Mánudagur 05.12.2011 - 20:18 - 5 ummæli

Stöngin inn

Fyrirspurnir alþingismanna eru sumar einsog skot að marki í fótboltanum, sumar langt framhjá, aðrar lenda í vörninni, enn aðrar grípur ráðherrann fimlega á lofti — en stundum fer boltinn líka beint í mark.

Það er sjaldgæft að ná með fyrirspurn þeim árangri að ráðherra segist ætla að beyta kerfinu, en þetta gerðist samt í gær um fyrirspurn sem ég stóð að um virðisaukaskatt af  áskrift að erlendum blöðum og tímaritum (takk Ian Watson og þið hin í Neytendasamtökunum fyrir samvinnuna).

Í svarinu kemur í ljós að 6 — sex – áskrifendur á Íslandi greiddu virðisaukaskatt af erlendu blaði eða tímariti í fyrra, árið 2010. Frá reglugerð sem sett var um þetta árið 1993, fjármálaráðherra Friðrik Sophusson, urðu greiðandi áskrifendur flestir 38 árið 2005 en flest árin hafa um það bil tíu manns greitt þenna n skatt samkvæmt reglugerð nr. 336/1993.Ísopftas. Áskrifendur eru auðvitað miklu fleiri á Íslandi að erlendu blaði eða tímariti – en borga engan virðisaukaskatt – enda ekkert eftir því gengið að undanskildum bókstafnum í reglugerðinni, og líklega ekki hægt nema með umfangsmiklum lögreglunjósnum!

Tilgangur reglugerðarinnar var reyndar alveg ágætur, nefnilega að jafna stöðu áskrifenda og þeirra sem kaupa erlend blöð í venjulegum verslunum og borga skatt sem verslunin innheimtir og skilar í ríkissjóð. Það átti að gera með því að áskrifandinn tilkynnti sig ,,ótilkvaddur“ og byðist til að borga skattinn. Falleg hugsun hjá Friðriki og þetta hefði örugglega gengið ágætlega í Himnaríki.

Gallinn er líklega sá að ekki er tekið við erlendum fyrirtækjum á virðisaukaskattskrá á Íslandi – sem veldur reyndar fleiri furðulegheitum í viðskiptasamskiptum einstaklinga við útlönd. Nýlega var þetta reyndar tekið upp um rafræna verslun – samþykkt í frumvarpinu sem upphaflega var frá okkur Helga Hjörvar um raf- og vefbækur og tók að lokum til tónlistarniðurhals og lestölva.

Biluð reglugerð

Fjármálaráðherra og hans menn viðurkenna í svarinu að reglugerðin góða virkar ekki – og ætla að skipta um kerfi. Um það er að vísu notað nokkuð hulduhrútslegt orðalag en niðurstaðan er sú sama:

Þær tölur sem raktar eru hér að framan sýna að fáir aðilar greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt vegna kaupa á blöðum og tímaritum erlendis frá. Með vísan til þessa telur ráðuneytið rétt að farið verði yfir reglugerðina í samráði við Íslandspóst, tollstjóra og ríkisskattstjóra með það að markmiði að meta hvort eða eftir atvikum að hve miklu leyti breytinga sé þörf á núverandi fyrirkomulagi.

Stöngin inn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Einar Guðjónsson

    Svo er það auðvitað tollmeðferðargjaldið sem Íslandspóstur leggur á fyrir að þukla pakkana og ákveða svo sjálfir hvort innihaldið sé tollskylt þó það sé auðvitað ekki þeirra að ákveða það. Það gjald þarf að endurskoða nú þegar fólki verður lífsnauðsynlegt að fá lyf með pósti frá miðju næsta ári. En þá hverfur heilbrigðiskerfið aftur til áranna fyrir seinna stríð og margir sjúklingar munu ekki hafa efni á að kaupa sér lyf í íslenskum apótekum og verða því að skipta við danskar eða þýskar vefverslanir eða sameinast um að senda mann til útlanda til að kaupa þau þar.

  • Stefán Benediktsson

    Mea Culpa. Hvernig get ég bætt fyrir brot mín?

  • Hannes I. Hallgrímsson

    Þetta var þörf ábending hjá þér, Mörður….

    …….nema að þetta verði til þess að Skattgrímur og (H)Indriði finni upp á því að herða skattheimtu á þess enn meira svo að skattarnir á netviðskiptum verði hærri en sjálft umsýslugjaldið.

  • Uni Gíslason

    Ég fæ ekki betur séð en að þú, háttvirtur Alþingismaður, sért að stæra þig yfir því að hafa fundið einhverja hallærislegustu smugu í skattkerfi Íslands – smugu sem hefur gert fólki auðveldara fyrir að gerast áskrifandi af tímaritum erlendis frá.

    Í skattkerfi þar sem fyrirtæki nýta sér smugur til að skjóta undan milljörðum á milljarða ofan í gegnum skúffufyrirtæki, aflandsfyrirtæki og dótturfyrirtæki erlendis, þá fannst þú þetta drasl. Og stærir þig af því.

    Vel gert. Stöngin inn. Nema þú skoraðir í þitt eigið mark. Annars frábært.

  • Uni Gíslason

    Annað „skúbb“ sem þú náðir að missa af meðan þú dúndraðir í eigið mark, er að bókaútgáfur sem láta prenta fyrir sig í EES borga 7% skatt, en 25% skatt ef þær láta prenta fyrir sig á Íslandi.

    (klapp klapp klapp)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur