Fimmtudagur 17.05.2012 - 16:16 - 18 ummæli

Við strendur Afríku

Tók fyrst núna eftir forsíðu Moggans í gær, miðvikudag. Morgunblaðið er sem kunnugt er systurfyrirtæki Ísfélags Vestmannaeyja, og í gær fagnar blaðið komu nýjasta fiskiskips félagsins, Heimaeyjar VE-1, sem er komið yfir hafið frá Síle.

Af því tilefni eru eigendurnir sjálfir á forsíðunni. Það er nefnilega vá fyrir dyrum, segir Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Ísfélagsins – já einmitt sami Gunnlaugur Sævar sem á fyrri dögum var framkvæmdastjóri Faxamjöls og stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar og eigandi eignarhaldsfélagsins Hnotskurnar og formaður útvarpsráðs og vinur Davíðs og Hannesar – og Gunnlaugur Sævar segir að ef fer sem horfi þurfi líkegast að „selja þetta glæsilega skip úr landi“. Ástæðan er sú að „fólk sem nýtur einskis trausts og á að líkindum aðeins nokkra mánuði eftir á valdastóli“ ætlar að „svipta fjölda fólks lífsviðurværinu og gera milljarðafjárfestingar verðlausar“.

Gunnlaugur Sævar er greinilega vonda löggan í hópnum kringum Ísfélagið og Morgunblaðið. Góða löggan er Guðbjörg Matthíasdóttir, yfireigandi þessara fyrirtækja, og er ekki alveg jafn-svartsýn og stjórnarformaðurinn: „Við skulum vona að skipið fái verkefni við hæfi svo til þess komi ekki.“

Framan á DV segir svo af öðrum útgerðarmönnum, og kannski vísar sú frétt veginn fyrir Gunnlaug og Guðbjörgu út úr þessum ósköpum og til nýrra verkefna við hæfi:

„Moldríkir Samherjafrændur: Milljarðar í vasann“ – fyrir veiðar við strendur Afríku.

Á þeim slóðum er nefnilega ekki við stjórnvölinn „fólk sem nýtur einskis trausts“ og ætlar að „svipta fjölda fólks lífsviðurværinu og gera milljarðafjárfestingar verðlausar“. Við strendur Afríku er ekkert veiðigjald og engir skattar og ekkert eftirlit með fiskveiðum og enginn almenningur sem þykist eiga auðlindina og vill fá borgað fyrir afnot af henni.

Já. Þetta er auðvitað málið fyrir hrausta menn og sjálfstætt fólk. Af hverju er ekki Ísland – og Vestmannaeyjar – og Morgunblaðið – við strendur Afríku?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Eru veiðar Samherja við Afríkustrendur gegnum dótturfélög á meginlandi Evrópu sem eru að nýta veiðiréttindini sem ESB hefur samið við viðkomandi ríki?

  • Ólafur Jónsson

    Gaman væri að vita hvert veiðigjaldið er við strendur Afríku, það væri gott ef formaður stjórnar í lífeyrissjóðnum Stöfum Guðmundur Guðmundsson upplýsti almenning um það, Því Stafir lífeyrissjóður ásamt fleiri lifeyreyissjóðum, ger út á Hrossamakríl við strendur vestur Afríku, í gegnum einhver leynifélög á aflandseyjum.

  • Er ekki hægt að frelsa góða fólkið í Afríku undan vondu íslensku kapítalistunum?

  • Thordur. Já, að hluta. Samherji semur einnig beint við stjórnvöld í viðkomandi ríkjum.

  • Mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið þorskastríðið á sínum tíma, aðeins þannig var hægt að halda til sjós og moka upp fisk hvar sem hann er að finna. Klárum Makríldeiluna, svo klárum við fiskinn í Afríku svo að sumir græða.

    Nú höfum við sjóræningja beggja vegna við strendur Afríku.

  • Haukur Kristinsson

    Það þarf að fara að taka í hnakkadrambið á þessum sjallabjánum.

    Eru orðnir óþolandi með öllu.

  • Hefur enginn Mörður beðið þig um að tjá þig ekki um hluti sem þú hefur ekkert vit á ?

  • Alltaf jafn skemmtilegar árnaðaróskir Marðar þegar eitthvað gerist í atvinnulífinu. Greinilegt að hann og flokkssystkin eru með hugann allan við að ýta undir gjaldeyrisskapandi framkvæmdir, tekjur sem gætu hugsanlega orðið til þess að koma Íslendingum úr þeirri kreppu sem landið búið að vera í, svo að segja frá þeim degi sem samfylking settist í ríkisstjórn.

    Það er svo þægilegt að lepja sitt latte caffe í nágrenni við alþingishúsið, vera prógressívur og skemmtilegur, og áskrifandi að laununum, þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru, en kannski því að súkkulaðinu sé ekki nægilega jafnt sallað ofan á latte froðuna í kaffibollum virtuosanna Marðar og co.

  • Hrafn Arnarson

    fimmtugsafmæli Davíðs Oddsonar, fyrrum útvarpsráðformaður sem skammaðist yfir fréttastofu RÚV í útvarpsráði(eftir kvörtun frá Kjartani Gunnarssyni yfir RÚV) fyrir að flytja fréttir af kosningafundi Davíðs sem voru ekki í „réttu“ ljósi þar sem kvótakerfið kom við sögu, fyrrum Lýsiseigandi sem seldi fyrirtækið til vinkonu sinnar Guðbjargar Matthíasdóttur og tengdapabbi AMX-fuglsins Friðbjörns Orra, að kannski þyrfti að selja þetta nýja, glæsilega skip úr landi ef kvótakerfinu yrði breytt og gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum allra Íslendinga, yrði hækkað.

    Og klykkti svo út þeirri dómsdagsspá að þetta myndi einnig þýða það að engin útgerð myndi fjárfesta í nýsmíðuðum skipum ef þetta yrði að veruleika .

    Sem er frekar fyndið í ljósi þess að þetta er fyrsta nýsmíði Ísfélags Vestmanneyja í fjörtíu ár.

    Sem nær lengra aftur heldur en tilurð kvótakerfisins.

    Og á heimasíðu Ísfélags Vestmanneyja má sjá að yngsta skipið í eigu fyrirtækisins er smíðað árið 1991 í Noregi(væntanlega keypt notað).
    http://blogg.smugan.is/ak72/2012/05/16/var-byrjad-ad-breyta-kvotakerfinu-fyrir-fjortiu-arum/

  • Hrafn Arnarson

    Gráti næst mælti Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, fyrrum veislustjóri í fimmtugsafmæli Davíðs Oddsonar….

  • Æi góði Mörður vertu ekki að tjá þig um mál sem þú eða Samspilling hefur ekkert vit á.Hugmynd ykkar að þjóðnýta útgerðinna mun vera kollvarpað þegar flokkurinn kemst til valda eftir næstu kosningar og þú verður felldur af þingi.

  • Jónas Bjarnason

    Ég þakka góða grein, Mörður. Ég vil bæta við einu. Þú manst það kannski, að Guðbjörg Matthíasdóttir seldi hlutabréf sín í Glitni 1-2 daga fyrir hrun bankans. Það er nokkuð ljóst, að lítill fugl hefur fengið veður af þessu á kórréttum tíma, Baldursvænum tíma og gott betur. Ef litið er yfir hópinn, þá má sjá að fuglinn getur leynst í hópi þeirra, sem fögnuðu og tárfelldu við komu nýja skipsins til heimahafnar.

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Klókir menn segja að nýju frumvörpin mundu tryggja afkomu Heimaeyjar enn betur en áður af því að skipið mundi standa vel í samkeppninni. Þannig er öllu snúið á haus í þessari umræðu.

  • Sigurður Gunnarsson

    Mér finnst að aðrir þingmenn mættu gera meira af því að vitna í DV og nota það til að byggja ákvarðanir og skoðanir sínar á.

  • Rétt Sigurður.

    Og gleymum ekki skoðanakönnum Fréttablaðsins.

  • ,,Já. Þetta er auðvitað málið fyrir hrausta menn og sjálfstætt fólk. Af hverju er ekki Ísland – og Vestmannaeyjar – og Morgunblaðið – við strendur Afríku?“

    Mörður, eru það ekki líka fiskveiðiheimildir ESB í öðrum löndum sem LÍÚ mafían er búin að eigna sér ?

  • Frábært Sigurður. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ættu þá að vitna í skoðanakannanir sem eru reglulega birtar í DV og sína að fylgið við ríkisstjórnina hefur hrunið úr 70% fyrir þremur árum, og niður í rétt rúm 30% undanfarnar vikur. Þeir ættu ekki bara að vitan í þetta, heldur fara eftir þessu, segja af sér, rjúfa þing og boða til kosninga. Það væri það eina rétta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur