Laugardagur 12.05.2012 - 14:01 - 21 ummæli

Lífeyrissjóðir, skuldir, ábyrgð

Guðmundur Gunnarsson skrifar hér á Eyjunni pistil um lífeyrissjóði og atgervislitla alþingismenn – ég reyndi að koma þar að athugasemd en mistókst af einhverjum tæknilegum ástæðum. Hér er hún nokkurnveginn:

Þegar stjórnmálamenn eða aðrir tillögusmiðir benda á peninga í lífeyrsissjóðunum til að kosta hugmyndir sínar – þá sýnir það yfirleitt að tillögurnar eru vanhugsaðar og settar fram fyrst og fremst til að fá athygli svolitla stund. Það er rétt hjá Guðmundi að þetta eru peningar sem fólk hefur unnið fyrir og ber að fara með einsog eign annarra. Sá sannleikur stendur jafnréttur eftir þótt margir stjórnarmenn í sjóðunum hafi hagað sér einsog asnar í hruninu – enda hljóta þeir að vera hættir störfum.

Á hinn bóginn er vandinn vegna húsnæðisskuldanna núna þannig að forystumenn lífeyrissjóðanna geta ekki látið hann einsog vind um eyru þjóta. Til þess eru félagsleg rök sem snerta eigendur lífeyrissjóðanna, en þó einkum þau rök að íslensku lífeyrissjóðirnir hafa sjálfir gert sig að lánastofnunum fyrir einstaklinga sem standa í húsnæðisöflun. Þeir bera því þá ábyrgð gagnvart neytendum á lánamarkaði sem lánastofnanir almennt gera og bankarnir hafa gengist undir, að minnsta kosti að einhverju leyti.

Þessvegna vakna svona hörð viðbrögð við þveru neii frá lífeyrissjóðunum í málum lánsveðshópsins, fólksins sem gerði þau afdrifaríku mistök að notfæra sér lánatilboð lífeyrissjóðanna, eða fékk til þess foreldra sína og aðra vandamenn.

Við eigum að meta við Guðmund varðstöðu hans um fé almennings í lífeyrissjóðunum, og vonum að hann standi jafn-ákaft á móti tilraunum sem nú eru í gangi til að merja þaðan peninga í glæfraleg stórvirkjunaráform.

Og Guðmundur virðist gera sér grein fyrir að lífeyrissjóðirnir geti ekki bara verið stikkfrí í skuldamálunum, samanber þessa tilvitnun:

Lífeyrissjóðirnir gætu aftur á móti lánað ríkissjóði fjármuni á hagstæðum vöxtum til langs tíma sem þeir gætu síðan úthlutað til landsmanna sem væru í efnahagsvanda.

Eðlilegast væri þó að lífeyrissjóðirnir gengju sjálfir til liðs við björgunarsveitir skuldavandans með niðurfellingum sem ekki nema nema örlitlu broti af því sem þeir töpuðu á spilavítisaðferðum hrunáranna. Ég held að allir eigendur lífeyris með fullu viti skilji þörfina á slíku framlagi. Ef það verður ekki hlýtur að vera eðlilegt að lífeyrissjóðirnir séu látnir hætta að leika banka.

Kannski það ætti bara að nota lýðræðið — og efna til atkvæðagreiðslu um þetta meðal sjóðfélaga?

 

Flokkar:

«
»

Ummæli (21)

  • 1. Með leyfi! Hver vann fyrir peningunum sem Lífeyrissjóðirnir fengu gratís í eignum landsmanna í gegn um vísitölu? Þetta skiptir milljónum á hvern lánþega.

    2. Sem vinstrimaður er Gvendur Gunnars og verkalýðshreyfingin „our son of a bitch“ Marðar og Samfó, ASÍ er því gott félag þó það vinni af öllum kröftum gegn almannahagsmunum. ASÍ er með Samfó í vasanum eins og LÍÚ er með sinn flokk í vasanum.

    3. Þingmenn með Mörð innanborðs hika ekki eitt augnablik að þverrbrjóta stjórnarskráana fyrir ASÍ/SA eða LÍÚ.

  • ,,Það er rétt hjá Guðmundi að þetta eru peningar sem fólk hefur unnið fyrir og ber að fara með einsog eign annarra. Sá sannleikur stendur jafnréttur eftir þótt margir stjórnarmenn í sjóðunum hafi hagað sér einsog asnar í hruninu – enda hljóta þeir að vera hættir störfum.“

    Mörður þú veist eins og flestir íslendingar að það eru flest andlitin enn við störf í lífeyrissjóðunum , ef andlitin eru þar ekki í stjórn þá stjórna þeir baka til ! Enda er alltaf tönglast á því að ekkert verði gert í breytingum á lífeyrissjóðunum nema í gegnum kjarasamninga ! ASÍ og SA erum með puttan á öllu sem gert er !

    Þú veist líka að þeir sem unnu skýrsluna fyrir landssamband lífeyrissjóða settu inn í hana áminningu til stjórnenda um að þeir væru með peninga annara !

    Er ekki komin tíma á að allir, líka alþingismenn, viðurkenni að einu peningarnir sem eru til í þessu landi eru peningar okkar , sem eigum peninga í lífeyrissjóðum og þess vegna að fara með þá sem slíka ?

    Þess vegna á ekki að vera höndla með þá sem einhverja matador peninga í kjördæmapoti misvitra alþingismanna, eins og Kristjáns Möller úr þínum flokki !

  • Björn Kristinsson

    1) Almennir lífeyrissjóðir eru stærstu einstöku kaupendur íbúðarbréfa sem liggja að baki lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Það eru því döpur rök hjá alþingismanninum að vita ekki betur hér.

    2) Eign fólks í almennum lífeyrissjóðum er varin samkvæmt stjórnarskrá landsins. Öll niðurfærsla eins og síðuhöfundur leggur til er annað nafn á þjóðnýtingu. Eigum við þá ekki að nota réttu orðin.

    3) Ef alþingismenn og ráðherrar munu láta skerða kjör sinna sjóða þannig að þeir fari á par við almenning þá væri kominn grundvöllur til að ræða málin á öðru plani. En á meðan slíkt er ekki upp er tómt mál. Byrjið því á ykkur !

    4) Stjórnvöld eiga nóg með opinberu sjóðina. Viljið þið ekki byrja á að laga þá stöðu áður en þið farið með krumluna í aðra vasa !

  • Má ég benda Birni á að þó „eign“ fólks í almennum lífeyrissjóðum sé varin samkvæmt stjórnarskrá landsins getur ríkissjóður tekið þessa „eign“ eignarnámi með sömu stjórnarskrá og ætti að gera það.

    Lífeyrissjóðirnir eru eingöngu sandur í sandkassa SA/ASÍ og koma greiðendum nákvæmlega ekkert við, það sannar síðasta stjórnarskrábrot Alþingis í þágu SA/ASÍ, lögin um vinnustaðaskírteini. Þar er SA/ASÍ fært ríkisvald á silfurfati til að gæta þess að hinn vinnandi skríll greiði skatt sinn til lénsherrans sem á raunverulega lífeyrissjóðina.

    Fjórflokkurinn er samstíga um þetta það mun birtast í komandi kvótalögum hver hefur yfirhöndina.

  • Jú, jú. Látum þjóðina greiða atkvæði. Ég segi NEI ! Ég ætla ekki að greiða niður óreiðuskuldir annarra. Og mér bara nokk sama þótt óreiðumenn fari á hausinn.

    Næsta skref, Mörður, er að fjarlægja óreiðumennina úr stjórnum lífeyrissjóðanna. (Lesist: „fulltrúa atvinnurekenda“) Þar sem þeir sitja í skjóli laga.

    Og vilja höndla með mína, þína og okkar fjármuni. Eins og einhver hefði kosið þá til þess! Og rétt eins og þeir verðskuldi slíka stöðu í ljósi hrunsins!!

    Lýðræði fyrst, Mörður. Svo skulum við tala um „bissness“.

  • Halldór Björn.

    Væri nú ekki rétt að byrja á réttum enda einu sinni, og senda verðtrygginguna í flýtimeðferð fyrir Hæstarétt strax, ykkar ógæfa var að taka ekki víxitöluna úr sambandi strax eftir Hrun, allavega tímabundið. Þessi mistök eru nú búin að valda heimilum landsins meiri skaða en sjálft Hrunið.

    Með lögum Nr.108/2007 sem tóku gildi 1. nóv. 2007, en með þessum lögum er MiFID tilskipunin leidd í lög hér á landi, en sú tilskipun bannar fjámálafyrirtækjum viðskipti við almenning með afleiður, og verðtryggt lán er ekkert annað en afleiða, því það veit engin lifandi maður hver mánaðarleg afborgun kemur til með að vera í framtíðinni, og þess þá heldur hver heildargreiðsla verður í lok lánstímans, sem dæmin sanna.
    Ég vil meina að það er útilokað með öllu að Hæstiréttur komist að annari niðurstöðu en að verðtryggt lán sé afleiða, og þar með kolólöglegt frá 1. nóv. 2007, og verðtryggingin þarf að fara fyrir Hæstarétt sem allra fyrst, og það skildi aldrei vera að verðtryggð lán fari sömu leið og gengistryggð lán.

    Og þá gætu Fjármálafyrirtækin orðið skaðabótaskyld upp á háar fjárhæðir, fyrir að leggja heimili og fyrirtæki í rúst vegna ólöglegra lána.

    Googla: MiFID svör við algengum spurningum Glitnir.

  • Björn Kristinsson

    „…getur ríkissjóður tekið þessa „eign“ eignarnámi með sömu stjórnarskrá og ætti að gera það.“

    Fólki virðist fyrirmunað að skilja, hreinlega fyrirmunað, að fólk á almennum vinnumarkaði hefur sjálft og viðkomandi vinnuveitandi greitt í peningum inn í viðkomandi lífeyrissjóði lögbundinn sparnað.

    Þetta hefur hið opinbera ekki gert nema að ákaflega litlu leiti.

    Þess vegna er lýðskrum stjórnmálamanna þannig að allt sem hefur með almennu lífeyrissjóðina sé vont og að steypa eigi öllum sjóðum, hinum opinberu og almennu í einn sjóð. Hvers vegna ? Jú með því að fela hinn raunverulega vanda sem er sá alþingismenn hafa hreinlega klúðrað sjóðsöfnun í opinberu sjóðina.

    Ef það er hins vegar leiðin sem menn ætla sér að fara eins og Kristján leggur til að taka almennu sjóðina eignarnámi, þá skulu menn kalla þetta réttu nafni, ÞJÓÐNÝTING.

    Þá held ég að Kristján ætti að svara fyrir sjálfan sig, hvernig er staða ríkis sem þarf að þjóðnýta almennan lögbundin sparnað fólks ? Ég skal hjálpa þér, GJALDÞROTA !

  • Tek undir með öðrum hér að ofan að það er alveg ótrúlega smekklaust hjá þingmanni að telja sig geta ráðlagt eigendum fjár í lífeyrissjóðunum hvernig sé best að verja því. En hafa á sama tíma engar lausnir hvernig á að fjármagna opinberusjóðina. Þeirra sjóði, þingmanna og ráðherra. Þar er bara sendur reikningurinn til komandi kynslóða eitthvað nálægt 600 milljörðum skilst mér sem er gatið í opinberu sjóðunum.
    Ert þú Mörður sáttur við þá stöðu?
    Finnst þér kannski koma til greina að lækka eitthvað þær skuldbindingar ríkissjóðs??
    Trúlega er svarið nei því það hentar ykkur ekki en hins vegar hentar alveg sérlega vel að hirða fé hinna lífeyrissjóðanna, allra nema þinna og þinna vina er það ekki??
    Þannig þetta endar þannig að sá hluti almennings sem hefur sparað í almennu lífeyrissjóðina á að sjá á eftir sínum sparnaði (en og aftur) í þetta sinni til að fjármagna niðurfærslu íbúðarlána almennings t.d. opinberra starfsmanna en þeirra lífeyrissjóðir ætla ekki að taka þátt. Þeirra réttindi verða óskert sem áður.
    Nei er þetta nú ekki full langt gengið í vitleysunni. Þjófnaðurinn tekur greinilega engan enda í þessu þjóðfélagi.

  • „Þjófnaðurinn tekur greinilega engan enda í þessu þjóðfélagi“!!!!!!!!!!
    Sævar S

    „Fólki virðist fyrirmunað að skilja, hreinlega fyrirmunað, að fólk á almennum vinnumarkaði hefur sjálft og viðkomandi vinnuveitandi greitt í peningum inn í viðkomandi lífeyrissjóði lögbundinn sparnað.“
    Björn Kristinsson.

    „Jú, jú. Látum þjóðina greiða atkvæði. Ég segi NEI ! Ég ætla ekki að greiða niður óreiðuskuldir annarra. “
    „Badu!!“

    Já þjófnaður, tilvitnaðir kónar eru tala um „þjófnað“ og „eignir“ en eru tilbúnir að þiggja amk. þá 200 milljarða sem lífeyrissjóðirnir hafa kastað eign sinni á vegna verðtryggingar. Þjófsnautar eru líka þjófar. Þið minnið mjög á „fólkið“ hjá LÍÚ sem rekur hvert kvöld gyllt trýnið í sjónvarpi.

  • Björn Kristinsson

    „Þjófsnautar eru líka þjófar. Þið minnið mjög á „fólkið“ hjá LÍÚ sem rekur hvert kvöld gyllt trýnið í sjónvarpi.“

    Þér er fyrirgefið !

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Lífeyrissjóðir starfa samkvæmt lögum sem eru nokkuð ströng. Alþingi verður þá að byrja á því að breyta þeim.

    Þá fyrst er hægt að fara að tala um þjóðnýtingu á lífeyrissjóðunum.

    Já, og svo þarf að breyta eignarréttar ákvæði stjórnarskrárinnar.

  • Í nútíma hagkerfi eru sjóðir ekki forði heldur skuld eins við annan, allt bendir til þess að skuldir í heiminum verði ekki greiddar. Ef skuldir og skuldarar gufa upp verður ekki eftir nein eign. Einfalt. Og þá skiptir engu máli hvað lög eða stjórnarskrár segja. Það má setja lög um að norðanáttin fari aldrei yfir 4m/sek í frosti og meira að segja bera það undir þjóðaratkvæði án árangurs.

    Því fyrr sem ríkissjóður tekur Lífeyrissjóðina eignarnámi því meiri líkur er að þeir komi „eigendum“ sínum að notum.
    Svo verði stofnaður einn lífeyrissjóður sem fái tekjur sínar af 4-6% launaskatti og auðlindarenta hverskonar renni í hann. Sjóðurinn verði aldrei stærri en sem nemi ársskuldbindingu sinni.
    Spurningin er bara hvernig á að vinda ofan af bitlingum stjórnarmanna núverandi sjóða?

  • Maður er orðin þreyttur á þessu endalausa bulli sem kemur frá ykkur.

    Hvað með þá sem eru á núlli og tapað öllum sparnaði sínum í eigninni.
    Ykkur þingmönnum er skítsama um miðjuna í samfélaginu.

    Skítsama um þá sem reyndu að fara réttu leiðina. Mennta sig, koma upp börnum, kaupa sér húsnæði, skulda ekki meira en 60% í eigninni.

    Bara þeir sem komu sér á kúpuna og þeir sem áttu nógu mikið eigið fé að þeir gátu fengið 100% lánað fyrir dýrum eignum skulu fá aðstoð.

    Fólkið sem er á mörkunum fær ekki neitt, skal bara spara og þegja.

    Mismununin í þessu þjóðfélagi er ógeðsleg.

    Það virðist vera best í þessu þjóðfélagi að skulda sem mest, koma illa fram við einstaklingin, mennta sig ekki, fara bara á flugfreyju námskeið, því allir skulu hafa sömu kjör, legðu eitthvað á þig og þú ert rændur í framtíðinni.
    Ísland í dag.

    mbk

  • ,,Það virðist vera best í þessu þjóðfélagi að skulda sem mest, koma illa fram við einstaklingin, mennta sig ekki, fara bara á flugfreyju námskeið, því allir skulu hafa sömu kjör, legðu eitthvað á þig og þú ert rændur í framtíðinni.
    Ísland í dag.“

    Ég er að bíða eftir því að slöngutemjarinn á bensínstöðinni sé lögfræðimenntaður !

    Já, mennta sig og fara svo á framfæri hins opinbera með stuðningi frá pólitískum flokkum í starfið !!!!

    Hvað eru mörg fyrirtæki í þessu landi sem þurfa alla háskólalærðu einstaklingana sem kom útlærðir á hverju ári ???

    Hvert fer flest háskólamenntað fólk til vinnu í þessu landi ?

    Jú, í opinber störf !

    Hvers vegna ?

    Jú, það var búið að gefa þeim pólitískt loforð um að til að borga námslánin þá fengju þau vinnu til að borga lánin !

    Hver var að tala um að fækka opinberum starfsmönnum ?

    Vitið þið ekki að það er fyrir löngu búið að raka allar konunar sem skúruðu og setja öll þrif í einkavina framkvæmd ???

    Hverja er þá hægt að reka úr opinberi þjónustu ?

    Gamla flokksgæðinga , sem eru búnir að vera á flokks jötunni í áratugi !

    Fyrir gefiði , fór aðeins út fyrir umræðuefnið að gefnu tilefni !

  • Þar sem það er aðallega ríkisvaldinu að kenna að hér fór allt á hliðina, á ríkið auðvitað að standa straum af kostnaðinum. Ósanngjarnt sem það hljómar að VIÐ skattgreiðendur þurfum að borga SJÁLFUM okkur bætur, þá er lítið réttlæti í því að við greiðum þær með ellilífeyri okkar.

    Vinstri ríkisstjórn sem hefur líst því opinberlega yfir að hún sé ekki lengur til vinstri, á að fara. Eða hvernig skilur fólk annars yfirlýsingar eing og að EKKERT verði gert meir fyrir lántaka og aðal peningaveitan er að skera niður grunnþjónustuna í landinu og fara illa með gamalt fólk?
    Vinstri hugsjón? Nei – þetta er argasti fasismi.

  • Þetta virðast vera þrír vandar, skuldavandi, greiðsluvandi og neysluvandi. Ef vandamálið er það að 110% leiðin dugi ekki vegna veða sem fengin voru að láni, þá er tæpast um húsnæðisskuldir að ræða heldur neysluskuldir. Hvers vegna ættu lífeyrissjóðir að greiða niður neysluskuldir?

  • Kjarni málsins!
    Það sem Björn Kristinsson segir hér að ofan…Takk!

  • Skiljið þið ekki að bankar og lífeyrissjóðir þurfa að blóðsjúga almenning til dauða til að geta afskrifað skuldir hjá vildarvinum og útrásarvíkingum.

    Nei Ísland er land glæpastarfsemi og fasisma. Hvenær verður næsta hryðjuverk?

    Bankarnir, og reyndar lífeyirssjóðirnir líka, bjuggu til hrunið með ómældu tjóni fyrir almenning.

    Íslendingar er bjánar og gungur. Þeir vita að bankarnir voru 100% glæpafyrirtæki sem stunduðu peningþvætti fyrir mafíur og vegna vændis, eiturlyfja og fjármögnun hryðjuverka fyrir mafíuhópa.

    Hvað gerir íslendingurinn? Ekki neitt frekar en venjulega.

    Aumingjar!

  • Ólafur Jónsson

    Væri ekki rétt að nota lýðræðið og efna til atkvæðagreiðslu hjá sjóðsfélögum hjá Stöfum lífeyrissjóði , þar sem Guðmundur Gunnarsson er formaður stjórnar, hvort lífeyrissjóðurinn Stafir ásamt fl. lífeyrssjóðum eigi að stunda útgerð á riksugutogaranum Blue Wave í genum einhverja sjóði í skattaskjólum, úti fyrir ströndum Marítaníu.
    Þarna er kannski komin skýringin á því að hann legst gen því að hjálpa eigin sjóðsfélögum, sem lentu í að lánin þeirra stökkbreytust við Hrunið, það er greinilega meiri áhugi að stunda áhættusama útgerð við Afríku.

  • Halldór Guðmundsson

    Hvað er satt í því að,
    Stafir Lífeyrissjóður undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar sem formann stjórnar, sé kominn í útgerð á Hrossa makríl úti fyrir strönd Marítaníu,
    Hvað næst spilavíti í Las Vegas, eru engin takmörk fyrir því hvernig er farið með lífeyrisgreiðslur almennings á Íslandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur