Fimmtudagur 02.02.2012 - 13:18 - 8 ummæli

Vaðlaheiðarforsendur

Ein af skýrslunum í málinu sem yfir stendur um Vaðlaheiðargöng er frá fyrirtækinu „IFS Greiningu“, unnin á vegum fjármálaráðuneytisins. Í skýrslunni er fjallað um ýmis álitaefni um gangaáætlunina, og meðal annars komist að því að ríkið þyrfti að leggja til sirka hálfan annan milljarð í hlutafé til að dæmið gangi upp. Nú er einmitt verið að búa til frumvarp um eitthvert slíkt framlag uppi í fjármálaráðuneyti, og verður fróðlegt að sjá hvaða mynd það tekur á sig.

Úr talsverðri skýrslu IFS hafa aðstandendur ganganna látið sér nægja í fréttum og fyrirsögnum aðeins einn forsetningarlið, þrjú orð, sem eiga að sýna að skýrslugerðarmenn ráðuneytisins telji allt í himnalagi með áætlun hlutafélagsins góða um göngin. Þetta eru orðin

„innan raunhæfra marka“

um forsendur áætlunarinnar. Síðastur endurtekur þetta í Morgunblaðsgrein í dag Pétur Þór Jónasson, einn þriggja stjórnarmanna í Vaðlaheiðargöngum hf.

En orðin eru fleiri en þrjú. Setningin er svona í heild:

IFS Greining sér ekki ástæðu til annars en að telja að viðskiptaáætlun Vaðlaheiðarganga hf. um rekstrar- og viðhaldskostnað sé innan raunhæfra marka þar sem þær byggja á forsendum Vegagerðarinnar.

Greinendurnir sjá sumsé ekki ástæðu til að efast um áætlunina – af því hún byggist á forsendum frá Vegagerðinni! Greinendurnir viðurkenna að þeir hafi ekki metið þessar forsendur sjálfir heldur taki við þeim gagnrýnislaust frá hæstvirtri Vegagerð.

Mér er jafnhlýtt til okkar góðu Vegagerðar og flestum öðrum – en einmitt um þessar forsendur frá Vegagerðinni standa efasemdir og gagnrýni – að þær séu ekki nógu traustar. Vinna greiningarfyrirtækisins IFS hefði þessvegna einmitt átt að beinast að þessum forsendum.

Meðal annars af því að þessi sama Vegagerð er meirihlutaeigandi í Vaðlaheiðargöngum hf. á vegum nokkurra ráðherra og meirihluta alþingis.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Gapandiundrandi

    Þú ert að standa þig vel Mörður í þessu máli.
    Það er öllu hugsandi fólki augljóst, að Vaðlaheiðargöng eru ekki brýnasta forgangsmálið í samgöngumálum og alls ekki ef forsendurnar eru einhver hrákasmíð kjördæmapotara, sem sitja báðum megin við borðið og treysta svo ekki sínum eigin tilbúnu tölum betur en svo að þeir krefjast ríkisábyrgðar á dellumakarí sitt.

  • Hallur Heimisson

    Ef hæstvirtur Mörður Árnason alþingismaður kynnti sér þau gögn sem hann byggir ályktanir sýnar á kæmist hann fjótt að því að forsendur þær sem Vegagerðin leggur til eru byggðar á rauntölum um síðustu jarðgangagerð á Íslandi, Bolungarvíkurgöng, göng undir Almannaskarð, Fáskrúðsfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng. Öll þessi göng stóðust ætlun að undaskyldum Héðinsfjarðargöngum. Í því tilfell var um mjög sérstakar aðstæður að ræða. Að dylgja um að ekki sé allt í lagi með vinnubröggð Vegagerðarinnar er aumur málflutningur til að renna stoðum undir persónulega skoðun þingmannsins á því hvernig samfélagið skuli uppbyggt og rekið. Mörður hefur ítrekað gerst sekur um að skilja ekki um hvað þetta mál og meðferð þess fjallar, það er miður að þingmaður sem ég hafði trú á að væri réttsýnn og yfirvegaður, þó stundum sé hann sérlundaður, taki þa´í þeim vinnubröggðum sem ástunduð eru í Umhverfis og samgöngu nefnd. Rétt er að minna á a’ málið hefur fengið afgreiðslu á Alþingi, þó einhver tækniatriði standi útaf.

  • Í hverju felst svo „efnisleg og rökstudd gagnrýni“ Marðar Árnasonar á áætlanir Vegagerðarinnar og þær forsendur sem umferðarspá byggir á?
    Bara svona til að fá að sjá það frá fyrstu hendi.
    MBK
    Að norðan – þar sem góðviðrishiminn speglast í Pollinum
    Bensi

  • Mér þykir þingmaðurinn vera farinn að teygja sig ansi langt til að stöðva framkvæmdina.

  • Hvernig er orðið Krímer beygt?

    Black’s Game var víst að gera góða hluti í Rotterdam.

  • Vaðlaheiðargöng, nýr Landspítali, hækka laun bankastjóra!!!!
    Þið eruð ekki í lagi Mörður! Ekki í lagi góði

  • Þorlákur Axel

    Rökin gegn Vaðlaheiðargöngum eru að framtíðin sé óviss – þau rök hefðu dugað gegn öllum opinberum framkvæmdum frá því á 19. öld.
    Sýna smá kjark félagi Mörður – hér verður áfram fólk í vinnu og bílar sem aka um götur. Eða er nútíminn kannski bara bóla?

  • Jón Daníelsson

    Út af fyrir sig kann að mega deila um forsendur Vegagerðarinnar. Framtíðina sér enginn maður fyrir. Svo einfalt er það. Það er líka rétt hjá „Gapandiundrandi“ að talsvert brýnni þörf er fyrir jarðgöng annars staðar á landinu. Hafi nýi fjármálaráðherrann fundið gleymt seðlabúnt uppi í hillu, er auðvitað sjálfsagt mál að byrja strax að bora fyrir austan eða vestan.

    Vaðlaheiðargöng hafa þá sérstöðu að þau munu standa undir sér sjálf a.m.k. að mestu leyti. Vissulega má vera að einhver kostnaður falli á ríkið á endanum, en þegar þar að kemur verður vonandi skár ástatt fyrir ríkissjóði.

    Mér þykir beinlínis ósanngjarnt að gera þá kröfu, að menn færi á það fullkomnar sönnur fyrirfram, að göngin muni borga sig 100%. Möguleg og takmörkuð útgjöld ríkisins eftir 10, 20 eða 30 ár þarf að yfirvega í ljósi áhrifa framkvæmdanna á efnahagslífið. Í því sambandi má næstum líta á bættar samgöngur milli Eyfirðinga og Þingeyinga sem bónus.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur