Föstudagur 13.04.2012 - 09:23 - 7 ummæli

Annar fundur í næstu viku

Þótt deila megi um hvort bréf dómsforseta Efta-dómstólsins til utanríkisráðherra um aðildarstefnu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins inn í Icesavemálið teljist „meiri háttar utanríkismál“ í skilningi 24. greinar þingskapa um samráð ríkisstjórnar og utanríkismálanefndar alþingis – þá áttu utanríkisráðherrann og samninganefndin að kveikja á perunni strax og þetta bréf barst um mánaðamótin og láta nefndina vita. Punktur basta.

Í dag, föstudag, er þetta orðin niðurstaðan í Stóra Þjóðernis- og Fullveldismálinu frá í gær, fimmtudag. Í gær gafst aldeilis tækifæri til að sýna hetjulundina og berjast fyrir Ísland. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins krafðist þess að ESB-viðræðunum yrði slegið strax á frest. Ragnheiður Elín Árnadóttir – sem samþykkti Icesavesamninga III á þingi sællar minningar – gekk feti framar og sagði viðræðunum sjálfhætt. Fleiri frjálsræðishetjur bættust svo í hópinn þegar leið á daginn. Allt vegna hins arga dónaskapar framkvæmdastjórnarinnar að notfæra sér skýran rétt til svokallaðrar meðalgöngu, sem meðal annars felst í því að íslenska samninganefndin getur svarað röksemdum framkvæmdastjórnarinnar skriflega.

Á fundum utanríkismálanefndar var að vísu komið fram fyrir löngu að þetta væri langlíklegasta atburðarásin, og á ýmsan hátt heppilegra fyrir okkur en hefðbundin þátttaka framkvæmdastjórnarinnar í málum fyrir dómstólnum.

Á fundinn í gær kom svo utanríkisráðherrann og samninganefndin í heilu lagi (nema Tim Ward sem mætti um daginn), en um skipan samninganefndarinnar var einsog menn muna haft sésrtakt samráð milli allra flokka. Rætt var um reglur EFTA-dómstólsins, um mikilvægi Icesave-málsins í alþjóðasamhengi, hugsanleg skilaboð framkvæmdastjórnarinnar með aðildarstefnunni, ekki síst til eigin ríkja, um skynsamlegt hátterni fyrir dómstólum, um lagatæknileg atriði í málsvörninni af íslenskri hálfu, um það hvort málarekstur lögmanna eða skjólstæðinga þeirra í fjölmiðlum hjálpaði til við að sannfæra dómara í réttarhöldum, og ekki síst um afstöðu aðalsamningamanns Íslendinga til nýjustu tíðinda.

Í gær: Þrumur og eldingar, rétta úr hnjánum og standa í lappirnar, Íslandi allt!

Í dag, eftir spjallið við samninganefndina: Leiðinlegt að hafa ekki getað spekúlerað meira í þessu um páskana. Endilega annan fund í næstu viku.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ómar Kristjánsson

    Spaugilegt. Eitthvað spaugilegt við útbelgdann þjóðrembing.

    þar fyrir utan er eins og þeir sem töluðu mest fyrir dómsmáli telji nú orðið lagalega stöðu veika.

    Upplegg íslands frá byrjun var og er að samkv. Evrópulögum þurfi ríkið ekkert að sjá svo til um að innstæðutryggingar virki. það sé bara val hvers ríkis hvort svo sé. Ennfremur að ekki sé mismunun í að setja útibú erlendis hjá garði.

    Héldu menn kannski að svona framsetning og upplegg væri bara einkamál einhverja orðhengilsspekinga hér uppi í fásinninu og þeir hefðu sjálfdæmi um hvernig þeir hefðu þetta?

    Orðið svo þreytt lýðskrum í kringum þetta. Hinsvegar er náttúrulega áhugavert hvort margir munu núna falla fyrir lýðskruminu og hvort hægt sé endalaust að halda áfram með nefndu skrumi.

  • Gunnar Gunnarsson

    Þið ættuð að kynna ykkur afhverju kratar á Evrópuþinginu eru að rífa hár sitt yfir innistæðutryggingakerfi sem enginn fær til að ganga upp. Það er ekkert lýðskrum. Evrópuþingið hefur ekki enn fundið lausnina hvað þá framkvæmdastjórnin.

  • Ómar Kristjánsson

    það gengur ekki verr upp en það – að það hefur alltaf, always, altid, gengið upp.

    það eru engin, no, ingen dæmi um að það hafi ekki gengið upp.

  • Halldór Halldórsson

    Er Mörður búinn að svara ásökunum um að vitna til málflutnings á nefndarfundi sem trúnaður átti að ríkja um? Eða á slíkur trúnaður bara að gilda um þá sem eru ekki í stjórnarliðinu?

  • Ómar Kristjánsson

    Eg man eigi eftir að hafa sé þessi rök í lagalegu uppleggi ísands til ESA. Samt hef eg lesið uppleggið vel. Ja, það er kannski hægt að koma þessu breikíng atriði að í mótsvörum við sjónarmiðum EU Commission. það má alveg hugsa sér það.

  • Það verður að skoða Icesave-málið í ljósi þess hve Íslendingar eru ölmusu- og styrkjasjúkir. Þjóðinni virðist eðlilegt að koma sér hjá að standa við skuldbindingar sínar og henni finnst að hún eigi njóta sérstakrar fyrirgreiðslu. Íslendingar sóttu styrki í þróunnarsjóð Sameinuðu þjóðanna, sem ætlaður var fyrir vanþróuð ríki, alveg fram á áttunda áratug síðustu aldar, en þá hafði þjóðin verið meðal ríkustu þjóða heims um nokkurt skeið. Sums staðar á Vesturlöndum var farið að spyrja hvers vegna Íslendingar, þessi efnaða þjóð, væru að bítast við bláfátæk ríki um takmarkaða fjármuni.
    Þeir sem ekki vildu að Íslendingar stæðu við Icesave III og heimtuð og fengu dómstólaleiðina ættu að sjá „sóma“ sinn í því að hætta þessu andsk… væli.

  • Ómar Harðarson

    Samninganefndin???

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur