Fimmtudagur 10.05.2012 - 20:22 - 13 ummæli

Nýja málþófið

Lagði eyrun aðeins við málþófinu á þingi í dag – Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn eru núna komnir í þriðju og fjórðu ræðu – Vigdís Hauksdóttir að flytja fimmtu ræðuna meðan þetta er skrifað, hver ræða fimm mínútur, og svo koma sýndarandsvör: Mér finnst ríkisstjórnin vond og stjórnarþingmenn vitlausir – hver er skoðun háttvirts þingmanns á því … Jú, þetta finnst mér einmitt líka … bla bla bla

Fyrir ræðu í tuttugu mínútur þarf jafnvel vanur maður að undirbúa sig, vita að minnsta kosti sirka hvað hann ætlar að segja og í hvaða röð – þá þarf helst að hafa einhverja punkta og vera klárlega tilbúinn með endinn. Fyrir fimm mínútna málþófsræðu þarf þokkalega þjálfaður þingmaður ekki einusinni að depla auga, bara opna munninn og láta vaða þangað til slegið er í bjölluna.

Og þeir láta svo sannarlega dæluna ganga – um allt og ekkert, með tauti og skömmum, ruglkenndum upprifjunum, gervihneykslun, ýkjum, hálfsannleika og hreinum staðleysum. Það er enginn að hlusta, það skiptir engu máli hvað þeir segja, það er bara að klára mínúturnar fimm og fara svo í andsvaraleikritið á eftir við þrjá eða fjóra kollega í tíu-tólf mínútur í viðbót.

Ég veit allt um málþóf eftir kjörtímabilið 2003 til 2007. Það getur verið hetjuskapur þegar mikið er undir, og ákveðin skemmtun fyrstu dægrin, en yfirleitt snýst málþófið gegn þeim sem þæfir. Hann agar ekki mál sitt, skipar efninu ekki niður á eðlilegan hátt, gætir ekki að sér í stíl og orðbragði, hættir að bera virðingu fyrir því sem hann er að gera: Tjá sig frammi fyrir þjóðinni sem þjóðkjörinn fulltrúi á alþingi Íslendinga.

Nýju reglurnar sem áttu að slá á málþóf gerðu það í staðinn miklu auðveldara — og stjórnarandstaðan núna hefur verið í málþófi næstum samfellt síðan ég kom aftur inn á alþingi vorið 2010.

Horfi aðeins í kringum mig stundum núna og held að þetta stöðuga málþóf hafi spillt mörgum þeim þingmönnum sem settust nýliðar í gamla salinn vorið 2009 eða 2007. Þeir eru hættir að vanda sig í ræðustól, finnst í lagi að segja hvað sem vera skal, engin þörf á að færa rök að máli sínu eða móta viðhorfum sínum annan farveg en æðibununnar og upphrópunarinnar. Nota málþófsstíllinn líka í alvöru-umræðum um alvöru-mál.

Sem betur fer eru á þessu ýmsar undantekningar. Eygló Harðardóttir. Illugi Gunnarsson. Ragnheiður Ríkarðsdóttir.

Þar á móti kemur að ýmsir reyndari þingmenn eru sokknir á bólakaf í nýja málþófið. Guðlaugur Þór Þórðarson. Einar K. Guðfinnsson. Og núna síðast blessaður kallinn hann Jón Bjarnason.

 

Flokkar:

«
»

Ummæli (13)

  • Þingið er óstarfhæft.

    Ég held reyndar að það sé ónýtt og þarfnist því fyrst og fremst endurreisnar.

    Og hvernig verður þetta eftir kosningar?

    Verður ekki hlutverkum þá bara snúið við?

    Hafa núverandi stjórnarþingmenn aldrei beitt málþófi?

    Jú það hafa þeir margir gert.

    Þetta sýnir að þingið verður aðeins endurreist með allsherjar hreingerningu – nýjum formönnum, þingmönnum og flokkum.

  • Á hvaða glasi eru þingmenn ?

    Er hægt að hlusta endalaust á þetta fyllerísraus ?

    Vandamálið á Alþingi íslendinga er bara eitt, sjálfstæðisflokkurinn !
    Þó ekki sé líka fyllerí með í spilinu !

  • Þórbergur Torfason

    Ha eru þeir kenndir?

  • Í BNA unnu Replúblikanar á málþófinu eða filibustering. Er ekki líklegt að sjálfstæðisflokkurinn vinni á því hér. Sérstaklega á meðan Jóhanna Vígdís stundar sína kranablaðamennsku frá Alþingi.

    @Rósa þannig að við fáum stanslaust nýtt fólk sem er tilbúið að gera sömu mistökin aftur og aftur. Nei – núverandi þingmenn þurfa að fara og óska eftir umboði aftur og standa fyrir máli sínu. Það er of auðvelt að segja – þetta var annar maður, svona verð ég ekki.

    Annars þá trúi ég ekki öðru en að málþóf sé slítandi yðja sem dregur úr vinnugleði þingmanna. Því er best að keyra í málþófið og hafa langa þingfundi og leyfa mönnum alveg að slíta sér út. Þannig að þegar kemur að kvótamálinu þá séu menn komnir í andlegt þrot.

  • Af hverju er þetta ekki stöðvað, Mörður? Mér skilst að samkvæmt þingsköpum sé það hægt.

  • Að málþóf sé vandamál?

    Ef litið er á sögu alþingis, þá er það ekki vandamálið.

    Það veit Mörður manna best.

  • Mörður, þú ert einn af gömlu málþófsmeisturunum ásamt félögum þínum í stjórnarflokkunum.

    Hvernig er að bragða á eigin málþófs-meðulum, Mörður?

  • Þetta er svo leiðinlegt leikrit, það er ekki furða að traust til Alþingis (og þar með þeirra manna sem þar starfa) mælist sama og ekkert. Mörður stígur hérna fram og er á móti málþófi sem hann sjálfur stundaði á algjörum sýndarrökum. Eina sem hefur breyst er að hann er núna stjórnarliði. Sjálfsstæðismenn sem vældu yfir málþófi hér áðurfyrr stunda það nú. Svona er þetta víst bara segja flestir.

    Vandamálið er að minnið í íslenskri pólitík (og annars staðar) um hvernig rétt sé að bera sig að getur skapað ákveðin styrk í fjölmiðlum og á þingi, en langtímaáhrifin af þessari hugsjónalausu iðju að taka þátt í leiknum er orsök þess að almenningur hefur enga trú á þeim sem eiga að leiða landið, hvort sem það er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það er ákaflega sorglegt, en líklega óumflýjanlegt því mönnum er ekki treystandi til að spila heiðarlega og munu alltaf sækja í skammtímaávinninginn. sbr. síðuhaldari.

  • Gerir það þetta málþóf á einhvern hátt betra eða réttlætanlegra að málþóf hafi verið stundað áður? Er þessi niðurlæging á störfum alþingis fyrir okkur eitthvað minni fyrir vikið?

    Að horfa á vel menntað fólk á góðum launum haga sér svona er með ólíkindum. Á mínum vinnustað væri spurningarmerki sett við hæfi fólks sem léti svona. Afhverju er þetta sjálfsögð hegðun á þessum auma stað?

  • Nei, Einar, það gerir málþófið ekkert betra að það hafi verið stundað áður fyrr.

    Það er bara fyndið að sjá þingmann núverandi stjórnarmeirihluta kveinka sér undan því sem hann og félagar hans stunduðu hér áður fyrr að kapp.

  • ég held Mörður að þú og aðrir vinstri menn á þingi ættuð að hafa vit á því að halda kjafti þegar kemur að umræðum um málþóf. Hefur þú séð topp 10 listann í málþófi?Veistu hver talaði samfelt í rúma 10 tíma um ekki neitt?

  • Þetta er allt planað og plottað þetta raus úr ræðustól alþingis, spyrjið bara Jóhönnu sem röflaði í tæpa 11 klst um ekki neitt….
    Þetta er auðvitað það sem þarf til að endurvekja traust á alþingi sem er algert og eitt risastórt núll……
    afsakið meðan ég æli.

  • Svavar R.

    Nú kveinkar „góða“ fólkið í vinstriflokkunum yfir málþófi vonda fólksins í stjórnarandstöðunni og lætur eins og hér sé um algjörlega nýja tegund af andstyggilegheitum að ræða sem enginn hafi stundað áður.

    „Góða“ vinstrafólkið hneysklast yfir þessu og talar af mikilli vandlætingu um málþófsfólkið í stjórnandstöðunni fyrir þessa ósvífni.

    Hver álitsgjafinn af vinstrivænginn af fætur öðrum stígur fram og hneysklast út af málþófinu í stjórnandstöðunni svo sem Björn Valur, Baldur Kristjánsson, Vilhjálmur Þorsteinsson, Gísli Baldvinsson, Jón Daníelsson, o.fl. úr hópi „góða“ vinstrafólksins stíga fram og fordæma þegar stjórnarandstaðan notar lýðræðislegan rétt sinn til að ræða málin en samþykkja þau ekki umræðulaust eins og stjórnarflokkarnir vilja.

    En margur heldur mig sig. Ný hittir málþófið vinstraliðið sem kveinkar sér ógurlega út af þessu. Það má því segja að byltingin étur börnin sín!

    Mörður og co. Hættið að væla eins og særðar hýenur þó að stjórnarandstaðan noti lýðræðislegan rétt sinn til að ræða málin á Alþingi og það á faglegan hátt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur