Laugardagur 07.04.2012 - 20:27 - Rita ummæli

Að vera í jafnvægi

Ég hef nú komist að því að það allra mikilvægasta við sérhvert verk er að ná jafnvæginu.

Kannski fyrir utan að vilja. HKL: Fyrst er að vilja; afgangurinn er tækni.

Fyrir utan viljann þarf til dæmis verulega tækni til að hjóla á reiðhjóli, og er ekki endilega einfalt mál fyrir fólk sem er börn og hefur aldrei hjólað. Stuðningssonurinn var ekki búinn að tileinka sér þessa tækni þegar hann varð sjö ára í haust leið en fékk samt flott hjól í afmælisgjöf. Þegar tæknin kom ekki strax var hjólið fína sett út í horn og sniðgengið undir ýmsu yfirskini – svosem því að gamla hlaupahjólið dygði vel, og það væri alltaf svo vont veður …

Svo kom að því að stuðningsfaðirinn fór að koma í heimsókn að halda hjólreiðatækninámskeið. Hélt í stýrið og hljóp með hjólreiðamanninn í hnakknum, sem var talsverð áreynsla því hlaupamaðurinn varð að hlaupa skakkur, en fátt annað bar til tíðinda á þessum ferðum nema gríðarleg skelfing þegar sá eldri reyndi að sleppa takinu. Þá var prófuð sú aðferð að halda um bakið á hjólreiðanemanum og hlaupa á eftir honum, og við reyndum að telja okkur trú um að þetta væri alveg að koma. Vissulega tókst að knýja hjólið áfram með pedulunum en ekki dugði að sleppa takinu. Nemandinn hjólaði og hjólaði, og kennarinn hljóp og hljóp, en fátt gerðist annað, og báðar persónur í ævintýrinu urðu þeirri stundu fegnastar að komast út í sjoppu að fá ís með dýfu og sælgætisbitum.

Ekkert gekk, og vandi á ferðum. Ég spurði svo Morten Lange hvað ætti að taka til bragðs – hann veit allt um reiðhjól og var lengi formaður Landssamtaka hjólreiðamanna – og leitaði svo á netinu að nákvæmri útfærslu á heilræðum Mortens – og niðurstaðan var þessi:

Hjólreiðar eru mörg tækniatriði í senn, en grundvallarmálið er að hjólin tvö haldi hjólreiðamanninum uppréttum á ferð. Til þess þarf þetta:

1. Takið pedalana af hjólinu. Farið með nemandann í brekku eða svolítinn slakka. Látið hann renna sér niður og halda jafnvægi með fótunum útréttum. Tíu til tuttugu sinnum.

2. Setjið pedalana á. Látið nemandann renna sér með annan fótinn á pedala.

3. Báða fætur á pedulum, og hjóla með þeim þegar hjólið er komið á jafnsléttu.

Og þetta var reynt um helgina í sleðabrekkunni uppi á Klambratúni. Renniferðirnar tókust strax meistaralega vel – og hrópað júhú með báða vísifingur upp í loft. Hundrað prósent árangur líka í pedalapartinum niður brekkuna og út á túnið á hjólinu. Svo var farið í heldur minni slakka, og nemandinn hjólaði alsæll langar leiðir þegar var búið að ýta honum af stað. Stórkostlegt. Stoltur stuðningsfaðir.

Það er ekki alveg allt búið – ennþá er talsvert puð og pirringur að spyrna sér af stað á jafnsléttu og komast með fæturna upp á pedala áður en hjólið missir ferð. En þetta er líka alveg að koma.

Af því núna er það allra mikilvægasta í lagi: Að ná jafnvæginu.

Júhú!

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur