Fimmtudagur 17.11.2011 - 07:36 - 25 ummæli

Griðrof á þingi

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn á alþingi hefur gripið til óvenjulegs ráðs: Að eyðileggja atkvæðagreiðslur með því að mæta ekki í þær.

Til að atkvæðisgreiðsla sé gild þarf meirihluti þingmanna að taka þátt í henni. Þetta er sjálfsögð lýðræðisregla á þessum vettvangi og útheimtir þá auðvitað að atkvæðagreiðslum sé hagað þannig að sem flestir þingmenn eigi sem auðveldast með að taka þátt í þeim.

Auðvitað er pressan meiri á stjórnarþingmönnum að mæta í atkvæðagreiðslur en á þetta hefur hingað til verið litið sem almenna og sjálfsagða skyldu á þinginu, enda landslög: „Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“ (71. gr. þingskapalaga.) – og hefðin er sú að menn taka saman höndum um að atkvæðagreiðslurnar séu gildar þótt það takist ekki alltaf.

Ég satt að segja man ekki eftir að það hafi áður gerst á þingi að hluti þingheims hafi vísvitandi eyðilegt atkvæðagreiðslu á þennan hátt. Það er alveg ný baráttuaðferð í íslenskri pólitík. Jafnvel á þeim stundum að þingmenn eða heilir þingflokkar hafa talið að meirihlutinn sé að brjóta stjórnarskrána, níðast á lýðræðinu, ráðast að ekkjum, öryrkjum og fátæku fólki, vinna stórspjöll á ginnhelgum náttúrusvæðum, selja landið … – hafa þingmenn á alþingi Íslendinga komið til þingfundar og tekið þátt í atkvæðagreiðslu.

En núna fóru þau Ragnheiður Elín og Gunnar Bragi á taugum yfir heimildum i fjáraukalögum!

Þetta var ekki merkileg atkvæðagreiðsla – um leyfi til kvöldfundar í þinginu. Og yðar einlægur var reyndar sammála ýmsum stjórnarandstæðingum. Sá ekki ástæðu til að flýta fjáraukalögum – óánægður með frekjuna í Steingrími og fleirum sem hindruðu okkur í að bíða eftir Ríkisendurskoðun um Vaðlaheiðargöng – og fannst að oft hefði verið gert hlé og efnt til ráðslags af minna tilefni en þarna komu upp. Ýtti á gula takkann.

Með því að ganga út í atkvæðagreiðslunni um kvöldfund – og ætla sér svo ekki að koma á eftir að geiða atkvæði um fjáraukalögin sjálf – er þetta fólk hinsvegar að rjúfa grið á þinginu og bregðast þeim heitum sem það gekkst undir þegar það tók með þingsetu að sér mikilvæg þjónustustörf fyrir almenning á Íslandi. Brjóta í sundur lögin, hefði kannski verið sagt einusinni.

 En auðvitað eru þau umfram allt að gera sig hlægileg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Það er gott að almenningur fái upplýsingar frá innanhúsfólki í hverju máli, sérstaklega frá þessu húsi. Það er í raun ekki fyrr en með Hreyfingarfólki að fást einlægar lýsingar á því sem þar gerist og ekki bara í gegnum þingfréttaritara sem eru orðnir alltof innvígðir eða þingmenn sem allir vita orðið að leika bara leikrit og segja frá því í miðlum.
    En nú lítur út fyrir að þú sért annað hvort að skrifa fyrir vini þína eða nánustu samstarfsmenn sem vita hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna:
    Hvað þýðir t.d. að ýta á gula takkann? Eigum við öll að vita það?

  • Finnst að þetta ætti að vera sjálfkrafa tilefni brottrekstrar af Alþingi

  • Er nú ekki hrifinn af uppátækjum andstöðunnar en þarna brást hún rétt við. Það er einfaldlega ekki boðlegt að ætlast til þess að fólk mæti í atkvæðagreiðslur um mál þar sem allar upplýsingar liggja ekki fyrir. Ágætur mælikvarði á vinnubrögð stjórnarinnar eru viðbrögð þingmanna Hreyfingarinnar. Sætti þeir sig við vinnubrögðin eru þau boðleg. Geri þeir það ekki eru þau óboðleg.

  • Þetta er brot á þingskaparlögum. það er ljóst. Við þessu verður að brregðast. Skiptir þá negu hvaða skoðun menn hafa á deilumálunum sem á undan eru gengin.Ef ekki er brugðist við ef búið að gefa grænt ljós á að brjóta öll þingskaparlög.Alþingi mun leysast upp. Til hamingju þingmenn.

  • Þetta kjördæmapot fjármálaráðherrans er eiginlega meiri frétt en að menn seu að skrópa í vinnuna. Gleymum ekki að ríkisstjórnin fékk sitt brautagengi út á breytta starfshætti og fagleg vinnubrögð. Sú tilhögun ríkisstjórnarinnar að ábyrgjast fjármögnun Vaðlaheiðaganga, og leggja jafnvel til þúsund milljónir í verk sem átti alfarið að vera á ábyrgð einkaaðila, flokkast nú ekki beinlínis undir breytta starfshætti eða fagleg vinnubrögð. Það er meira eins og Halldór Ásgrímsson sé orðinn guðfaðir þessarar mislukkuð ríkisstjórnar, sem virðist ekki geta gert nokkurn skapaðan hlut án þess að úr því verði klúður.

  • Af hverju vildi Hreyfingin selja tóbak í apótekum? Í hverju fólst einlægnin? Heimspekilegt svar óskast.

  • Æ æ, Mörður … það er svo ósköp þreytt hvernig þú reynir að búa til einhvern spuna í kringum þetta sóðamál.

    Staðreyndin er sú að ríkisttjórnin ætlaði með offorsi að þvinga í gegn atkvæðagreiðslu án þess að þingmenn fengju einu sinni að skoða mikilvæg gögn með samningunum, og eru þó engar smáræðis upphæðir á ferðinni. Þetta minnir átakanlega á þegar Steingrímur ætlaðist á sínum til að þingheimur samþykkti „glæsisamning“ Svavars ólesinn.

    Stjórnarandstaðan brást hárrétt við enda hennar hlutverk að gæta hagsmuna almennings í þessu máli.

    Hinsvegar er skömm ykkar Samfylkingarfólks þeim mun meiri að þið skulið ekki hafa nógu sterkt hryggjarstykki til að standa upp og stöðva þessa vitfirringu sem er í gangi hjá Steingrími J.

  • Einar Guðjónsson

    Þessi atkvæðagreiðsla sérhagsmunastjórnarinnar er alveg í takt við kjörorð hennar “ vér einir vitum“ og sannar auðvitað að ekkert mun breytast hér fyrr en núverandi þingheimi er ruslað út í næstu kosningum.

  • Mörður Árnason

    Rósa: Guli takkinn (eða er hann hvítur?) þýðir að þingmaðurinn situr hjá (greiðir ekki atkvæði, heitir það á tæknimáli þingsins, — en tekur samt þátt í atkvæðagreiðslunni).

  • Miðað við hvernig hefur tekist til við einkavæðingu banka á Íslandi finnst mér stjórnin hafa mjög vondan málstað í þessu máli. Mun drastískari aðgerðir hefði mér þótt ásættanleg til að koma í veg fyrir þetta rugl.

  • Hvað er að frétta með þessa Sparisjóði?

    SÆLL

  • Hvað þýðir það í raun að greiða ekki atkvæði, Mörður? Af hverju er svo flókið að vera annaðhvort með eða á móti? Er það ekki hluti þingmennskunnar að kynna sér málin og hafa á þeim skoðun……þ.e. einhverja aðra skoðun en þá að „vera alveg sama“ sem guli takkinn þýðir í raun?

  • Sleppum að ræða þetta á flokkspólitískum nótum. Það er auðvitað óásættanlegt fyrir alla, jafnt stjórnarþingmenn, sem og stj. andstöðuna að bera ábyrgð á hlutum sem þeir FÁ ekki að kynna sér. Hver kannast ekki við frasann hjá hv fjármálaráðherra og hv utanríkisráðherra….“það var Alþingi Íslendinga sem tók þessa ákvörðun“. Því miður er álit mitt á Alþingi sem stofnun á hraðri niðurleið og það er fyrst og fremst forseti þingsins og forsætisnefnd sem ber ábyrgð á því með linku gagnvart ríkisstjórninni og hreinni óvild forseta þingsins gagnvart ákveðnum þingmönnum.

  • Jóhannes

    Griðrofin á alþingi urðu mest þegar vissir þingmenn ákváðu að draga pólitíska andstæðinga sína fyrir sérstakan og úreltan sakadóm, landsdóm, en jafnframt halda hlífiskildi yfir pólitískum samherjum fyrir sömu ávirðingar.

  • Eru viðurlög við broti á þessari 71. grein þingskaparlaga? Ef svo er þarf að vísa málinu í réttan farveg.
    Forseti Íslands, ÓRG, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn voru aðalgerendur í hruni efnahagskerfisins. Steingrímur og Jóhanna eru hins vegar bjargvættirnir og hafa náð ótrúlegum árangri við að endurreisa Ísland úr öskustónni. Síkir jaxlar fara fram með krafti og fylgni enda dugir ekkert annað. Ruðurnar verða að sætta sig við þetta og taka sig á og tefja ekki að óþörfu.

  • Já, „alþingi tók þessa ákvörðun“. Þessi merkilega setning Steingríms J. verður líklega einn af þessum langlífu frösum sem munu lifa ríkisstjórnina af, líkt og þegar Jóhanna fór að mala um að „slá skjaldborg um heimilin“, og þegar Össur Skarphéðinsson afsakaði sig i rannsóknarskýrslunni, þegar allt var komið í þrot, að „hann hefði ekkert vit á business“. Svona frasar hafa leitt til griðrofa, miklu heldur en að nokkrir þingmenn sem engu skipta mæti of seint í vinnuna.

  • Þór Saari

    Sæll Mörður.
    Það hendir okkur flest öll einhvern tímann á ævinni að manni misbýður svo gjörsamlega að maður hreinlega getur ekki tekið þátt. Sá málatilbúnaður og í raun viðbjóður sem hefur átt sér stað í kringum þetta mál er Alþingi, þingmönnum meirihlutans og forseta Alþingis til háborinnar skammar. Ég hef nú sótt mína vinnu í þetta hús í á þriðja ár og það líður varla sá dagur að ég gangi þarna inn án þess að vera með óbragð í munni yfir því sem þarna fer fram. Í gær og í morgun tók þó steininn úr.
    Þú hefur staðið þig vel og heiðarlega í þessu máli, gagnrýnt það og talað fyri breyttu verklagi og er það vel, takk fyrir það. Ég bið þig hins vegar að virða það að öllu eru takmörk sett og það endalausa leikrit sem heitir Alþingi er gengið sér til húðar og það er ekki á færi venjulegs fólks að taka þátt í öllum þáttum leiksins. Þið „stjórnmálamennirnir“ megið eiga þau hlutverk öll ef þið viljið. Við sem komum þarna inn til að reyna að breyta einhverju til hins betra hreinlega frábiðjum okkur það viðbjóðslega baktjaldamakk, kjördæmapot og þá leiðtogadýrkun sem viðgengst þar enn. Það er svo ykkar að reyna að lifa með því.

  • Aðalsteinn

    Væri ekki í raun mjög óeðlilegt af stjórnarandstöðunni að greiða atkvæði um eitthvað sem þau hafa ekki allar upplýsingar um?
    Mér þætti mjög óábyrgt af þeim að gera slíkt og tel það stjórnarandstöðunni til hróss að þau séu ekki viljug til að greiða atkvæði úti loftið.

  • „….til marks um bætt vinnubrögð…“
    – Steingrímur J. Sigfússon 17/11/11

    Hvenær kemur þetta stöff út á DVD?

    „Meistaraverk“ „Þvílík Snilld“

  • Sigurður Pálsson

    Ráðherra neytar að upplýsa alþingi um fleiri milljara fyrirgreiðslu fjármálaráðherra til gjaldþrota sparisjóða. Bara það er stórt mál og ætti sá ráðherra sem það gerði að segja af sér á stundinni. Það hefði Mörður farið fram á ef hann væri í stjórnarandstöðu.

    Engin þingmaður á að greiða athvæði um lög nema hann/hún hafi allar viðeigandi upplýsingar

  • Alþingi á sumarhús á Langanesi! Hvernig sú fjárfesting kom til gæti verið rannsóknarefni. Gott og vel, alþingismönnum gefst kostur á að dvelja í húsinu sér og sínum til afslöppunar og yndisauka. Önnur opinber fyrirtæki eiga svona sumarhús víðs vegar um landið fyrir starfsmenn sína og geiða strafsmennirnir þá sanngjarnt verð fyrir afnot. Sumrhús Alþingis hefurþá sérstöðu að alþingismennirnir greiða ekki krónu fyrir dvölina heldur gera skattgreiðendur það. Það var eitt af fyrstu athöfnum Þórs Sari þegar hann tók sér sæti á Alþingi að notfæra sér þetta spillta fyrirkomulag og dvelja með sér og sínum í sumarhúsinu á Langanesi. Spurningin er hvort hann hafi verið með blóðpbragð í munninum líka þá. Ég held að þingmaðurinn ætti að spara sér krókódílatárin.

  • Þór Saari

    Hef aldrei dvalið í þessu húsi Pétur eftirnafnslausi. Kom þar hins vegar við til að skoða safnið á ferðalagi mínu um NA-land fyrir tveimur árum og frétti af þessum díl sem þingmenn höfðu, þ.e. að gista þarna frítt. Það fyrsta sem ég gerði er ég kom í til Reykjavíkur var að leggja til við stjórn Alþingis að þessi forréttindi yrðu afnumin og það hefur nú verið gert. Á þessu ferðalagi sem öðrum á þessu svæði hef ég ætíð gist hjá hjónunum á Ytra-Lóni þarna aðeins austur af og mæli eindregið með því. Þú mættir kynna þér málin betur áður en þú ferð af stað með svona ávirðingar Pétur eftirnafnslasui og bendi þér á að allir þingmenn og símanúmer þeirra eru á vef Alþingis og síminn þar er 563 0500.

  • Magnus Jonsson

    Er ekki hægt að láta þá fá APP í símann með gulum takka, þá er hægt að greiða atkvæði. Þá getur allt heila klabbið tekið þátt frá Flórida, ekki hef ég séð að metnaðurinn eða eftigrenslanin sé mikið meiri hjá fjórflokksmönnum enda nákvæmlega sama um allt nema eigin rassvasa.
    Gott hjá Hreyfingunni að sýna hversskonar sandkassi þetta er. Ég er nokkuð viss að hinum er ekki skemmt.

  • Johnny B. Good

    Nei, þau eru ekki að gera sig hlægileg.

    Þau eru að gera sig ómerkileg.

  • Mörður Árnason

    Já, ætli það sé ekki málið. Sé í Fréttablaðinu í dag að fordæmi eru til — þegar þingmenn hafa stokkið upp á nef sér, út af málum sem nú virðast hálf-fáránleg. Ætli þannig verði ekki litið á þetta mál líka. Á hinn bóginn var einkennilegur asi kringum þettta mál, og á því hafa engar haldbærar skýringar fengist.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur