki alveg klár á hver er hver og hvað er hvers.

Í dag var haldinn fundur þriggja þingnefnda um síðasta fund Alþjóða-hvalveiðiráðsins – þegar íslenska sendinefndin gekk út með öðrum fylgiþjóðum Japana til að koma í veg fyrir að hægt væri að ganga til atkvæða um griðasvæði hvala í Suðurhöfum.

Það er víst ekki til siðs að birta nákvæma frásögn af svona fundi, en hann hefði sannarlega átt skilið að vera í beinni útsendingu. Sjávarútvegsráðherra grænu vinstri stjórnarinnar fékk einróma stuðning stjórnarandstæðinga fyrir framgöngu sinna manna í hvalveiðiráðinu, þeim mun eindregnari sem lengra dró til hægri í hópi stjórnarfjenda. Hérumbil allir stjórnarsinnar sem til máls tóku, ábyrgðarmenn sjávarútvegsráðherrans á valdastóli, spurðu hinsvegar hvassra spurninga um hegðun sendinefndarinnar á fundinum í Jersey og um samhengið í hvalveiðistefnu ráðherrans.

Þeir sem töluðu af hálfu gesta voru Jón Bjarnason, Tómas Heiðar og Jóhann Sigurjónsson. Aðalgestur fundarins, sjálfur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði eins lítið og hann gat. Embættismaðurinn, formaður íslensku sendinefndarinnar í Jersey, talaði mest og brá sér óhikað í gervi vísinda- og fræðimanns um hvalastofna og heimsviðskipti. Og vísindamaðurinn talaði líka, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, en aðallega einsog pólitíkus.

Gísli, Eiríkur og Helgi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Halldór Halldórsson

    Merkilegt að Mörður Árnason skuli einmitt taka sögurnar um Bakkabræður sem dæmi um aðra? Mér hefur nefnilega alltaf fundist Mörður vera Gísli, Eiríkur og Helgi, í einum manni; að reyna sífellt að bera sólskinið í pottloki sínu, inn í svartnættisholið sem hann býr þjóðinni!!

  • Páll Ásgeir

    Fyrirsögnin er afbragðs titill á barnabók.

  • Kapteinn Ahab

    Hvalveiðar eru okkar vörn gegn esb samsærinu.

  • Meðan að þið haldið þessa fundi í leyni að þá er nánast tilgangslaust að ræða um innihald þeirra því hver kemur út með sína útgáfu. Drífið nú í að koma á upptökum og sendið þá út á vef Alþingis. Þetta gat stjórnlagaráðið gert og reyndist vel og þið ættuð að drífa í þessu!

  • Þakka þér fyrir Mörður að halda vöku þinni í þessu kvalræði.

    Er möguleiki að þú getur lagt fyrirspurn á þinginu um áætuð framlög til Hafró vegna hvalastúss þeirra. Mig grunar að þetta hljóti að vera hagsmunagæsla stofnunarinnar, fremur en vísindamennska.

    Svonefnt „fjölstofnalíkan“ þeirra, sem hefur vafalítið kostað skildinginn, er gervifræðimennska af æðstu gráðu.

  • p.s. er eignarfallið á „hvalastúss“ með þremur s-um? 🙂

  • Eyjólfur

    Ég borða hvalkjöt mjög reglulega (oftar en einu sinni í mánuði) og hef gert síðan það fór aftur að sjást í hillum verslana, enda gæðakjöt þar á ferð. Mjög margir vina minna (á miðjum fertugsaldri) gera slíkt hið sama, þó kannski ekki jafntítt. Hrefnusteik verður aðalveislurétturinn í 6-7 manna bústaðarferð með haustinu og ekki einn einasti fúlsar við.

    Værirðu til í að segja hreint út hvort þú viljir hafa þetta af okkur?

    Ég vinn m.a. á stað þar sem ég lendi oft á spjalli við erlenda ferðamenn. Ég spyr þá iðulega hvort þeir hafi prófað hvalkjöt og/eða hvort þeir geti hugsað sér það (og negli kurteislegan varnagla um hvort þeir hafi nokkuð „moral objections“). Langflestir hafa ýmist prófað herlegheitin eða eru áhugasamir og svo til engir sjá neitt að því siðfræðilega, enda gera þeir sér jafnan grein fyrir að við erum hvergi nærri að moka upp síðustu dýrunum.

    Langflestum úti í heimi er slétt sama um hvalveiðar. Flestar raddirnar sem heyrast eru sjálfvaldar og neikvæðar; aðrir hafa svo sem litla ástæðu til að láta í sér heyra. Kannski sambærilegt við þegar maður leitar að upplýsingum um fartölvu, myndavél eða bíl á netinu. Þeir sem hafa lent í vandræðum með sín eintök eða söluaðila eru mótiveraðir til að láta gamminn geysa á spjallborðum, ólíkt meirihlutanum sem er sáttur við sitt. Loks er þetta kjörið tækifæri fyrir pópúlista í stjórnmálum til að slá ódýrar keilur heima fyrir á sviði umhverfismála – kostnaðurinn lendir annars staðar!

    Að lokum er þessi gjörningur sendinefndarinnar síst minna viðeigandi en trúður í sirkus. Lestu stofnsáttmála Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta er ekki Alþjóðaóhvalveiðiráð, en mögulega orðið að Alþjóðahvalveiðióráði.

  • Anna Grétarsdóttir

    Hafði hóp af fólki í heimsókn í sumar, 12 manns, frá Danmörku og California, USA og viti menn, langvinsælasti grillmaturinn var blessuð Hrefnan 😉

  • Hrafn Arnarson

    Nú er þessi bloggfærsla að ýmsu leyti óvenjuleg. Mjög hörð gagnrýni á nokkra embættismenn er sett fram. Stöðu sinnar vegna er ólíklegt að þeir svari. Ráðherra sjávarútvegsmála hefur sagt að menn hafi rætt saman í trúnaði og það er rétt hefur Mörður rofið þann trúnað. Ef ekki er málið enn undarlegra. Bakkabræður eru öllum kunnir úr þjóðsögum. Eins og gefur að skilja hefur mörum verið líkt við bakkabræður. Stundum hittir sú samlíking í mark en stundum ekki. Ekki get ég dæmt um það þar sem ég var ekki á þessum lokaða trúnaðarfundi.

  • Ómar Harðarson

    @Hrafn Árnason
    Ég sé ekki að neinn trúnaður hafi verið rofinn. Mörður segir ekkert um hvað gestirnir sögðu. Hins vegar er þetta skemmtileg vinjetta. Hér virðast allir hafa verið í öfugum hlutverkum: Stjórnarandstæðingar lofað ráðherrann en stuðningsmenn gagnrýnt, embættismaðurinn talað sem sérfræðingur og sérfræðingurinnn sem pólitíkus en pólitíkusinn sagt lítið.

    Skemmtilegast er þó að Jóni Bjarnasyni skuli hafa fundist að sér vegið með þessari frásögn!

  • Mörður er eins og Gróa á leyti, Mörður á greinilega mjög erfitt sála stríð hans snýst um ESB Sovét.

  • Eru þessir forsvarsmenn stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar, ekki bara að vinna eftir skýrum samþykktum Alþingis, alveg eins og Össur afsakar og ber alltaf fyrir sig þegar menn gagnrýna framgöngu hans og sendinefndar Íslands varðandi ESB umsóknina.

    En nú viljið þið Samfylkingarmenn að ekki sé unnið eftir samþykktum Alþingis, eða hvað ?

    Það væri eftir sýndar- og tækifærismennsku ykkar.

    Nei hvalveiðmálið er vörn okkar gegn þeim hroaðlegu áformum Samfylkingarinnar að ætla að troða þjóðinni, sama hvað, um borð í þetta sökkvandi hafskip ESB-TITANIC !

  • Þarna kunna menn við samfylkingarþingmanninn Mörð Árnason, átelja pukur og leynd innan einhvers klúbbs sem svo til enga þýðingu hefur fyrir íslendinga. Það væri nú dugur í Merðinum ef hann myndi halda þessum kyndli opinnar og gensærrar umræðu víðar, t.d. við sölu á BYR, þar sem ekki einu sinni söluvirði eigna ríkisins var gefið upp. Flest það sem flokkur Marðar hefur komið nálægt hefur nefninlega einkennst af laumuskap og einhverju bakherbergjamakki. Einhvern tíma verða menn að sjá ljósið. Mörður hefur greinilega ákveðið að snúa við blaðinu fyrir hönd Marðar, Jóhönnu og Steingríms, sem hafa fram til þessa verið í hlutverki Bakkabræðra, og er það vel. Vonandi fáum við t.d. upplýsingar um hverjir það voru sem fengu milljarðatugina í SPKEF afskirfaða mánuði fyrir hrun, hverjir hafa verið að kaupa bankastofnanir án þess að þeir séu tilgreindir, né heldur fyrir hvaða upphæðir. Svona mætti lengi telja. Einhvern tíma verður allt fyrst. Vonandi er þetta fyrsta skrefið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur