Fimmtudagur 14.06.2012 - 10:42 - 19 ummæli

64. greinin

Samkvæmt 64. grein þingskapalaga getur forseti eða níu þingmenn lagt fram tillögu um að ljúka umræðu um mál á þingi. Um slíka tillögu skal þá greiða atkvæði strax. Þrennt kemur til greina:

1. Að hætta umræðum samstundis og ganga til atkvæða.

2. Að ákveða þann tíma sem eftir er, annaðhvort ljúka henni á ákveðnum tíma ákveðins dags – um hádegi næsta fimmtudag til dæmis – eða tiltaka lengd umræðu sem eftir er, til dæmis að ekki skuli talað lengur umm málið en tíu tíma í viðbót.

3. Að hver þingmaður fái ákveðinn ræðutíma, sem hann ræður síðan hvort hann notar og að hve miklu leyti. Raunar getur forseti úrskurðað um þetta án atkvæðagreiðslu.

Meirihluti þingsins getur því beitt þessari lagagrein með ýmsum hætti og gætt allrar sanngirni þótt ákveðið sé að umræðan taki enda.

Skilyrði eru þau að umræðan hafi „dregist úr hófi fram“.

Ég tel — ásamt Margréti Tryggvadóttur og miklu fleiri þingmönnum — að nú hafi umræður um mikilvæg mál á alþingi dregist svo úr hófi fram að varðar þjóðarhag. Veit allt um málþóf og hef varið rétt stjórnarandstöðu til að taka þátt í skipan mála á þinginu og hafa áhrif á landstjórnina. Það sem nú er að gerast á þinginu eru hinsvegar strákapör og skemmdarverk.

Hér er þessi þingskapagrein í heild:

64. gr. Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.

Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.

Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður.

Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.

Ákvæði þessarar greinar ná einnig til ræðutíma ráðherra.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Sverrir Hjaltason

    Hafðu heill mælt Mörður.

  • Hrafn Arnarson

    Tek undir þetta. Áður en til þessa kemur verður hins vegar að fá sérfræðingaa til að meta áhrifs veiðigjalds á allar tegundir útgerða. Finna þarf þá prósenttölu sem myndar hæfilegt veiðigjald. Þegar það er komið er rétt að kjósa. Umræðurnar á þinginu eru skipulagður skrípaleikur og innihaldslausar langlokur um allt og ekkert. Þessu verður að linna.

  • Eyjólfur

    http://news.wustl.edu/news/Pages/4656.aspx

    Meira að segja Repúblikanar á Bandaríkjaþingi höfðu vit á að virkja ekki sambærileg ákvæði í þingskaparlögum, þótt rugluðustu álitsgjafar og þingmenn hafi viðrað þá hugmynd. Stóð þá yfir þófsbeiting á þingsköpum til að hindra að dómaratilnefningar George W. Bush kæmust til atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni.

    Ætli það hafi ekki vegið þyngst að menn vissu auðvitað að þeir yrðu ekki alltaf í meirihluta; vagnhjólið snýst og þeir sem gorta af efri helmingi þess kremjast að lokum undir. Þetta er jafnvel enn skýrara á Íslandi 2012. Þingið yrði ekki samt aftur og vermirinn yrði ákaflega skammgóður.

  • Sverrir Hjaltason

    Brotavilji gömlu valdaklíkunnar er það einbeittur að nauðsynlegt er að grípa til þessa úrræðis þó leitt sé. Þingmeirihlutinn er valdalaus ef minnihlutinn þvælist fyrir í það óendanlega.

  • Ómar Kristjánsson

    Jú, það á að vera hægt að takmarka ræðutíma til að meirihluti geti komið málum fram. Annað er barasta tóm vitleysa. Að minnihluti geti kjaftað við sjálfan sig mánuðum og árum saman og stoppað öll mál meirihluta? Hvað bull er þetta!

    það er barasta þannig að meirihluti alþingis og ríkisstjórn stjórna. þessvegna er meirihluti og ríkisstjórn! Sá er nú tilgangurinn. Og áðurnefndur meirihuti og ríkisstjórn ber ábyrgð á stjórn landsins.

    Hitt er allt annað mál að oft má semja um einhver mál við minnihluta eftir atvikum. Í tilvikinu núna eru við bara fyrir löngu komin framhjá þeirri stoppistöð. Fyrir langa löngu.

    það sem við sjáum núna er að einhver Bófaflokkur böðlast og lýðræðinu og misbíður því gróflega með sínu siðlausa framferði.

    Til samanburðar, og til að bregða upp sögulegum myndum, að þá var sagt þegar umræður um aðild að Nato voru á dagskrá eða til afgreiðslu, að óþarfi væri að ræða mikið frekar um málið í sölum Alþingis – því öll aðalatriði málsins hefðu komið fram í útvarpsumræðum kvöldið áður!

    þetta sem maður sér núna af hendi Bófaflokksinns er gróf og siðlaus misnotkun á lýðræðinu. Og þessi andsvara upplegg sem átti að vera framför er misnotað herfilega af áðurnefndum flokki. það bendir til að breitingar á umræðuformi þingsins er líklega ekki lausn því það virðist alltaf vera hægt að misnota allt ef nógu skammarlegt eðli er til staðar.

    þessvegna verður bara, að ákv. skilyrðum uppfylltum, meirihluti að taka í taumana og stoppa svona vitlaysu og afgreiða mál sem honum ber að gera og hlutverk hans er.

  • Myndi styðja að þetta ákvæði yrði virkjað núna. Önnur mál bíða óþreyjufull afgreiðslu. Veiðgjaldið má ekki stöðvast af því Ásta Ragnheiður Elín er tilbúin að fórna sumarfríinu til að standa undir kröfum LÍU. LÍU mun ábyggilega bæta henni sumarfríið upp í næsta prófkjörslag, í þakklætisskyni.

  • Sæll Mörður,
    ef málefni fá ekki góða og ítarlega umfjöllun með aðkomu allra hagsmunaaðila þá er beiting 64. greinarinnar andlýðræðisleg.

    Meirihluti Alþingis getur breytt vinnubrögðunum til hins betra og gefið 64. greininni nauðsynlegt lögmæti.

    En svo lengi sem meirihlutinn neitar að ræða við hagsmunaaðila og neitar að fá nauðsynleg svör frá opinberum stofnunum sem málið varðar þá strandar þetta á stjórnarmeirihlutanum en ekki minnihlutanum.

    Hafðu það í huga Mörður.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Spurningin er hvort virkjun 64. greinarinnar stuðlaði að agaðri vinnubrögðum.
    Ég held það en það er alls ekki víst. Einhvern aga verður að hafa á þessum vinnustað en manni virðist að honum sé ekki til að dreifa nú.

  • Einar Þorbergsson

    Sæll Mörður!
    Hætta að blaðra og framkvæma. Drífa í að koma agaðri vinnubrögðum á á hina lága alþingi svo virðing eigi einhvern möguleika á að vaxa. Kvótamálið í þjóðaratkvæði og vinda sér í skuldavanda heimilanna, því það sem gert hefur verið þar er til háborinnar skammar. Standa við loforðin stóru um skjaldborgina.

  • Halldór Halldórsson

    Og af hverju í fjandanum drífur Mörður sig ekki og „virkjar“ 64. greinina? Hann er jú kominn með stuðning frá einum öðrum stjórnarþingmanni, Margréti Tryggvadótttur!

  • Eftir hverju ert þú að bíða ?

  • 1. Það verður að samþykkja veiðgjaldið án þess að slá millimetra af því núna þ.a. það muni gilda á næsta fiskveiðiári.
    2. Það hefur komið fram m.a. í beinni línu á DV þar sem að Guðmundur eigandi Brims sat fyrir svörum að útgerðarmenn
    a) vilja ekki greiða neitt fyrir fiskinn
    b) vilja að þjóðin greiði fyrst upp svallskuldir þeirra vegna hlutabréfakaupa og óhóflega arðgreiðsla áður en röðin kemur að eðlilegu gjaldi fyrir fiskinn.

    Það er búið að ræða málin við útgerðarmenn. Því miður launar kálfur sjaldan ofeldið og er útgerðin þar engin undantekning. Orð eins og „samráð“ eru því gróflega misnotuð.

    Fyrirning 5% aflaheimilda á ári í 20 ár og ekki millimetri gefinn eftir með veiðigjaldið enda um kosningarloforð að ræða. Allt annað er í hæsta máta óeðlilegt og sýnir ekkert annað en að öll vileysan sem að dunið hefur á þjóð og þingi borgar sig fyrir sérhagsmunaseggina þegar milljarða sérhagsmunir eru í húfi.

  • Mörður !

    Geur þú sagt mér hvers vegna er kosningamál Samfylkingarinar statt á þessum slóðum í dag ?

    Þekkir þú einhvern í flokknum þínum sem hefur talað við einhvern sem mígið hefur í saltan sjó ?

    Í þessum flokki er bara háskólaborgar sem getur alls ekki farið úr 101 nema að hafa alla fjölmiðla með sér til að sýna sig !!!!!

    Þarna er ekkert samband við venjulegt fólk úr iðn, verkumhverfi og sjómennsku, sem hefur reynslu af vinnu, en ekki bara úr skólaumhverfi 101 !!!

  • Sigurjón

    Með því að virkja 64. greinina, þótt réttmætt væri núna, er stigið skref sem ekki verður aftur tekið. Ný regla skapast í störfum þingsins.

    Meirihlutinn getur síðar notað fordæmið til að kúga minnihlutann af litlu tilefni.

    Því er betra að minnihlutinn kúgi meirihlutann með málþófi þótt það sé þreytandi meðan án því stendur.

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Ég skil það svo að engin trygging sé fyrir því að málþófinu ljúki þó að sumarþing héldi áfram. Er ekki bara þessi bremsa of öflug og þarf þá ekki að finna aðra hóflegri í staðinn?

  • Steini Mar

    Vinstristjórnin er enn á fullum farti aftur í fornöld.
    Stór mál á að troða í gegnum þingið gegn meirihlutavilja þjóðarinnar. Þarf bara einfaldar skoðanakannanir til að staðesta það. Enda er þessu fólki drullu sama um að Alþingi er komið niður í ruslflokk í áliti og að ríkisstjórnin sé komin niður fyrir 30% fylgi.
    – Virkjuðu Landsdóm sem ekkert kom út úr nema skjalfest sneypuför VG og Samfylkingarinnar.
    – Stjórnlagaþing sem er var klúðrað með ólýsanlegum hætti.
    – ESB ferlið allt var sett af stað með fölskum meirihluta (VG)
    – Heimilin og fyrirtækin í landinu á bara að handrukka, skattpína og arðræna.
    – Svo er verið að tala um að virkja 64 greinina bara svona til að rústa Alþingi endanlega!!!

    Eina „góða“ við það er að þá getur Ólafur Ragnar sagt hingað og ekki lengra, Alþingi er endanlega óstarfhæft og sett þessa fáránlegu ríkisstjórn af.

  • Það er ljóst að mikill meirihluti þjóðarinnar vill fá eðlilegt endurgjald fyrir fiskinn. Það er meirihluti fyirr málinu á Alþingi. Um er að ræða kosningarloforð, sem að kjósendur ætlast til að staðið verði við. 18 milljarða veiðigjald og ekki einn einasti aur gefinn sem afsláttur af því.

    Ljóst að það stjórnmálaafl sem að þú Steini Mar styður var heimilinum og fyrirtækjunum í landinu dýrkeypt, er á móti stjórnlagaþingi o.s.frv.
    Ekki heil brú í þínum skrifum vinurinn!

  • Jóhann og Steingrímur eru á réttri leið með að veita engan afslátt á veiðigjaldinu og berjast fyrir hag þjóðarinnar.

    Sérhagsmunaseggirnir eru rökþrota. Það eina sem þeim dettur í hug eru ómerkilegar persónulegar svívirðingar og árásir. Eftir því sem orðbragðið versnar og dónaskapurinn eykst, því ljósara er að þau eru að breyta rétt.

  • Jón Ólafs.

    Mörður athyglisverð lestning, og ekki síður áhorf.

    ornagir.blog.is/blog/ornagir/#entry-1246831

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur