Laugardagur 31.12.2011 - 15:22 - 22 ummæli

Hressileg átök — sterkari stjórn

Ágætur fundur í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Hressilega tekist á en að lokum gert út um málin: Mikill og skýr meirihluti með Jóhönnu og tillögu hennar um nýja ráðherraskipun.

Þessir flokksstjórnarfundir – sem ég hef líklega setið flestalla að einhverju marki – hafa því miður verið heldur syfjulegar samkomur. Fyrstu árin voru flokksmenn logandi hræddir við allt sem lyktaði af ágreiningi eða átökum, af því andstæðingarnir héldu að fólki þeirri mynd af flokknum að þar væri eitthvert tækifærishröngl og hver höndin upp á móti annarri. Og vissulega munaði oft mjóu þessu fyrstu ár að Samfylkingin héldist í einu lagi. Flokksstjórnarfundirnir voru þessvegna aðallega ræða Össurar formanns og klapp fyrir henni, og síðan kurteislegar umræður með hrósi hver um annan og einkum um forystuna. Stefna og pólitík mótuðust annarstaðar, í þingflokknum, framkvæmdastjórninni og í félögunum að einhverju leyti, en þessir fundir voru einkum því til sönnunar út á við hvað allt gengi vel í flokknum.

Svo komu tímar Ingibjargar Sólrúnar – og þá hélt sýningarhaldið áfram á þessum fundum, nema nú voru höfð viðamikil pallborð og sérdagskrár þar sem gáfumenn úr akademíunni töluðu yfir höfuðið á venjulegu flokksfólki. Samræðustjórnmálin sem Solla kenndi sig við, þau voru einhvernveginn stunduð alstaðar annarstaðar en í flokknum.

Það er til marks um stöðu þessarar stofnunar innan Samfylkingarinnar að ákvörðun um þátttöku í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum var stimpluð á hálftímafundi á Sögu, minnir mig (kom ekki þar!), og það var svo fundur Reykjavíkurfélagsins í Þjóðleikhúskjallaranum sem kom þeirri stjórn að lokum frá, ekki flokksstjórnin.

Þessvegna var alveg príma að fá skoðanaskipti, pólitískan ágreining og allskyns spælingar nýjar og gamlar upp á yfirborðið í gær á gömlu Hótel Esju.

Tala saman

Það er líka augljóst að við tölum ekki nógu mikið saman í Samfylkingunni. Við höfum til dæmis ekki gert almennilega upp við þátttökuna í hrunstjórninni þrátt fyrir umbótanefndina. Í gær voru einmitt áberandi í liði óánægðra ýmsir hugmyndafræðingar og burðarmenn þess stjórnarsamstarfs – þar á meðal Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður, sem í dag skrifar sérkennilegan pistil útfrá nýjasta átrúnaðargoði sínu, aumingja Árna Páli Árnasyni.

Og við höfum heldur ekki talað nógu mikið saman um stefnuna í stjórnarsamstarfinu. Þannig kom í ljós í gær að furðumargir trúnaðarmenn Samfylkingarinnar hafa orðið fyrir áhrifum af þeim áróðri SA og Sjálfstæðisflokksins að stjórnin leggi fæð á atvinnulífið í landinu sem slíkt, eða að minnsta kosti samstarfsflokkurinn í heild sinni. Og dæmin eru hver? Einna helst Magma og Núpó – en bæði þau mál voru snúin og tortryggni gagnvart þeim verkefnum náði langt inn í raðir Samfó. Ég var og er í prinsippinu meðmæltur því að einkabransinn geti átt orkufyrirtæki og leigt auðlindaafnot af almenningi, og mér fannst að það hefði átt að reyna samninga við Núpó, en hef ekki notið mikillar hylli fyrir þessa afstöðu í hópi nánustu samherja í pólitíkinni á græna svæðinu í mínum eigin flokki. Séu menn að tala um stórkarlaprósjekt með virkjunum og álverum þá er staðreyndin – því miður! – sú að það er ekki andstaða eða efasemdir VG, grænna Samfylkingarmanna eða náttúruverndarhreyfingarinnar sem hafa spillt þeim draumahöllum, heldur fyrst og fremst skortur á fjármagni og arfalélegur undirbúningur orkufyrirtækja og iðjuhölda í 2007-stíl.

Við þurfum hinsvegar að taka til hendinni, ekki síst í löggjöf og regluverki, um auðlindir okkar og erlendar fjárfestingar. Til þess ætti stjórnarmeirihlutinn að vera hæfari nú en áður.

Afleit ráðuneyti?

Atvinnuráðuneytið nýja er gamalt stefnumál Samfylkingarinnar, mikilvægt ráðuneyti sem við hefðum öll viljað fá Samfylkingarmann til að móta. Að ætla – einsog heyrðist á sumum í gærkvöldi – að stefna stjórnarsamstarfinu í voða af því Steingrímur væri sestur þangað, það er undarleg ævintýramennska. Nú má vel vera að Steingrímur sé hinn versti maður, en þeir hinir sömu sem í gær voru reiðastir Jóhönnu vegna þessa glapræðis, þeir sögðu ekki múkk þegar illmenninu mikla var afhentur sjálfur ríkiskassinn á silfurfati vorið 2009. Og þeir sögðu reyndar heldur ekki neitt þegar Árni Mathiesen varð fjármálaráðherra með stuðningi Samfylkingarinnar. Einar K. Guðfinnsson varð kvótakerfislénsherra í umboði flokksins. Þegar Samfylkingin setti yfir heilbrigðisþjónustuna sjálfan Guðlaug Þór Þórðarson.

Og það var sérkennilegt að heyra fornar hetjur úr Kópavogi og Garðabæ hóta stjórnarslitum vegna samningsniðurstöðu með Samfylkingarráðherra í forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu!

Árni Páll

Það má að vísu halda því fram að Árni Páll Árnason hafi verið fullseinn að viðurkenna ósigur á fundinum í gær með því að mælast til að flokksstjórnin legðist ekki gegn tillögu formanns og forsætisráðherra. Skipti samt máli að hann gerði það, því hvað sem átök geta verið holl og spennandi eiga ábyrgir stjórnmálamenn ekki að deila deilnanna vegna, og gæta að því að halda opinni braut til framtíðar í þágu sameiginlegs málstaðar. Þetta lærðum við Árni Páll einmitt í slagsmálunum miklu í Alþýðubandalaginu forðum daga.

Hann hefur gert margt gott sem ráðherra félagsmála og svo efnahags- og viðskiptamála, snarpur í málafylgju, duglegur, kann að laða menn til samstarfs. Hann hefur líka haft svolítið of bólgnar hugmyndir um eigið mikilvægi og forustuhlutverk sem leiðtoga einhvers arms „krata“ og Ingibjargar-Sólrúnar-sinna, sem ég hef aldrei skilið hvað gengur út á ef hann er til yfirhöfuð. Kannski þessvegna hafa íhald og Framsókn reynt að gera hann að „sínum manni“ í ríkisstjórninni og stundað á hann klígjukennt oflof. Icesave annars hvað? Efnahags- og viðskiptaráðherrann var vissulega heill í því að reyna einsog hægt var að redda því máli enn eina ferðina – en samt endaði sá pakki þar sem hann átti ekki að enda, í ESA-dómstólnum!

Nú á Árni Páll að taka sér nokkra daga, horfa í eld og ganga með sjó, og koma svo til liðs við okkur í ný verkefni, reynslunni ríkari. Atburðarásin hrifsar menn stundum að ósekju burt frá þeim verkum sem þeim þóttu nánast vera orðin inntak tilveru sinnar, og það er ósköp skiljanlegt að menn sem í slíku lenda fyllist sárindum, og með þeim félagar þeirra og samverkamenn. En engin þau sár hafa hér myndast sem ekki græðir aftur í verkum dagsins.

Sterkari stjórn

Þótt þessi flokksstjórnarfundur okkar í gær hafi verið áhugaverð reynsla fyrir þátttakendur er það nýja ríkisstjórnin sem er undir, ekki smáskærur á Esjuhóteli eina kvöldstund.

Sjálfur er ég ekkert alltof ánægður með niðurstöðuna, og hefði viljað skýrari línur, þar á meðal um það hver tekur við af hverjum hvenær – en í heild styrkir þetta stöðu stjórnarinnar og vinnuandann í stjórnarsamstarfinu. Þær skipulagsbreytingar sem heitið var við upphaf samstarfsins eru að komast í höfn með atvinnuráðuneyti og svo nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Nú er von til þess að hægt verði að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið eðlilega og heiðarlega í samæmi við stjórnarsáttmálann, þannig að það verði þjóðarinnar að gera út um málið. Kona er fjármálaráðherra í fyrsta sinn – en um leið eru yfirmannaskipti í því ráðuneyti tákn um að við erum að komast uppúr öldudalnum eftir hrunið.

Og svo er full ástæða til að ætla að Steingrímur J. Sigfússon standi sig vel í stöðu atvinnuráðherra. Ég hef aldrei verið í aðdáendaklúbbi Steingríms, allra síst þegar við vorum í sama flokknum. Ég veit hinsvegar að hann hefur dágott vit á atvinnumálunum og mér sýnist að hinu erfiðu verkefni í Arnarhvoli – og svo enn erfiðari í þingflokki Vinstri-grænna – hafi losað hann við hleypidóma og kreddur sem áður kunna að hafa þvælst fyrir. Hér á eftir að reyna mest á í fiskveiðistjórnarmálinu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur með þessum breytingum unnið sigur og eygir nú árangur á kjörtímabilinu í mörgum þeim málum sem erfiðust þóttu. Það er mikilvægt, og kynni að hafa sín áhrif á ákvörðun sem nú blasir við henni einsog Bessastaðabóndanum: Að halda áfram, eða láta nótt sem nemur og undirbúa forystuskipti í Samfylkingunni.

2 0 1 2

Gleðilegt nýtt ár — einhver sérkennileg fegurð í þessari talnasamsetningu. Og vekur spurn. Ég er nefnilega að lesa Steinana sem tala eftir Þórberg og lifi þessa daga í Suðursveit um aldamótin þarsíðustu. Og allt vekur spurn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Nokkrir punktar um leið og ég þakka íhygla og góða grein og óska þér Mörður og þínu fólki árnaðar á nýju ári.

    Það er mjög mikilvægt að flytja auðlindamálin í umhverfisráðuneytið. Það eru talsverðar brotalamir á núverandi orkulöggjöf s.s. að heimila einkarekstur hitaveitna þar sem ekki er hægt að koma samkeppni við. Hygg að þetta leiði til miklu skýrari ramma og reglna og bættar stjórnsýslu.

    Það þarf að skoða erlendu fjárfestinguna frá a-ö. Í dag er hún að mestu opin miðað við EES svæðið og síðan er hennar einnig getið að mestu í sérlögum. Í praxís þarf að vera til ein lög það einföld að nægjanlegt sé að sýna fram á ð skilyrði (skv. tékklista) séu uppfyllt. Sníða þarf af vafaatriði og síðan þarf að koma inn möguleiki á sérstökum samningum við einstök lönd út frá einhverskonar gagnkvæmni (sbr. Samherja í Þýskalandi…).

    Ég sé eftir Árna Pál – hann er duglegur og skjótráður og því góður ráðherra. Hann hefur fengið á sig persónulegar ávirðingar langt umfram eðlileg mörk og skákin þarna gengur út á að auðvelda brotthvarf Jóna Bj. og því í sjálfum sér ósanngjarnt í garð Árna Páls. Hann er maður að meiri að taka svona á málum á flokksstjórnarfundinum (komst ekki því það var VG vinir í kvöldmat hjá mér). Um þetta með þá Jón segi ég “ Sólaraleysi Norðarfjalls er ekki hægt að bæta með því að fórna okkur Heiðsynningum“.

    Í heildina hljóta breytingarnar að vekja vonir um meiri árangur í atvinnumálum, að breytingarnar á sjávarútvegsmálunum verði mikið meira í þágu þjóðarinnar en ella, stjórnarskrármálið klárist, koma á samningi við EB sem þjóðin getur greitt atkvæði um í lok kjörtímabilsins, bætta auðlindalöggjöf og kraft í atvinnumálin.

    Ég held að Steingrímur J. sé einn af okkar bestu mönnum í að búa til öflugt atvinnuvegaráðuneyti þó ekki sé nema vegnar dugnaða og úthalds.

    Ég er mjög ánægð með það fyrir hönd okkar Suðurnesjamanna og sem femínisti að Oddný Harðardóttir verði fyrsti kven fjármálaráðherrann. Hún mjög traust og fylgin sér og á áreiðanlega eftir að standa sig vel.

  • KJAFTÆÐI.

  • Einar Guðjónsson

    Vonandi er þetta upphafið að endalokum stjórnarinnar. Má svo sem segja að ráðherradómur Árna hafi verið tilgangslaus enda öll frumvarp sem hann lagði fram og voru samþykkt samin af bönkunum, tryggingarfélögunum og lögmannafélaginu. Þurfti aldrei sérstakan ráðherra í kringum þá sérhagsmuni. Þá er næsta víst að Hr. Björn Valur fulltrúi Samherja verður orðinn innsti koppur í búri í þessu nýja ráðuneyti sem skaffarinn frá Gunnarsstöðum mun stýra.
    Það verður að eiga sér stað mikil hreinsun í þingliði við næstu kosningar en fyr hefst engin uppbygging í landinu.
    Gleðilegt ár 2012

  • Rögnvaldur Þór Óskarsson

    Óska öllum árs og friðar. Flott og þarfleg grein.

  • Sigurður Pálsson

    Þessi pistlinn Marðar og þær hræringar sem eru nú gerðar á stjornarheimilinu lýsa mjög vel hvernig stjórnmálaflokkar vinna. Allt snýst um FLOKKINN. Að halda því fram að eftir þessar breytingar sé stjórnin sterkari er nánast hlægilegt. Skv seinustu skoðanakönnun er Ríkisstjórnin með 26% fylgi. Að setja öll atvinnumálin í hendurnar á stadus co manninum Steingrími J er ótrúlegt. Ég segi nú bara eins og Geir Haarde sagði forðum

    Guð blessi Ísland

  • Einar Guðjónsson

    Steingrímur er ekki jafnstöðumaður því fer fjarri. Á aðeins þremur árum hefur hann snúið “ vinstri“ stefnu upp á andskotann. Einkavætt bankakerfið “ handvalið“, einkavætt orkugeirann, fært milljarða til skuldabréfaeigenda, einkavætt heilbrigðiskerfið en á sama tíma aukið skattlagningu upp í 70% Það eina sem hann á eftir er að einkavæða kvótann varanlega. Hann er fyrirmyndarnemandi AGS.

  • Sterkari stjórn ? þetta er nú ekkert nema óskhyggja og flokkshollusta handónýtrar stjórnar, megi hún springa sem allra fyrst þjóðinni til heilla.

  • Ingimar S. Friðríks

    Það var illa farið með góðan dreng, Árna Pál. Það á eftir að koma í bakið á Samfylkingunni síðar meir.

    Árni Páll lét kúga sig og niðurlægja. Það verður honum ekki til vegsauka út á við, þó svo að hann fái einhverja vegtyllu í staðinn, t.d. gott embætti einhversstaðar, Samfylkingin sér nefnilega um sína.

  • Sterkari stjórn?!

    Þessi skrif sýna að ágætt og greint fólk á borð við síðuhaldara getur algjörlega glatað allri sýn á ástandið vegna blindrar flokkshyggju og áráttuhugsunar.

    Það sem við, almenningur í þessu landi, verðum hér vitni að eftir nýjasta „ráðherrakapalinn“ er sjálfs-niðurlæging íslensku stjórnmálastéttarinnar.

    Þetta fólk kemur fram fyrir almenning, dag eftir dag, og niðurlægir sjálft sig með afhjúpandi valdasýki sinni en umfram allt algjöru hæfileikaleysi.

    Sir – have you no decency? var spurt hér einu sinnni.

    Það er málið – íslensku stjórnmálastéttina skortir allt „decency“.

    Það er fyrst og fremst dapurlegt að fylgjast með þessu.

    Og þess vegna finnst mér dapurlegt að lesa slík spunaskrif flokkshyggju og blindu frá svo ágætum manni sem síðuhaldari er.

    Þessi ríkisstjórn stendur ekki eftir sterkari.

    Hún er þvert á móti ónýt – stuðningsmönnum og þjóðinni allri til skammar.

    Have you no decency?

    Ég vona að Árni Páll hafi burði til að segja sig frá þessari stjórn hinna hæfileikalausu og ofstækisfullu.

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Ómálefnaleg innlegg hjá nokkrum hér að ofan eru ekki svaraverð.
    Að öðru leyti vil ég ítreka að grein Marðar er málefnalegt innlegg sem skýrir mál og bætir þjóðmálaumræðuna.
    Vil taka sérstaklega fram að mér þykir slæmt að Árni Páll Árnason þurfi að fara frá sem efnahagsráðherra og að það ráðuneyti sé nú í uppnámi. Rök mín eru að það þurfi að efla þekkingu og umræðu um efnahagsmál á Íslandi vegna þess að þjóðin kann ekki fótum sínum forráð á því sviði. Það er mjög mikilvægt að sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á sérþekkingu séu mögulegar. Ég er líka hrædd við „sveitamannaefnahagspólitíkina“ sem glittir oft í hjá okkar ágæta fyrrum fjármálaráðherra. Árna Páli var fórnað til að losna við Jón!

  • Góður pistill hjá Merði. Jóhanna er greinilega ad styrkja stjórnina. Ætti ad gera vinnubrögð markvissari.
    Viðbrögð Árna páls voru viturleg og göfugmannleg. Hann kemur aftur, fílefldur.
    Hef góða tilfinningu fyrir þessu fólki og tel að útkoman verði glæssileg við lok kjörtímabils

  • Erlingur Sigurðarson

    Þakka þér, Mörður, ágæta grein, skarpa oog skýra eins og þín er von og vísa. Eg held að þessi ríkisstjornsé að vinna sögulegt stórvirki og reisa landið við eftir glæpaferil íhalds og framsóknar. Og mér líst vel á síðustu aðgerðir forystumanna stjórnarflokkanna til að framkvæma það sem enn er eftir af ætlunarverki þeirra og fylgja því eftir . Eftir að hafa komið slíku lagi á ríkisfjármálin er enginn betur fær en Steingrímur að takast á við að koma skikk á skipulag atvinnu- og efnahagsmála úr sundurleitu sérhagsmunapoti 3-4 ráðuneyta. Hann hefur þegar unnið afreksverk og eg hef trú á að honum takist að vinna annað slíkt í þessu samstarfi. Um fjármálin kvíði eg engu vitandi þau í traustum höndum og huga Oddnýjar Harðardóttur. Til að létta eilítið undir með þeim i erfiðu starfi ættu flokksmenn beggja flokka að Þagga dægurþras og ríg og einhenda sér að stuðningi við ríkisstjórnina til að auðvelda henni fullnustu verka þeirra sem hun var sett á fót til að vinna.

  • Gleðilegt ár !

    Gott að fá svona góð skrif um það sem gerist innana stjórnmálaflokka !

    Segi það alveg hreinskilningslega , ég mun aldrei aftur gefa þessum flokki mitt atkvæði !

    Hvers vegna gerir flokkur , sem vill kenna sig við jöfnuð, ekkert í því að fá fólk úr venjulegri vinnu, verkafólk , iðnaðarmenn og sjómenn , inn á sína lista ?

    Sjálfumglatt háskólafólk sem hefur ekkert samband við venjulegt fólk , þar sem kjafturinn er aðalmálið eins og sannast á þér og Össur !

  • Hafþór Örn

    Góð grein Mörður. Góð innlegg frá Unni hér að ofan. Gleðilegt nýtt ár.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    … það er nú meira hvað þessi ríkisstjórn getur styrkst!

    Í hvert skipti sem eitthvað klúður kemur upp á kemur sterkari stjórn fram á sjónarsviðið!

    Trúir einhver þessu bulli?

  • Kom það aldrei til greina að þú yrðir ráðherra Mörður?

  • Held að vandamál samfylkingar sé ekki að þeir tali ekki saman. Vandamálið er að þessi flokkur gerir ekki nóg. Það dugar ekki að tala og tala, en gera síðan ekki neitt. Hvort Mörður vilji hafa nýtt orð um hvernig menn tali endalaust um hlutina: Samræðustjórnmál, umræður, tala saman…. Þetta er sami hluturinn. Skjaldborgin um heimilin er eitthvað sem er enn óleyst. Uppgjörið við hrunið, það er enn óleyst, ruglið í kringum bankana er enn óleyst. Fiskvieðistjórnunarmálin eru enn óleyst. Uppákoman í kringum stjórnarskrána er óleyst. Svona mætti lengi telja. Tala minna og gera meira takk fyrir

  • 151/2010
    Mörður Árnason: Já

  • Runólfur G

    http://englishrussia.com/2006/09/11/stalins-dreams-of-moscow/
    Það er eins og Samfylkingar fólk lifi í einhverjum svipuðum fílabeinsturni og lýsir sér á þessum myndum. Því miður fyrir þjóð.

  • Hrafn Arnarson

    Góður pistill og hreinskilin skrif. Sá flokkur sem gerir ekki upp við eigin fortíð hefur sjálfur kveðið upp sinn dauðadóm. Þetta á örugglega við um xD en ef fleiri hugsa eins og Mörður ekki um Samfylkinguna.

  • Árni Gunnarsson

    Eftir að hafa lesið pistil Marðar og þær athugasemdir sem mér sýndist að skiptu máli er ég agndofa. Mörður lýsir vinnubrögðum í Samfylkingunni og þeim umræðuvenjum sem fólk þar hefur ástundað á stefnumótandi fundum og þingum fram til dagsins 31.12. 2011.
    Góðan daginn!
    Agndofa er ég ekki vegna úrsagnar Benedikts Sigurðarsonar úr þessum klúbbi.

  • Talandi um veruleika fyrringu…..en aldrei hissa á leðjunni sem lekur út úr
    Merði…….

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur