Sunnudagur 26.02.2012 - 09:23 - 30 ummæli

Endurtekið eldsneytisefni

Athyglisvert frumvarp hjá Tryggva Þór Herbertssyni um verð á bensíni og olíu. Frábært ef það væri hægt að hafa Tryggva Þór bara á vaktinni að fylgjast með verðsveiflum á mörkuðunum og segja fyrir um hækkun og lækkun á allskyns vöru sem almenningur og fyrirtæki á Íslandi þurfa að kaupa. Þegar hann sér fyrir tímabundna hækkun lætur hann okkur vita, og við lækkum á vörunni allskyns skatta og gjöld, en hækkum aftur á móti þegar Tryggvi Þór telur að alþjóðamarkaðir séu að lækka verð að ósekju.

Tillagan um eldsneytislækkun 1. apríl fram að áramótum frá þeim Tryggva Þór, Árna Johnsen og fleiri Sjálfstæðisflokksmönnum á alþingi hefur að vísu ákveðna galla. Í fyrsta lagi kostar það ríkissjóð talsvert fé sem ekki er til, um það bil 13 milljarða er mér sagt, vægilega áætlað. Þessi upphæð mundi þá bætast við hallann á ríkissjóði, minnka bolmagn til að greiða niður skuldir (hrunið, muniði!) og þessvegna auka vaxtareikninginn á okkur sjálf og börnin okkar næstu ár og áratugi, = hærri skattar.

Svo er líka ákveðinn galli að ekki er hægt að treysta því alveg 100 prósent að bensín og dísilolía lækki aftur 1. janúar 2103. Tryggvi Þór segir okkur að vísu að verðhækkunin undanfarið sé bara tímabundin. Hún stafi annarsvegar af óróa í Arabíu og hinsvegar af óvenjulegum vetrarkuldum á meginlandi Evrópu. Og auðvitað er langlíklegast að þetta verði allt búið um næstu áramót. Einsog dæmin sanna:

Endurvinnsla góðra þingmála

Þessi sami Tryggvi Þór flutti á sama tíma í fyrra frumvarp sem var næstum alveg eins. Þá vildi hann líka lækka eldsneytisverð, frá 1. apríl til 31. desember 2011, með skattalækkun af því að hækkunin á mörkuðum væri tímabundin. Þá voru líka alveg sérstakar ástæður fyrir verðhækkun á bensíni og olíu á heimsmarkaði. Nefnilega ,,frelsisaldan sem nú fer um Norður-Afríku og Arabíuskagann“ sem hafði leitt til mikillar óvissu um þróun eldsneytisverðs í heiminum, en ekki síður ,,jarðskjálftinn mikli í Japan og kjarnorkuslysið sem varð í kjölfarið í Fukushima-kjarnorkuverinu“ sem leiddi — tímabundið sumsé — til ,,vantrúar á kjarnorku sem aftur eykur eftirspurn eftir öðrum orkugjöfum“.

Og auðvitað muna allir eftir bensín- og olíulækkuninni miklu þegar þessum tímabundnu vandræðum í Arabalöndunum og Japan lauk hinn 1. janúar 2012.

Enda hafði séð hana fyrir sjálfur Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og enn áður bankastjóri stórfyrirtækisins Öskurkapítals.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Sverrir Hjaltason

    Það er ákveðin forstokkun hjá sumum sem telja sig jafnaðarmenn að ljá ekki máls á skattalækkunum í eldsneytisverði. Slík skattalækkun kemur tekjulægri hópum til góða. Eldsneytisverð skiptir þá tekjuhærri miklu minna máli. Á móti mætti hækka tekjuskatt. Þannig lenti þunginn á tekjuhærri einstaklingum og fyrirtækjum.

  • Mörður Árnason

    Takk Sverrir — fyrir alvöruframlag til umræðu um þetta. Hugsanlegt væri auðvitað að reyna að jafna byrðarnar af þessum bensínhækkunum eitthvað til skamms tíma. Tillögur sem menn hafa fyrr og síðar sett fram um það eru þó engar mjög vænlegar — og eina ráðið til lengdar að verða óháðari jarðefniseldsneyti, bæði vegna fyrirsjáanlegrar stöðugrar hækkunar næstu ár og áratugi — og svo auðvitað vegna loftslagsvárinnar.

    Um tekjumissi ríkissjóðs og ráðstafanir hans vegna er ekki eitt orð í frumvörpunum frá Sjálfstæðisflokknum, hvorki 2012 né 2011.

  • Hvað þarft þú Mörður að borga mikið í eldsneitiskostnað á ári til að komast í og úr vinnu ? Ég held að þú þurfir ekki að borga krónu.Á mínu heimili þurfum við að borga 300.000 kr á ári í eldsneiti bara til að komast í og úr vinnu og erum við ekki með jafn há laun og þingmaður.Hefur ykkur sem stjórnið ekki dottið í hug að ef þið minkið álögur á eldsneiti fara fleiri bílar á stað og fólk keyrir meira getur jafnvel farið sunnudags rúnt sem margir geta ekki í dag og þá fær ríkið meira í kassann?Nei Mörður ég held að þú og fleiri sem geta gengið í vinnuna ættuð ekki að vera að sýna fólki sem þarf að eyða tvennum til þrennum mánaðar launum í eldsneiti bara til að komast í vinnu HROKA.

  • Hrafn Arnarson

    Það er merkilegt hvað TÞH verður starsýnt á þann hluta bensínsverðs sem rennur til ríkisins. Aðalatriði málsins er að innkaupsverð hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2008. Olíuframleiðendur hækka verðið og krónan veikist með þessum afleiðingum. Fyrir örfáum árum var það fréttaefni að álagning olíufélaga hér á landi væri tvöfalt hærri en í Svíþjóð. Eðlilega var Fíb ekki sátt við það. Olíumarkaðurinn er fákeppnismarkaður með takmarkaða samkeppni.Fyrirtæki á slíkum markaði fá óeðlilega mikinn hagnað á kostnað neytenda. það er afar erfitt að koamst inná þennan markað og sumum beinlínis bolað í burtu. Samráð olíufélaganna var stórt mál og óþarfi að rifja það upp hér. Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað gert tillögur um að auka samkeppni á þessum markaði neytendum til hagsbóta. Hvernig væri að XD liti í þessa átt í leit að hugmyndum. Nú skulum við segja að 13 milljarða tekjutap sé rétt mat. Hvað vilja xD þá gera? Skera niður í útgjöldum rikisins, leggja á aðra skatta eða að ríki tæki lán til að bæta tekjutapið? Nú skiptir verðteygni hagfræðinnar máli. Ef hlutfallslegar álögur eru lækkaðar getur verið að skatttekjur vaxi vegna aukinnar neyslu. Mjög há hluföll skila minnu en lág hlutföll á stundum. Þetta ber að sjálfsögðu að skoða vandlega. Mjög hátt bensínverð leiðir til keðjuverkunar; minnkandi umferð-minnkandi skatttekjur-hækkandi verð ávörum sem neytandi borgar endanlega.

  • Haukur Kristinsson

    Það er ekki aðeins svo að Sjallarnir kunni ekki að skammast sín, þeir eru upp til hópa kjánar. Hverjir stóðu að samráði olíufélaganna, voru það ekki gallharðir Sjallar, jafnvel úr náhirðinni? Ég man ekki hvað höfuðpaurinn hét, en hann var víst giftur dómsmálaráðherranum, sem vissi samt ekkert í sinn haus, eða þóttirst ekkert vita. Hvar er sá ílla fengni gróði? Hvað er braskið í N1 búið að kosta þjóðina? Hvernig væri að klíkan í kringun fyrirtækið færi að borga milljarjarðana til baka og það í ríkiskassann. Populismi Kúlulána-Tryggva og þjófsins frá Vestmannaeyjum er með ólíkindum. Væri ekki hægt að láta þá gera eitthvað til gagns í torfkofanum í Skalholti?

  • Tryggvi Þór er bæði óheiðarlegur maður og lýðskrumari hinn versti.

    Auk þess er hann fúskari í hagfræði.

  • Þegar samfylkingin tók við fjármálaráðuneytinu gladdist ég, ég hugsaði að nú yrði einhvað gert fyrir okkur almenning loksins þegar Skattgrímur væri farin. En nei, Oddný svarar með útúrsnúning að ríkið sé að taka hlutfallslega minna af hverjum bensínlítra en áður fyrr. Það skiptir bara engu máli!! Ríkið hirðir 120 kr núna þegar lítrinn kostar 255 en hirti 60kr þegar lítrinn var á 100kr. Ríkið er að hirða 100% meira en það gerði fyrir nokkrum árum.
    Þið eruð að gera okkur að föngum inn á okkar eigin heimilum. Við höfum ekki efni á því að fara út úr húsi lengur. Maður keyrir sig í og úr vinnu og ekkert meir! Allt sem hét að fara helgi upp í bústað eða skreppa út á land í frí heyrir sögunni til. Hef ekki efni á því.

    Þessi lækkun sem Sjálfstæðisflokkurinn mælir til kostar ekki 13 miljarða.
    Lækkun á bensínverði mun skila sér margfalt til baka, vöruverð mun lækka og atvinnulífið fer af stað. Tekjurnar koma annarstaðar inn.
    Þegar bensínið hækkar þá hækkar allt, neysla minkar og atvinnuleysi eykst. Það er liðin tíð að hægt sé að ofurskatta bensínið svona mikið.
    Einnig er þessi tugga um að við þurfum að fara að horfa á aðra orkugjafa orðin frekar þreytt.
    Við erum ekki að fara að skipta um orkugjafa á einni nóttu, Það er langtíma áætlun. Við erum algjörlega háð því hvað er að gerast erlendis í þeim málum.
    Ég skora á þig Mörður og fleiri að samþykkja tillögu Sjálfstæðisflokksins. Þið mynduð valda mikilli gleði í þjóðfélaginu. Þið mynduð kveikja vonir hjá fólki. Þið mynduð skapa ykkur vinsælda og fólk yrði loksins ánægt með einhvað sem þessi ríkisstjórn gerði.

  • Ég bý á Siglufirði og vinn á Akureyri, staðan hjá mér er orðin þannig að það borgar sig fyrir mig að vera heima á atvinnuleysisbótum, kostnaðurinn við að keyra í vinnuna er orðin það hár að ég kem út í tapi á því að vera að vinna.
    Það er alveg komin tími til að stjórnmálamenn hugsi aðeins út fyrir 101 Reykjavík.

    Hvaða jafnaðarstefna er það að einungis þeir ríku geti leyft sér að hreyfa bílinn?

  • Ómar Harðarson

    Miðað við 225 vinnudaga á ári, 250 kr. eldsneytiskostnað og eyðslu upp á 8 l pr 100, þá þurfa MARTEINN og hans heimilismenn að keyra samanlagt um 67 km á dag til að fara í og úr vinnu.

    Fyrir MARTEIN væri því nærtækara að:
    a. slá saman ferðum. Konan og sonurinn (ég veit reyndar ekkert um fjölskylduhagi MARTEINS – þetta er bara gisk) gætu fengið far hjá pabba í vinnuna (gæti sparað um allt að 200 þús. á ári).
    b. flytja nær vinnustað (gæti sparað allt að 3 milljónum á næstu 10 árum – og líklega meira ef spár TÞH um lækkandi eldsneytisverð í framtíðinni ganga ekki eftir – eins trúlegt og það kann að hljóma [kaldhæðni] – fyrir utan það að lífið myndi lengjast og heilsan batna með því einu að ganga í vinnuna), eða
    c. nota almenningsfarartæki.

    Slík nærtæk ráð myndu draga verulega úr eldsneytiskostnaði Marteins strax. Líkurnar á að tillaga Tryggva Þórs verði samþykkt á næstunni eru hinsvegar afar litlar. Líkurnar á því að Tryggvi Þór leggi fram slíka tillögu eftir að Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn eru líka fremur litlar.

  • Mörður Árnason

    Kiddi — Bara lækka bensín og þá rennur upp paradís á íslandi? Kannski. En höfum staðreyndirnar á hreinu: Skattar á bensín og dísil eru þrennskonar; vörugjöld, kolefnisgjald og virðisaukaskattur. Tveir þeir fyrrnefndu eru í krónum, en vsk. í prósentum. Þegar heimsmarkaðsverð á bensíni hækkar fær ríkið ekkert meira í sinn hlut af fyrrnefndu sköttunum, en auðvitað meira úr vsk. (sem það fengi e.t.v. ,hvort eð er’ því líklega eykst heildarneysla bensínkaupandans ekki við þessar verðbreytingar).

    — Já, í þessum fræðum er reiknað með að lægra bensínverð muni leiða til aukinnar bensínsölu, og öfugt (kallað verðteygni á fagmálinu). Þar er auðvitað hægt að spá og spekúlera, en gagnvart ríkissjóði vinnur þetta engan veginn upp á móti tapinu. Þeir sem styðja tillögu Tryggva þurfa þessvegna að svara þvi hvað á að gera við 13 milljarðana. Sverrir hér að ofan vill til dæmis borga þá með hærri tekjuskatti … Ég er ekki sannfærður.

    Og þannig að það sé alveg á hreinu: Tryggvi Þór sjálfur svarar engu um þetta né flokksfélagar hans á þinginu. Enda er þessi tillöguflutningur bara billegur popúlismi.

  • Vá Ómar Harðarson er ekki allt í lagi hjá þér.Staðan hjá mér er eins og ég lýsti henni og ÞÚ breytir henni svo sannarlega ekki.Þessi ráð sem þú bentir á eru ekki í boði.

  • Þetta segir allt sem segja þarf !!!! Frábær grein hjá Balvin Nielsen.
    Ef fiskvinnslukona í Danmörku sem er með 2860 íslenskar krónur fyrir unnin dagvinnutíma gerði 495.724 íslenskar á mánuði án orlofs sem er 12% ynni hún 173.33 tíma. Fiskvinnslukonan í Danmörku er með 78.650 íslenskar krónur í persónuafslátt á mánuði og hún borgar 41% í skatt. Eftir þessa útreikninga má sjá að sú danska hefur til ráðstöfunar 314.727 íslenskar krónur á mánuði sem dæmi gerir henni kleift að kaupa 1.175 lítra af 95 okt bensín á mánuði en líterinn er í dag 268 íslenskar krónur í Danmörku.

    Ef fiskvinnslukona á Íslandi sem er með 1100 íslenskar krónur fyrir unnin dagvinnutíma gerði það 190.663 Íslenskar krónur á mánuði án orlofs sem er 10.17 % ynni hún 173,33 tíma. Fiskvinnslukonan á Íslandi er með 44. 405 krónur í persónuafslátt á mánuði og hún borgar 37,31% í skatt. Eftir þessa útreikninga má sjá að sú íslenska hefur til ráðstöfunnar 136.096 íslenskar krónur á mánuði ,sem dæmi gerir henni kleift að kaupa 584 lítra af 95 okt bensíni á mánuði , en líterinn í dag á Íslandi er 253 íslenskar krónur.

    Þetta litla dæmi hér fyrir ofan sýnir að fiskvinnslukonan sem heyrir undir dönsku drottninguna í dag, fær 1.175 lítra af 95 okt. bensíni fyrir mánaðarvinnu sína meðan fiskvinnslukonan hér á Fróni sem heyrir undir Fjórflokkinn fær 584 lítra fyrir sitt erfiði.

    Það hefði mátt bæta við í þessum útreikningum hjá mér,að þrátt fyrir að kaupmátturinn hjá dönsku fiskvinnslukonunni sé tvöfallt meiri en hjá þeirri íslensku, eins sjá má í dæminu í athugasemdinni hér ofar frá mér með bensínið, þá borgar sú danska í skatta til velferðarsamfélagsins síns, 124,596 reiknað i íslenskum krónum af sínum mánaðralaunum, meðan meðan mánaðarlaun þeirrar íslensku leyfa alls ekki að hún greiði meira en 26.731 íslenskar af sínum lágu launum.
    Er eitthvað skrítið þó að danska velferðakerfið bjóði fríar tannviðgerðir og tannréttingar fyrir börn og barnvænar barnabætur til 18 ára aldurs sem ekki eru tekjutengdar svo tekið sé pínulítil dæmi???? Vegna þessara staðreynda, vekur það furðu mína að íslensk stjórnvöld skulli þora að bera okkur saman við Norðurlöndin þegar kemur að velferðarmálum fólksins. Skyldi það vera vegna þess, að fjölmiðlar spila með stjórnvöldum þannig að réttar upplýsingar um þennan stóra launa-og velferðamun á milli landanna birtist aldrei fyrir framan alþjóð???

  • Jón V.V
    þeir þora að bera okkur saman við aðra því fáir nenna að rökræða við tómar tunnur.

  • Þið sem kvartið hérna sem mest yfir bensínverði, afhverju hjólið þið ekki bara í vinnuna? Þið hefðuð líka gott af útivistinni sem fylgir. Maður verður miklu jákvæðari og betri maður af að fá reglulega súrefni í lungun, smá bruna í lappirnar og regnúða í andlitið… 😉

  • Sigurður Pálsson

    Bara að minna Mörð á að ríkið hefur hækkað um seinustu tvö áramót vörugjald og kolefnisgjald á eldsneyti. Einnig er vert að minna Mörð á að Jóhanna Sigurðardóttir lagði til árið 2005 þá í stjórnarandstöðu að ríkið lækkaði tímabundið álögur á eldsneyti en álög nú eru mun þyngri en árið 2005.

  • Ekki gleyma að Jóhanna Sigurðardóttir ( Týndi ráðherrann ) lagði líka til þá í stjórnarandstöðu að afnema verðtrygginguna.

  • Ægir Sævarsson

    Um að gera að skoða þetta myndband hér frá Chris Martenson um orkumál og olíunotkun sem og líkur þess að olíuverð fari lækkandi á næstu árum. Sama hvað mönnum finnst þá setur hann hér fram ansi flott argument fyrir því að olíuverð sé ekkert á leiðinni niður….ever again!

  • Þannig að ef að olíufélögin sem hér stunda enga samkeppni bara samráð, myndu á morgun hækka ltr í 350 kr eða 450 kr…….yrðu þeir peningar þá ekki til ????? hvaða hagfræði er eiginlega á bak við það að það sé ekki hægt að lækka álögur ? steindauð ríkisstjórn undir hælnum á viðskiptalífinu og elítunni og þorir ekkert að gera……burtu með svona ónytjunga.

  • Þetta snýst ekkert um bensínverð.

    Þetta snýst um þrá forræðishyggjufólks til að stjórna lífi almennings.

    Mannkynsfrelsarar eins og Mörður hatast við „einkabílinn.“

    Því er tækifærið notað þegar olían hækkar að gera fólki ókleift að reka bíl.

    Sama gildir um brennivínið.

    Þetta lið vill líka stjórna lífi fólk að því leyti.

    Við fögnum því að brátt verður þessu liði skolað burt.

  • Alma Jenný Guðmundsdóttir

    Hvernig í veröldinni er alltaf hægt að plata okkur ! Hvað græðum við á því að fella niður tekjur í ríkissjóð ?????? Ef ríkið lækkar gjöld sín – munu olíufélögin fá gott borð fyrir báru með hækkanir inn í framtíðina. Hvað munu þau leggja af mörkum ? Hver greiðir niðurfærslu ríkisins ?? Eru það ekki skattborgarar ?
    Ætla skattborgarar að taka á sig niðurgreiðslu á olíu til útgerðarinnar ?? Nú þegar fá þeir auðlinda frítt !

    Við tökum inn mikla skatta af bensín- og olíukostnaði erlendra ferðamanna – höldum því áfram. Arðsemi ríkisins – okkar allra af ferðaþjónustunni má alveg hækka !!

  • Einar Þór Strand

    Sæll Mörður

    Eldsneytistgjaldið leggst þyngst á þá sem búa á landsbyggðinni því það er alltaf verið að færa þjónustuna lengar frá þeim vegna bættra samgangna og ekki má gleyma því að uppsveiflan komst varla í gegnum hvalfjarðargöngin eða yfir hellis og mosfellsheiðar.

    Svona bara svo þú vitir það þá er farið að heyrast meira og meira á landsbyggðinni hjá fólki sem ekki er múlbundið flokkunum að kannski sé best að kjósa um það með næstu kosningum að segja skilið við Reykjavík og kragann. Koma hér á þingi þar sem menn setja ekki lög með allt niður í þriðjung þingmanna bakvið lögin, og við losnum við ykkur þessa atvinnupólitíkusa sem eruð að leggja landið í auðn.

    Og ein spurning í lokin hvernig hefur þú (og aðrir þingmenn allra flokka) samvisku að taka við launum frá þjóðinni, fólkinu sem þið eruð að gera allt til að drepa?

  • Hannes I. Hallgrímsson

    Alltaf sami hrokinn í ykkur vinstrimönnum.

    Hroki stendur til falls og fallið verður hátt og þungbært.

    Fólkið í landinu er búið að ákveða að þið verði atvinnulaus eftir kosningar og að þið munuð aldrei verma bekkina í Brussel.

    Þið sem búið miðsvæðis í Reykjavík finnst það bara fínt á það sem þið kallið úthverfapakkið að það fái að blæða meira fyrir benzínið.
    Í ykkar augum er þetta bara pakk sem kýst hvort eð er Sjálfstæðisflokkinn svo ykkur finnst þetta bara mátulegt á það.

    En það sem það kallað úthverfapakk er bara ekkert úthverfapakk heldur bróðurparturinn af þjóðinni.

    Þetta er fólkið sem borgar ykkur laun fyrir að vara í valdarúnki á Alþingi.

    Þetta er fólkið sem mun gera ykkur atvinnulaust eftir næstu kosningar svo það er skiljanlegt að þið viljið draga það í lengstu lög að fólkið í landinu, þjóðin eins og þið vinstrahyskið er svo tamt að nota, fái að kjósa og segja álit sitt.

    Í næstu kosningum munið þið vinstrahyskið fá svo sannarlega á kjaftinn frá þjóðinni vegna þvergirðingslegrar afstöðu ykkur til þessar mála og þið munið verða flengd fyrir mótþróa ykkar fyrir því að lækka álögur á benzín.

    Hvernig væri að þið mynduð nú vitkast eitthvað leggja til að fólk megi draga ferðakostnað til og frá vinnu?

    En vegna þess að þið eruð ekki skynsöm, dettur ykkur ekki í hug að koma með þessa tillögu.

    Sagan hefur alltaf sýnt að hlutskipti skattheimtumanna hefur alltaf verið snautlegt og endalok þeirra dapurleg.

    Það sama á eftir að henda ykkur vinstrapakkið.

    Þú og þínir líkar í vinstrahyskinu ert hér með búinn að stimpla þig inn í hóp atvinnulausra von bráðar vegna þvergirðingslegra afstöðu ykkar til fólksins í landinu.

  • Hannes I. Hallgrímsson

    Góð hugmynd hjá Einari Þór Strand.

    Best væri að landið segði skilið við Reykjavík og stofnaði nýtt lýðveldi sem næði frá Suðurnesjum austur og norður fyrir land.

    Slíkt landi yrði ákaflega ríkt af auðlindum, hvort sem eru fiskimið, vatnsorka og svo náttúrlega olíulindir n/a af landinu.

  • Alveg sammála Hannes og Einari. Það á að skipta landinu í tvennt, stofna annað lýðveldi. Það eru fordæmi fyrir því í heiminum að eyjum sé skipt upp í 2 ríki. t.d. eyjan Hispaniola þar sem annar hlutinn tilheyrir Dómitíska lýðveldinu og hinn tilheyrir Haiti.
    Ef við lítum á nágranna okkar Írland, þá tilheyrir Norður hlutin Bretlandi en sá syðri er sjálfstæður, svo má líka nefna Kýpur.
    Nú vilja skotar slíta sig úr úr Bretlandi og þar með kljúfa þá eyju í tvennt. Afhverju getum við það ekki líka! Það á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að skipta landinu í tvennt eins og Skotar ætla að gera. Þá gætum við landsbyggðin loksins farið að lifa mansæmandi lífi, rotturnar á alþingi hugsa ekkert út fyrir Reykjavík.
    Stofnum nýtt Ísland!

  • Jóhann Pétur Pétursson

    Sæll og blessaður Mörður.

    Það má vel til sanns vegar færa að peningarnir til þess að lækka eldsneyti eru ekki til. En peningarnir til þess að borga fyrir síhækkandi eldsneytið, vörurnar sem að hækka vegna opinbera gjald og lánin sem að hækka af sömu ástæðu eru bara ekki til heldur. Það hefur vafalaust verið sagt við þig allt frá því að þessi ólukku ríkisstjórn komst til valda, þú getur ekki skattlagt þig út úr kreppu. Það mun alltaf á endanum skila sér í hækkandi sköttum en minnkandi tekjum.

  • Hvernig væri að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort lækka eigi bensínið niður í 200kr?
    Leyfum þjóðinni að ráða þessu !
    Eða setja það í þjóðaratkvæða greiðslu hvort ríkisstjórnin eigi að víkja! Þið eruð farin að haga ykkur eins og einræðisherrar sem hugsið eingöngu um að koma ykkar áhugamálum og gæluverkefnum í gegn. Allt sem kemur að því að gera einhvað fyrir fólkið í landinu eins og lækka bensínið er ekki til í ykkar orðabók.
    Stjórnmálamenn eiga að gera það sem þjóðin vill og er þjóðinni fyrir bestu en það er ekki gert með því að hafa bensínið svona dýrt. Þjóðin vill ekki borga svona mikið fyrir bensínið, reynið að skilja það!

    Ég er við það að gefast upp á að búa á þessari eyju, nenni ekki þessu endalausa rugli. Allt svo dýrt og svo á að gera mann farlama líka!
    Ég er farin héðan, búin að fá upp í kok á þessu.

  • Hvað er Ísland með mörg sendiráð eru þau ekki á milli 15 og 20 ?Mætti ekki ná í nokkra milljarða þar?Við höfum enga þörf á svona mörgum sendiráðum.

  • Mörður:
    Það kostar ekki þessa milljarða að lækka bensínið. Það kostar ykkur ekki neitt. Þú ert að gera ráð fyrir tekjutapi upp að þessum milljörðum í óinnheimt gjöld. Þið eruð að fara að tapa þessum peningum hvort sem er því fólk mun kaupa minna bensín og neysla mun minka.
    Ef þið viljið meira í kassann þá eigið þið aðlækka bensínið. Þessir peningar munu skila sér í því að það mun verða keypt meira af bensíni og annarri þjónustu í landinu. Þetta mun líka skila sér í minna atvinnuleysi og meiri einkaneyslu.
    Það eiga ekki bara að vera þeir ríku sem eiga að hafa efni á því að keyra bíl, er það stefna ykkar jafnaðarmanna?

  • Hvað er kolefnisgjald? Hvers vegna er kolefnisgjald á eldsneyti sem menn kaupa á bílana sína?

  • Hafþór Örn

    „Ef þið viljið meira í kassann þá eigið þið aðlækka bensínið. Þessir peningar munu skila sér í því að það mun verða keypt meira af bensíni og annarri þjónustu í landinu.“

    Meiri neysla á eldsneyti myndi þýða meira útstreymi á gjaldeyri, þetta myndi væntanlega veikja krónuna enn frekar. Það myndi svo aftur þýða að eldsneyti myndi hækka, sem og ýmsar nauðsynlegar vörur (matur, föt…)

    Horfið nú á heildar myndina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur