Miðvikudagur 11.07.2012 - 10:31 - 11 ummæli

Velheppnað fullveldisframsal

Óska blaðamönnunum Erlu Hlynsdóttur og Björk Eiðsdóttur innilega til hamingju með dóminn í Strassborg – og um leið áhugamönnum um tjáningarfrelsi og opna umræðu á Íslandi.

Þetta leiðir til breytinga á meiðyrðalöggjöfinni, segir í sumum fréttum. Kannski. Ég fór einusinni að leita að þessari meiðyrðalöggjöf og hélt þetta væri meiriháttar lagabálkur, en fann að lokum nokkrar greinar inní hegningarlögunum, ágætar greinar almennt orðaðar (gr. 233a–242 sýnist mér, hér). Hér er fyrst og fremst um að kenna dómaframkvæmdinni ef ég skil það rétt – það eru dómstólarnir sem hafa sveiflast til í túlkun þessara lagagreina sem hafa verið nokkurnveginn eins síðan í Grágás, og nú uppá síðkastið fellt hvern dóminn öðrum einkennilegri gegn blaðamönnum. Sem þurfa einmitt á að halda skýrum reglum um æru manna, ábyrgð á ummælum og vernd einkalífs.

En gegn undarlegheitum í íslensku réttarfari og útnesjamennsku í íslenskri stjórnsýslu höfum við sem betur fer Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg.

Velheppnað framsal

Mannréttindadómstóll Evrópu er eitthvert allra besta dæmi okkar tíma um góða alþjóðasamvinnu – og ekki síður um velheppnað fullveldisframsal – sem er núna að verða eitt af dónalegu orðunum í nútímaíslensku. Við höfum lögleitt alþjóðasamning, mannréttindasáttmálann, og þar með skuldbundið okkur til að lúta dómstólnum sem æðsta dómstól í tilteknum málum – sem varða mannréttindi – og úrskurður hans gengur framar íslenskum hæstarétti þótt í Strassborg sitji erlendir dómarar (reyndar einn íslenskur, nú Davíð Þór Björgvinsson, dómararnir koma sinn frá hverju ríki í ráðinu).

Dómstóllinn í Strassborg  hefur komið við sögu ýmiskonar umbóta í réttarfari og stjórnsýslu síðustu áratugina – frægast er líklega málið sem Akureyringurinn Jón Kristinsson (pabbi Arnars leikara) fór með fyrir dómstólinn um 1990 og varð til þess að aflagður var sá aldagamli ósiður að sami maður væri lögga og dómari, nefnilega gamli sýslumaðurinn. Fyrir bara rúmum tuttugu árum! Væri líklega svona enn ef ekki væri þessi tenging við Strassborg.

Ísland er ekkert einsdæmi í dómstólnum – þar er enn verið að fella úrskurði sem leiða til breytinga á löggjöf og dómaframkvæmd gróinna lýðræðis- og réttarríkja í Vestur-Evrópu – við mismikinn fögnuð heimafyrir. Einkum eru Bretar hörundsárir, að minnsta kosti gula pressan, enda eru þeir herramenn einsog Vigdís Hauksdóttir á móti öllu sem byrjar á stóru E-i. Síðasti skandall var að Strassborgardómarar fundu að því að fangar í Bretlandi væru sviptir kosningarétti, slíkar mannréttindaaðfinnslur þóttu auðvitað meiriháttar evrópskur vitleysisgangur og árás á gamalbreskan kommon sens. Dómstóllinn situr hinsvegar við sinn keip, sem heitir mannréttindasáttmáli Evrópu og Bretar skrifuðu undir og staðfestu. Það má ekki dæma af fólki kosningarétt. Mannréttindadómstólinn er trúr verkefni sínu, og þaðan kemur honum traustið sem fólk ber til hans um alla álfuna.

Dómstóllinn er hinsvegar fórnarlamb eigin velgengni. Hann er að drukkna í málum, fyrst og fremst frá fyrrverandi kommúnistaríkjum í Mið- og Austur-Evrópu, og mál frá Tyrklandi eru víst legíó. Þetta leiðir til þess að biðin er löng eftir málsmeðferð – og einkum þó eftir því að vita hvort mál séu talin tæk, sem fæst þeirra reynast vera. Það er verið að breyta vinnulaginu núna til að stytta þessa bið og bægja frá málum sem ekki eiga heima í Strassborg, en menn vilja fara varlega til að skemma ekki allra dýrmætasta eiginleika dómstólsins, það að hver og einn hinna 800 milljóna íbúa Evrópu getur spurt dómstólinn um rétt sinn gegn stjórnvöldum í eigin ríki.

Dóttir Evrópuráðsins

Í öðrum álfum öfunda menn okkur í Evrópu fyrst og fremst af tveimur Evrópufyrirbrigðum: Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva auðvitað, og svo Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg.

Dómstóllinn er afsprengi Evrópuráðsins sem líka hefur aðsetur í Strassborg – í næstu byggingu við dómstólinn – í því eru öll Evrópuríki, nema einræðisríkið Hvítarússland, alls 47 ríki, það starfar á ráðherrastigi og þar er líka þing, sem yðar einlægur tekur nú þátt í við þriðja mann fyrir hönd Íslendinga. Þar er auðvitað mikið talað, og margt reyndar gáfulegt miðað við ýmis önnur þing – en hvað merkast hlutverk þessa þings er einmitt að kjósa dómara í dómstólinn eftir vandaðan undirbúning val- og skoðunarnefnda í hverju ríki og á vegum þingsins.

Evrópuráðið glímir nefnilega við ákveðinn samsemdarvanda þrátt fyrir velgengni sína allt frá stofnun 1949 (Ísland inn 1950) – meðal annars og ekki síst vegna Evrópusambandsins, sem í eru 27 af Evrópuráðsríkjunum 47. Þetta lýsir sér svo sem í því að fáni Evrópuráðsins er sá sami og ESB, og nafn Evrópuráðsins (Council of Europe / Conseil de l’Europe) er nauðalíkt opinberum heitum tveggja mikilvægra ESB-stofnana, ráðherraráðsins og leiðtogaráðsins.

Það er ekki víst að sérlega margir af hinum 800 milljónum íbúa Evrópuráðsríkjanna viti mikið um Evrópuráðið, og margir innbyggjarar ESB-ríkja rugla þessu tvennu örugglega saman  – en mikill meirihluti þeirra veit sínu viti um Mannréttindadómstólinn í Strassborg. Líka Íslendingar – því dómstóllinn í Strassborg er ekki „yfir“-þjóðleg stofnun, ekki vettvangur erlends valds gegn Íslendingum, heldur sam-þjóðleg stofnun, handhafi fullveldis 47 þjóða á tilteknu sviði, og þarmeð merkileg íslensk stofnun sem við eigum að líta á sem hluta af samfélagi okkar og stjórnkerfi okkar og vera stolt af. Sigur Erlu og Bjarkar var undirbúinn með hinu velheppnaða fullveldisframsali við lögfestingu mannréttindasáttmálans sem hluta landsréttar á Íslandi árið 1994.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Sveinn Sveinbjörnsson

    Hér segir að Davíð Þór Björgvinssonn hafi einmitt tekið þátt í þessum málum, eða alla vega öðru þeirra. Nema ég skilji enskuna svona illa, á gamalsaldri.

    http://mbl.is/media/96/4996.pdf

  • Mörður Árnason

    Rétt hjá þér, tek þetta út úr pistlinum. Dómararnir eru ekki fulltrúar heimalandsins — enda kosnir á Evrópuráðsþinginu, og hart gengið eftir því að allir þrír kandidataranir uppfylli hæfnisskilyrði. Takk. // Mörður

  • Góð og upplýsandi grein.

  • Sigmar Þormar

    Mörður minn. Farðu nú að vinna vinnuna þína frekar en að hampa því sem þú kallar vel heppnað fullveldisframsal. Ég á við að það þarf að breyta meiðyrðalöggjöfinni sem þú vísar í. Þó vissulega stutt sé er meiðyrðalöggjöfin ansi harkaleg og líklega brot á stjórnarskrárákvæðum um tjáningarfrelsi.

  • Hans Haraldsson

    Er dómstóllinn ekki einmitt dæmi um vel heppnað samstarf ríkja án fullveldisframsals?

  • Mannréttindadómstóll Evrópu er ekki áfrýjunardómstóll og hann gengur ekki framar héraðsdómi og sannarlega ekki framar Hæstarétti. Hæstiréttur er æðsta dómsvald á Íslandi og enginn fellir dóma þess úr gildi. Það að íslenska ríkið skuldbindi sig til að framfylgja dómum MDE með greiðslu skaðabóta breytir engu um það. Þó að undarlegt sé að fulltrúi löggjafarvaldsins viti jafn lítið og raun ber vitni um stjórnskipulega stöðu íslenskra dómstóla er verra að hann fríi sig ábyrgð frá skyldum sínum sem þingmaður á ansi neyðarlegan hátt. Sú dómvenja sem þingmaðurinn lýstir er ekki ný af nálinni og ef það væri honum kapps mál að breyta henni hefði honum verið í lófa lagt að stuðla að breytingum með lagasetningu. Hann viðurkennir reyndar, eftir að hafa „athugað málið“, að löggjöfin er afar takmörkuð og ófullkomin, en kemst svo að þeirri ályktun að þetta sé því dómsvaldinu um að kenna. Þvílíkur snillingur, Mörður Árnason.

  • Allar réttarbætur á Íslandi koma að utan.

    Íslenskir stjórnmálamenn eru óvinir fólksins.

    Guði sé lof fyrir Mannréttindadómstólinn.

    Verst að við skulum ekki geta leitað skjóls þar gagnvart ofríki íslenskra stjórnmálamanna.

  • Guðgeir Kristmundsson

    Hans Haraldsson // 11.7 2012 kl. 12:07

    „Er dómstóllinn ekki einmitt dæmi um vel heppnað samstarf ríkja án fullveldisframsals?“
    Hvernig er hægt að halda slíku fram þegar utanaðkomandi dómstóll hnekkir æðsta dómstigi hér heima fyrir?
    Það má frekar segja að hér sé á ferðinni vel heppnað samstarf ríkja um fullveldisframsal.

  • Hans Haraldsson

    Guðgeir: Þetta væri hárrétt hjá þér ef það væri ekki vitlaust:)

    Málið er að mannréttindadómstóllinn er ekki áfrýjunardómstóll og það var ekki verið að áfrýja dómi Hæstaréttar enda er hann æðsti dómstóll Íslands og stjórnarskráin leyfir ekki æðra dómstig.

    Fyrir mannréttindadómstónum er hægt að reka mál gegn ríkinu sjálfu fyrir brot á Mannréttindasáttmála Evrópu en dómstóllinn hefur það hlutverk að samræma túlkun hans. Ef ríki er dæmt brotlegt eru gerðar umbætur – virkar fínt án nokkurs framsals á ríkisvaldi.

  • MDE á sæmilega kippi af og til, en er ólýðræðislegur, óábyrgur og óhugnalegur dómstóll sem gert er að skoða allt út frá einu ákveðnu sjónarhorni.

    En svona til að vera næs við Mörð og co. þá mætti líka segja að þetta sé frekar dæmi um grundvallarmisskilning af hálfu íslenskra dómara sem halda að til sé eitthvað í íslenskum lögum sem heiti „fordæmi“ og sé fons juris.

    MDE benti Hæstarétti á mistökin sem gerð voru og Hæstiréttur mun virða það í framtíðinni. Annað átti sér svosem ekki stað.

  • Þorleifur H. Gunnarss.

    Þá vitum við það.

    Vonandi verður þá Baldur Guðlaugsson líka sýknaður við Mannréttindadómstólinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur