Laugardagur 07.07.2012 - 10:25 - 3 ummæli

Moggi býr til framsal

Í tvo daga hefur Morgunblaðið sagt landsmönnum að frá því þingi lauk sé í gangi hræðilegt fullveldisframsal – samkvæmt nýjum lögum um loftslagsmál þar sem stóriðjufyrirtækin komast inn í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.

Ég las fréttina í fyrradag og blandaðist svo inn í fréttaflutninginn í gær, en hélt eftir það að í dag birtist látlaus frétt á innsíðu með kyrrlátri fyrirsögn, vegna þess að framsalið í lögunum reyndist vera fullkominn misskilningur. Þau Evrópulög sem um ræðir, og lögspekingar hafa skrifað um vandaða greinargerð – þau eru ekki grunnur laganna sem voru samþykkt í vor. Framsal fullveldis vegna þeirra hefur því ekki farið fram ennþá, og stendur reyndar ekki til af hálfu íslenskra stjórnvalda, samkvæmt minnisblöðum úr utanríkisráðuneytinu.

Forsíða Mogga má hinsvegar ekki vera tóm, og þessvegna kýs blaðið að skilja ekki staðreyndir málsins heldur birtir aðra frétt – þar sem þeir Birgir Ármannsson og Atli Gíslason eru látnir misskilja valdaframsalið og fara mikinn gegn Evrópusambandinu og hinum svikráðu taglhnýtingum þess hérlendis. Gott ef Þuríður Backmann hefur ekki verið tekin upp ólesin líka í þetta skiptið.

Nú spái ég því hinsvegar að hljótt verði framvegis á síðum Mogga um nákvæmlega þetta afar meinta fullveldisframsal.

EES-vandinn

Hið raunverulega álitamál sprettur af tilskipun eða leiðarlögum sem til eru orðin í Evrópusambandinu um einn þátt þessa samvinnusamnings, skráningarkerfið. Þar er gert ráð fyrir sameiginlegri stofnun með ákveðnar heimildir til að halda stóriðjufyrirtækjum við efnið, og ef Íslendingar yrðu með í þessu óbreyttu fælist í því fullveldisframsal sem þau Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen telja í greinargerð að ekki sé heimilt samkvæmt stjórnarskránni. Lausn okkar í bili er þá helst sú að búin verði til hliðarstofnun Efta-ríkjanna, alveg eins og stóra stofnunin, þar sem þessum heimildum yrði ,komið fyrirʻ. Þannig gengi þetta gagnvart stjórnarskránni, telja þau Stefán Már og Björg.

Þetta væri auðvitað heldur vandræðalegt og innihaldslítið. Í nánu samstarfi af þessu tagi þarf hin sameiginlega stofnun að hafa tiltekin völd og heimildir, og geta beitt þeim hratt og vel. Lang-hreinlegast væri að bæta við stjórnarskrána ákvæði þar sem alþingi fengi heimild til að framselja þetta vald í tilvikum einsog þessum – þá auðvitað þannig að hægt sé að kalla þá heimild aftur. Slíkt ákvæði er reyndar að finna í frumvarpsdrögunum frá stjórnlagaráði.

Vandinn er hinsvegar almennari, og felst í því að aukaaðild okkar að Evrópusambandinu gegnum EES-samninginn verður sífellt snúnari. Annarsvegar vegna þess að við erum alltaf í stöðu þiggjandans, eftir að búið er að ráða ráðum og ganga frá málum, ekki þátttakendur sem geta gripið inn í mikilvæg mál og haft áhrif frá upphafi. Hinsvegar vegna þess að í Evrópusamvinnunni verða til sífellt fleiri samþjóðlegar (hef aldrei skilið orðið yfirþjóðlegur) stofnanir sem fara hver um sig með afmarkað vald sem áður var búið um í þjóðríkjunum. Sameiginleg samþjóðleg stofnun er sett á fót til að leysa sameiginlegan samþjóðlegan vanda – sem ekki virðir landamæri. Um það eru umhverfismálin almennt og loftslagsmálin sérstaklega skýrt dæmi.

Þriðja málið á skömmum tíma

Það má segja að þessi nýi vinkill á regluverkinu kringum loftslagskerfið sé þriðja málið af þessu tagi sem kemur upp í utanríkismálanefnd þingsins á skömmum tíma. Hin fyrri voru annarsvegar regluverk kennt við fjárhagsstöðugleika, þar sem er heldur ekki gert ráð fyrir sérlausn fyrir Efta-ríkin innan EES, og svo vegabréfsmál sem af því spratt að Frakkar neituðu að sjá áfram um áritanir fyrir okkur í nokkrum ríkjum nema þeim yrði heimilt sjálfum að neita um áritun án þess að spyrja fyrst í Reykjavík. Það er að vísu ekki EES-mál en náskylt að eðli.

Morgunblaði Matthíasar og Styrmis hefði líklega þótt þetta afar áhugavert, og leitað svara við spurningum sem þessi staða kveikir hjá tiltölulega nýfrjálsri þjóð sem byggir afkomu sína og lífssýn á viðskiptum og samvinnu yfir hafið. En Davíðsmoggi lætur sér fátt um finnast, þar nægir að finna dalega eitthvað á ESB og ríkisstjórnina.

Og samt náði yðar einlægur að svara Matthíasi og Styrmi í Morgunblaði dagsins:

„Þetta mál sýnir ágætlega þann vanda sem við stöndum frammi fyrir sem aðilar að EES-samningnum eftir átján ár. Það þarf að leysa þann vanda því við getum ekki búið við hann til frambúðar. Ég geri ekki ráð fyrir því að því verði tekið með miklum fögnuði að tveggja stoða lausnin sé notuð í öllum tilvikum þar sem þessi staða kemur upp, þá á ég við Evrópusambandið og samstarfsfólk okkar í EES og EFTA. Enda væri það nánast feluleikur. Hinsvegar teldi ég eðlilegt að breyta stjórnarskránni þannig að hægt sé með ákvörðun alþingis að deila fullveldisréttinum í tilvikum einsog þessum. Það leysir málið að hluta. Samt sem áður stöndum við frammi fyrir þeim ágöllum EES-aðildarinnar sem hér býr að baki. Mín lausn á vandanum er að ganga í Evrópusambandið og verða þátttakandi í þessu ferli, og ekki bara þiggjandi. Aðrir verða svo að gera grein fyrir sinni lausn.“

 

Flokkar:

«
»

Ummæli (3)

  • Það ætti að veita Merði verðlaun, bjartsýnisverðlaun Bröstes fyrir þau ummæli að tala um að hann vilji ganga í ESB til að verða þátttakandi, ekki þiggjandi. Ætli Mörður yrði mikill þátttkakandi í því t.d. að ákveða hvort gefin verði út evru skuldabréf? Það sýnist flestum sem hinn marghami sjávarútvegsráðherra, sem þessa stundina stýrir fimm ráðuneytum, Steingrímur J. Sigfússon sé þegar búinn að kasta handklæðinu í samningaviðræðunum við ESB um makríldeiluna. Það fer alla vega lítið fyrir að íslensku samninganefndarmennirnir í þeirri deilu séu neitt annað en ölmusumenn, hafa lítið um það að segja hvernig ráðhahagnum verður fyrir komið.

  • Örn Ægir

    Mikill léttir verður þegar Mörður og félagar verða afmunstraðir af alþingi Íslendinga og menn geta farið að snúa sér af einhverju öðru en að verja sjálfstæði landsins fyrir ágangi Evrópusambandsins og lyga og svika leppum þess hér á landi Merði og félögum í landráðafylkingunni.

  • Hreggviður

    Það fer að verða erfitt fyrir „vissa“ aðila að viðhalda lygunum um EES og ESB, allt snýst í höndunum á þeim. Annars virðist sauðheimskur Landinn kaupa hvaða lygi sem er og fyrirmunað að hugsa sjálfstætt.

    Í dag unnu blaðamenn mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem vor innheimski og heimóttarlegi Hæstiréttur hafði dæmt í anda þöggunar og skoðanakúgunar. Flest það sem til réttrar áttar hefur horft hjá okkur, kemur undantekningarlaust í gegnum samstarfið við Evrópu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur