Miðvikudagur 25.04.2012 - 05:52 - 10 ummæli

Jafnræði í sjávarútvegi

Við Valgerður Bjarnadóttir höfum á alþingi lagt fram breytingartillögu sem ætlað er að tryggja jafnræði og afnema í áföngum forræði tiltekinna útgerðarmanna á veiðiheimildum. Við gerum ráð fyrir tuttugu ára aðlögunartíma þar sem útgerðir fái í sinn hlut verulegan hluta af andvirði þeirra heimilda sem þær láta af hendi en borga veiðigjald af öllum heimildum. Að loknum þessum tíma ræðst arður almennings af auðlindinni af viðskiptum á virkum markaði þar sem þó er hægt að taka tillit til byggðahagsmuna. Við teljum tillögu okkar mikilvæga viðbót við stjórnarfrumvörpin um fiskveiðistjórnun, sem við styðjum í megindráttum.

Í þessum frumvörpum felast mikilvæg framfaraskref. Mestu skiptir að þar er kveðið afdráttarlaust á um að þjóðin eigi sjávarauðlindina í sameiningu, og að fyrir afnot þeirra skuli koma fullt gjald.

Jafnræði

Helsti galli þeirra er sá að þar virðist staðfest að þeir sem nú hafa undir höndum heimild til nýtingar aflahlutdeildar geta búið áfram að sífelldum forgangi til nýtingar. Ákvæði um leigupott og strandveiðar virðast ekki hnekkja þessum forgangi enda enginn hvati byggður inn í frumvarpið til að útgerðarmenn sem fá sjálfkrafa nýtingarleyfi til tuttugu ára með framlengingarrétti færi sig yfir í leigupott með uppboðsfyrirkomulagi.

Jafnræði til að sækja sjó er því ekki tryggt með frumvarpinu um fiskveiðstjórn, og óvíst að það standist skoðun Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á grundvelli hins fræga álits hennar frá 24. október 2007.

Tilgangur breytingartillagnanna er að koma á jafnræði útgerðarfyrirtækja til aðgangs að langtímaveiðirétti og skapa sjávarútvegnum þjálar starfsaðstæður leikreglur sem haldist í grunninn samar að 20 árum liðnum.

Tuttugu ára aðlögun

Í þessu skyni er gert ráð fyrir að gefin verði út nýtingarleyfi til einstakra útgerða á grundvelli þeirra aflahlutdeilda sem þær hafa nú. Leyfin verði afmörkuð í 20 hluti og verði stysta leyfið til eins árs en það lengsta til 20 ára. Ári eftir gildistöku kerfisins koma því fyrstu leyfin til endurráðstöfunar og stöðugt og jafnt eftir. Ný nýtingarleyfi í stað þeirra sem renna út verða afmörkuð og boðin til leigu á kvótaþingi til 20 ára. Til að veita eðlilegan aðlögunartíma að breytingum er reiknað með ívilnun til útgerða þeirra skipa sem í upphafi fá leyfi til að nýta aflahlutdeild. Þessi skip skulu fá 90% af því endurgjaldi sem fæst fyrir þau leyfi sem leigð verða út í staðinn á kvótaþingi.

Afraksturinn rennur til þjóðarinnar með sölu heimilda á kvótaþingi, þar sem hægt er að taka ákveðið tillit til byggðahagsmuna. Þar til þetta kerfi er að fullu komið á þarf þó að notast veiðigjald til að tryggja eigandanum eðlilega rentu af auðlindinni.

Með þeirri leið sem hér er lýst yrði öllum langtímaveiðirétti komið fyrir í nýtingarleyfum sem endurúthlutað er með stöðugu framboði á kvótaþingi. Framtíðarfyrirkomulagið færi strax að virka. Það tryggði jafnræði í greininni og eðlilega verðmyndun á nýtingarleyfunum.

Mannréttindanefnd SÞ — stjórnarsáttmálinn

Þessar tillögur, sem byggjast á hugmyndum Jóhanns Ársælssonar, fyrrverandi alþingismanns, opna nýliðum leið inn í greinina og tryggja fullt jafnræði við úthlutun nýtingarsamninga að loknum 20 ára aðlögunartíma. Með breytingartillögunum eru skilyrðin í áliti Mannréttindanefndar SÞ uppfyllt með sanngirni og undir merkjum meðalhófs.

Síðast en ekki síst eru tillögurnar í samræmi við áratugalanga baráttu gegn óréttlætinu sem núverandi kerfi hefur valdið. Þær eru lagðar fram í beinu framhaldi af sáttmála stjórnarflokkanna og falla miklum mun betur að honum en samsvarandi þættir stjórnarfrumvarpsins. Þær mæta líka athugasemdum og kröfum ýmissa þeirra hagsmunahópa sem hafa gagnrýnt frumvarpið vegna þess að þar sé ekki gætt jafnræðis og ekki gert ráð fyrir að forgangi núverandi handhafa kvóta – keypts eða gefins – linni.

— Rétt er að taka fram að við Valgerður takmörkumokkur við jafnréttisbreytingar og aðlögun í tillöguflutningnum, og hreyfum ekkert við öðrum þáttum frumvarpsins.

– – – – –

Sjá breytingartillöguna sjálfa hér með stuttri greinargerð. Fyrir þá sem vilja leggjast í tillögurnar koma hér líka skýringar við hvern lið þeirra, og greinar frumvarpsins jafnóðum með breytingunum. Best að skoða þetta með því að prenta út breytingartillögurnar og fara yfir þetta saman lið fyrir lið.

Skýringar við einstakar breytingartillögur

1. Við 8. grein:

Sú aðferð sem felst í breytingartillögunni tryggir stöðugt framboð nýtingarleyfa og jafnræði til aðgangs að þeim. Nægilegt framboð skammtímaaflaheimilda virðist nokkuð tryggt með leigupottinum í bráðabirgðaákvæði II og eftir öðrum leiðum. Því er ekki lengur sérstök þörf á að láta hluta aflaaukningar renna í pottana.

Breytt 8. grein:

Úthlutun samkvæmt aflahlutdeildum.

Hafi nytjastofni, sem veiðar eru takmarkaðar úr skv. 7. gr., verið ráðstafað í aflahlutdeildir, skal ráðherra með reglugerð skipta heildaraflamarki hvers fiskveiðiárs í stofninum í flokka sem hér segir: 1. Flokkur 1: Samkvæmt aflahlutdeildum og krókaaflahlutdeildum, sbr. IV. kafla. 2. Flokkur 2: Samkvæmt annarri aflahlutdeild, sbr. VI. kafla.

Verði ákveðinn heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiár, sbr. 1. mgr., sem nemur meira en 202.000 lestum, fyrir ýsu sem nemur meira en 66.000 lestum, fyrir ufsa sem nemur meira en 50.000 lestum eða fyrir steinbít sem nemur meira en 14.000 lestum skulu 60% þess aflamarks sem umfram er í hverri tegund renna til flokks 1 og 40% til flokks 2.

 

2. Við 11. grein

a-liður: Hér er lagt til að gefin verði út nýtingarleyfi til einstakra útgerða á grundvelli þeirra aflahlutdeilda sem þær hafa nú. Leyfin verði afmörkuð í 20 hluti (aflahlutdeildin deilt með 20) og verði stysta leyfið til eins árs en það lengsta til 20 ára. Ári eftir gildistöku kerfisins koma því fyrstu leyfin til endurráðstöfunar á kvótaþingi í formi nýrra afmarkaðra nýtingarleyfa til 20 ára, og síðan jafnt og stöðugt eftir það. Fyrstu tvö árin þarf þó sérstakt fyrirkomulag vegna aukningar í pottum, samanber ákvæði til bráðabirgða II.

b-liður: Hér er lagt til að í stað þeirra nýtingarleyfa sem renna út skuli afmörkuð ný nýtingarleyfi til 20 ára og boðin til leigu á kvótaþingi. Þess vegna er lagt til að ákvæði um að nýtingarleyfi framlengist um 1 ár í senn þannig að alltaf verð 15 ár fram undan hjá útgerðinni falli brott. Þessi ákvæði verða óþörf vegna þess að sú aðferð sem í tillögunni felst tryggir útgerðinni 20 ára öryggi. Fyrstu 20 árin, fram til 2032/33 rennur mestur hluti andvirðisins til fyrrverandi handhafa leyfanna, sbr. nýtt bráðabirgðaákvæði VIII.

c- og d-liðir: Breytingartillögunum við síðustu málsgrein er ætlað að tryggja að öll nýtingarleyfi sem gefin verða út samkvæmt 1. mgr. 11.gr. fái samskonar meðferð hvað varðar takmarkanir, gildistíma og skilyrði, ekki síst til aðgreiningar frá ,nýjum‘ leyfum til 20 ára sem gefin verða út í stað þeirra sem renna út eða koma úr leigupottinum skv. 18. gr.

Breytt 11. grein:

Leyfi til að nýta aflahlutdeild.

Til og með 1. ágúst 2012 býðst eigendum þeirra skipa sem þá ráða yfir aflahlutdeild að staðfesta hjá Fiskistofu, með undirritun eða öðrum fullgildum hætti, að gangast undir leyfi til að nýta aflahlutdeild til 20 ára í 20 hlutum sem deilast jafnt á næstu 20 ár frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 að telja. Tefjist veiting leyfis umfram frest þennan af ástæðum sem ekki varða stjórnvöld er viðkomandi aðila óheimilt að nýta aflamark frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013. Aflaheimildum hans verður ráðstafað til flokks 2 hinn 1. desember 2012 hafi hann á þeim tíma ekki gengist undir leyfið.

Fiskistofa gefur út nýtingarleyfi. Leyfi til að nýta aflahlutdeild felur í sér ígildi samkomulags milli ríkisins og handhafa leyfis um handhöfn þeirra hlutdeilda sem leyfinu fylgja til afmarkaðs tíma. Leyfishafi viðurkennir að honum er veittur aðgangur að sameiginlegri og ævarandi eign þjóðarinnar, honum er skylt að fara að lögum á sviði fiskveiðistjórnar og ber að greiða gjald fyrir nýtingarheimild sína. Bæði leyfishafi og íslenska ríkið skuldbinda sig til að viðhalda og varðveita nytjastofnana sem leyfið er byggt á. Með nýtingarleyfinu skal fylgja skrá um aflahlutdeildir skipsins. Framsal leyfisins er ekki heimilt, hvorki að hluta né heild.

Tilkynni ráðherra ekki að annað sé fyrirhugað framlengist nýtingarleyfi um eitt ár í senn, og ár frá ári, þannig að 15 ár verði jafnan eftir af gildistíma þess. Tilkynningu um fyrirhugaðar grundvallarbreytingar eða brottfall nýtingarleyfis er fyrst heimilt að gefa út þegar fimm ár eru liðin af tímalengd leyfis skv. 1. mgr. Ráðherra skal, áður en slík tilkynning er gefin út, leita samþykkis Alþingis í formi þingsályktunartillögu. Nýtingarleyfi fellur niður sé engin aflahlutdeild bundin því.

Í stað þeirra nýtingarleyfa sem renna út skulu ný nýtingarleyfi til 20 ára afmörkuð og boðin til leigu á kvótaþingi.

Allir þeir sem eiga fiskiskip sem hefur almennt veiðileyfi og flytja á það aflahlutdeild frá þeim skipum sem fá leyfi til að nýta aflahlutdeild skv. 1.mgr. eiga rétt á útgáfu nýtingarleyfis með sömu takmörkunum um gildistíma og skilyrðum sem gilda um upphafleg nýtingarleyfi, sbr. 1.–3. mgr. Þannig skal upphafleg tímalengd nýrra slíkra leyfa miðast við 1. ágúst 2012.

 

3. Við 12. grein

a-liður: Annarsvegar er hér lagt til orðalag sem á að tryggja öruggt samband milli nýtingarleyfa og aflahlutdeilda. Hinsvegar er lagt til að skerðing vegna flutnings aflahlutdeilda falli niður. Með þeirri skipan sem lögð er til yrði komið á virkum og þjálum vettvangi til viðskipta með langtímaveiðirétt, og engin rök fyrir því að hamla viðskiptum milli aðila í greininni samkvæmt reglum á opinberum markaði. Í þessari skipan er heldur ekki sérstök þörf á aukningu í potta.

b-liður: Með nýrri skipan er engin ástæða til að amast við framsali þar sem verðmyndun yrði eðlileg og miðaðist við verðlag á kvótaþingi í þeim tilvikum að viðskipti færu fram utan þess.

Breytt 12. grein:

Framsal aflahlutdeilda.

Fiskistofa skal leyfa flutning aflahlutdeilda milli fiskiskipa, ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:

1. Flutningur aflahlutdeildar leiðir ekki til þess að aflaheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.

2. Fullnægjandi upplýsingar um kaupverð aflahlutdeildar fylgja.

3. Skip sem flutt er til hefur almennt veiðileyfi.

4. Framsal fellur ekki undir takmörkun skv. 13. gr.

Þegar aðilaskipti verða að fiskiskipi, eða aflahlutdeild er flutt milli fiskiskipa skv. 1. mgr., skal Fiskistofa skerða aflahlutdeild fiskiskipsins, eða þá aflahlutdeild sem er framseld, um 3% og ráðstafa í flokk 2. Til aðilaskipta teljast kaup og sala, sameining og yfirtaka. Þegar aðilaskipti verða að fiskiskipi, eða aflahlutdeild er flutt til eða á milli fiskiskipa skv. 1. mgr., skal Fiskistofa endurskrá aflahlutdeildir á útgefin og ný nýtingarleyfi aðila í samræmi við magn aflahlutdeilda og í samræmi við nýrra og áður útgefinna leyfistíma. Til aðilaskipta teljast kaup og sala, sameining og yfirtaka.

Hámark á framsali aflahlutdeildar einstakra tegunda af skipi skal vera hlutfall heildaraflamarks í viðkomandi tegund eins og því var úthlutað fiskveiðiárið 2011/2012 og heildaraflamarks í tegund á því ári sem framsal fer fram. Hlutfall þetta skal margfalda með aflahlutdeild skipsins í viðkomandi tegund og útkoman segir til um hve stóran hluta af aflahlutdeildinni er heimilt að framselja. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Heimild til framsals aflahlutdeilda samkvæmt þessari grein fellur niður við upphaf fiskveiðiársins 2032, án tillits til framlengingar leyfa skv. 3. mgr. 11. gr. og útgáfu nýrra leyfa skv. 4. mgr. 11. gr.

 

4. Við 17. grein

Með tillögunum er staðfest með skýrum hætti að á kvótaþingi fari fram viðskipti með aflahlutdeildir. Á kvótaþingi eru í nýrri skipan boðnar upp annarsvegar aflahlutdeildir til 20 ára, hinsvegar aflamarkstonn innan fiskveiðiársins.

Breytt 17. grein:

Kvótaþing.

Fiskistofa starfrækir markað fyrir aflahlutdeildir og aflamark, kvótaþing, sem skal:

a. vera vettvangur viðskipta með aflahlutdeildir og aflamark,

b. annast greiðslumiðlun milli kaupenda og seljenda aflamarks á kvótaþinginu,

c. safna og miðla upplýsingum um viðskipti með aflahlutdeildir og með aflamark.

Þegar um er að ræða framsal aflamarks í tegund þar sem viðskipti eru svo lítil að ekki eru forsendur til myndunar markaðsverðs á tilboðsmarkaði getur Fiskistofa veitt undanþágu frá viðskiptaskyldu á kvótaþingi.

Fiskistofa skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um framsal krókaaflamarks og aflamarks, þar á meðal um magn eftir tegundum, auk upplýsinga um verð, eftir því sem við á. Fiskistofa skal jafnframt birta aðgengilegar upplýsingar um meðaltalsviðskiptaverð einstakra tegunda á kvótaþingi síðastliðins hálfs mánaðar.

Gjald fyrir kostnaði Fiskistofu af rekstri kvótaþings skal ákveðið af ráðherra. Gjaldið skal greitt fyrir fram eða samhliða flutningi aflahlutdeildar eða aflamarks. Hæð gjaldsins skal að hámarki standa undir kostnaði Fiskistofu af rekstri kvótaþings.

Komi í ljós að aðili, einstaklingur eða lögaðili, hafi selt á kvótaþingi aflamark sem ekki var heimilt að ráðstafa skal útgerð þess skips sem aflamark var flutt af bæta það tjón sem slík sala hefur valdið. Enn fremur er heimilt að útiloka slíkan aðila frá frekari viðskiptum á kvótaþingi nema hann flytji fyrir fram aflamark frá skipi sínu og setji viðbótartryggingar sem nægilegar eru að mati Fiskistofu.

Óheimilt er einstaklingum eða lögaðilum að taka þátt í, stuðla að eða hvetja til viðskipta með aflamark eða annarra aðgerða í því skyni að gefa ranga mynd af umfangi viðskipta með aflamark í tilteknum tegundum eða hafa óeðlileg áhrif á verðmyndun þess.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um viðskipti með aflahlutdeildir og aflamark, m.a. um tilgreiningu upplýsinga um magn og verð á aflahlutdeildum og aflamarki, hámarksmagn sem hver aðili getur boðið í og um skiptingu milli tímabila. Þar er einnig heimilt að kveða á um fjármál, tryggingar, gerð, skráningu og meðferð sölu- og kauptilboða, lágmarksverð, skráningu og frágang viðskipta, greiðslumiðlun og meðferð upplýsinga.

 

5. Við 19. grein

Lagt er til að með breyttri fyrirsögn og 1. mgr. verði lögbundin sú aðalregla að veiðiheimildir fari um kvótaþing. Einnig er stjórnvöldum heimilað að binda í reglugerð úthlutun heimilda við tiltekin svæði með nánari skilyrðum. Ákvæðin eiga annars vegar að tryggja jafnræði til úthlutana og hins vegar rétt byggðarlaga til að nýta auðlindina.

Breytt 19. grein:

Ráðstöfun til um kvótaþings.

Heimilt er að ráðstafa aflamarki um kvótaþing. Í reglugerð er heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum svæðum að bundum nánari skilyrðum.

Ráðstöfun aflahlutdeildar og aflamarks skal fara um kvótaþing nema á annan veg sé kveðið í lögum þessum. Í reglugerð er heimilt að skilyrða ráðstöfun einstakra heimilda að öllu leyti eða að hluta við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum svæðum að bundnum nánari skilyrðum.

Tekjur sem aflað er við ráðstöfun aflahlutdeildar og aflamarks úr flokki 2 samkvæmt þessari grein renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Úr sjóðnum er ráðstafað samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Skal ríkið njóta 40% tekna, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%.

 

6. Við bráðabirgðaákvæði II

Hér er lagt til að ákvæðið verði samræmt þeirri aðalreglu breytingartillagnanna að nýtingarleyfi verði einsleit og verði boðin með jöfnum og fyrirsjáanlegum hætti til leigu á kvótaþingi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir aukningu í potta, flokk 2, á fyrsta ári. Aukningin er hér færð á tvö ár. Einn tuttugasti hluti, 5%, rennur í pottana á fyrsta ári, fiskveiðiárinu 2012/13, og fá útgerðir því aldrei í hendur fyrsta leyfið af hinum 20 sem gert er ráð fyrir í brtill. við 8. gr. Þær fá hinsvegar 90% andvirðis þess á kvótaþingi. Annað árið, 2013/14, renna 5%-in að hluta í pottana og að hluta sem aflahlutdeild í sölu á kvótaþingi.

Breytt bráðabirgðaákvæði II:

Aflahlutdeildir fiskiskips skerðast frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 um 9,5% af þorski, 6,9% af ýsu, 7,2% af ufsa, 9,8% af steinbít og 5,3% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Þessari aflahlutdeild er ráðstafað varanlega í flokk 2.

Aflahlutdeildir fiskiskipa skerðast frá upphafi fiskveiðiársins 2012/2013 um 5% af þorski, 5% af ýsu, 5% af ufsa, 5% af steinbít, og 5% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Frá upphafi fiskveiðiársins 2013/2014 skerðast aflaheimildir um 4,5%, af þorski, 1,9% af ýsu, 2,2% af ufsa, 4,8% af steinbít og 0,3% af öllum öðrum tegundum þar sem aflahlutdeild hefur verið úthlutað. Fyrrgreindum aflahlutdeildum skal ráðstafað varanlega í flokk 2.

Við frádrátt skv. 1. mgr. skal tekið mið af sérstakri tilgreiningu eigenda veiðiskipa á þeim tegundum sem hlutfall skal dregið frá. Slíkt er þó aðeins heimilt að því leyti sem samanlögð þorskígildi aflaheimilda sérstaklega tilgreindra tegunda eru jöfn samanlögðum þorskígildum frádreginna aflaheimilda. Aðeins er heimilt að tilgreina ýsu, ufsa, þorsk og steinbít.

Þeim aflaheimildum sem dregnar eru frá heildarafla skv. 1. mgr. er ráðherra heimilt að skipta í aðrar tegundir. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu ákveðna framkvæmdaþætti til að tryggja að skipti þessi geti gengið eftir. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur.

Við útgáfu nýtingarleyfa skv. 1. mgr. 11. gr. skal skerðingu á heildarafla skv. 1. mgr. þessa ákvæðis til bráðabirgða mætt með því að stysta nýtingarleyfið fellur niður og það næsta í röðinni skerðist í samræmi við skerðingarhlutföll fiskveiðiársins 2013/2014.

 

6. Bráðabirgðaákvæði VIII

Með þessu ákvæði er útgerðum létt aðlögun að nýrri skipan þar sem leyfi til að nýta nytjastofna á Íslandsmiðum, sameign þjóðarinnar, eru goldin fullu verði. Útgerðirnar njóta í 20 ár þess kvóta sem þær ráða nú, hvort sem hann var fenginn endurgjaldslaust í upphafi eða keyptur af upphaflegum handhöfum. Í tillögunni er notað orðalagið „metið endurgjald“ þar sem markaðsbrestur er hugsanlegur í viðskiptum á kvótaþingi. Gert ráð fyrir að ráðherra útfæri slík undantekningartilvik nánar í reglugerð.

Nýtt bráðabirgðaákvæði VIII:

Í stað þeirra nýtingarleyfa sem gefin verða út í upphafi skv. 11. gr. skal jafnskjótt og þau renna út afmarka og bjóða til leigu á kvótaþingi ný leyfi til 20 ára, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II. Útgerðir þeirra skipa sem fá í upphafi leyfi til að nýta aflahlutdeild samkvæmt 11. gr. skulu fá 90% af metnu endurgjaldi, meðaltalsverði tegundar á viðkomandi ári, sem fæst fyrir ný leyfi í þeirra stað á kvótaþingi fram að upphafi fiskveiðiársins 2032.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Olafur Jónsson

    Þetta er eitthvað í áttina að bæta ónýtt frumvarp en hefur ennþá einn stórann galla. Hvaðan koma þessi 20ár? 20 ára nýtingar réttu er út í hött hvort sem hann er fralenging á núverandi handhöfum eða keyptum nýtingarrétti. Til að við horfum á nýliðun á nýtingarleyfi alls ekki að vera lengur en 5 ár í senn. Það er algert hámark.

    Stjórnmála menn verða ná sér út úr husuninni að þeir séu kosnir til að skapa mönnum líf og dauða. Hlutverk Alþingis er að skapa ramma utan um atvinnugreinina þar sem allir landsmenn sitja við sama borð. Hver fiskar síðan meira eða minna ræðst á miðunum.

  • Ég held Mörður að þú ættir ekki að tjá þig um sjávarútveg því þú hefur ekkert vit á honum. Talaðu bara um myrkrið þú ert ágætur í því.

  • @ Marteinn. Já að nota tól markaðshagkerfisins til að útdeila takmörkuðum gæðum, þvílíkur kommúnismi.

    Heyrðu snillingur komdu með rökinn á móti tillögunum hér að ofan?

  • Hrafn Arnarson

    1. hver er munur á þessum tillögum og fyrningarleiðinni?
    2.hefur verið reynt að meta áhrif þessara tillagna á fjárhagsstöðu útgerða, laun sjómanna, upphæð veiðigjalds til ríkisins og stöðu Landsbankans?

  • Staða Landsbankans?

    Það sem gerist þá er að fyrirtæki sem uxu með skuldsettum yfirtökum verða að tekin yfir af lánadrottnum. Þá verður að koma því þannig fyrir að þau fyrirtæki sæki sér aukið hlutafé í gegnum kauphöllina þ.e. skráð á markað. Þannig gætu fjármagnseigendur átt hlut í 20 ára nýtingarrétti á verðmættri vöru. Skuldir sjávarútvegsins lækka, færri krónur í umferð og minni verðbólguþrýstingur.

  • Halldór Guðmundsson

    Lýst vel á þessar breytingartillögur, en eitt þarf að vera algjörlega kristaltært, smælingjarnir eiga ekki möguleika að bjóða í nýtingarleyfin á móti stórútgerðinni, því þarf að efla strandveiðar verulega, fyrir nýliðun í stéttinni,
    gefa t.d. Strandveiðar algjörlega frjálsar t.d. 10 daga í mánuði allt árið.
    Og gefa strandveiðibátum algjörlega frjálsar veiðar í makríl þegar allir fyrðir eru fullir af makríl.

  • Svavar R.

    Það verður ekkert réttlæti til hjá núverandi stjórnvöldum.

    Stjórnarflokkarnir eru einungis að hygla pólitískum vinum og vandamönnum sem og háværum vælukjóum.

  • MÖRÐUR hvaða fyrirtæki hefur beðið um 20 ár aðlögun og svo 15 í viðbót: VILJUM F’A SVAR STRAX í DAG.

    EINA rétta ráðið allan kvóta á einubretti til þjóðarinna 1. sept 2013.
    ÁRLEGUR KVÓTI TIL ÞEIRRA ER GETA GERT ÚT SKIP , STÓR EÐASMÁTT
    OG HAFA TIL ÞESS ÞEKKINGU OG ÖRYGGI Í LAGI.
    kVÓTA ÞING BULLIÐ ER YFIRGENGILEGA VITLAUST. F a s t VERÐ pr
    landað kíló með t..d greiðslukvöð e k k i seinna en 10 dögum eftir löndun.

    Hvenær var ykkur veittur þessi kúgunarréttur að herimila vissum fyrirtækjum
    einræði yfir lifandi auðlindum hafsd og hindra venjulega sjómenn til veiða, er
    hafa stundað sjósókn í tugi ára en er e k k i braskarameð nær ótakmarkað
    innhlaup ó peninga hgjá bönkunum:
    Gáið að því að gera ykkur e k k i að fíflum og kúgurum. Lög frá slíkum maönnum verða umsvifalaust rústuð í reynd hér á landi.

  • Halldór Guðmundsson

    Og nú áliktar ASÍ að Strandveiðum verði hætt,og Strandveiðipottinum verði ráðstafað í gegnum kvótaþing.

    Semsagt smælingjarnir eiga að bjóða á móti stórútgerðinni,það vita það allir sem vilja vita að smælingjarnir eiga ekki möguleika að bjóða á móti stórútgerðinni, sem er með bankana á bakvið sig, þannig að maður skilur ekki á hvaða vegferð ASÍ er, þá er einfaldlega best að setja allan kvótan eins og hann leggur sig á markað, því þessi tillaga frá ASÍ er gjörsamlega vanhugsuð, og furðulegt að þeir láti svona bull fara frá sér.

  • Ólafur Guðmunds.

    Í sambandi við frumvarp til laga um veiðigjal.
    Auðvitað á að leggja 10% af öllum afla í auðlindasjóð, og innheimt af Fiskmarkaði strax við löndun, þessar umræður um gjald af umfram hagnaði,
    er eitt alsherjar bull, og furðulegt hvernig þetta verður til, hjá frumvarpshöfundum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur