Fimmtudagur 18.10.2012 - 08:43 - 2 ummæli

Þjóðhollusta

Á 19. öld fólst þjóðhollusta í sjálfstæðisbaráttu, framfaratrú og Danahatri. Þeir tímar eru liðnir, sem betur fer! – en kannski getur hugtakið haft gildi ennþá á 21. öld: Að vera hollur þjóð sinni, vilja veg hennar sem mestan og þó einkum sem bestan, auðvitað án nokkurra illinda við annað fólk í heiminum.

Mér sýnist einmitt þetta orð eiga vel við um þátttöku í atkvæðagreiðslunni um stjórnarskrárdrögin laugardaginn 20. október. Eftir að yfir dundu fjárhagslegar, pólitískar og sálrænar hörmungar fyrir réttum fjórum árum hefur okkur þrátt fyrir allt tekist að vinna vel á nokkrum mikilsverðum sviðum. Eitt af þessu er stjórnarskrárverkið þar sem mikill meirihluti landsmanna ákvað að endurnýja fornfáleg og gölluð grunnlög sem eiga sinn þátt í aðdraganda hrunsins og eftirmálum. Þjóðfundur, almennt kjör stjórnlagafulltrúa, einróma niðurstaða ráðsins, vinna í þinginu og svo aftur út til þjóðarinnar – þegar menn líta yfir þetta og leggja til hliðar gleraugu gremjunnar og sjónauka yfirlætisins kemur í ljós merkileg lýðræðistilraun sem hefur fætt af sér margskonar umbótatillögur í frumvarpsdrögunum frá stjórnlagaráðinu. Erlendis er mjög spurt um þetta starf, svo sem þar ég hef starfað á Evrópuráðsþinginu í Strassborg, og þykir til fyrirmyndar.

Nú erum við kvödd að kjörborðinu til að veita leiðsögn um framhaldið. Sjálfur tel ég að það eigi hiklaust að starfa áfram á grundvelli tillagnanna frá ráðinu. Ég fagna líka efnisspurningunum, alveg sérstaklega þeirri um þjóðareign Íslandsauðlinda. Aðrir hafa sína skoðun á þessum álitamálum, einsog gengur.

Það sem skiptir mestu máli er að Íslendingar taki sem flestir þátt í að móta framtíð lands og fólks með því að taka nú afstöðu til stjórnarskrármálsins og greiða atkvæði hinn 20. október (eða fyrr, svo sem í Laugardalshöll 10–20 alla daga). Til þess hvet ég alla þjóðholla karla og konur.

 

 Líka birt í Fréttablaðinu 18. október.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Sverrir Hjaltason

    Tek undir með stjórnarskráratkvæðagreiðsluna. Danahatrið er liðið undir lok sem betur fer. Fáar þjóðir hafa reynst okkur sem Danir, fyrr og nú.

    Til Kaupmannahafnar var leitað eftir réttarvernd þegar valdsmenn og kaupmenn hérlendis beittu ofríki og gafst oft vel.

    Ekki skal gleymt atbeina þeirra við vörslu íslenskra handrita sem vafalaust væru flest týnd og tröllum gefin ef vernd Dana hefði ekki komið til.

  • Haukur Kristinsson

    Formaður Flokksins leyfir sér að ásaka stjórnlagaráðið um fúsk. Ráðið, sem samanstóð af 25 hæfum persónum, vandaði sig mjög og skilaði tillögum sem tóku m.a. mið af þeim sjónarmiðum sem komu fram á stjórnlagaþinginu. Einng komu sérfróðir menn að verkefninu.
    Svo kemur Bjarni Vafningur og ásakar menn um fúsk. Frekjan og hrokinn í þessu sjalla liði á mölinni fyrir sunnan er óþolandi. Og það eftir fúskið sem leiddi til Davíðshrunsins og gjaldþrot seðlabankans? Voru það ekki sjallarnir sem héldu þá í taumana með afglapann Dabba í broddi fylkingar? Ég veit ekki betur.
    Gjaldþrot Seðlabankans kostaði þjóðarbúið ca. 270 milljarða eða nærri milljón á mann. Hann ætlar að verða þjóðinni dýr hann Dabbi litli, sem sagði einu sinni að ekki bæri að greiða skuldir óreiðumann og vitnaði þar í ömmu sína, ef ekki langömmu.
    Fyrir löngu hefði átt að vera búið að banna þessa spillingar klíku sem gengur undir nafninu Sjálfstæðisflokkurinn.
    Ég barasta trúi því ekki að innbyggjarar sitji heima um næstu helgi, rænulausir og sofandi, í stað þess að mæta á kjörstað og segja í það minnsta Já við fyrstu spurningunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur