Sunnudagur 06.05.2012 - 22:18 - 9 ummæli

Salut, Hollande

Adieu Sarkozy — Salut Hollande!

Forsetaskiptin í Frakklandi koma auðvitað ekki á óvart eftir úrslitin fyrir hálfum mánuði og forustu Hollandes í könnunum samfellt síðan baráttan hófst.

Þetta eru samt mikil tíðindi í frönskum stjórnmálum – bara annar vinstriforsetinn fimmta lýðveldisins frá 1958 – og sigur Hollandes gæti strax haft verulega áhrif á þróunina í Evrópu þar sem díverse íhaldsflokkar hafa verið einir um ráðsmennsku í verstu efnahagskreppu í átta áratugi – með þeim afleiðingum sem best sjást á úrslitunum í Grikklandi . . .

Reyndar var fyrirsjáanlegur sigur frambjóðanda jafnaðarmanna/sósíalista í forsetakosningunum í Frans þegar farinn að vigta í ráðagerðum á æðstu stöðum um kreppulausnir, og meira að segja mýkri tónar hljómað frá mönnum Merkel í Berlín um aðrar aðgerðir en stöðugan niðurskurð þar sem hann kemur sér verst. Kannski þeir setjist næst yfir ,,íslensku leiðina“ … sem loksins núna er að fá verðskuldaða viðurkenningu hér heimafyrir.

Að loknum forsetakosningum tekur við vel rúmur mánuður þangað til ný stjórn sest að völdum í París. Síðari umferð þingkosninganna fer fram íslenska þjóðhátíðardaginn 17. júní, og munurinn á Hollande og Sarkozy er of lítill til að neinu verði slegið föstu um úrslitin. Ólíklegt samt að það verði mynduð stjórn gegn forsetanum, en hugsanlegt að hann fái ekki hreinan vinstrimeirihluta. Ég heyrði í frönskum þingmanni úr flokki Hollandes fyrir mánuði – hann var vongóður um sigur síns manns en taldi að þar yrði fyrst og fremst um að þakka útbreiddri óánægju með Sarkozy – og í þingkosningunum  verður enginn Sarkozy! sagði Monsieur le Sénateur – og þessvegna sé ekkert gefið um úrslitin.

Mér sýnist þetta hafa breyst síðustu vikur kosningabaráttunnar, og held að persónan François Hollande og pólitískt yfirbrafgð hans hafi að lokum skipt meira máli en senatorinn taldi. Hollande bauð sig fram sem ,,venjulegan forseta“ – président normal — auðvitað til að höggva í hinn yfirborðskennda glingurforseta Sarkozy, sem mörgum hefur einmitt fundist alveg normal – en líka til að gefa aðra mynd af pólitíkusum en vant er í Frakklandi – mynd af manni í þjónustu við borgarana, pólitíkus sem vissulega ræður við verkefni sín og sýnir forsetastarfinu þá virðingu sem því hæfir en skilur líka að hann hefur fyrst og fremst skyldur við kjósendurna, le peuple – og telur sér sjálfsagt að halda við það nálægð: ,,être proche“ einsog hann lauk frægu eintali í sjónvarpseinvíginu við Sarkozy um erindi sitt í forsetahöllina.

Venjulegi forsetinn — ég vona Frakklands vegna og fyrir okkur öll hin í Evrópu að honum takist einmitt þetta, að vera venjulegur forseti. Að Hollande vilji í raun og veru, og takist ef hann vill það – að breyta forsetadæminu í Frans þannig að Frakklandsforseti breytist úr einskonar hálfguð í bónapartískum dúr í ,,venjulegan“ pólitískan þjóðarleiðtoga sem hugsar meira um almannahag en sjálfan sig og ,,pólitísku pólitíkina“ einsog það heitir þar í landi.

Og kannski tekst núna, eftir óhugnanlegt daður fráfarandi forseta við Marínu Le Pen og hennar fólk alla kosningabaráttuna að höggva skörð í sífelld og sundrandi blokkamæri í franskri pólitík þannig að vinstrimenn næðu bandalagi við hugsandi sentrista á borð við Bayrou gegn þrálátum hægri-meirihluta í þessu merkilega ríki. Það yrðu tíðindi.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Leifur Björnsson

    Þetta voru góð úrslit fyrir Frakkland takk fyrir þína úttekt .
    Baráttukveðjur Leifur.

  • Þó Hollande sé vinstri maður þá vona ég að hann verði aðhaldsamur í peningamálum og vinni með Merkel í að koma á aga á í fjármálum evrópu.

  • Hrafn Arnarson

    Þetta er góður sigur og merkileg tímamót í frönskum stjórnmálum. Hollande tekst nú á við risavaxið verkefni sem eru erfiðleikar í frönskum efnahagsmálum. Ríkisskuldir eru miklar og atvinnuleysi sömuleiðis.Niðurskurður þarf ekki að vera rétt leiðin sagði Hollande þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína að loknum sigri.Forseti Frakklands er valdamikill en hann þarf að hafa þingið með sér og almenningsálitið.

  • Haukur Kristinsson

    Þetta eru góð úrslit fyrir Frakkland, en einnig fyrir Evrópu.

    „Le petit nicolas” er arrogant, því óvinsæll (unpopular) og honum tókst ekki að ná til kjósenda Le Pen.

    Hollande var með einfaldari lausnir, náði til fjöldans. Vandamál Frakka eru hinsvegar mörg og stór. En það verður spennandi að fylgjst með Frakklandi næstu árin.

  • Uni Gíslason

    Sannarlega áhugaverð úrslit í Frakklandi og hiklaust kominn tími á mann úr röðum sósíaldemokrata þar á bæ – þó er ofsögum sagt að «díverse íhaldsflokkar hafa verið einir um ráðsmennsku í verstu efnahagskreppu í átta áratugi» eins og þú skrifar, enda mörg dæmi um að sósíaldemokratar hafi einmitt verið við stjórn í hruninu víða um lönd.

    Sumir hverjir ef ekki allir, spilað með peningamönnum og bönkum með Blairískri hægri-krata stefnu og í sumum löndum sem hafa verið undir stjórn íhaldsins, þar gengur bara sæmilega.

    Allavega, mikil og óréttmæt einföldun að gefa í skyn að íhaldsmenn hafi valdið eða dýpkað efnahagskreppuna frekar en kratar sjálfir.

    ***

    Mest spennandi frá mínum bæjardyrum séð, verður að sjá hvernig Hollande reynist að þjóðvæða fyrirtæki og draga til baka einkavæðingar fyrri ára. Óska Frakklandi alls hins besta og að Hollande reynist almennilegur og próper forseti.

  • Það er alltaf skelfilegt þegar sósíalistar komast til valda. Það er í lagi þó hann slaki aðeins á aðhaldskröfunum gagnvart ríkjunum í suðrinu. Málið er að hins vegar að það þarf að gera gríðarlegar breytingar á uppbyggingu opinbera geirans í og rétt verkalýðsfélaga til að skemma fyrir atvinnurekstri í Frakklandi ef markmiðið er að ná upp hagsvexti og halda evrunni saman.

    Ef mönnum finnst hins vegar hagvöxtur vera overrated fyrirbæri og sósíalistinn Hollande er ekki tilbúinn að skera niður opinbera kerfið í Frakklandi þá á hann hið snarasta að draga Frakkland út úr evrunni.

    Evrópusambandið er í eðli sínu fyrirbæri sem byggir á markaðs- og viðskiptafrelsi og grunnhugmyndirnar byggja á frelsi fólks til athafna. Sósíalistar þrífast því ákaflega illa í þessu umhverfi og franska kerfið sem er mjög sósíalískt í uppbyggingu mun ekki geta lifað af til lengri tíma innan evrunnar, eina leiðin þeirra er að hafa eigin gjaldmiðil sem þeir geta gengisfellt til að viðhalda lágum launum og samkeppnishæfni. Þetta var eitthvað sem Sarkozy áttaði sig á og hann var að reyna að berjast við að gera ákveðnir breytingar til meira frjálsræðis í landinu til að viðhalda samkeppnishæfninni og auka atvinnu.

    Frakkar kusu því ekki „breytingar“ eins og Hollande heldur fram, heldur „status quo“.

  • Afsakaður að ég set þetta inn hér en vissi bara ekki hvernig ég gat sent þér þetta – þú færir það bara en þetta VERÐUR þú og allir að skoða og fjallar um svikarann Nupo

    https://www.facebook.com/icelandweatherreport

  • Enga trú á að Hollande, muni gera eitt eða neitt fyrir Frönsku Þjóðina, þó að hann hafi marið hinn óvinsæla Sarkozy.
    Hollande er nefnilega af hinni Frönsku Valdaelítu og hann mun fyrst og fremst þjóna henni og sennilega svíka flest ef ekki öll sín kosningaloforð.

    Stjórnartíð hann mun verða minnst sem árum glataðra tækifæra, svikinna loforða, hálfkáks og stefnuleysis !

  • Haraldur H.

    Kjósendur í Frakklandi völdu breytingar og vildu frá völdum forseta sem þráði ekkert annað ein völd valdanna vegna.

    Einnig voru Frakkar orðnir þreyttir á krónísku atvinnuleysi sem Sarkozy hafði engan áhuga á að ná niður.

    Enginn vill stöðnun né krónískt hátt atvinnuleysi.

    Hljómar ástandið í Frakklandi ekki kunnuglega við ástandið hér á landi?

    Við höfum ríkisstjórn við völd nú í dag sem þráir ekkert nema vald og þaulsetu til að koma sínum eigin óskamálum í gegn. Jafnvel þó að þetta sé í andstöðu við megin þorra landsmanna.

    Sömuleiðis hafa íslensk stjórnvöld takmarkaðan vilja eða geta tið að ná niður atvinnuleysi hér á landi sem einnig er orðið krónískt í kringum 7-8%.

    Segja má að stjórnvöld hér á landi berjist fyrir háu atvinnuleysi og líkt og fyrir háu eldsneytisverði.

    Þess í stað hafa stjórnvöld hér á landi ráðist í stórkostlega stjórnkerfisbreytingar og breytingar á pólitískri stjórnskipan hér á landi til að tryggja eigin völd.

    Aftur á móti hafa atvinnumál og efnahagsleg uppbyggin og framfarir setið á hakanum.

    Til að mynda er Rammaáætlun um verndun náttúruauðlinda til þess að gerð og hefur þann eina tilgang að koma í veg fyrir frekari nýtinga náttúrauðlinda landsins til efnahagslegra framfara og atvinnusköpunar.

    Þess vegna mun það sama gerast hér á landi í næstu Alþinginskosningum og gerðist í Frakklandi;
    Kjósendur hér á landi vorið 20013 muna refsa stjórnvöldum fyrir þrásetu þeirra og fyrir það að ná ekki niður atvinnuleysi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur