Þriðjudagur 22.05.2012 - 15:12 - 6 ummæli

Stórfenglegur árangur

Fyrra blogg: 11. ræða Péturs Blöndals, sett inn um þrjúleytið þriðjudag:

Man eftir því á þingi fyrir nokkrum árum að Pétur Blöndal sagði það um frammistöðu manna í ræðustól að sá kynni ekki að tala sem ekki gæti komið á framfæri afstöðu sinni til tiltekins máls á fimmtán mínútum.

Fannst þetta nokkuð gott, og hafði auðvitað reynt þetta á sjálfum mér. Ég var reyndar ekki alveg sammála Pétri, því auðvitað geta mál verið það yfirgipsmikil og flókin að það þurfi uppundir hálftíma til að fara yfir þau – en allt yfir því er orðið annaðhvort fyrirlestur eða vitleysa.

Nú sé ég á þingvefnum að þessi sami Pétur Blöndal ætlar hvað úr hverju að fara að halda 11. ræðu sína um stjórnarskrármálið í þessari lotu. Þá hefur hann þegar haldið tíu ræður, eina 20 mínútna, eina 10 mínútna og átta 5 mínútna, og þar að farið einum 22 sinnum í andsvör, tvisvar tvær mínútur hverju sinni. Þetta gera samtals 198 mínútur – sem eru þrír klukkutímar og átján mínútum betur. Hvað ætli það séu mörg korter?

Á dagskrá ásamt Pétri eru í þessum orðum innslegnum þau Guðlaugur Þór Þórðarson með 6. ræðu sína, Vigdís Hauksdóttir, einnig með 6. ræðuna, Sigurður Ingi Jóhannsson með 3. ræðuna, Þorgerður K. Gunnarsdóttir með 6. ræðuna, Ragnheiður E. Árnadóttir með 4. ræðuna, Einar K. Guðfinnsson í annarri ræðu, Bjarni Benediktsson með 4. ræðuna, Ólöf Nordal með 5. ræðuna og Gunnar Bragi Sveinsson með 8. ræðu. Og nú hefur bæst við Ásmundur Einar Daðason með 5. ræðuna sína.

Og hér er sko aldeilis ekki töluð nein vitleysa – heldur eru þessir snillingar að koma í veg fyrir þann óskunda að þjóðin fái að segja álit sitt á nýjum stjórnarskrárdrögum.

Ýtið hér eftir nokkur korter til að sjá Pétur Blöndal flytja elleftu ræðuna.

 

Seinna blogg: Stórfenglegur árangur! — sett inn þriðjudagskvöld

PS: Þær urðu víst 13, ræðurnar hjá Pétri, áður en BD hætti málþófinu um fimmleytið. Mér er sagt að þeir hafi fengið það út úr málþófinu að fleygja út frumvarpi sem hefði stöðvað auglýsingar fyrir bjórdrykkju, einkum unglinga — og svo tókst þeim víst að tefja för framfaramáls um náttúruvernd, þar á meðal ráðstafanir  gegn akstri utan vega. Stórfenglegur árangur! Innilega til hamingju, Ragnheiður Elín og Vigdís Hauks!

 

Flokkar:

«
»

Ummæli (6)

  • Kristinn J

    Þetta er hroðalegt. Virðing alþings komin niður fyrir núllið.

    Og þú tekur þátt í þessu Mörður að sitja á alþingi í svona skrípaleik.

  • Kristján Elís

    Pétur löngu búinn með þá 12;))

  • Hrafn Arnarson

    Það er vert að huga að því hvaða þingmenn D og B taka ekki þátt í þessum skrípaleik.

  • Það var nú reyndar ótrúlegur skandall að þetta áfengisauglýsingamál hafi yfirleitt verið á dagskrá innan um alvörumálefnin, ekki síðri tímaeyðsla en áfengisfrumvarp Sigurðar Kára kortéri eftir hrun.

  • Þú ert semsagt á því að þeir hefðu átt að halda áfram að tala ?

  • Hver? Ég?

    Þetta áfengisauglýsingafrumvarp var ómerkilegt blaður um ekkert, hefði eins mátt falla eða standa. Ef fall þess var stóri sigurinn með málþófinu þá hefði eins mátt sleppa því.

    En að sama skapi mega flutningsmenn þess skammast sín fyrir að reyna að skora ódýr móralstig með svona dóti þegar alvörumál stóðu fyrir dyrum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur