Föstudagur 13.07.2012 - 13:36 - 7 ummæli

Alveg sannfærður

Eftir ýmsar efasemdir um nýju miðbæjartillöguna sannfærðist maður algerlega í Fréttablaðinu í morgun – þar sem forseti alþingis færði okkur þau viðhorf um skipulagsmál kringum Austurvöll að umfram allt þyrfti að tryggja framhaldslíf bílastæða við vestanvert Kirkjustræti.

Í fullri alvöru þarf náttúrlega að skoða sérstaklega vel útfærslu þessarar grunntillögu bæði um viðbygginguna sunnanvið Landsímahúsið og um baksvip Nasa-hússins (sem reyndar heitir Sigtún í minni kynslóð). Menn mega þó ekki gleyma sér í status kvó – af Austurvelli horft að því húsi yfirgnæfir það núna áletrunin CENTRAL HOTELS frá Moggahúsinu. Hverjum finnst það fagurt?

Það er lagt upp með óskaplegt nýtingarhlutfall en tillagan hefur ýmsa kosti, og kannski þann helstan að umbylta Ingólfstorgi svokölluðu – hugmynd sem aldrei hefur gengið upp.

Öllu skiptir samt praxísinn, að trúnaðarmenn okkar í borgarstjórninni sjái til þess að nýju húsin verði ekki einhverjar ófreskjur, að á neðstu hæð meðfram götum verði búðir og veitingahús og líf allan daginn, og að ekki kafni allt í bílum.

Það þarf að passa uppá Gamla kvennaskólann frá 1878, en húsið fyrir aftan, utanum sjálfan salinn í Nasa/Sigtúni/Sjálfstæðishúsinu/mötuneyti Pósts og síma, er ekki ýkja merkilegt. Er ekki bara góð hugmynd að endurgera salinn með gömlu innréttingunum fyrir nýjar rokkkynslóðir?

Nú hlýtur skipulagsnefndin í Reykjavík að halda sýningu og hafa umræðufundi og safna áliti frá fólki og hugmyndum – allir Reykvíkingar eiga Austurvöll saman, og reyndar allir landsmenn.

Þar á eftir er svo bara að fá að vita hvað Ögmundi Jónassyni finnst.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Treysti því að íslenskt afturhald verði nú sem áður fært um að kæfa í fæðingu sérhvern frjósprota.

  • Hilmar Þór

    Ég nota tækifærið og upplýsi að það er opin sýning á öllum tillögunum á jarðhæð fyrrum Pósts og síma Kirkjustrætismegin. Sýningin er haldin á vegum útbjóðenda sem er Reykjavíkurborg.

    Sýningin er opin frá kl 14.00 til 18.00 hvern dag.

    Það er um að gera að skoða sýninguna vel. Þar eru sýndar 68 hugmyndir að nýtingu svæðisins. Endilega skoðið sýninguna því líkur eru á að fólk sýni verðlaunahugmyndunum meiri þolinmæði eftir að hafa kynnt sér hugmyndirnar.

    Allavega geta menn þá tekið þátt í umræðunni á upplýstan hátt.

    Það er sérstakt fagnaðarefni að loks sé farið að ræða arkitektúr og skipular af einhverju marki hér á landi bæði í blöðum og á ljósvakamiðlum. Ég þakka Merði fyrir að taka þátt í henni.

    Ettthvað hefur verið fjallað um Ingólfstorg á

    http://blog.pressan.is/arkitektur/

  • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

    Að troða póstmódernískum steinblokkum í timburhúsa byggð er fráleitt að mínu mati og margra annarra. Núna næstum 40 árum eftir að torfusamtökin afstýrðu einhverju mesta slysi Reykjavíkur (þ.e. að rífa húsin á Bernhöfttorfunni) þarf enn þá að vera að röfla um sömu hlutina. Ég skil að arkitektar verji þetta, að sjálfsögðu eru þarna vinnuhagsmunir í húfi. En sögulega hefur Reykjavík byggst upp frá 1750-1930 meira og minna sem timburhúsabyggð á þessu svæði. Það hreinlega ber að varðveita. Borg sem varðveitir ekki sögu sína er snauð borg, jafnvel þótt hún sé ekki svo ýkja gömul. Margar borgir í BNA eru yngri en Reykjavík en hafa samt borið gæfu til að varðveita elstu borgarhluta sína, með frábærum árangri. Fólk sem heimsækir Washington D.C. kíkir í Georgetown, með sínum flottu kaffihúsum og veitingarstöðum en ekki á steinklumpanna í kringum fjármálahverfið.
    Þessi vinningstillaga er ekki afleidd og ætti sennilega heima í nýrri hverfum bæjarins (s.s. við skipholtsreitinn).
    Ef sveitserhús og bárujárnsklædd timburhús eru púkó, myndi sennilega enginn ferðamaður vilja skoða Reykjavík.

  • Sigurður Haukur

    Bílageymslur í miðborginni eiga að vera neðanjarðar líkt og í ráðhúsinu og kolaportinu. Sparar pláss ofanjarðar auk þess sem það er þægilegt að geyma bílana þar yfir vetrarmánuðina.

  • Elín Sigurðardóttir

    Borgin hefur akkúrat engan áhuga á því að varðveita eitthvað. Hún þarf í fyrsta lagi að hafa áhuga á því að hugsa um það. Svo er ekki eins og njólinn er gott dæmi um. Borgin hefur engan áhuga á samfélagslegum verkefnum.

  • Hvað á að vera í þessu pósfandi 101 , hótel, bjórkrár og kaffihús ?
    Er þetta það sem fólk vill ?
    Sjálfur hef ég búið í Reykjavík í 60 ár og eina sem ég hef séð í 101 undan farna áratugi, eru niður nídd hús ! Ef þið sem sitjið í efsta lagi stjórnsýslunar hafið svona mikin áhuga á gömlum húsum, hvers vegna hafið þið ekki gert neitt til að koma eigendum niður níddra húsa til að laga þau ?
    Þetta ástand var ekkert gerast í dag eða gær !
    Svo er það með slippsvæðið við Mýrargötu, eina sem ,,101 fólki“ datt í hug með það svæði er að eyðileggja það með hótelum og krám !

    Vil spyrja aftur, eru það hótel, bjórkrár og kaffihús sem eiga að vera í öllum húsum í 101 ?

    Fólk sem býr austan megin við Kringumýrarbraut er talið vera fimmta flokks íbúar og meðhöndlað eftir því ! Skoðið bara umhverfið í kringum byggðina í þeim hverfum, sem tilheyrir Reykjavíkurborg !

  • Aldrei þessu vant, þá er ég algjörlega sammála þér!
    þessar tillögur mega ekki ná að ganga fram.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur