Mánudagur 29.10.2012 - 16:27 - 4 ummæli

Umhverfis stjórnmálin

Ég rifjaði upp um daginn í grein og bloggi þau góðu orð Igibjargar Sólrúnar Gísladóttur að í nútímanum væri ekki hægt að vera jafnaðarmaður án þess að vera líka kvenfrelsis- og umhverfissinni. Þegar nálgast prófkjör fer maður að líta í eigin rann til að ydda framgöngu sína og stefnumál – og ég viðurkenni að frammistaðan er ekki ævintýraleg í jafnréttismálunum (þó a.m.k. með í endurskoðun jafnréttislaganna 2006–2007 og ýmsum umræðu um þessi efni). Það glaðnar hinsvegar yfir þegar litið er yfir þingferilinn í umhverfismálum. Kannski vegna þess að sem betur fer hefur ekki skort jafnréttiskonur og -karla á þinginu, í mínum flokki og öðrum – en baráttumenn í umhverfismálum hafa verið færri, og sumir nokkuð þaggaðir í sínum hópi (þið fyrirgefið, Kata Fjeld og Ólafur Örn).

Á okkar dögum held ég að stjórnmál án umhverfis séu léleg stjórnmál, því umhverfis stjórnmálin séu umhverfismálin á alla vegu. Og er ég ekki bara nokkuð góður umhverfisstjórnmálajafnaðarmaður? Gáið hér:

 

Mörður Árnason: Græn mál 2003–2012

Listi um nokkur „græn mál“ sem ég hef flutt eða stutt við flutning á þingi frá 2003–2007 og frá 2010 (og sem varamaður). Listinn er ekki tæmandi, og yfirleitt er ekki getið þátttöku í umræðum og nefndarumfjöllun um stjórnarfrumvörp eða þingmál annarra, græn eða grá. Nýjustu málin koma fyrst.

Um griðasvæði hvala í Faxaflóa og fyrir Norðurlandi. Þingsályktunartillaga. 2012, flutt áður 2011–12. Ásamt Birgittu Jónsdóttur og Árna Þór Sigurðssyni. Ráðherra útvíkki griðasvæði hvala í Faxaflóa frá Eldey að Öndverðarnesi, og komi á samskonar griðasvæði fyrir Norðurlandi. Í samræmi við ályktun Hvalaskoðunarfélags Íslands. Slóð.

Selir fái sömu stöðu og önnur dýr og fuglar í íslenskri löggjöf, komið á fót sérstökum gripsvæðum. Frumvarp, 2012, flutt áður 2011–12. Ásamt Birgittu Jónsdóttur, fyrsta flutningsmanni, og Árna Þór Sigurðssyni. Slóð.

Gagnger endurskoðun á skipulagi hvalveiða. Þingsályktunartillaga. 2012, flutt áður 2011–12. Ásamt Árna Þór Sigurðssyni, fyrsta flutningsmanni, og Birgittu Jónsdóttur. Slóð.

Um aukna vernd „sögulegrar byggðar“ í borg og bæjum (takmarkaður bótaréttur fasteignareigenda við breytingar á skipulagi. Frumvarp. 2012. Ásamt Atla Gíslasyni, Álfheiði Ingadóttur, Ásmundi Einari Daðasyni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Ólínu Þorvarðardóttur, Róbert Marshall, Þór Saari. Í framhaldi af umræðum um skipulagsmál við Ingólfstorg og Austurvöll. Slóð.

„Herdísarfrumvarpið“ – lög um búfjárbeit. Eftir tíu ár verði búfé ekki beitt nema innan girðingar. 2012–13. Ásamt Birgittu Jónsdóttur. Slóð.

Ofanflóðasjóður > Almannavarnasjóður? Upphaf umræðu með fyrirspurn til ráðherra: 2012–13. Slóð.

Fyrirspurnir um hvalveiðar og stjórn fiskveiða, um frumbyggjaveiðar á hval, um rannsóknir á hrefnu, um sjálfbærni hvalveiða, 2011–12, um kynningarstarf vegna hvalveiða og um vinnslu hvalafurða 2010 og 2009 – og ýmsar ámóta 2003–2007.

Fyrirspurnir um ljósmengun 2004–2005, 2006, 2011–12. Árið 2012 stofnun nefnd um myrkurgæði á vegum umhverfisráðherra.

Þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan. Þingsályktunartillaga. 2011–12, áður 2010–11. Ásamt Róbert Marshall. Í framhaldi af umræðu um veg yfir Teigsskóg. Slóð.

Skipulagslög og mannvirkjalög, afgreidd úr umhverfisnefnd 201o og 2011, formaður nefndarinnar í síðara málinu. Margvíslegar umbætur, þar á meðal og ekki síst ákvæði um landskipulag og hverfisskipulag.

Græna hagkerfið. Þingsályktunartillaga. 2012. Einn meðflutningsmanna Skúla Helgasonar. Slóð.

Upplýsingaréttur um umhverfismál. Frumvarp. 2012. Breytingar eftir mengunarslys frá sorpbrennslustöðvum o.fl. Meðflutningsmaður Ólínu Þorvarðardóttur ásamt fleirum í meirihluta umhverfisnefndar. Slóð.

Akstur utan vega og aukin vernd sérstakra náttúrufyribæra – tilraun til að koma af stað vinnu við að hindra utanvegaakstur og herða á vernd fossa, hvera, eldhrauns o.s.frv. Upphaflega frá ráðherra, Sjálfstæðisflokkurinn stöðvaði málið í þinglok. Með fulltrúum annarra flokka í umhverfisnefnd. Slóð.

Stjórn vatnamála, fullgilding Árósasamningsins, úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamála, þátttaka í viðskiptakerfi með losunarheimildir. Meðal mála urðu að lögum eftir umfjöllun í umhverfisnefnd 2010–2011 (formaður hennar þann vetur).

Bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Þingsályktunartillaga. Einn meðflutningsmanna Þuríðar Backman. 2011, 2012. Slóð.

Fyrirspurn um íslenskt merki fyrir ábyrgar fiskveiðar. 2009.

Um stuðning við djúpborun á Íslandi. 2006. Þingsályktunartillaga, fyrsti flutningsmaður. Um stuðning við verkefnið, m.a. vegna þess að það gæti leitt til betri nýtingar virkjunarsvæði og hlíft þar með öðrum náttúrusvæðum.

Fyrirspurnir um viðgang sjófugla og sandsílis. 2005, 2006.

Hjólreiðabraut með fram Þingvallavegi. Þingsályktunartillaga. 2006. Sérstök hjólreiðabraut á tíðförnum vegi um merkilega náttúru. Slóð.

Þingið fjalli um veitingu virkjanaleyfa. Þingsályktunartillaga. 2005. Öll virkjunarleyfi frá iðnaðarráðherra til alþingis þangað til rammaáætlun komi til þingsins.

Fyrirspurn um Kyoto-bókunina og ýmsar umræður um loftslagsmál 2006 og áður.

Rammaáætlun um náttúruvernd. 2007. Þingsályktunartillaga. Annar flutningsmaður eftir formanni Samfylkingarinnar. Undanfari nýrrar rammáætlunar, í framhaldi af Fagra Íslandi, umhverfisstefnu flokksins frá vetrinum 2006–2007.

Beiðni um skýrslu um áhrif hvalveiða á Ísland sem ferðamannaland. 2003, samþykkt 2005. Kom seint og um síðir frá ráðherra, illa unnin.

Fyrirspurn um innanlandsmarkað með losunarefni. 2004. Í upphafi þinglegrar umfjöllunar um loftslagsmál.

Fyrirspurnir um verndaráætlanir fyrir Ramsarsvæðin Mývatn og Laxá, Þjórsárver, Grunnafjörð. 2004, 2005.

Andstaða við stækkun stíflu í Laxá í frumvarpi til nýrra laga um Laxár- og Mývatnssvæðið. 2003.

Endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá. Þingsályktunartillaga. 2002. Ásamt Karli Valgarði Matthíassyni. Slóð.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Minn maður er í takti við nýja tíma og góða hugsun.

    Árið er núna 2012. Og það er kominn tími til að taka á honum stóra sínum.

    Annars verður jörð mold.

    Hrörnun er þekkt náttúrulögmál. Þegar eitt hverfur þá hverfur annað… þá tekur hröðun völdin, uns allt hverfur.

    Allt er samofið í veröld okkar.

  • Góð samfella í málfluttningi og tilögugerð – líst vel á þetta hjá þér Mörður !!

  • Magnús Örn Sigurðsson

    Sæll Mörður

    Ég sé þú nefnir ekki umhverfismál tengd Norðurskautssvæðinu. Hver er afstaða þín til olíuborunar á norðurslóðum og aukinnar skipaumferðar á því svæði?

  • Mörður Árnason

    Takk, ártalið komið á sinn stað (var 21012 — aðeins of mikil bjartsýni um ævilíkur kannski 😉 ).

    Magnús Örn — Nei, ég hef ekki flutt nein mál um þau en fylgst með. Það er auðvitað sjálfsagt að nýta tækifæri sem skapast við breyttar aðstæður á norðurslóðum en ég deili þínum efasemdum um nýtingarstefnuna. Við verðum að leggja áherslu á að fara afar varlega, og gera okkur grein fyrir hættunum sem aukin umsvif geta valdið okkur. Ég styð norðurslóðastefnu okkar sem Össur lagði upp fyrir þingið, það er merkilegt plagg með áherslu á rannsóknir og umhverfismál um leið og Íslendingar lýsa sínum þátttökurétti. Kom aðeins við tilbúningssögu þessa stefnuplaggs:
    http://www.althingi.is/altext/139/s/0408.html

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur