Mánudagur 09.07.2012 - 12:54 - 26 ummæli

Njólinn lifi

Af hverju sprettur þessi ótrúlegi pirringur út í náttúrlegan gróður á umferðareyjum og túnskikum í Reykjavík? Og þessi hystería yfir að ekki skuli heyjað í borginni mörgum sinnum á sumri?

Alltaf virt það við Hrafn Gunnlaugsson að halda uppi vörnum fyrir náttúrlegan gróður í borgarlandinu – þetta voru og eru melar og mýrar fyrst og fremst og hér eiga auðvitað að vera þau grös sem að fornu spruttu – þar á meðal hvannjólinn, sem er eiginlega einkennisjurt höfuðborgarinnar, og partur af heimi æskuáranna, að minnsta kosti okkar Hrafns. Við bara búum hérna í einmitt þessari náttúru, og það er segin saga að hinar gervilegu skrúðgrastorfur láta sífellt undan síga fyrir reykvískum villigróðri nema með ævintýralegu nostri. En það nostur á heima í görðum, húsgörðum fjölskyldnanna og sameiginlegum garðsvæðum íbúanna, ekki á almennu reykvísku bersvæði.

Og slátturinn – hvar ætla Júlíus Vífill og Silfur-Egill að sækja peninginn sem þarf til hans?

Snöggskornar grasflatir með standardgróðri eru einkenni amerísku bílaborgarinnar sem var gerð að fyrirmynd í Reykjavík kringum 1960, illu heilli. Nú eiga þeir tímar loksins að vera liðnir.

Lifi njólinn!

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Elín Sigurðardóttir

    Snýst náttúruvernd Samfylkingar um það að vernda njóla á umferðareyjum?

  • Þórður

    Er ekki rétt að halda í pólitíska vegferð og efna til íbúakosningar í Reykjavík um hvort að kjósendur vilji njóla í nærumhverfi sínu?

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Svona hugsunarháttur lýsir mikilli skammsýni því með þessu hirðuleysi sáir njólinn, túnfífillinn o.fl. sér óáreitt í í görðum, húsgörðum fjölskyldnanna og sameiginlegum garðsvæðum íbúanna.

  • Fyrirgefðu mér Mörður hvað ég mun gera lítið úr þér, en þessi pistill finnst mér eins og vörn fyrir þína menn, ekkert annað. Ef að Davíð Oddsson og/eða aðrir Sjálfstæðismenn væru yfir borginni hefðir þú örugglega notað þá heilmiklu órækt sem við borgarbúar þurfum að lifa við og skrifað pistill til að sækja að þínum andstæðingum. Og örugglega sagt: “ Af hverju geta ekki grasflatir Reykjavíkur verið snöggskornar með standardgróðri sem eru einmitt einkenni amerískrar bílaborgarar og var gerð að fyrirmynd í Reykjavík kringum 1960. Af hverju eru þeir tímar liðinir?

  • hmm, borg, þéttbýli, frjókornaofnæmi eykst við óræktina, atvinnulausir unglingar . . . . Flokksræðið snýður fátæktina að hentugleikum.

  • kristbjörn árnason

    Þegar ég var í sveit í sjálfum Hrunamannahreppi og var látinn vinna fyrir mér með striti sem í dag væri kaða barnaþrælkun var njólinn notaður fyrst á vorin í ýmsa matargerð. Eftirminnilegastur var njólajafningurinn með saltaða hrossakjötinu. Algjört lostæti

    Njóli, sem hefur latneska heitið Rumex longifolius, er planta af súruætt. Njólinn getur orðið nokkuð stór eða meira en metri á hæð. Hann vex aðallega við byggð og er oftast talinn illgresi. Sums staðar hefur hann breiðst nokkuð út í óræktað land, og kann þá best við sig í bleytum, flæðum og árfarvegum, en hann finnst yfirleitt ekki til fjalla né langt frá byggð.

    Njóli (Rumex longifolius).

    Plantan var áður notuð sem lækningajurt og fersk njólablöð eru talin holl. Um njólann má lesa eftirfarandi í bókinni Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur:
    Blöð af njóla (Rumex longifolius), sem er af súruætt, voru töluvert notuð hérlendis áður fyrr, bæði í te, súpur og grauta og með ýmsum kjöt- og fiskréttum. Njólinn er bestur á vorin, áður en hann blómstrar, og var fyrsta græna matjurtin sem unnt var að fá á vorin áður fyrr. Hann má matreiða á sama hátt og grænkál.

    Um hann sagði Eggert Ólafsson í Matjurtabók sinni: „Þetta kál er tilreitt sem kálgrautur, túnsúrur eru góðar þar saman við.“ Sæt njólastappa var borin fram með steiktu kindakjöti í veislu sem Jörundi hundadagakonungi var haldin í Viðey árið 1809, en annað meðlæti með steikinni var vöfflur, flatbrauð og kex.

    Þegar var kaupamaður í sveit var mér sagt að njólinn væri norræn nytjajurt sem landnámsmenn hefðu flutt með sér til Íslands. Eitt er víst að hann hefur verið mjög mikilvægur í eina tíð þegar annað grænmeti var nánast ófáanlegt í landinu.

    Á vefnum Flóra Íslands má sjá kort af útbreiðslu njólans.

  • Örn Ægir

    Alltaf fróðlegt að fá að skyggnast inn í hugarfylsgni sumra manna, sjá hvað er að gerjast þar undir niðri og hvort þeir eru yfirleitt hæfir til að gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning og í hvaða tilgangi þeir buðu sig fram til þeirra starfa.

  • Mörður „Njóli“ Árnason.

  • Björn Kristinsson

    @kristbjörn árnason // 9.7 2012 kl. 14:26

    Ráðlegg þér ekki að leggja þér til matar njóla af umferðareyjum, eðli málsins samkvæmt.

    Að slá umferðareyjar snýst um að hafa snyrtilegt hjá sér.

    Hvar á að fá fjármagnið ? Skoðaðu skopmynd Halldórs í Fréttablaðinu í dag. Hann er alveg með þetta.

  • Elín Sigurðardóttir

    Kannski að Núbó hafi áhuga á hreinni náttúruperlu í hjarta borgarinnar. Island in the stream að eigin vali til nokkurra tuga ára. Hefur Samfylking hugleitt þann möguleika?

  • Kári Lárusson

    Þegar kjósendur hafa upprætt hið pólitíska illgresi Samfylkinguna í næstu kosningum , mun Íhaldið eyða öðru illgresi í borgarlandinu og þá hverfur njólinn. Ég mun hvorugs sakna.

  • Rafn Guðmundsson

    Sammála þér Mörður – mér finnst þessi svokölluð ‘órækt’ bara flott

  • Njólinn er fegurstur planta, rauður og grænn. Aldrei skal ég uppræta njóla
    nema í matjurtabeði. Það var haft eftir skáldi, (ég er búinn að gleyma
    nafni hans og þjóðerni): Fagurkeri er sá sem sér fegurðina í ruslahrúgu
    í grænum lækjarhvammi. Allir muna eftir fegurðinni í litbrigðum drullupolla þegar olíu var bætt í þá.
    Og orti ekki borgarskáldið, Tómas Guðmundsson svona um vesturbæ
    Reykjavíkur í „Fögru veröld“.
    En sóldaginn sumarlangan
    fer saltlykt og tjöruangan
    um ströndina víða vega.
    Úr grjótinu gægist rotta
    Og gömlu bátarnir dotta
    í naustunum letilega

    Reynum að sjá hið fagra allstaðar í veröld okkar.

  • Gústaf Níelsson

    Umhverfissóðarnir verða að hafa sitt svigrúm svo öllu réttlætis sé nú fullnægt!

  • Einar Gunnarsson

    Upprætingarárátta er jafnan ógeðfelld.

  • Vil bara koma því á framfæri að besta tillaga er sú að girða 101 Reykjavík og setja íbúa þar í búr, eins og gert er í dýragörðum !
    Selja svo inn fyrir ferðamenn og sýna þessar sérstöku persónur, sem þykjast ekki eiga samleið með öðru fólki !!!!

    Við , hinir borgar búar getum svo reynt að komast að því hvers vegna þetta snobbaða lið geti ekki bara átt heima á kr-vellinum !!!

    Það er með ólíkindum hvað býr í þessu snobbliði !!!!!!!!!!!!!!!

  • Þetta er ljótt og sóðalegt……. Ef bærinn er auralaus er til eitthvað sem heitir sjálfboðavinna, en svona illgresi sem veður uppi er borginni til vansa.

  • Björg Sveinsdóttir

    Ég er hjartanlega sammmála Merði varðandi æskilega órækt og hef líka alltaf tekið hattinn ofan fyrir Hrafni Gunnlaugssyni þegar hann hefur varið fífilinn og njólann í Laugarnesinu, en þótt undarlegur af mörgum fyrir bragðið. En mér þykir undarlegt hve margir kommentar á pistilinn eru heitir útaf viðrun þessa sjónarhorns og snúa jafnvel sumir málinu uppí pólitík.

  • Elín Sigurðardóttir

    Er það tilviljun að búið er að fjarlægja Umhverfis- og heilbrigðisstofu af vef Reykjavíkurborgar?

    http://www.umhverfisvefurinn.is/default.asp?sid_id=1676&tre_rod=013|&tId=1

  • Yngvi Högnason

    Það er ekkert óeðlilegt að óræktin sjálf sjái ekki óræktina. En það væri ekki verra fyrir íslenskufræðinginn að heyja sér nokkur orð og merkingu þeirra í orðabók Menninningarsjóðs. T.d. orðsins „heyja“.

  • Er það ekki líkt og með aðra órækt, að afskipti yfirvaldsins skemma fyrir? Væri ekki nær að leyfa náttúrinni að hafa sinn gang og þá lagast þetta allt af sjálfu sér og kemst í fullkomið jafnvægi. Frekustu plönturnar (oft á tíðum illgresi) geta þá tekið yfir veikbyggðari plöntur og hrakið í burtu. Hvar eru sjálfboðaliðar og einkaframtakið þegar kemur að þessari órækt?

    Þótti þetta bara skondið þar sem það virðist helst vera fólk sem gefur sig út fyrir að vera til hægri í stjórnmálum sem gagnrýnir þennan vöxt.
    http://www.pressan.is/ImageHandler.ashx?ID=56c9329a-4557-4d45-ab00-371bfe2a8cfb&type=w300

    Mér þykir slétt gras ljótt og það er fullt af skemmtilegum gróðri sem lífgar uppá umhverfið.

  • Haukur Kristinsson

    AMX Fuglahvísl var að birta ummæli um pistil Marðar.
    Hvaða grasasni skrifar þetta AMX bull? Það er allt í senn; íllkvitnislegt, heimskulegt og ílla skrifað. Hvaða gaur er á launum við iðju þessa?

  • Haukur Kristinsson

    Í vetur var það snjórinn, núna er það njólinn.

    Reykvíkingar eru miklar klögu- og væluskjóður.

  • Þorleifur H. Gunnarss.

    Mörður, vont er ranglæti ykkar vinstrimanna, en enn verra er þó ykkar réttlæti.

    Má maður kannski búast við því að þið færuð að réttlæta vændissölu ef einhver úr ykkar liði yrði uppvís af slíku?

    Þið mynduð þá skýrskota til þess í réttlætingu ykkur, að slíkt hafi verið stundað í Grikklandi til forna, svo það væri því ekkert rangt við vændissölu.

  • Sigurjón H. Birnuson

    Borgarbyggðin er merki um sigur mannsins í baráttunni við náttúruna. Þegar borgarbúar hætta að slá grasið og uppræta njólann táknar það uppgjöf í því stríði.

  • Þórður

    Þetta er geggjað mottó! Ætla þokkalega að lifa eftir þessu heima hjá mér. Lifi lóin!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur