Föstudagur 24.02.2012 - 09:37 - 20 ummæli

Miða betur, Salvör og Pawel

Alveg eðlilegt að stjórnlagaráðsmenn séu pirraðir á seinagangi kringum stjórnarskrárfrumvarpið á alþingi. Pawel Bartoszek skýtur hinsvegar vel yfir markið í gagnrýnispistli sínum í Fréttablaðinu í dag, og Salvör Nordal er líka á einhverri skrýtinni vegferð í hálfgerðu nöldurbréfi frá í fyrradag.

Hvað er nú að gerast í málinu? Jú, þingnefnd hefur farið vandlega yfir frumvarpið, kallað eftir umsögnum, fengið til sín gesti, rætt málið í heild og einstaka hluta þess. Næst ætlar nefndin að bera álitamál sem upp hafa komið, og breytingartillögur sem nefndin eða nefndarmenn hafa í huga, undir þá sem smíðuðu frumvarpið, nefnilega stjórnlagaráðið fá því í fyrrasumar.

Stjórnlagaráðið getur þá breytt frumvarpinu ef því sýnist svo, en svo breytt fer það í þjóðaratkvæðagreiðslu: Já eða nei. Ef tillögum um ný grundvallarlög er hafnað, nú þá er allt búið, en ef meirihluti styður málið heldur þingnefndin áfram störfum – og fjallar þá sérstaklega um nokkur álitamál sem kjósendur fá tækifæri til að lýsa til hug sínum. Þessi álitamál varða einstaka merkilega þætti stjórnarskrárinnar en ekki kjarna hennar, sem er viðfangsefnið í sjálfri atkvæðagreiðslunni.

Málið fer svo sína leið í þinginu, líklegast á næsta þingi af því við núverandi skipan verður að rjúfa þing þegar samþykktar eru breytingar á stjórnarskrá, og svo þarf fyrsta þing eftir kosningar að samþykkja það aftur óbreytt.

Salvör kvartar yfir því að ekki sé nægur tími fyrir ráðið. Rétt – og var ekki heldur í sumar leið. Á hinn bóginn eru vanir menn í verkunum, og spurningarnar frá þingnefndinni, sem sjá má í símskeytastíl á forsíðu Fréttablaðsins í dag, eiga að hafa blasað við öllum stjórnlagaráðsmönnum sem hafa fylgst með umræðu um málið innan þings og utan.

Auðvitað má ímynda sér allskonar aðra aðferð við þetta. Erfitt samt einsog Pawel vill, að þingið sé búið að mynda sér ákveðna skoðun og móta hana í breytingartillögu áður en stjórnlagaráðið er spurt. Hefði það ekki einmitt verið vanvirða við ráðið og þann lýðræðisferil sem að baki lá?

Andskotar nýrrar stjórnarskrár

Erfiðleikarnir í þessu liggja ekki í leti, heimsku eða hroka nefndarmanna í stjórnlaga- og eftirlitsnefnd alþingis, einsog mætti lesa úr pennum þeirra Pawels og Salvarar, heldur er þránd í götu nýrra stjórnlaga einkum að finna í stjórnmálaflokknum sem mesta ábyrgð ber á hruninu, Sjálfstæðisflokknum svokallaða, og að hluta til líka í nýjum og gömlum fylgiflokki hans, hinum svokallaða Framsóknarflokki. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur frá upphafi lagst gegn stjórnarskrárvinnunni og reynt við hvert einasta skref að spilla fyrir verkunum, að gera ferlið tortryggilegt, að draga í efa hæfi og umboð stjórnlagaráðsmanna, og haldið fast við að stjórnlagavinnan eigi hvergi heima nema í launhelgum alþingis í traustri umsjá lögfræðinga sem Sjálfstæðisflokkurinn velur.

Ástæðurnar eru auðvitað að þeim sárnar missir valda sem þeir töldu sjálfgefin, og svo þau íhaldsfræði að bara hin arfhelga elíta hafi rétt til að skipa grundvallarmálum í samfélaginu – en hér er auðvitað hrápólitík líka – svosem hörð andstaða við ákvæðið góða um þjóðareign auðlinda, sem stjórnlagaráðið samþykkti að lokum einum rómi.

Af hverju beina þau Salvör og Pawel ekki spjótum sínum að þessum andskota stjórnarskrármálsins heldur en að vera að skrattast í henni Valgerði?

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Haukur Kristinsson

    Líklega hafa þau bæði, Salvör og Pawel, fengið tilskipun frá Valhöll um að fara í þvermóðsku gírinn. Salvör er komin til útlanda, eins og Þóra Tómasdóttir, eftir að hafa dritað yfir Jón Baldvin og hans fjölskyldu.
    Íhaldið og hækjan hafa alltaf verið á móti stjórnarskrárvinnu.
    Status quo er mottóið hjá elítunni. Stela á daginn, grilla á kvöldin.

  • Pawel tekur skakkan pól í hæðina ef hann vill að málið fái framgang. Á Alþingi er málið pólitíkst bitbein og þar virðist enginn áhugi á að vinna saman að málinu eins og sakir standa, hvað sem ræður. Áframhaldandi vinna stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæði er leið til framhalds. Þannig fær pólitíkin spark í rassinn frá þjóðinni. Spark sem pólitíkin verður að taka tillit til.

  • Þessi „álitamál sem upp hafa komið, og breytingartillögur sem nefndin eða nefndarmenn hafa í huga“ sem þú vísar til, eru það LEYNDARMÁL?

    Eru ekki Pawel og Salvör að gagnrýna það að þau skuli kölluð til fjögurra daga fundar eftir rúma viku, til að svara „spurningum“ sem ekki hafa litið dagsins ljós og ENGAR vísbendingar birtst opinberlega hverjar geti mögulega verið?

    Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki breytingar á stjórnarskrá, rétt er það. Þess vegna er synd að fylgjast með fálmkenndum vinnubrögðum AlþingisMEIRIHLUTANS í þessu máli.

    Það er ekki alltaf hægt að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt.

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    Það er eiginlega stórmerkilegt hvað sumir þingmenn og félagar þeirra geta látið dæluna ganga gegn tillögum Stjórnlagaráðs án þess að leggja til efnislega gagnrýni, hvað þá að benda á betri lausnir.

    Við sitjum enn með bráðabirgðastjórnarskrá frá árinu 1944 sem hefur verið plástruð og misnotuð af fjórflokkakerfinu, m.a. með því að setja þar þröskuld sem hefur reynst nýjum stjórnmálaflokkum fjötur um fót.

    Það er alveg kristaltært að helmingaskiptaflokkarnir berjast gegn tillögum Stjórnlagaráðs því að þær ógna þeim sérhagsmunum og ítökum í stjórnkerfinu sem þeir sjálfir hafa tekið, sér og sínum til handa.

  • Garðar Garðarsson

    Ég vil fá að kjósa um stjórnlagafrumvarpið frá stjórnlagaráði eins og það er efnislega í dag, kannski með minniháttar lagfæringum ef á þarf að halda og þá með samþykki stjórnlagaráðs.

  • Gretar Eir

    Undarlegt mjög að „xD“ armur stjórnlagaráðs séu þau einu sem „væla og væla“ yfir að þurfa að vinna þá vinnu sem kosin voru í og treyst fyrir að vinna vinnu sína til enda ! Þau vissu vel að gætu verið kölluð til starfa aftur og aftur, hélt í raun að gætu ekki afboðað sig, enda buðu sig fram til að fylgja málinu til enda hvort sem þau „hafa tíma eða ekki“ !
    Upp með ermarnar og standið við loforð það sem athvæði ykkar treysti ykkur fyrir ! Burt með pólitík ykkar úr Stjórnlögum okkar ! (reyndar spurn hvort ekki eruð bæði tvö hafið gasprað ykkur vanhæf, og komið útúr xD siðblindu skápnum valamikla)

  • Garðar Garðarsson

    Afsakið, það átti að vera stjórnarskrárfrumvarpið sem ég vil kjósa um.

  • Grétar Thor Ólafsson

    Það er merkilegt að ríkisstjórn sem hafði vilja, getu og þor til að ýta í gegn á methraða lögum sem brutu gegn stjórnarskrá, með fullum vilja og vitund, geti ekki drattast til að fjalla um stjórnarskránna.

    Ef hún getur það ekki út af fyrirstöðu hinna svokölluðu hrunflokka, þá er þessi ríkisstjórn í raun tannlaus, bakbeinlaus og viljalaus. Nema hún sé bara að þykjast hafa áhuga á stjórnarskrárbreytingu, það er alltaf möguleiki. Hún hefur jú hingað til þóst gefa fólki forgang umfram fjármálaöflin. En braut stjórnarskránna í kappsemi sinni.

    Held að Pawel og Salvör séu minnsta vandamálið og séu í rauninni með fingurinn á vandamálinu. Sem eruð ÞIÐ! Ríkisstjórnin!

  • Bíddu eru þið ekki í Stjórn???

    Nei alveg rétt, þið stjórnið engu… Stjórnarandstaðan stjórnar þessu öllu saman.

    Ha?

    Greinilega allt jafn hopeless lið.

  • er ekki pawel bara yfir sig svekktur að það sé xD, hans eigin flokkur sem stendur í veg f. þessu, sem skýrir viðbrögðin.

  • Innilega sammála þér Mörður. Annar eins stormur í vatnsglasi hefur varla riðið yfir. Kastljósið eyddi tíma sínum í fullkomlega innihaldslaust þvæluviðtal við Salvöru Nordal og ekki nokkur leið að lesa eitthvað vitrænt út úr Fréttablaðspistli öfga hægri mannsins Pavel. Það eina sem skýrir þetta upphlaup þessarra tveggja er að þau eru svona ofboðslega hrædd eftir viðbrögð Sjálfstæðisflokksins komu fram.

  • Ekki SF - trúboði

    Þið verðið að axla ábyrgð á þessu klúðri ykkar Mörður – þetta var flopp frá upphafi en er í samræmi við annað sem kemur frá þínum flokki.

  • Þór Saari

    Ágætis úttekt Marðar á málinu. Misskilningur Pawels og Salvarar hljómar því miður „viljandi“ eins og sagt er. Það lá fyrir frá upphafi hvert ferlið yrði þegar Alþingi útvistaði gerð nýrrar stjórnarskrár. Til að tryggja þáttöku almennings og að enginn einn aðili eða hópur fólks gæti ráðið málinu á einstökum stigum þess var fyrst boðað til 1.000 manna Þjóðfundar með slembivali (sem gefur fullkomið þversnið af þjóðinni). Síðan valdi Alþinig sjö manna Stjórnlaganefnd sem skyldi taka saman gögn þjóðfundarins sem og önnur sem hafa verið unnin í stjórnarskraármálum gegnum tíðina og leggja þau fyrir þjóðkjörið Stjórnlagaráð sem 84.000 manns kusu. Tillögur þess skyldu fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu áður en Alþingi fengi þær til meðferðar til að þingið gæti stuðst við vilja þjóðarinar eins og hann birtist í þeirri akvæðagreiðslu. Þá og fyrst þá mun Alþingi taka efnilega afstöðu til frumvarpsins og einstakra þátta þess eins og því ber að gera samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og til þess mun þingið hafa heilt ár. Andstæðingar þess á þingi (Sjálfstæðisflokkur og fjórir Framsókanrmenn) eru æfir út af fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu og vilja alfarið fá að ráða málinu sjálfir og eru núna að vinna í því að Stjórnlagaráð sundrist. Tveir fulltrúar XD þar hafa nú svikið loforð um að klára málið (annar er Póllandi og hinn á leið til útlanda). Vonandi sýna hinir meiri ábyrgð.

  • Gapandiundrandi

    „Hörmulegt er að lesa grein listaskáldsins Kristjáns Hreinssonar í DV í dag. Bankinn býst nú til að bera hann út, svo að sjálftökuhyskið geti haldið öllu sínu. Hingað og ekki lengra, segi ég. Út með ruslið.

    Krafan stendur: Allar afskriftir stjórnmálastéttarinnar upp á borð. Strax. Ef Ástráður Haraldsson hrl. fékk 248 milljónir afskrifaðar, hvað fengu hinir? Engin undanbrögð. Við eigum Landsbankann. Byrjum þar.“ (Þorvaldur Gylfason, stjórnlagaráðsmaður í bloggpistli dagsins á dv.is)

    Þorvaldur er með forgangsmálin á hreinu, en fulltrúi stjórnarmeirihlutans, Mörður Árnason, framleiðir nú reykbombur í massavís, svo enginn sjái í gegnum moðreykinn.
    Þetta er það sem stjórnarmeirihlutinn á að einhenda sér í:

    – Lagasetningu um almenna skuldaleiðréttingu (20%) strax!
    – Lagasetningu um að koma auðlindum til lands, jarðar og sjávar í skilyrðislausa eign þjóðarinnar.
    – Lagasetningu um að afnema beri bankaleynd fjárglæpamanna, sem rænt hafa almenning út og suður, norður og niður.

    Hvað dvelur Orminn langa Mörður? Þú ert hluti stjórnarmeirhlutans.
    Er þér drullusama um meginmál, en kýst bara að skjóta reykbombum?

  • Gapandiundrandi

    Og ég þori að fullyrða að ekkert af þessum brýnu málum strandar á nú gildandi stjórnarskrá.

    Nú ef menn finna á því lagakróka meinbugi, þá er nóg að þingið breyti stjórnarskránni, um það sem hér skiptir öllu máli.

    Til þess nýta menn stjórnarmeirihluta, ef raunverulegur vilji er til.
    Ég spyr um gungur og druslur á þingi, hverjar eru þær? Ecce Homo!

  • Gapandiundrandi

    Vilji, dúndrandi fítonskraftur, er allt sem þarf Mörður og þú veist það alveg.
    Við spyrjum um hinn raunverulega vilja.

  • Gapandiundrandi

    Eða skal teygja lopann til vorsins 2013? Í þágu hverra?
    Sitjandi gungna á þingi?

  • Gunnar Gunnarsson

    Merkilegt Mörður Árnason að skyndilega er Salvör Nordal höfundur rannsóknarskýrslu Alþingis orðin boxpúði fyrir þig. Þið Alþingismenn færið allt niður á lægsta plan.

  • GUNNAR GUNARSSON er með þetta.

    Mörður og hinir dugleysingjarnir færa allt niður á lægsta plan.

    Ómerkileg pólitík er skýringin á því að fólkið í landinu fyrirlýtur alþingi.

    Flokkshugsun og algjör formyrkvun valdasjúkra og hæfileikalausra einstaklinga.

    Við hlökkum til næstu kosninga.

    Skríllinn fær makleg málagjöld.

  • Þegar Mörður er farinn að blogga um mál þá er það staðfesting á að málin séu farin út í pólitískt drullumall. Verst er hvað Hreyfingin er komin á bóla kaf í drullumallið. Eða Kannski ekki? miða við skoðannakannanir þá virðist þjóðin ekki hafa nokkurt einasta álit á Hreyfingunni, sem telja sig vera sérskipaða talsmenn þjóðarinnar en eru bara dinglandi strengjabrúður Jóhönnu og Steingríms. Svipaða sögu stefnir nú í með stjórnlagaráð sem veit ekkert hvað það á að gera þessa fóra daga nema að dingla í einhverjum spottum eftir óljósum álitum og beiðni stjórnvalda. jú til þess eins að fá að vera við völd bara aðeins lengur….

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur