Miðvikudagur 17.10.2012 - 09:42 - 2 ummæli

Gísli Halldórsson — In memoriam

Útför Gísla Halldórssonar fer fram í dag, miðvikudag, frá Dómkirkjunni. Ég sendi í Morgunblaðið svolitla minningargrein sem ekki komst fyrir í blaðinu núna og birtist þar væntanlega seinna í vikunni. Vona mér fyrirgefist að setja hér í bloggið mitt aðeins lengri útgáfu af þessari kveðju.

 

Í hárri elli er látinn Gísli Halldórsson, arkitekt, borgarfulltrúi og íþróttafrömuður, og vantaði bara tvö ár upp á öldina. Þegar menn deyja svo gamlir deyr með þeim tenging við forna tíma – Gísli var unglingur í upphafi kreppunnar miklu, og þurfti að gera hlé á námi þegar á skall heimsstyrjöldin síðari.

Gísli er einn af þeim sem mótuðu fyrstu áratugi lýðveldisins. Hann á sinn þátt í svipmóti Reykjavíkur – teiknaði Lögreglustöðina, Loftleiðir og Esju, Tollstöðvarhúsið og fjölmargt annað, verkamannabústaði og einbýlishús, þar á meðal sitt eigið við Tómasarhagann. Funkisstefnan hefur ekki vakið sérstaka hrifningu á síðari tímum. Mér sýnist þó að Gísli sé einn besti fulltrúi þessarar stílstefnu hérlendis, með einföldum og praktískum lausnum, léttleika og natni sem vinnur gegn mónúmentalhneigðinni, og næstum því and-funkislegri skrauthneigð í mjóu súlunum og öðrum formbrigðum. Margir hafa hamast gegn funkishúsinu á Pósthússtræti 9 af því það skeri í augu á milli gömlu glæsibygginganna – en sjálft er þetta hús látlaust og smekklegt með græna ferningaspilið rammað inn í hvíta steypu.

Sérstakan sess á Gísli sem íþróttaarkitekt, fyrstur á Íslandi, og teiknaði hvert stórvirkið eftir annað. Vænst finnst manni samt um það íþróttahús Gísla sem nú er horfið, KR-braggann – með einmitt súlunum góðu og hvolfþaki sem seinna tók á sig annan svip í Laugardalshöllinni. Í KR hófst líka íþróttaferill Gísla og þar varð hann félagslegur forustumaður í íþróttahreyfingunni. Stökkið yfir í stjórnmálin gegnum Sjálfstæðisflokkinn virðist hafa verið einsog sjálfsagður hlutur í beinu framhaldi af störfunum fyrir KR og ÍBR – og seinna Ólympíunefndina og ÍSÍ.

Þetta voru aðrir tímar, og nú þykir okkur einkennilegt hvað Gísli kom miklu í verk í félags- og stjórnmálum – meðfram ævistarfi sínu sem arkitekt. Að hluta má rekja það þráðbeint í pólitískar siðvenjur þessara áratuga, þar sem menn gátu sinnt í senn mörgum hlutverkum án tillits til reglna og hefða sem nú eiga að slá á of mikil áhrif og völd í sömu höndum – og staða Gísla verður ekki skilin nema í þráðbeinu sambandi við valdakerfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þaðan sem borginni var stjórnað í stóru og smáu. Að því sögðu held ég að Gísli hafi verið heiðarlegur og korrekt sem stjórnmálamaður og félagslegur foringi, og ég veit að honum var fjarri að skara eld að eigin köku heldur notaði áhrif sín í þágu málefnisins, sem sífellt var íþróttahugsjónin um heilbrigða sál í hraustum líkama.

Annarra er að rekja afrek Gísla fyrir íþróttahreyfinguna. Þeir eru reyndar svo heppnir að Gísli er búinn að því sjálfur í ágætum æviþáttum, sem ég fékk að eiga í örlítinn þátt. Þá fannst mér eftirtektarvert að af öllum verkum sínum í þágu íþróttanna og samfélags síns talaði hann af mestri tilfinningu um tvennskonar frumkvæði þeirra félaga við stjórnvölinn hjá ÍSÍ – annarsvegar um þátt sinn við að glæða það sem við köllum núna almenningsíþróttir en þá var kallað trimm, hinsvegar um frumkvæði við að efla íþróttir kvenna. Það er þessi útbreiðsla fagnaðarerindisins sem Gísla þótti vænst um af verkum sínum – og á okkar dögum öflugra íþróttakvenna og útbreiddra almenningsíþrótta sjáum við hvað þau skiptu miklu máli.

Sjálfur kynntist ég Gísla ekki fyrr en seint á ævinni þótt við værum tengdir gegnum Björn bróður hans í Granaskjólinu, eiginmann Nönnu ömmusystur minnar. Það var reyndar Björn sem kom mér í KR þar sem ég hef verið síðan, að minnsta kosti í anda. Ég tók sjónvarpsviðtal við Gísla um ævi og störf, og seinna var ég látinn lesa yfir bækur hans og Jóns M. Ívarssonar, um ævistarf hans og um Ólympíuþátttöku Íslendinga. Þetta samstarf var gott og gjöfult, og við uxum saman í spjalli um íþróttir og fyrri áratugi. Lítið minnst á pólitík, en aðeins á golf sem hann stundaði af kappi í ellinni, hraustur og vinnusamur, og stundum fannst mér einsog Gísli væri á sinn hátt fulltrúi sjálfrar aldamótakynslóðarinnar með stórhug sinn og framfaratrú.

Fyrir tæpu ári þurfti ég að heyra í Gísla um gamlar teikningar af torfbæjum. Hann leysti vel úr erindi mínu en sagðist vera hættur í golfinu, orðinn þreyttur og leiður, þetta væri ekkert líf lengur. Hinum starfsama afreksmanni hefur þótt illt að geta ekki sinnt fleiri verkum – og við svo búið hefur hvíldin líklega verið kærkomin.

Kveðjum til Leifs og annarra aðstandenda Gísla Halldórssonar fylgja þakkir fyrir örlítil kynni við merkismann í sögu Íslands og íþróttanna á 20. öld.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Bjarni Kjartansson

    Gísli setti sinn svip á borgina með sínum um margt fallegu húsum.

    Ég kynntist honum í gegnum föður minn (f.10.08.1912) en þeir voru vinir, í gegnum félagskap sem þeir voru í og er rétt að minnast þess hér, að ekki hefur nokkur verið lengur í Reglu Frímúrara á Íslandi en hann.

    Ég fékk vinnu við að rífa gamla Rauðarár bæinn en hann vék fyrir byggingu sem Gísli hafði umsjón og hönnun með.

    Fyrirmyndarmaður íalla staði og þjóðhollur vel.

    Við minumst hans með þakklæti.

  • Með fullri virðingu fyrir Gísla þá er hann í mínum huga fyrst og fremst tákn þeirrar stjórnsýslu sem var ástunduð fyrr á árum og enn. Meðan hann var borgarfulltrúi var varla reist sú bygging á vegum Borgarinnar án þess að hann eða réttara sagt fyrirtæki hans kæmi þar að. Einhverja hluta vegna var öðrum falið að hanna Íþróttaleikvanginn í Laugadal en þau mistök voru fljótlega leiðrétt af Gísla og félögum. Gísli var mjög atorkusamur á sviði íþróttamála, eins og þú nefnir, og árangur hans þar ber virkilega vott um stórhuga mann.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur