Miðvikudagur 06.06.2012 - 10:15 - 7 ummæli

Bogesenar hinir nýju

Það er ömurlegt að horfa upp á LÍÚ misbeita valdi sínu þessa dagana – í afar gamalkunnum stíl sem maður var farinn að halda að tilheyrði kannski einkum síðustu öld öndverðri: þeim Bogesen og Pétri þríhross í sögum Kiljans. Úr bréfi í morgun frá áhugamanni um sjávarútvegsmál:

Ég hef undanfarna daga haft aðstöðu til að ræða við gamla félaga af sjónum, mest skipstjóra og stýrimenn. Það er og hefur verið sáð á síðustu árum miklum ótta meðal þeirra um að veiðigjald verði dregið af óskiptum afla eftir fyrirhugaðar breytingar. Mönnum hefur verið haldið undir þrælsótta og gæti t.d. varðað brottvikningu úr starfi ef menn dansa ekki eftir línu útgerðar. Það er kallað neikvæðni og getur kostað starfsmissi.

Auðvitað hefur aldrei staðið til að veiðigjaldið reiknist af óskiptum afla! – það veiðigjald sem nú er í málþófi LÍÚ-flokkanna í þinginu á að reiknast af umframarði eftir skatta og eftir ríflegan hagnað útgerðarinnar. Eðlilegast væri auðvitað að auðlindarentan yrði ákvörðuð á vel afmörkuðum markaði – þar sem lysthafar byðu einfaldlega í veiðileyfin eftir aflaflokkum og svæðum. Þá mundi útgerðarmaðurinn fyrst borga aðgangseyrinn, og svo tækju við veiðar, rekstur og sala. En þetta vilja útgerðarmenn allra síst, af því þeir halda að þannig misstu þeir allt vald á kvótanum – og ættu í rauninni síst að kvarta yfir aðferð frumvarpsins sem tryggir þeim ágætan arð áður en kemur að því að borga fyrir afnotin af auðlindum þjóðarinnar.

Bréfritari heldur áfram um Bogesena hina nýju:

Það er þannig ástand núna að menn þora ekki annað en að mæta á fundi þó það þýði jafnvel 5–6 tíma akstur til að hlusta á illskiljanlega ummræðu. En þeir verða að sýna sig annað gæti kostað starfið. Því miður eru þekkt atvik sem menn þora ekki að leggja fram lögleg veikindavottorð af ótta við starfsmissi. Svona virðist mórallinn vera sums staðar, en ekki alstaðar sem betur fer.

Ekki alstaðar. Það sést meðal annars á bloggi sjómannsins Birgis Kristbjörns Haukssonar – hér á vef höfundar, hér  í ágætri innpökkun Láru Hönnu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ómar Kristjánsson

    En hlýtur það ekki, í breiða samhengjunu, að segja manni eitthvað að það er eins og margir trúi því sem LÍÚ própagandar? M.a. sjómenn.

    Jú að mínu mati. þetta segir eitthvað. þetta segir manni og sýnir hve própaganda er ótrúlega sterkt tæki. Á Ísland er það þannig að nokkrir hagsmunahópar eru sterkir og þar má setja LÍÚ þar á toppinn. þeir hafa fjármagn og tól til að veita própagandanu til almennings.

    það sem kemur etv. á óvart er hve própagandað hjá LÍÚ er brútalt og hrátt. þetta er ekkert vel gert eða vandað og stenst ekki einnar sekúndu skoðun að neinu leyti.

    þá kemur að því athyglisverða: Innbyggjarar kolfalla festir fyrir þessu! Kolfalla. Mér finnst þetta própagandaherferðardæmi og áhrifin sem það hefur – mér finnst það alarming. Ég er hugsi yfir því.

  • Mörður,
    í frumvarpi um veiðgjöld segir í 10. grein á blaðsíðu 3:

    „Renta reiknast sem söluverðmæti afla eða afurða að frádregnum annars vegar rekstrarkostnaði vegna veiða og vinnslu, öðrum en fjármagnskostnaði og afskriftum rekstrarfjármuna, og hins vegar reiknaðri ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna.“

    Þarna er skattur ekki talinn upp. Er þetta vitleysa í mér eða þér?

    Það sem vantar eru skýrar sviðsmyndi af því hvernig þetta kerfi á að vera og hvaða kraftar og hvatar munu virka.

  • Ólafur Jónsson

    Það er löngu orðið ljóst, þetta kvótamál þarf að fara fyrir þjóðina sem fyrst,
    en meðan þingið er að vinna úr þessu, þarf að gefa handfæraveiðar frjálsar ca. 10 daga í mánuði allt árið.(dagakerfi menn velji sér þá daga sem þeir vilja róa)
    Og þessir bátar hafi frjálsræði á makríl aðra daga mánaðarins, meðan makríll er við Íslandsstrendur.

  • Mörður Árnason

    Lúðvík — Nei, þetta er rétt hjá þér – auðvitað ekki eftir tekjuskatt á hagnað fyrirtækja, tek út þennan fingurbrjót. Frá tekjum dregst fyrst allur rekstrarkostnaður, þar á meðal hlutur sjómanna, svo 8% áætluð ávöxtun af eigin fé og fastafjármunum. Af því sem eftir er er svo borgað almenna gjaldið. Af tekjum sem enn standa eftir renna svo 50-70% í veiðigjaldið. Skattur ekki inni. Ath. sérstaklega að laun/hlutur sjómanna eru inni í rekstrarkostnaði, veiðigjald reiknast einmitt ekki af hlutnum.

  • Sæll Mörður, mér finnst þetta nokkuð sanngjarnt en á sama tíma finnst mér þetta ekki nægilega vel kynnt, sérstaklega það hvað auðlindarenta er(mér finnst umframhagnaður allt of gildishlaðið orð) og hvað rentusóknin hefur verið skaðleg og kostnaðarsöm á síðustu árum.

  • Halldór Halldórsson

    Það er ömurlegt að sjá fyrirbæri eins og Mörð Árnason, sem slefaðist eins og framhjáskotsbrundur gamals og gleymds þarfagrips inn á Alþingi, lýsa fyrirlitningu sinni á fólki sem hefur raunverulegar áhyggjur af framtíð sinni!

  • Sæll Mörður
    Já LÍÚ og stjórnvöldum er að takast nokkuð vel til í því að sundra sjómannastéttinni. Stjórnvöldum með því að taka sjómannaafsláttinn af og Líú með hótunum um að taka alla rentu af óskiptu.
    Í mínum huga mega bæði Stjórn og Líú skammast sín hvernig þau koma fram við sjómenn.
    Það er líka gaman að geta þess varðandi sjómannaafsláttinn að í Noregi eru fyrstu 3,5 milljónirnar skattfrjálsar og nú fara þarlendir sjómenn fram á að þessi mörk verði hækkuð upp í 5 milljónir að öðrum kosti fari þeir í verkfall. Það væri gaman að sjá hvernig ykkar blessuð ríkisstjórn myndi taka á þess konar málum.
    Svara þú mér einu Mörður Árnason finnst þér allt í lagi að klippa þennann afslátt af, sem settur var á af stjórnvöldum á sínum tíma til þess að liðka fyrir kjaradeilum sem þá voru, án þess að tryggja málefninu í þann farveg að sjómenn hljóti ekki kjaraskerðingar af????????

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur