Mánudagur 15.10.2012 - 15:44 - 31 ummæli

Herdísarfrumvarp um búfjárbeit

Til að hefta uppblástur og landspjöll verður búfé framvegis aðeins beitt innan girðingar – samþykki alþingi frumvarp sem við Birgitta Jónsdóttir leggjum fram og verður dreift á morgun, þriðjudag. Gert er ráð fyrir að hin nýju „lög um búfjárbeit“ taki gildi eftir rúman áratug og ef frumvarpið verður samþykkt gefst góður tími til að undirbúa hina nýju skipan, með breytingum á öðrum lögum, með nýju regluverki frá ráðuneytum og sveitarstjórnum, og með framkvæmdum á beitarsvæðum.

Þetta yrði auðvitað í bili fyrst og fremst viljayfirlýsing og stefnumörkun til langtíma af hálfu alþingis – og frá okkur Birgittu er þessi málflutningur ekki síður stuðningsyfirlýsing við Herdísi Þorvaldsdóttur, baráttumann fyrir landvernd á Íslandi – eftir sýningu kvikmyndar hennar um uppblástur og beit í Sjónvarpinu í gær, sunnudagskvöld. Þingmálið er sérstaklega tileinkað Herdísi í lok greinargerðarinnar – sem er nokkuð óvenjulegt um þingmál.

Frumvarpið er aðeins þrjár greinar. Í 1. grein eru kynnt markmið frumvarpsins, landvernd og sjálfbær búfjárbeit. Í 2. grein segir að búfé skuli aðeins beitt innan girðingar. Í 3. segir að lögin öðlist gildi í ársbyrjun 2o23, eftir tíu ár rúmlega. Í greinargerð kemur meðal annars fram að í öllum öðrum norrænum ríkjum er að finna lagareglur sem skylda eigendur búfjár til að beita því aðeins á afmörkuðum svæðum að viðlagðri skaðabótaskyldu.

Við Birgitta ákváðum satt að segja að smíða þetta frumvarp í haust þegar mynd Herdísar var frumsýnd í Regnboganum/Paradís – allir þingmenn fengu boð um að vera viðstaddir en við tvö vorum þau einu sem mættu. Texti frumvarpsins er að meginhluta orðinn til úr viðtali við Þorvald Gylfason í mynd Herdísar.

Það er auðvitað ekki einfalt að stöðva lausagöngu búfjár, sauðfjár og hrossa. Kostnaðarsamt líka, og krefst samstöðu og skipulags. Sjálfum þykir mér hérumbil jafnvænt um sauðkindina og Bjarti í Sumarhúsum eftir kynni af þingeysku fé á árum áður, og viðurkenni að mér finnst land varla vera íslenskt nema þar sjáist nokkrir hvítir eða mórauðir blettir hátt í fjalli. Sauðfénu sjálfu er hinsvegar hollast að bíta þar sem nóg er að hafa – en fyrst og fremst eigum við Fjallkonunni skuld að gjalda.

Frumvarpið er svona:

Frumvarp til laga um búfjárbeit.

Flm.: Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir.

1. gr.

Markmið laga þessara er að efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit.

2. gr.

Búfé skal aðeins beitt innan girðingar.

3. gr.

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Greinargerðin:

Uppblástur hefur öldum saman spillt landinu. Ein helsta ástæða uppblásturs er óvarleg beit búfjár. Miklu skiptir að fé sé einungis beitt þar sem hagar eru góðir og ekki hætta á landspjöllum. Þetta krefst afgirtra beitarsvæða.

Með frumvarpi þessu er mörkuð stefna til framtíðar í þessum efnum. Í öllum öðrum Norðurlandaríkjum er að finna lagareglur sem skylda eigendur búfjár til að beita því aðeins á afmörkuðum svæðum að viðlagðri skaðabótaskyldu. Þegar frumvarpið verður að lögum þarf að gera talsverðar breytingar á öðrum lögum áður en að gildistöku kemur, svo sem helstu lögum um búfjárhald til samræmis við þá meginreglu sem lagt er til hér að verði lögfest, að búfé sé aðeins beitt innan girðingar. Hæfilegur tími er hins vegar gefinn til að hrinda þessari stefnu og breytingum vegna hennar í framkvæmd, eða rúmur áratugur.

Flutningsmenn tileinka frumvarpið Herdísi Þorvaldsdóttur sem áratugum saman hefur beitt sér fyrir landvernd á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (31)

  • Þú ættir að laga þetta

    í ársbyrjun 2103, eftir tíu ár rúmlega

  • Mörður Árnason

    Takk — 2023 átti það að vera, ekki eftir 90 ár … 😉

  • Sæll Mörður; sem og aðrir gestir, þínir !

    Ef einhvers staðar; skyldi reisa girðingar hérlendis, væri það umhvefis
    ykkur Reykvíkingana – nógsamlega; hafið þið plagað okkur landsbyggðar-
    fólk, til þessa.

    Hver er vitrænan í; að 98 – 99% afurða landsframleiðslunnar, þar á meðal,
    úr landbúnaði, skuli verða að brask- og spillingar fjármunum ykkar, syðra ?

    Hæfir vel skel kjapti; sameiginlegt áhugamál ykkar Birgittu listafrenju Jóns-
    dóttur, með elliglöpum Herdísar kerlingar, svo sem.

    Þið; ættuð að halda ykkur innan borgarmarkanna – í solli ykkar þar,
    Mörður minn, héðan af, ekki að trufla daglegt líf fólksins, til sjávar
    og sveita.

    Með; fremur þurrum kveðjum, úr Árnesþingi /

  • Kristján Elís Jónasson

    Óskar Helgi Helgason er eitthvert mesta furðufyrirbæri sem stingur niður penna. Mér virðist hann lifi að mestu í sjálfs sín upphafningu

  • Hættið nú alveg Mörður og Birgitta. Íslenska lambakjötið er svona gott af því að það er í eðli sínu villibráð. Allstaðar annarstaðar er fé lokað innan girðinga og þess vegna er bragðið sem kallast ullarbragð af kjötinu. Ég mun aldrei samþykkja að íslenskt fé geti ekki gengið um hálendið. Alla vega hér fyrir vestan er nóg æti fyrir íslensku rolluna. Þið þessi 101 lattelepjandi manneskjur ættuð bara að fara að hugsa um ykkar eigin eyðingu hún er ekki af völdum sauðfés heldur afbrota og óöryggi borgara á Stórreykjavíkur svæðinu. Það er miklu meira akút en að hefta aðgang sauðkindar að víðernum landsins, þar sem hún hefur verið frá landnámi.
    Skammist þið ykkar bara fyrir þennan hugsunargang. Nú ofbýður mér algjörlega og þið haldið að þið séuð að gera eitthvað rosa klárt?

  • Ólafur Margeirsson

    Sæll Mörður,

    Sem sonur sauðfjárbónda vildi ég skilja eftir nokkur orð.

    Í gær var nokkuð vitnað í þessa frétt á Facebook í kjölfarið á sýningu myndarinnar: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/04/02/grodurbreytingar_mestar_vestanlands/

    Þar segir: „Líklegt er að aukningu gróðurs á landinu megi rekja til minnkandi búfjárbeitar, hlýnandi veðurfars og aukinnar landgræðslu og skógræktar, segir í ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar.

    Sennilegt er að fyrstu tveir þættirnir vegi þar þyngst.“

    Svo virðist sem margur efist um réttmæti þessarar fullyrðingar Náttúrufræðistofnunar. Sú ágæta stofnun er þó í raun og reynd ekki að benda á neitt annað en að kindur bíti gras og annan gróður. „Það eyðist það sem af er tekið“ er eitthvað sem flestir hljóta að skilja.

    Þá er ekki bara eðlilegt að bændur hugi betur að því að girða fé sitt af vegna atriða um gróðurfar. Það er einnig eðlilegt að bændur séu krafðir um slíkt þegar eignarréttur þess landeiganda sem verður fyrir ágangi búfjár sem hann á ekki er hafður í huga.

    Því hví ætti landeigandi, hvort sem hann á kindur eða ekki, að þurfa að þola ágang búfjár annarra manna án þess að fá greitt fyrir slíkt?

    Það mætti e.t.v. bæta því við frumvarpið að landeigendur geti beitt sauðfjárbændur fyrirfram auglýstum dagsektum, ákveddum af landeigandanum sjálfum, fyrir búfé sem þvælist inn á landsvæði sem það á ekki að vera á. Margur sauðfjárbóndinn fengist þá e.t.v. til að huga vel að sínum girðingum.

  • Komið þið sæl; á ný !

    Kristján Elís Jónsson !

    Væri þér ekki nær; dreng ræfill – að reyna að svara mér eins og maður, í
    stað þess að koma með svona aula ályktun um mig persónulega, og það,
    án þess að þekkkja mig nokkuð, áður en þú fjargviðrast næst ?

    Hugði Mörð; vilja ræða málefnið – en ekki um hvert og eitt okkar, sem párum hér, á síðu hans, að nokkru.

    Með sömu kveðjum; sem fyrri – öngvum; til Kristjáns Elíss Jónassonar /

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Hvað hefði margt fé farist í óveðrinu um daginn ef það hefði verið innan girðinga? Ætli það hefði ekki veri auðveldara að huga að því ef það hefði verið á vísum stað?

  • Jónas Bjarnason

    Sæll vertu Mörður og takk fyrir góða grein.
    Þessi gróðurmál hennar Herdísar eru meira eða minna dagsönn. En þau eru í algjörri þöggun. Stjórnmálamenn þora ekki, fram að þessu kannski, að snerta málið og bændur þagga það niður.
    Annað þöggunarmál er af sama meiði. Það eru skemmdir í lífríkinu af völdum botnvörpu. Við erum þegar búnir að eyðileggja rúmlega helming lífríkisins í hafinu við Ísland með botnvörpu. Það á við um botn og botnlæg vistkerfi smáfisks aðallega. Einnig ætis, seiða og smákrabba af ýmsu tagi.
    Í Evrópu eru menn búnir að eyðileggja 90% af botnlífríki hafsvæðanna og því er botnfiskur þar kominn niður fyrir tíu prósent af því sem hann var. Þetta mál er í alveg sömu þögguninni og hér. En vegna þessa er búið að eyða megninu af botnfiski Íra en þá er bara eftir uppsjávarfiskur svosem makríll og síld. Og þessvegna vilja Írar líta á makrílinn eins og sinn heimagang og verða brjálaðir þegar Íslendingar eru að veiða hann. Þetta er nú eini fiskurinn þeirra ásamt síld, en þeir vita ekki af því að skýringin er sú, að það er búið að eyðileggja þeirra botnmið. Alveg sama þöggun og við verðum að láta okkur hafa það að fulltrúi Íra segir hér í Þjóðmenningarhúsi, að Íslendingar séu eins og sjóræningjar.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    1. grein frumvarpsins finnst mér fín, að stuðla að landvernd og sjálfbærri búfjárbeit. 2. grein er dáldið eins og skrattinn úr sauðaleggnum í framhaldinu.

    Það er mýmargt sem kemur upp í hugann en plássins vegna nefni ég bara eitt atriði: Girðingar eru mannvirki og lagning þeirra og viðhald hefur alltaf náttúruspjöll í för með sér (s.s. utan ræktaðs lands) vegna þess að notast er við stórvirkar vinnuvélar. Svo ekki sé talað um sjónmengun. Og yfir á hvaða herðar á að velta öllum þessum kostnaði: girðingavinnu, viðhaldi, eftirliti o.s.frv.?

    Ég efast ekki um að landið er ofbeitt sums staðar, jafnvel víða. Sennilega er þörf á röð aðgerða til að ráða vinda ofan af því. Þessari beitarhólfahugmynd virðist vera ætlað að vera ein allsherjar redding á vandmálinu, líkt og fingrum sé smellt. En ég held að hún sé of próblematísk til að vera raunhæf.

  • Stefán Þórsson

    Það eru alltaf sömu tilsvörin frá sauðfjárbændum og fylgismönnum þeirra. Aldrei neitt annað en upphrópanir og skítkast. Merkilegt hvernig þeir geta ekki rætt þessi mál nema í móðursýkiskasti.
    Það má hreinlega ekki pota í þetta graftarkýli, það skal vera óáreitt eins og það hefur alltaf verið.
    Ég hef í mörg ár verið á þeirri skoðun, að banna eigi lausagöngu, eftir að hafa séð landið mitt í þeim tötrum sem það er í. Hef ég ferðast víða um hálendi og láglendi, eflaust víðar en þeir sem hér hafa hæst. Allstaðar sama sagan þegar komið er upp til heiða og hálendis, sauðfé að naga síðustu hríslurnar með rofabörðin allt í kring og gróðurflekkir hér og þar. Leifar af því sem áður var.
    Það þarf ekki nema skoða nokkra staði sem sauðkindin hefur ekki komist að, þar er þykk gróðurhula. T.d. Fagrahlíð við Langjökul og við Arnarfell undir Hofsjökli.
    Fáfræði og skammsýni fyrri alda er ekki réttlæting fyrir áframhaldandi vitleysu og eyðileggingu.
    Eina ástæðan fyrir því að þessi geggjun hefur ekki verið stöðvuð fyrr er sú, að engin flokkur hefur þorað að minnast á þetta af ótta við bændastéttina.
    Það þýðir ekkert að vera pirraður á gamalli konu sem gerir ekkert annað en benda á það sem vísindamenn og náttúrufræðingar hafa vitað í áratugi, en ekki þorað að segja opinberlega.

    Kveðja,
    Stefán Þórsson, náttúrufræðingur

  • Ragnar Böðvarsson

    Í greinargerð kemur meðal annars fram að í öllum öðrum norrænum ríkjum er að finna lagareglur sem skylda eigendur búfjár til að beita því aðeins á afmörkuðum svæðum að viðlagðri skaðabótaskyldu.
    Ég held að Andrés Arnalds hafi sagt þetta líka í myndinn, en ósköp finnst mér þetta skrítið.
    Í sumar var ég að aka um Noreg í tæplega hálfan mánuð, aðallega um fjarða og heiðasveitir. Tvisvar sinnum ókum við félagarnir hjá dálitlum fjárhópum sem voru á beit á ógirtu heiðalandi rétt við veginn. Einu sinni þurftum við að bíða dágóða stund meðan geitahópur var að koma sér yfir veginn. Ég hef raunar orðið fyrir slíku áður í Noregi, Á ég að trúa því að eigendur þessa fjár séu sekir um bótaskyld lögbrot?

  • Halldór Halldórsson

    Og viðurlögin gegn broti á lögunum eru?

    Kannski eitthvað í líkingu við að fara í leikhús og drepleiðast sýningin? Að labba út og nöldra smá í næsta kaffitíma?

  • Gunnar Kristjánsson

    Stefán Þórsson. Nú veit ég ekki hvort og þá hve mikið þú þekkir til gæðastýringarreglna í sauðfjárrækt. Samkvæmt þeim ber opinberum aðilum að meta áhrif beitar bæði í heimalandi og heiðalöndum. Sé þetta ekki í lagi fær bóndinn ekki gæðavottun. Nú veit ég ekki hver lagarammin er en skv. því sem Sveinn Runólfsson sagði í mynd Herdísar hefur landgræðslan ekki óskorað vald til að banna sauðfjárbeit með öllum á þeim svæðum sem gróðurþekjan er veik fyrir. Er ekki rétt að gera breytingar sem tryggja betur rétt Landgræðslunar sem stjórnvalds til að banna beit/umferð búfjár um slík svæði (þ.e. á hálendinu). Ef meiningin er að girða búféð af þá er útséð með alla beit á hálendinu jafnvel þar sem gróðurþekjan er góð og í framför.

  • Stefán Þórsson

    Sæll Gunnar.
    Það kom líka fram í myndinni að allir bændur fái gæðavottun, líka skussarnir.
    Það er athugunarvert að tryggja betur landgræðslunni rétt til að banna beit á völdum svæðum. En það er alltaf sama sagan. Þegar landið hefur náð sér eftir rányrkjuna, þá vilja bændur hleypa rollum inn á það á ný, svo sama vitlleysan geti hafist á ný. Sjáðu bara hvað er að gerast í Almenningum fyrir ofan Þórsmörk.
    Það ætti auðvitað að banna lausagöngu á hálendinu, þar sem jarðvegurinn þar er svo einstaklega viðkvæmur og laus í sér. Það er eðli íslenska eldfjallajarðvegsins. Ef menn vilja viðhalda vítahringnum, þá er upplagt að hleypa fé aftur á svæði sem eru að ná sér eða eru nýbúin að ná sér.
    Þetta snýst heldur ekki bara um eyðileggingu gróðurs á heiðum og hálendi, heldur einnig að koma rollum af þjóðvegum landsins og jörðum annarra sem kæra sig ekki um þær, t.d. skógarbænda o.fl.

    Kindakjöt mun bragðast jafnvel þó rollurnar séu eingöngu á beit á láglendi, á ákveðnum svæðum. Þar er landið okkar líka hreint og óspillt. Það er a.m.k. óspilltara en hálendisgróðurinn.

  • Berglind Hilmarsdóir

    Áður en ráðist er í að semja frumvarp sem byggir á sjónvarpsmynd er gott að fá úr því skorið hvort og hvar sauðfjárbeitin ein og sér veldur uppblæstri og gróðureyðingu.

    Á sumum afréttum er gróður í framför eins og á Almenningum, sem hafa verið græddir markvisst upp í 20 ár. Á öðrum svæðum er stöðnun en engar svæðisbundnar rannsóknir undanfarin ár hafa sýnt fram á afturför eða gróðureyðingu af völdum sauðfjárbeitar án tillits til annarra umhverfisþátta.

    Mynd Herdísar er því miður ekki nógu góð til að hægt sé að byggja á heilt frumvarp til alþingis. Vönduð frumvörp fela í sér vandaða undirbúningsvinnu og sem allra minnst af staðleysum.
    Fullyrðing Herdísar um tæplega eina og hálfa milljón fjár í landinu er kolröng.
    Förgun á dilkaskrokkum fyrir meira en 20 árum, eins slæmt og það var, tilheyrir fortíðinni og kemur sauðfjárhaldi í dag ekkert við.
    Tilraun Sveins Runólfssonar til að leika fórnarlamb heimskra bænda er ómakleg og honum ekki til sóma. Gæðastýringin stendur. Allt má endurskoða og í dag eru 90% sauðfjárbænda á Íslandi í gæðastýringu sem þýðir að þeir fara eftir þeim reglum sem Landgræðslan setur eins og sést hér:
    http://www.youtube.com/watch?v=su236Lm57ZI&feature=youtu.be

    Stefán Þórsson, Jónas Bjarnason og aðrir öfgafullir mega gæta sanngirni og láta ekki tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur. Ísland mun ekki gróa upp á næstu áratugum þó allar kindur hverfi af afréttum, sem þar að auki eru margir í eigu bændanna sjálfra. Hálendið mun heldur ekki fjúka burt á næstu áratugum þótt beit haldi þar áfram í sama mæli og nú er.

    Heimsendir er ekki í nánd og mynd Herdísar fer ekki á spjöld sögunnar sem vendipunktur í umhverfismálum, né heldur sem heimildarmynd sem mark er takandi á. En hún verður vitnisburður umhyggju Herdísar á náttúru Íslands sem er i sjálfu sér indælt þó útgangspunkturinn sé reistur á veikum grunni og ekki haft það sem sannara reyndist … nema smá!

  • kristinn geir st. briem

    herna hef ég hvolpa tvo hvað skal við þá gjöra . þá þorvald og þórólf stundum langar mig að heingja þá uppá löppunum svo alt það mikla vitt sem er í fótum þeira komist til höfuðsins. en nú spir ég mörð .
    1.sp . hvað með vegagyrðíngar þar sem veigir eru stundum svo kilometrum skiptir í landi mans hver á að bera kosnað af þeim í frumvarpinun á það að vera bóndin .
    2.sp. Nú eru flestir afréttir afgirtir svo ég gétt ekki séð að þetta frumvarp einsog það ersett fram breiti nokru um hina meintu ofbeit, og afrétir falli þá undir afgyrt land.
    3.sp. þar sem mikil umferð ferðamanna er um land er kanski 99,9% ferðamanna sem lokar hliðum en 0.01% sem gerir það ekki þarf þá bóndinn að fara á hverjum deigi og gá að öllum hliðum það gæti orðið langur gangur

  • Stefán Þórsson

    Nú er ég landfræðingur að mennt og hef unnið við kortagerð og afmörkun jarða á Vesturlandi. Afréttir eru ekki í einkaeigu, þeir heyra undir sveitarfélög. Í raun ættu 90% af jörðum sem liggja við hálendisbrúnina að vera þjóðlendur, þar sem þær eru flestar ekkert nema hraun, sandar, sem engin getur með réttu slegið eign sinni á. Óbyggðanefnd gengur alltof skammt að mínu mati í sínum kröfum, en sem betur fer er vitundarvakning meðal fólks varðandi það hverjir eigi í raun eyðidali og heiðar. Jarðamál munu verða sífellt meira í umræðunni á komandi tímum, sem betur fer.

    Minnist þess sérstaklega þegar eigandi Kalmanstungu hreykti sér af því að Eiríksjökull væri stærsta þúfan í hans landi.

    En við erum að tala um sauðkindina og látum þetta liggja milli hluta sem stendur.
    Nei, heimsendir er ekki í nánd, en það mætti stundum halda það miðað við viðbrögð bænda þegar minnst er á þessi lausagöngumál.

  • Berglind Hilmarsdóir

    Í frumvarpi til laga um þjóðlendur o.fl. er skilgreiningin á afrétti: ,,Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“

    Sem stendur eru sum þessara landsvæða enn í eigu bænda því jarðir eru misstórar. Það er því samkomulag sveitarfélaga, bænda og landgræðslu hvernig landið er beitt þegar um er að ræða gæðastýringu.

    Á öðrum stöðum eru afréttir í eigu sveitarfélaga og svo er það sem kallast afréttareign, þ.e. einhvers konar nytjaréttur, samt frekar illa skilgreindur.

    Víst má kalla það eins manns heimsendi að sjá fram á atvinnumissi, tekjutap, stór fjárútlát eða breytingu á högum þannig að það valdi áhyggjum umfram það sem flestir hafa í dagsins önn. Fjárbúskapur byggir afkomu sína m.a. á 2ja -3ja mánaða sumarbeit á afréttum þar sem því verður við komið. Menn treysta á þessa sjálfbæru fóðrun (auk heimafengins fóðurs auðvitað) og fjöldi þéttbýlisbúa treystir á göngur og réttir sem ánægjulega og sögulega hefð.

    Bændur bregðast eðlilega hart við þegar þeir eru bornir sökum og kallaðir landníðingar, hryðjuverkamenn og annað slíkt á sama tíma og þeir hafa í mörg ár tekið virkan þátt í beitarstjórnun, uppgræðslu og eftirliti með úthögum. Bændur eru misjafnir eins og Mörður, Birgitta, Herdís og aðrar mannverur. Fólk er með misgóða dómgreind og sjálfsstjorn, en sannarlega hefur orðið mikil framför bæði á landi og meðferð þess eins og kemur fram hér:
    http://www.youtube.com/watch?v=su236Lm57ZI&feature=youtu.be

    Allar hugsandi manneskjur sjá svo væntanlega að öfgaviðbrögð eins og áttu sér stað þegar eyfellskir bændur ráku fé á afrétt (Almenninga) þynna út allt tal um að bændur sjálfir séu með læti. Frekjuköstin komu úr ýmsum áttum en bændur héldu ró sinni – alla vega í það sinn.

  • Kári Geir

    Það er rétt sem Kristinn Geir segir, að Ísland mun ekki gróa upp á næstu áratugum með því að kindur hverfi af afréttum. Til þess þarf margt fleira að koma til, svo illa er stór hluti landsins okkar farinn eftir áralanga misnotkun marga sauðfjárbænda.

    Annað er líka rétt sem hann segir, að heimsendir er ekki í nánd. Ástandið er vont og það versnar hægt og rólega víðast hvar. Þess vegna er vonandi að viðhorf alþingismanna fari brátt að endurspegla skoðanir þorra þjóðarinnar í þessum efnum. Enn betra væri ef neytendur gætu farið að kjósa náttúruvænar kindakjötsafurðir sem allra fyrst og knúið þannig skussana til að láta af landníðslunni.

    Það má ekki koma í veg fyrir uppgræðslu eyðimerkurinnar að Kristinn nennir ekki að ganga langt til að loka hliðum. Ekki heldur það, að Kristinn vilji ekki leggja út fyrir því að halda dýrunum sínum frá landinu okkar, heldur vilji að aðrir menn haldi áfram að girða sín lönd fyrir blessuðum kindunum. En við erum svo sem vön því að niðurgreiða þessa tegund matvælaframleiðslu.

  • Pétur Tryggvi

    Þvílíkt slúður og rövl. Það er fólkið í landinu sem hefur spillt því en ekki sauðkindin. Með hjálp þessa grenitrjáafólks.

  • Svo átti þessi sýning að slá í gegn með þá Þórólf, Þorvald og Ómar það segir nú sýna sína sögu, þeir hefðu átt að halda sér til hlés Þórólfur og Þorvaldur þeir voru í hrópandi ósamræmi við myndina þetta eru dekur karlar frá borginni sjálfri, ég efast að þeir hafi komist lengra en að Bifröst þar sem ákvarðanir eru teknar af þeim og fleirum sem nú ætla sér að hasla sér völd í gegnum ESB.

  • kristinn geir st. briem

    kæri .stefan þórisson nú er megnið af landi á íslandi hraun hvar á að draga mörkinn mindi stefán vilja kaupa hús og fá af því lysingu svo áhvæði rikið að takka þakið af því að efrihlutinn sneri upp þvi að öll þjóðinn ætti loftið sem léki um það.?. afsal er afsal og menn borga fyrir þau verðmæti sem sem standa í því. nú eru deilu mál nyður í bygð um landamerki ætti það land ekki að vera þjóðareign hvar vill sefán draga mörkinn flest lönd er eiga land á hálendinu eru með landlysingu.
    Að öðru í sambandi þettað þyngmál. nú tala men um sauðkindina og upplástur þá tel eg hún eigi frekar minnihluta af af eiðingunni . maðurinn hefur tekið mikinn skóg til eiginn þarfa sem eftir að rafmagnið kom hafa menn ekki nytt það eitt og sér mun auka skógföxt svo hafa jöklar hörvað og skilið eftir aur og leyr sem kæfir gróður í kring um sig gott dæmi er hagafellsjökull siðan hefur vetrarbeit herumbil horfið nú á ég nokkrar rollur og er á nokuð góðri beitarjörð þó það sé hóflega beit sé eg fokk á henni en það er ekki rollum að kenna heldur kali .sauðfé þarf töluvert land til að það kommi ekki upp súkdómar í það og veit um nokra bændur sem hafa ekki það land heima fyrir þann fjölda sem þeir hafa hvað eiga þeir að gera ef afrétur er tekinn af þeim

  • Kári Lárusson

    Að semja frumvarp sem byggist á kjaftæðinu í Þorvaldi Gylfasyni, í mynd Herdísar, lýsir alvarlegum skynsemisskorti að mínu mati.

    Hvet ykkur til að kíkja á þennan tengil:
    http://stefangisla.com/2012/10/16/svarthvitt-frumvarp-um-bufjarbeit/

  • kristinn geir st. briem

    kæri kári steinn gaman að lesa grein þína að ég nenni ekki að loka hliðum það hlið er uppundir langjökli það tæki mig alla daginn gerði ekki anað á meðann tekk það eins og það er sagt
    í sambandi við niðurgreiðslur á sauðfárafureðum þá er flest niðurgreit af skatgeiðendum. sá frægi maður þórólfur talar um að mér skilst bændur séu niðurgreidir um 40% ef við tökum einsog samfylkinginn talar og tökum vrðisaukaskatinn inní þá eld ég að niðurgreiðlan sé harla lítil.
    svo við tökum aðrar niðurgreiðslur skattborgarana þá eru opinberirstafsmenn niðurgreidir um að minstakosti 60% siðan er borgað fyrir alla aðstöðu, háskólar eru altof margir miðað við höfðatölu, leikhúsinn er mera eða minna farmögnuð af almannafé svona gét ég leingi haldið áfram hver skildi borga fyrir þetta alt það er senilega 10% af landsmönum sem halda öllum öðrum uppi og þó það sé sárt kári minn eru það ekki opinberir starfsmen heldur bændu eiga hlut í því um þessar mundir

  • Kári Lárusson

    Þeir vilja byggja þekkingu sína á staðreyndum, en ekki þvættingi og fölsunum, eins og höfundar frumvarpsins hafa kosið, ættu gjarnan að skoða eftirfarandi tengil:

  • Stefán Þórsson

    Kristinn Geir.
    Þú þarft ekki að fræða mig um jarðfræði Íslands. Varðandi jarðir sem liggja að hálendi, þá er það alrangt hjá þér að jarðamerki séu á hreinu. Það er a.m.k. í algjöru lágmarki. Afsal er afsal segir þú og bændur tala um að þetta og hitt sé þinglýst. Ef þú vissir eitthvað um þessi mál, þá veistu að þetta er ekki svona einfalt. Menn þinglýsa bara einhverju landi sem þeir eiga ekkert tilkall til og veit ég vel að þessi mál eru í fullkominni óreiðu og óvissu.
    Þú veist kannski ekki heldur að landeigendur borga ekkert af sínum óbyggðajörðum, einungis af fasteignum og lóðum undir þær.
    Þú gerir engan greinarmun á heimili manns og eyðidölum og heiðalöndum. Finnst þér virkilega sambærilegt að svipta einhvern heimili sínu og því að svipta einhvern bónda vafasömum eignarrétti á eyðidal sem hann þekkir varla til.
    Þetta er líka siðferðislegar vangaveltur, spurning um hvort óbyggðir geti í raun tilheyrt einhverri jörð. Ég er ekki að tala um túnin og nánasta umhverfi bæjarins.
    Ég og þú eigum t.d. jafnmikið í Eiríksjökli og ábúendur á Kalmanstungu. Ekki satt?
    Reyndar er ég á þeirri skoðun að engin eigi land, það sé ekki hægt og hugmyndin sjálf sé fáránleg.
    Auðvitað er það hlægilegt að menn geti talið sig eiga fjall eða foss. Sýnir vel heimsku og hroka mannsins gagnvart náttúrunni.
    Jæja, þetta er orðið full heimspekilegt og læt ég þetta nægja að sinni.

  • kristinn geir st. briem

    kæri stefan þórissonj leiðast dilgjur tala hvergi um að öll landamerki séu á reinu þú verður lesa rett ef þú visir ethvað um þessi mjál þá mindir þú vita að þega landamerkinn voru áhveðinn a´sinum tima var það ekki hver sem er sem sá um þau og það þurftu allir landeigendur að skrifa uppá plakkið sem áland að viðkomandi landi og þanig er en í dag
    ég á land og ég þarf að borga því það er ekki bara af húsum.
    ef það er vavasamt já en ef men hafa afsal með jarðlysíngu af jörðum þá nei. því hus er eign eins jörð er eign
    það á einginn jökla nema jarðlysin seigir og ef eg man rétt um kalmanstungu þá stentur þar . þar sem grös ná veit ekki til að það seu grös á jöklum
    nú veit ég ekki hvar þú býrð ení reykjavík þurva men að borga leigu undir hús mindir þú ekki vilja porga þessa leigu
    annar eru þetta ágætis vanga veltur eflaus gætum við mæst einhverstaðar á miðri leið

  • Stefán Þórsson

    Sæll Kristinn
    Ég fer ekki ofan af skoðun minni varðandi það að eiga land. Hús og bíll er eign, þar sem hvort tveggja er smíðað úr stáli og timbri, sem sagt, mannanna verk.
    Landið hinsvegar, á sig sjálft og getur aldrei orðið eign nokkurs manns.

    Þú átt land sem þú segist borga af. Þá geri ég ráð fyrir að það séu nokkrir hektarar af grónu landi. Þú borgar hinsvegar engin árleg gjöld af fleiri þúsund hektörum af uppblásnum melum og heiðalöndum sem þú teldir vera þína eign.
    Eru þannig jarðir þá ekki sameign allra ?
    Bændur segjast borga af sínum jörðum þegar þeir verja sig, en gleyma að minnast á það að þeir eru bara að tala um 1 – 2% prósent af jörðinni.

  • kristinn geir st. briem

    kæri stefan eithvað hefur fækkað ágreinsmálum okkar.
    mikið hlíturðu að vita mikkið um hvað menn borga af löndum hvað mindirðu borga mikið fyrir skeiðarársand þar sem skeiðará renur verð mæti land birjar þegar menn níjta landið nú eru sumarbústaðarlönd misdyr en landið var lítilsvirð áður en það var gert að sumarbústaðarlóð og landið undir reykjavík var lítilvirði áður enn byggt var á því. ertu þá á móti því að menn geri eignalysingu á húsum ef svo mætti ég þá tjalda í garðinum þinumn án leifis það eru nú ornir fáir staðir á íslandi sem maðurinn hefur ekki komið nálægt

    vonandi skemtirðu þér vel yfir þessu

  • kristinn geir st. briem

    kæri stefán verð að biðja þig afsökunar miskildi spurnínguna.
    hvað er það í landlýsingu sem þú skilur ekki allt sem er tilgreint í landlýsingu tilheirir eignini sama hvort það eru örfokamelar eð önur leiðindi. og það verður ekki tekið nema fullar bætur komi í staðinn því menn borguðu jú fyrir þettað í uppafi, landsvirkjun hefur nytt sér þettað uppí topp svo það eru ekki bara bændur sem græða á þessu

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur