Miðvikudagur 24.10.2012 - 17:51 - 26 ummæli

Ný leið út úr skuldavandanum

Í þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í dag er skotið á loft þeirri hugmynd að fólki í vanda vegna húsnæðisskulda gefist kostur á að gera hlé á greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð í fimm ár en greiði þess í stað inn á höfuðstól húsnæðisskulda. Ef tillagan fær samþykki verða kannaðir kostir og gallar við slíka ráðstöfun fyrir skuldugar fjölskyldur, lífeyrissjóði, ríkissjóð og aðrar fjármálstofnanir. Því á að vera lokið fyrir 1. mars í vor, þannig að tími gefist til að taka afstöðu til málsins fyrir kosningar.

Margt gott hefur verið unnið við að létta skuldavanda heimilanna eftir hrun. Þrátt fyrir það er vandinn enn útbreiddur, einkum hjá þeim sem hafa verðtryggð lán frá ákveðnu tímabili fyrir hrun, og margt það fólk myndar eðli málsins samkvæmt uppistöðuna í kynslóð sem nú er á milli þrítugs og fertugs. Til mín – og allra þingmanna auðvitað – leitar í sífellu fólk í skuldavanda, og við hljótum að leita allra leiða til að létta hann eftir þær hörmungar sem ég leyfði mér í greinargerð með þingmálinu að kalla „mesta áfall Íslandssögunnar af mannavöldum síðan á Sturlungaöld“.

Að taka lán hjá sjálfum sér

Hugmyndin er eiginlega sú að með þessu gefist skuldugu fólki kostur á að taka lán hjá sjálfu sér. Menn fengju fé núna til skuldagreiðslna gegn því að missa hluta lífeyrisréttar síðar á ævinni. Hér er þessvegna ekki verið að búa til peninga úr engu, sem er því miður raunin um ýmsar rakettutillögur um þessi mál síðustu misserin, eða þá að afskrifa skuldir þannig að þær borgi einhver annar en skuldarinn.

Við þetta kynni skuldabyrðin að léttast verulega hjá ýmsum hópum þar sem höfuðstóll skuldanna minnkaði mánaðarlega sem nemur 12% af launatekjum (reyndar þyrfti væntanlega að borga af þessu skatt á sama hátt og útgreiddum lífeyri). Nákvæma útreikninga vantar vissulega, til þess er könnunin. Gert er ráð fyrir að takmarka heimild af þessu tagi við allerfiða skuldastöðu, og reikna með að greiðslan bætist við fastagreiðslur af lánunum, sem ættu fljótlega að léttast af þessum sökum.

Tímabundið bjargráð

Það er rétt að taka það rækilega fram að ég styð grundvallarþættina í lífeyrissjóðakerfinu og tel – hvað sem líður göllum þess og skavönkum – að það hafi verið happaverk þegar launamenn og atvinnurekendum sömdu um almenna lífeyrissjóði af þessu tagi árið 1969 – og í góðu lagi að nefna hér Benedikt heitinn Davíðsson sem einn helsta frumkvöðul þess máls. Lífeyrissjóðaskipan okkar er eitt af jákvæðustu einkennum samfélagsgerðarinnar, annars vegar út af samtryggingarprinsippinu – að menn borgi saman í sjóð og sá njóti sem mest þarf á að halda, og hinsvegar vegna sjóðsöfnunarinnar sem einkennir kerfið, og ekki fyrirkomulag gegnumstreymis sem viðgengst víða í lífeyrissjóðum grannlandanna og veldur nú miklum vandræðum þegar aldurssamsetning þjóðanna breytist, gömlu fólki fjölgar og hlutfallslega færri eru á vinnumarkaði. Hér er því ekki verið að leggja til neinskonar grundvallarbreytingar á kerfinu heldur tímabundið bjargráð til að leysa úr miklum og óvæntum vanda sem við verðum að horfast í augu við.

 

Flokkar: Húsnæðisskuldir

«
»

Ummæli (26)

  • Sigurður

    Og áfram er haldið að míga í skóinn, í stað þess að horfast í augu við raunverulega vandann, og taka á honum.

    Fullkominn forsendubrests þjófakerfis verðtryggingarinnar, sem að auki margt bendir til að sé jafnólögleg og gengistryggingin, en vinstristjórnin tekur sér sömu stöðu og áður og lítur undan.

    Það er búið að afhenda þessu þjófakerfi séreignarsparnaðinn, ríkið hefur ausið miljörðum í niðurgreiðslur á vaxtakostnaði af þessum upplognu lánum og nú á að afhenda bönkunum almennan lífeyrissparnað líka?

    Hvernig væri nú að fara að horfast í augu við þá staðreynd Mörður, að þetta snarbilaða og séríslenska þjófakerfi er einfaldlega komið að leiðarlokum, og það er ekki meira af heimilunum að hafa.

    Það er búið að taka allt, og alveg fullkomlega óbðlegt að fara að afhenda lífeyrissjóðina líka.

    Hættið nú þessari vitleysu, afnemið verðtrygginguna og komið á þrýstingi að fara að taka hér upp hagstjórn eins og siðaðar þjóðir og látið heimilin í friði.

    Stendur til að grípa til einhverra ráðstafanna til að tryggja að kröfur þeirra heimila sem er búið að níðast á núna í 4 ár vegna ólöglegra gengislána muni ekki fyrnast og fjármálafyrirtækin komist upp með að halda þýfinu?

  • Vel mæt SIGURÐUR!

    Hér er verið að þurrka út millistéttina.

    Og enn er von á hærri álögum og ægilegum áhrifum verðtryggingar upp úr áramótum.

    Þetta vita allir en ekkert er gert.

    Viljinn er ekki fyrir hendi,

  • Birgir Finnsson

    Sammála Sigurði hér að ofan … manni beinlínis flökrar við að lesa þessa tillögu.

    Frekar en ráðast í eðlilega leiðréttingu þá á að blekkja fólk í skuldavanda til að afhenda bönkunum lífeyrissparnaðinn sinn … en passa sig pakka því inn í nógu fallegt orðskrúð til að tárvotur lýðurinn þakki þingmanninum fyrir góðverkið, að ræna sig ellilífeyrinum og moka inn í bankana.

    Hversu djúpt er eiginlega hægt að sökkva?

  • Jón Ólafur

    Nú eru mjög miklar líkur á að verðtryggingin sé kolólögleg, því er mjög brýnt að verðtryggingin fái flýtimeðferð fyrir dómstólum, því miklar líkur eru á að fasteignaviðskipti eigi eftir að dragast verulega saman, þar til niðurstaða fæst. MiFID tilskipunin frá 1. nóv. 2007 bannar öll viðskipti með afleiður til almennings, það væri sömuleiðis hægt að benda á fleiri lög sem banna verðtryggingu.
    Kynntu þeir skilgreiningu á afleðu:
    arev.is (Ráðgjöf) flækjustig verðtryggðra lána.

  • Ómar Kristjánsson

    Hvað haldiði þið að vinnist með ,,afnámi verðtryggingar“? það eina sem vinnst við það eru hærri vextir. Verðtryggingin yrði bara tekin í gegnum venjulega vexti. Lánafyrirtæki mun aldrei lána út peninga á neikvæðum vöxtum. Útilokað.

    Eini möguleikinn er aðild að EU og upptaka Evru. það er eini raunhæfi möguleikinn. Allt tal um annað er bara tal útí bláinn eða lýðskrum og stundum bæði.

    Hinsvegar er alveg merkilegt, hve margt fólk á Íslandi virðist ekki skilja muninn á verðtryggðri krónu og óverðtryggðri krónu. Eg var td. í banka í dag – og starfsmaðurinn sem kallaði sig ,,ráðgjafa“ – hann virist enganveginn skilja muninn á verðtryggðri og óverðtryggðri krónu.

    Eg hallast að því að það verði að fara að kenna peninga og gjaldmiðlamál í skólum. Strax í grunnskóla..

  • Sigurður

    Alltaf gaman að því þegar menn reyna að halda því fram að verðtryggingin verði að vera, því annars mun öll lánastarfsemi leggjast af.

    Einhvern vegin tekst nú umheiminum samt að komast af án þessarar snilligáfu íslendinganna.

    Verðtryggingin er nokkuð örugglega ólögleg, en það er augljóst að vinstri stjórnin ætlar sér að slá nýja skjaldborg um glæpamennina í þessu máli sem öllum öðrum.

    En botnar svo ekkert í því að ekki skuli vera nema um 10% landsmanna sem treystir þessu fólki til að vinna vinnuna sína þannig að hagsmunir almennings og þjóðar séu teknir fram yfir hagmsuni peningaaflanna, hvort sem eru á tortola eða wall street.

  • Stefán Auðunn Stefánsson

    Enn ein aulalausn aulanna á alþingi. Væri ég 10 árum yngri færi ég burtu með allt mitt hafurtask. Aumingjar.

  • Ómar Kristjánsson

    Meei. Hún legsst ekkert af. Vextir hækka bara! Hækka, hækka og hækka eftir atvikum.

    Hve oft á að þurfa að fara yfir þetta? Vertrygging var sett til að dreifa álaginu af afborgunum.

    það er mun betra að hafa þessa dreifingu með verðtryggingunni. þetta vita þeir fáu sem tala um afnám verðtrygginar og eru ekki bara að lýðskrumast.

    Td. á einhverjum fundi þarna um daginn hjá verkalýðssamtökum – þar töluðu þeir um að afnema verðtryggingu – og setja vaxtaþak á ákveðin lán ss. húsnæðislán.

    Að afnema verðtryggingu gerir í besta falli ekki neitt en í versta falli er til stórskaða fyrir lántakendur. Til að fá fram þau áhrif sem fólk er að tala um – þá verður að gera ákv. hliðarrástafanir. Td. með vaxtaþaki og/eða einhverskonar niðurgreiðslu.

    þeir sem bara öskra og æpa: ,,Afnema verðtryggingu“ = Töfralausn – þeir eru á villigörum eða eru vísvitandi að blekkja almenning.

    þetta er svona sko.

  • Margret Olafsdottir

    Þeir sem eru með svokölluð ólögleg gengistryggð lán geta hrósað happi þegar það verður búið að leiðrétta þau öll niður í upphaflega fjárhæð eins og stefnir í. Þeir þurfa þá ekki að taka út ellilífeyrinn sinn fyrirfram. Þetta þjóðfélag er ótrúlega óréttlátt. Ómar Kristjánsson, verðtryggt lán tekið haustið 2005 hefur hækkað um 70% þrátt fyrir fullar afborganir. Þetta finnst þér bara sanngjarnt. Merði Árnasyni finnst þetta líka sanngjarnt. En að við skulum ennþá vera á þessum stað fjórum árum eftir bankahrun og gríðarlegan forsendubrest með tilheyrandi sorg og atvinnumissi. Að fólk eins og Ómar og Mörður neita að horfast í augu við og viðurkenna óréttlætið sem ofur venjulegt launafólk, vinnulúnir Íslendingar eins og ég og fjölskylda mín höfum þurft að þola. Að tapa sparnaði til áratuga er sárt og að væna venjulegt fólk um að stela af öryrkjum og öldruðum ef að hluti af verðbólguhækkun lána verði leiðrétt er bara ljótt.

  • Margret Olafsdottir

    Ég er sammála Sigurði sem skrifar hér fyrir ofan. Og Stefán, ef ég væri 20 árum yngri þá færi ég líka. Ég er með æluna uppi í hálsi yfir þessu þjóðfélagi okrara. Þeir sem eru svona hrifnir af verðtryggingunni, ekki heyrir maður neitt frá þeim þegar fréttir eru um menn í viðskiptalífinu eru að fá tugi milljarða afskrifaða. Eða maðurinn sem á Leonard sem hefur skipt um kennitölu þrisvar, bankar hafa afskrifað mörg hundruð milljóna en hann býr í 500 fermetra glæsihýsi sem er skrifað á konuna. Hann heldur auðvitað fyrirtækinu því það er afskrifað og fellt niður án þess að menn þurfi að láta neitt af hendi. En hinn venjulegi launamaður má bara blæða og tapa eign sinni í húsnæðinu. Ekkert mál, hann getur kannski tekið út ellilífeyrinn fyrirfram í viðbót við að hafa tæmt séreignarsparnaðinn.
    Mörður, þú og þinn flokkur fá ekki atkvæði mitt aftur. Ég og öll mín fjölskylda höfum kosið Samfylkinguna síðan hún var stofnuð. En aldrei aftur, aldrei…!

  • kristinn geir st. briem

    las tilögur þínar skil þær ekki voru sjáfstæðismenn með svipaðar hugmindr hver er munurinn.þá talaði steingrímur um framtiðartekjur mætti ekki skerðast. það má líka seigja að skuldir hafa orðið til úr engu afhverju má ekki láta borga mismunin frá hruni hversvegn fá stjórnarandstæðingar ekki að sjá samníngin milli rikisins og gömlu bankanna hvernig er hægt að koma með vitrænar tilögur ef menn hafa ekki allar uplýsíngar.getur það verið vegna þess að bankarnir settu þónokrn pening til samfylkíngarinarog eru nú að innheimta greiðann
    með fyirirfram afsökunabeiðni

  • Ómar Kristjánsson

    Margrét, Margrét, Margrét, ekki láta svona. Sanngjarnt og sanngjarnt. Eg bendi bara á staðreyndir. þetta er bara raunsæi sem eg að segja. Hvað heldurðu að fólk hefði verið búið að borga ef það hefðu verið fljótandi vextir? það hefðu flestir farið lóðbeint í greiðsluþrot nema ofurauðugir.

    Hugmynd eða tillaga Marðar er miklu mun áhugaverðari og raunsærri en ,,afnám verðtryggingar“ talið. það er engin lausn eitt og sér að afnema verðtryggingu.Til að fá fram þann effekt sem fólk er að tala um – þá þyrfti að setja þak á vexti eða niðurgreiða á einhvern hátt.

    það er vel vitað hvað það síðastnefnda þýðir. Sagan geymir það vel. Eg meir að segja man eftir þeim tímum. það er ekki lengra síðan. Og eg er 47.

  • Það er algjör grundvallarmisskilningur í gangi hjá vel flestum varðandi verðtrygginguna; það að afnám hennar myndi leiða til hærri vaxta.

    1. Raunvextir verðtryggðra útlána fylgja ekki raunvöxtum SÍ. Þegar síðarnefndu vextirnir hækka gerist slíkt hið sama ekki fyrir fyrrnefndu vextina. Einnig má minnast á að þar sem greiðslubyrði verðtryggðra lána dreifist yfir tímann, þá hækkar greiðslubyrðin mjög lítið er vextir slíkra lána hækkar. Neytandi neytir því meira en hann myndi ella gera og/eða slær á fleiri lán en ella. Það skapar verðbólgu sem þarf svo að mæta með enn meiri vaxtahækkun SÍ. Að þessu leytinu til leiðir verðtryggingarkerfið til hærri verðbólgu og hærri vaxta en væri annars til staðar. Það er að segja, verðbólga og nafnvextir myndu lækka við afnám verðtryggðra neytendalána. Ef það væri raunin myndu lántakar ráða við breytilega óverðtryggða vexti, sem myndi svo einnig gera SÍ auðveldara fyrir þar sem vaxtabreytingar þeirra myndu bíta í neyslu- og útlánahegðun einstaklinga um leið. Allt þetta myndi leiða til lægri verðbólgu og nafnvaxta.

    2. Fjármálastofnanir búa við jákvæðan verðtryggingarjöfnuð, þ.e. að þeir eiga hlutfallslega meira af verðtryggðum eignum (t.d. útlán) en skuldum. Bankarnir hagnast því á hækkandi verðbólgu. Þeir hafa því hvata til enn fleiri verðtryggðra útlána, sem eykur verðbólgu. Þetta helst allt í hendur. Hver þekkir ekki greiðslumat fjármálastofnanna sem byggir á allt of háum útgjöldum svo lántakinn standist ekki greiðslumat óverðtryggðra lána. Slíkt er gert til að beina lántökum í átt að verðtryggðum lánum.

    Það er fásinna að tala um að öruggt yrði að neikvæðri raunvextir yrðu til staðar í meira mæli en nú er við afnám verðtryggðra neytendalána, eins og Ómar Bjarki öskrar reglulega og kallar það raunsæi. Það var þannig þegar vextir voru handstýrðir í tiltölulega vanþróuðu hagkerfi. Nú er vaxtafrelsi, auk þess sem innlendir fjármálamarkaðir hafa þróast mjög mikið síðan verðtryggingin var tekin upp. Nú er kominn tími til að taka eitt framfaraskref í viðbót í átt til lægri verðbólgu og vaxta með afnám verðtryggðra neytendalána.

    Sem dæmi um hversu mikið hagkerfið hefur þróast, þá var hér einu sinni 100% verðbólga. Við eitt stærsta efnhagshrun sem vestrænt ríki hefur staðið frammi fyrir fór verðbólgan „einungis“ upp í um 20%. Það er þroskaummerki þó kerfisgallarnir séu mjög margir.

    Nú hefur komið út tiltölulega dökk skýrsla um verðtrygginguna ásamt SÍ skýrslu, þar sem tekið var fram að óstöðugleikinn hér innanlands væri mest vegna mikilla sveiflna i einkaneyslu en það passar mjög vel við punkta 1 og 2 að ofan.

    Það ætti að vera barátta allra landsmanna að losna við verðtryggingu neytendalána, þannig væri tekið stórt skref í átt að auknum stöðugleika hér á landi. Ekki láta einhvern plata ykkur með að segja að verðtrygging hér sé nauðsyn vegna krónunnar. Það er eins fjarri sannleikanum og hægt er að komast.

  • Ómar Kristjánsson

    Gunnar, þú ert bara að tala einhversstaðar beint á ská eða einhverstaðar utan úr mýri. þetta er ekki í tengslum við neinn raunveruleika og tengist ekkert því sem eg er að segja. Enda þorirðu ekki ein sinni að leggja nafn þitt við þetta vitleysislýðskrum. En jú jú, internetið hefur sína galla. .

  • Mér tókst með nokkrum setningum að hrekja þína „trú“ án þess að þú mótmælir með haldbærum rökum.

    Þú mátt reyna það sama með mína trú í stað þess að svara líkt og síðast, ef svar má kallast. Hvar er ég að tala beint á ská eða einhvers staðar utan úr mýri?

  • Sverrir Hjaltason

    Afleit hugmynd hjá Merði. Nær væri hjá þingmanninum að snúa sér að því að huga að því hvernig rangindi sem Alþingi hefur staðið fyrir gagnvart launafólki á liðnum áratugum verði leiðrétt. Öryggi er það sem almenningur þarfnast.

    Fjöldi fólks stendur frammi fyrir því núna að áratuga greiðslur í lífeyrissjóð breyta engu um tekjur þeirra eftir starfslok. Þó hafa greiðslurnar numið allt að 20 prósentum af árstekjum.

    Eini hópur lífeyrisþega sem segja má að betur hafi sloppið eru opinberir starfsmenn, þar með talið þingmenn. Skyldi það vera tilviljun? Ég held ekki.

    Hafi flokkar áhuga fyrir því að ná árangri í næstu þingkosningum ættu þeir að huga alvarlega að þessari staðreynd. Jafnframt verður að leggja grundvöll að því að lántakendur geti búið við það öryggi að vita hvernig greiðslum þeirra vegna húsnæðislána verði fyrirsjáanlegar allan lánstímann.

    Verðtryggingarkerfið sem hefur verið í gangi frá því að Ólafslög voru sett er ónýtt m.a. vegna þess að stjórnarflokkar liðinna ára hafa hagnýtt sér lífeyrissjóðina bakdyramegin með skerðingarákvæðum og stolið þar með lífeyrissparnaðinum. Stór orð en sönn eigi að síður.

    Á sama tíma hafa þeir ásamt með einkavinavæddum bönkum fært fé frá launafólki til útgerðarmanna og sumra atvinnurekenda með fikti í gengi, gambli og gengisfellingum. Það er hin hliðin á því hvernig verðtryggingarkerfið hefur verið eyðilagt.

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    „Ný leið út úr skuldavandanum“? Þetta er ekkert annað en uppgjöf hjá þér, Mörður.

  • Hugsunin er fyrst og fremst sú að kaupa tíma.

    Það á að athuga þetta fram í mars.

    Þá verður niðurstaðan að þetta sé ekki hægt.

    Íslenskir stjórnmálamenn eru sífellt að kaupa sér tíma.

    Afskaplega óeðlilegt ástand og eiginlega siðlaust.

  • Plís Vakna nú Mörður !!!! Hættu að plástra svöðusárin… nú hafa ca 7000 manns á besta aldri flutt frá Islandi umfram aðflutta, hve margir þeirra skyldu nú vera að flýja verðtryggingarránið sem hófst með Ólafs ólögum um árið 1979-80, og byrjaðu á því að kynna þér MiFID frá 1/11 2007. Það getur bara ekki verið að þú hafir lesið hana.

    „Jón Ólafur
    24.10 2012 @ 20:42
    Nú eru mjög miklar líkur á að verðtryggingin sé kolólögleg, því er mjög brýnt að verðtryggingin fái flýtimeðferð fyrir dómstólum, því miklar líkur eru á að fasteignaviðskipti eigi eftir að dragast verulega saman, þar til niðurstaða fæst. MiFID tilskipunin frá 1. nóv. 2007 bannar öll viðskipti með afleiður til almennings, það væri sömuleiðis hægt að benda á fleiri lög sem banna verðtryggingu.
    Kynntu þeir skilgreiningu á afleðu:
    arev.is (Ráðgjöf) flækjustig verðtryggðra lána.“

  • Mörður vill gera allt í sínu valdi til að tryggja að bankarnir fái öll glæpalánin greidd að fullu. Til þess er hann tilbúinn að hirða lífeyrisréttindin af fólki!

    Það var ekki nóg að fólk neyddist til að taka út frjálsa lífeyrinn og borga bönkunum eftir að þeir höfðu sett landið í þrot og tvöfaldað lán fólks, heldur er nú hugmyndin að taka framtíðarlífeyrisréttindin af fólki.

    Hversu ömurlegar geta tillögur stjórnmálamanna verið?

    Á sama tíma segja stjórnmálamenn ekki orð þegar bankarnir (glæpafyrirtæki) afskrifa milljarða hjá útrásarvíkingum og öðru landráðahyski. Það þykir þeim í góðu lagi.

    Aldrei mun ég kjósa neinn af flokkunum fjórum framar.

  • Guðbergur Egill Eyjólfsson

    Flott jafnaðarmennska. Moka bara lífeyrissparnaðinum milliliðalaust í bankana.

  • Sigurður

    Mörður,
    Nú eru meira en 4 ár síðan fjármálafyrirtækin hófu að stela eignum af fólki með ólöglegum lánum, lán sem bæði fjármálafyrirtækin og ríkisstjórnin vissu að væru ólögleg.

    Eftir því sem ég best veit er almennur fyrningarfrestur á fjárkröfum 4 ár, veistu til þess að ríkisstjórnin ætli að grípa til einhverra ráðstafanna til að tryggja að kröfur fólks á þessi fjármálafyrirtæki verði ekki látin fyrnast?

    Getur verið að ástæðan að Lýsing ætlar að hunsa Hæstaréttardóma um afturvika vexti sé sú að um hver einustu mánaðarmót eru að fyrnast mál þar sem þeir hafa stolið eignum af fólki?

  • Sæll Mörður,,
    þú ert bara alltof seint vinur að reyna gera eitthvað.
    þið þingmenn höfðuð meiri möguleika á að hjálpa fólki, en gerður ekkert, nema reyna hjálpa þeim sem voru löngu gjaldþrota fyrir hrun. Og það fólk hefur meira segja fengið hundruði þúsunda í vaxtabætur, þótt það greiði ekki af lánunum.
    Þið gátuð t.d. krafist að vextir væru snarlækkaðir úr ca.5% niður í 1,5%, hefði bara þurft í 2ár.
    þið gátuð líka gert eitthvað þegar kom krafa í kringum hrunið að frysta verðtryggingunna í nokkra mánuði á meðan hún rauk upp og engin hafði neina stjórn á henni.
    Þú hafðir líka möguleika á að lækka skattprósentuna af séreignasparnaðinum sem margir tóku út til að lækka húsnæðislánin.
    Þið hafði eiginlega hraunað yfir allar tilögur sem fólk hefur komið með.
    Og núna ná gömlu hrunflokkarnir líklega aftur völdum og leggja þetta land endanlega í eyði.

  • Súper, ekkert að vera neitt að hleypa milliliðunum í lífeyri landsmanna, áður en hann hverfur endanlega í fjármálasukki bankanna, leggja hann bara þangað beint inn og þá þurfa menn ekkert að ræða þetta frekar. peningarnir hverfa jafn hratt og örugglega og þegar skjölum er stungið inn í pappírstætarann. No problemo eins og Tony Soprano myndi segja.

    Mörður er íslenskufræðingur, af hverju umorðar hann þessa tillögu ekki bara svona,

    „í staðin fyrir að almenningur greiði í lífeyrissjóði, þá ætlum við bara að lækka laun almennings strax um 14%, engir milliliðir, ekkert vesen“.

    Vinna,velferð og þjófnaður á sparnaði landsmanna, ekkert mál hjá hinni syndum spilltu Samfó.

    Ætli gömlu kempur jafnaðarmanna, sem komu þessum hlutum eins og lífeyrissjóðskerfinu á, séu ekki að snúa sér heilhring í gröfinni við þessar fáránlegu tillögur latte 101 kratanna?

  • Þessar tillögur Marðar eru svo ósvífnar að það nær engu tali. Svona þingmenn verður að gera atvinnulausa í næstu kosningum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur