Föstudagur 13.01.2012 - 12:38 - 9 ummæli

Myrkrið er yndislegt

Ég er víst orðinn fullorðinn – Linda konan mín minnir mig stundum á þetta og telur að það eigi að hafa gerst fyrir nokkrum áratugum …

og eitt sem ég tek eftir núna í borginni þar sem ég hef alltaf átt heima er það að það eru horfnar í henni stjörnurnar á nóttunni. Þegar ég var strákur var stjörnuhiminninn hluti af tilverunni – og skipti talsverðu máli fyrir mína kynslóð í stálpaðri bernsku af því nýhafnar geimferðir kveiktu áhuga á þessum óravíddum og ókönnuðu hnöttum og sólkerfum. Partur af lífsupplifuninni að týna sér í stjörnufjarlægðunum kyrrar vetrarnætur, og reyna jafnvel að þekkja stjörnumerkin. Allavega Karlsvagninn.

Nú er þessi himinn varla til lengur í borginni – út af öllu ljósinu sem við höfum komið okkur upp og slær gulrauðum bjarma á lofthjúpinn fyrir ofan okkur. Maður þarf út í sveit, í talsverða fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, til að rifja undur hins alstirnda næturgeims.

Ljósmengun heitir þetta fyrirbrigði og er vel þekkt í útlöndum meðal stjörnuskoðara og áhugamanna um lífsgæði. Ég hef spurt tvo umhverfisráðherra um afstöðu þeirra til málsins og fengið lítil svör – önnur en þau að þingmaðurinn ætti að líta sér nær. Á mánudaginn er röðin komin að þriðja ráðherranum, Svandísi Svavarsdóttur, sem ég vona að svari betur.

Himinninn úti á Nesi

Á morgun, laugardag, ætlar hinsvegar félagið Græna netið að halda um þetta sérstakan fræðslufund – um verðmæti myrkursins! – og til að geta bæði grillt í stjörnur ef veður er sæmilegt, og skoðað ljósmengunina í borginni er fundarstaðurinn nokkuð óvenjulegur, nefnilega golfskálinn á Seltjarnarnesi.

Gestur fundarins er stjörnuáhugamaðurinn Snævarr Guðmundsson, landfræðingur og leiðsögumaður, sem hefur nýlega kannað ljós og myrkur að næturlagi á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu – og komist að því meðal annars að ljósmengun í einstökum sveitarfélögum er mest í Kópavogi, sem er þar með þeirra upplýstast! Myrkrið er hinsvegar mest á Seltjarnarnesi og Álftanesi, segir Snævarr í háskólaritgerð sinni. Á svæðinu öllu er næturbirta, og þar með hulinn næturhiminn – frá fjórum til sjö sinnum meiri en á Þórshöfn, þar sem enn er stjörnubjart þegar vel viðrar að nóttu.

Upplýst höfuðborg og japönsk hamingja

Líklega er höfuðborgin með grannbæjum eitt af upplýstustu byggðarsvæðum jarðar miðað við höfðatölu, og ekkert undarlegt við að Íslendingar vilji hafa ljós í skammdeginu. Ljósmengun fylgja hinsvegar ýmsir ókostir, þeirra mestur sá að næturhiminn hverfur og stjörnur sjást ekki fyrren talsvert utan við miðbæina. Kynslóðir borgarbarna alast því upp án þess að njóta stjarnanna – og fyrir ferðamenn dregur úr aðdráttarafli Reykjavíkur sem ævintýraborgar myrkurs og norðurljósa.

Norðurljósanna sem Einar Ben reyndi að selja – aðeins á undan sinni samtíð. Nú erum við nefnilega sífellt að selja norðurljósin á Íslandi, meðal annars ungum japönskum pörum sem hingað koma vegna þeirrar fullvissu í landi morgunroðans að einstök hamingja fylgi barni sem getið eru undir norðurljósum …

Ljósmengun er ekki einfalt úrlausnarefni og tengist auðvitað lifnaðarháttum okkar, eyðslusemi og slöseríi. Margt má gera til að draga úr mengun af ljósum án þess að valda óþægindum fyrir umferð, atvinnulíf og sálarástand íbúanna, og er reynt víða erlendis. Hér heima standa Borgnesingar fremstir í flokki við að vinna gegn ofnotkun ljósa í byggð, en Borgarbyggð er eina sveitarfélagið með reglur um þetta.

Koma svo

Fundurinn okkar í  Græna netinu um verðmæti myrkursins verður sumsé laugardaginn 14. janúar, hefst kl. 17, eftir sólsetur, í Golfskálanum á Seltjarnarnesi. Eftri spjall Snævars verður gengið út undir bert loft að líta á himinhnetti og borgarljós einsog veður leyfir.

Allir velkomnir – komiði endilega á einstæðan stjörnufund.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • fridrik indridason

    það er mikið til í þessu mörður. ég man þegar ég var unglingur, fyrir ca. 40 árum, fór skólabekkur minn eitt sinn í útleigu upp á hellisheiði um miðjan vetur. Það var algerlega heiðskír stjörnunótt fyrsta kvöldið og svo gott stjörnuskyggni raunar að við gátum fylgst með ferð gervitungls svífa yfir okkur.

  • fridrik indridason

    útileigu átti það að vera

  • Friðrik Smári Sigmundsson

    Útilega átti það eflaust að vera.

  • Halldór Björn.

    Mörður væri ekki nær, að beyna fyrirspurn, til Efnahags-og Viðskiptaráðherra, hvernig standi á því að ríkisbankinn sé að afskrifa háar fjárhæðir á Olíufursta, sem fengu 5.5 miljarða að láni hjá gamla bankanum fyrir ca. 8 árum og eru búnir að borga sér síðan þá ca. 3.5 miljarða í arðgreiðslur síðustu árin, en fá þrátt fyrir það, gríðarlegar afskriftir þessa dagana hjá ríkisbankanum.

    En á sama tíma ræðst ríkisbankinn á verslun á Akureyri með mikilli hörku vegna ólöglegs gengistryggðs krónuláns. Mörður var ekki Banksýsla ríkisins sett á fót til að koma í veg fyrir að ríkisbankinn mismunaði einstaklingum og lögaðilum, svo hélt ég, eða var þett allt í plati, eins og svo margt annað hjá Norrænu velferðarstjórninni.

  • Alfreð Jónsson

    Já Mörður nú verð ég að vera algerlega ósammála. Í því mikla myrkri sem er jafnan á Fróni stóran hluta sólarhringsins yfir skammdegismánuðina er það einmitt mikils virði að hafa blessaða birtuna og það þótt að einhverjir stjörnufræðibéusar þurfi að leita örlítið út fyrir borgina að myrkri.

    Eftir að hafa búið í Danmörku þar sem alltaf er hálfgert myrkur af því rafmagnið er svo ógurlega dýrt er það lúxus að geta séð handa sinna skil á leiðinni á milli húsa á Íslandi

  • Trausti Þórðarson

    Skemmtilegt er myrkrið.

  • ? í framan núna

    Hvað ertu genginn barndóm Mörður, eða rétt að nálgast gelgjuna
    og kominn í þessa deildina?:

    http://www.divine-darkness.com/

  • Ég er ekki viss um hvort Alfreð skilji málefnið. Þetta snýst ekki um að auka myrkur heldur að lýsa skynsamlega. Sóa minna fé, lýsa það sem þarf að lýsa og menga ekki það sem þarf ekki að menga. Engum dettur í hug að draga niður lífsgæði sem felst í lýsingu, ekki einu sinni stjörnufræðibéusum. Með skynsamlegri lýsingu má samtímis auka þau lífsgæði sem felst í því að búa undir fallegum stjörnuhimni. Þeir sem vilja lýsingu fá hana án þess að skemma fyrir þeim sem vilja vernda næturhimininn.

    Hvað er síðan skynsamleg lýsing? Hvet þig og aðra sem lítið þekkja til málsins að skoða þessa síðu: http://www.darksky.org/

  • Guðni Stefansson

    Stjörnurnar eru enn í bakgörðum við Laugaveg Mörður. Það hefur ekkert breyst. Eg vil njota þeirra í næði og helst í þögninni utan borgarmarkanna.

    Hlustaði á ágætt innlegg þitt um staðgongumæðrun á þinginu í dag. Var að hugleiða hvort verið væri að opna aðgang að líkömum kvenna aftur eftir að vændisfrumvarpð varð að lögum. Væri nokkuð hægt að hugsa sér frumvarp um kærleika í gustukarskyni sem undanþágu frà vændislögunum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur