Miðvikudagur 21.12.2011 - 14:21 - 6 ummæli

Kreddukreppufjör

Stefán Snævarr hefur lag á því að koma viðmælanda sínum á óvart – með því að orða hugmyndir sínar og röksemdir þannig að maður þarf að fara að hugsa upp á nýtt. Og kemst þá að því að viðtekin sannindi eru bara rugl – eða þá að hin viðteknu sannindi eru einmitt sannindi hvað sem þau hafa verið viðtekin og útþvæld.

Kenningar um miðjuna hörðu í pólitík líta fyrst í stað út einsog stílæfingar um bragðið paradox – af því miðflokkar svokallaðir eru yfirleitt frekar slepjulegir, og almennilegt vinstri eða jafnvel hægri hljómar meira töff en miðjumoðið. Þangað til í ljós kemur að miðjan harða er í raun staðföst sósíaldemókrasía sem hafnar öfgum – og beitir sem stjórntæki hinni mjúku hentistefnu: List hins mögulega við að ná árangri.

Eða er ég kannski að túlka mér í hag? Um það snýst líka nýjasta bók Stefáns, Kredda í kreppu, einstaklingsbók gegn hugmyndafræðingum sem ekki vilja kannast við hagsmunatengsl sín (í anda Marx! sem Stefán vill þó ekki viðurkenna um of í sínu sálufélagi).

Þetta nýja úrvalsrit hefur farið lægra en skyldi nú í haust – kann reyndar að verða ein þeirra bóka sem fer fjallabaksleiðina að áhrifum og frægð og verður kúltbók á hægri ferð upp á yfirborðið.

Samt kemur hún á hárréttum tíma: Einmitt eftir heimssögulegan ósigur þeirrar frjálshyggjustefnu sem Stefán hefur í nokkra áratugi haft þvílíkt yndi af að hakka í sig, meðal annnars hér á Eyjunni síðustu misserin.

Sumir sakna í bókinni reynslusagna úr hruninu og skýringa á einstökum leikfléttum útrásarvíkinga og haardískra stjórnmálamanna – og það er rétt, þetta er rit úr akademíunni, ekki undan hvunndegi blaðamannsins. Þar á móti kemur að hinn útlægi Litlahamarsprófessor skrifar af miklu stílfjöri og fullkomnum tökum á efni sínu – og opnar lesandanum góða sýn um lendurnar á mörkum stjórnmála og heimspeki.

Mæli með henni – til dæmis ef það vantar eitthvað í pakkann fyrir áhugamann um stjórnmál. Og þegar við í Samfylkingarfélaginu erum búin á námskeiðinu um hrunið með Jóni Baldvin, þá byrjum við í leshring um Kreddukreppuna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Stefán Snævarr

    Glæsileg og frábærlega velskrifuð færsla. Túlkar mig þess utan rétt.

  • Halldór Halldórsson

    „.. haardískra stjórnmálamanna ..“?? Gæti verið að í þeirri upptalningu væri að finna …tja! Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur? Össur Skarphéðinsson? Jóhönnu Sigurðardóttur? Nei, hvaða vitleysa! Þau voru jú hvergi nærri þegar „hrunið“ varð, ekki satt? Og hver veit nema prófessorinn frá Lillehammer verði innan skamms búinn að gefa „sósíaldemókratíunni“ eins og hún leggur sig, fullkomleika- og siðferðisvottorð? Og svo kom fyrsta færsla við þessu innleggi Marðar úr óvæntri átt og þið gætuð svo sem haldið áfram hvor að hrósa öðrum og fengið verðlaun fyrir ummælafjölda?

  • Stefán Snævarr

    Mikið rosalega var þetta íslensk athugasemd, Halldór, snúa öllum faðirvorum upp á íslenskt dægurþras.
    Í minni bók ræði ég stjórnspekileg og hugmyndafræðileg vandamál, reyni að efla jafnaðarstefnu rökum. Þeir Samfylkingarmenn sem þú nefnir hafa sjálfsagt gert eitt og annað af sér en það kemur bók ekkert við. Hún fjallar ekki um íslenskt dægurþras.

  • Örn Stefánsson

    Halldór Halldórsson: Er Samfylkingin þá ekki bara að reyna að bæta sig? Reyna að fá þá stjórnmálamenn innan hennar sem eru „haardískir“ (hvað sem það nú þýðir) til að hætta að vera það eða að velja í framtíðinni inn stjórnmálamenn sem eru það ekki. Það er síðan spurning hvort það tekst eða ekki, en öll viðleitni stjórnmálaflokka til að bæta sig eftir hrunið (af hverju seturðu það orð í gæsalappir?) hlýtur að vera af hinu góða. Sjálfstæðisflokkurinn reyndi jú að gera það með sinni endurreisnarskýrslu, en henni var af einhverjum ástæðum stungið ofan í skúffu.

    Það er fátt jafn grátbroslegt að fylgjast með einhverjum grautfúlum hægriplebbum reyna að klína skít á alla aðra í þeirri von að þeir sjálfir virðist hreinni.

  • Snilldar innlegg frá HH. 🙂

  • Einar Guðjónsson

    Veit nú ekki hvort frjálshyggjan hefur beðið ósigur, að minnsta kosti er það ekki raunin hér. Íslenska útgáfan var og er ekki í samræmi við kenninguna. Ef Hannes er frjálshyggjan þá er nú bitamunur en ekki fjár á Árna Páli og Hannesi H. Held að þetta sé áhugaverð bók og hef aðeins gripið niður í hana á bókasafni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur