Föstudagur 02.11.2012 - 09:35 - 19 ummæli

Samfylkingin – forystuafl í næstu stjórn

Það er síðasti vetur kjörtímabilsins og við í Samfylkingunni erum að undirbúa okkur fyrir kosningar, með prófkjörum og stefnuumræðu. Það er gott að sem flestir viðri sjónarmið sín fyrir opnum tjöldum, og beri sig saman við aðra – á meðan sótt er í boltann, ekki manninn.

Mér hefur þótt bera skrýtillega á því í skrifum og umræðu um Samfylkinguna síðustu vikur að jafnvel reyndir menn telja upp félaga í flokknum og stuðningsmenn hans sem hina og þessa hópa sem nú þurfi að smala saman einsog í fjársafn til að fara með inn í réttina. Þarna séu byggðafantarnir og Reykjavíkurhrokagikkir, umhverfissinnar, kvenfrelsiskonur, virkjunar- og framkvæmdakarlar, frjálslyndir jafnaðarmenn, stjórnlyndir sósíalistar, víðsýnir hægrikratar, bindindismenn, þjóðfélagsverkfræðingar, bjórunglingar og gamlir hippar – tilviljunarkennt samsafn sem tímans brim hefur kastað unnvörpum á fjörur samtímans.

Fjölbreytni er sem betur fer lykilorð um Samfylkinguna – en þetta er ekki rétt lýsing á flokksfélögum og stuðningsmönnum. Það sem meira er: Hætt er við að slík sjálfsmynd leiði menn í pólitískar villur. Við megum ekki við því í Samfylkingunni, nýlega búin að jafna okkur á mistökunum 2007–2009. Og þó er mest um vert að þjóðin má ekki við því að Samfylkingin villist.

Samfylkingin er hreyfing jafnaðarmanna á Íslandi. Því miður eru ekki allir íslenskir jafnaðarmenn félagar í Samfylkingunni, stuðningsmenn hennar eða kjósendur. En við í Samfylkingunni erum öll jafnaðarmenn, hvert með sínum hætti. Við byggjum starf okkar á traustum grunni fumherjanna frá fyrstu áratugum aldarinnar sem leið. Við höfum tileinkað okkur árangur þeirra sem við tóku við uppbyggingu velferðarsamfélags og réttarríkis, og lært af mistökum þeirra. Við leggjum áherslu á mannréttindi, og teljum frelsi til orðs og æðis einhver hin mikilvægustu þeirra, um leið og við bendum á jöfnuð sem siðferðilega undirstöðu og praktíska aðferð. Við lifum á 21. öldinni þar sem kvenfrelsi og sjálfbær þróun er órjúfanlegur hluti jafnaðarstefnunnar.

Höfuðafl – forystuafl

Samfylkingin var stofnuð til að vera höfuðafl í íslenskum stjórnmálum. Hún er mið-vinstriflokkur, og á að bjóða til samstarfs öðrum flokkum og hreyfingum til vinstri og fyrir miðju, fólki sem leggur áherslu á jöfnuð og frjálslyndi hvað sem líður afstöðu þess í einstökum átakamálum. Samstarf við hægriflokka tel ég vissulega koma til greina – þegar um er að ræða mikilvæga þjóðarhagsmuni, svo sem inngöngu í Evrópusambandið, eða þá brýnar umbætur innanlands, svo sem að tryggja þjóðareign Íslandsauðlinda eða að greiða leið grænu hagkerfi með áherslu á náttúruvernd og umhverfisstefnu.

Nú um stundir virðast ekki miklar líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn eða önnur hægriöfl hafi hug á þessháttar þjóðstjórnar-samstarfi. Markmið Samfylkingarinnar í kosningunum í vor hlýtur því að verða að fá nægan styrk til að gerast forystuafl í næsta stjórnarsamstarfi, einsog í því sem brátt lýkur – í mið-vinstri-umbótastjórn undir gunnfánum jöfnuðar, atvinnu og velferðar.

 

(Birtist líka í DV 2. nóvember)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Miðað við Gallup eru sem betur fer litlar líkur á því. Og það eru litlar líkur á að þú Mörður fáir þingsæti, sem betur fer.

  • Langar að taka undir með Helga hér að ofan……

  • „…..Nú um stundir virðast ekki miklar líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn eða önnur hægriöfl hafi hug á þessháttar þjóðstjórnar-samstarfi“

    Þessi frasi Marðar er týpískur slagari samfylkingarþingmanns. Allt er Sjálfstæðisflokknum að kenna. Var Mörður ekki á pepp-fundi samfylkingar um síðustu helgi? Þar lýsti Jóhanna Sjálfstæðisflokknum sem helsta vandamáli íslendinga. Það kæmi aldrei til greina að mynda stjórn með þeim flokki? Var það ekki líka DO sem reifaði fyrstur hugmynd um þjóðstjórn fyrir fjórum árum síðan, þá sendi PR deild Samfó Bubba Morthens niður í anddyrir Seðlabankans og lét kyrja hann úr embætti með nokkrum þekktum slögurum kappans.

    Þessi skrif Marðar undanfarið eru með miklum ólíkindum. Það er eins og hann sé markvisst að koma sér hjá því að ná öruggu þingsæti. Alls kyns tillögur eins og t.d. að hleypa ríkinu í að skattleggja lífeyri landsmanna fyrirfram, mynda stjórn við höfuðandstæðing flokssins o.s.frv. Varla getur nokkur „decent“ meðlimur þessa undarlega jafnaðarmannaflokks tekið undir þetta, og þar með sett sig á skjön við boðskap ayatollah flokksins, Jóhönnu Sigurðardóttur, hverrar var kallað til á ögurstundu, og hún á að hafa bjargað Íslandi frá glötun, í samstarfi við hinn staðfasta Steingrím J. Sigfússon, þann sem allt veit um fjármál og ríkisbúskap.

  • Óðinn Þórisson

    Samfylkingiunni hefur þegar verið breytt úr jafnaðarmannaflokki að norrænni fyrirmynd í vinstri sósíalistaflokk “
    Þorsteinn Pálsson 12.05.2012

    Lækkum skatta og fólk og fyrritæki – gefum fólkinu tækifæri til að bjarga sér sjálft.

    Stærsta verkefni næstu ríkisstjórnar verður að koma hjólum atvinnulífins aftur af stað.

    Sjálfstæðisflokkurinn mælist aðeins með 36 % fylgi þó það sé meira en sameignlegt fylgi ríkisstjórnarflokkana þá á flokkurinn að geta sótt mun meira fylgi.

    Það verður kosið um það í prófkjörum SF hvort flokkurinn muni halda áfram að vera í samkeppni við vg um kjósendur eða hvort nýr formaður leiðir flokkinn aftur til jafnaðarstefnunnar.

  • Þið eruð ekki í mjög góðu skapi, kæru netfélagar, og kannski ekki von miðað við veðrið.

    Ég tek undir það með Jóhönnu að Sjálfstæðisflokkurinn sé eitt helsta vandamál Íslands — þar ætlar enginn að læra af ósköpunum sem flokkurinn olli eftir 18 ára græðgisfyllirí, og menn leita í staðinn í hugmyndasmiðju repúblikana í Bandaríkjunum. Einsog segir í pistlinum: Öðruvísi yrði viðhorfið til hægriflokksins ef hægt væri að ræða við hann um ESB-aðild, umbætur i sjávarútvegsmálum eða hina nýju umhverfisöld sem gæti leyst af hólmi sovésku stóriðjustefnuna.

    Jafnaðarmenn eiga bara að halda sínum miðvinstrikúrsi — og þeir sem vilja starfa með okkur eru velkomnir.

  • Mörður Árnason er ágætis eintak af hinum dæmigerða íslenska atvinnustjórnmálamanni, sem lítur á flokksforystuna sem vinnuveitanda sinn en ekki kjósendur. Orð og æði slíkra stjórnmálamanna snúast nær einvörðungu um að: (a) halda vinnunni og (b) halda völdum. Það leynir sér t.d. ekki af skrifum Marðar hér að undanförnu að hann er í litlum sem engum tengslum við raunveruleika íslenskrar alþýðu heldur lætur alfarið stjórnast af flokkspólitískum þörfum – hann telur hlutverk sitt ekki að vinna að umbótamálum sem raunverulega skipta þjóðina máli heldur er hann eins og vélmenni á sjálfstýringu sem viðstöðulaust tönglast endalaust á sömu gömlu þreyttu og útjöskuðu frösunum. Það leynir sér heldur ekki af svörum hans við athugasemdum að hann gefur lítið út á skoðanir annarra; talar til þeirra í niðrandi tón og heldur áfram sínu striki, enda flokkshollur maður og trúr sínum yfirmönnum,

    Það er auðvitað algerlega tilgangslaust að reyna að skiptast á skoðunum við svona menn, því þeir eru löngu búnir að loka og læsa á allt sem samræmist ekki blindri flokks- og foringjahollustu. ísland á hinsvegar ALLT undir að losna nú við þessa atvinnustjórnmálamenn og fá til verka betri starfskrafta en nú sitja niðri í Alþingi og reyna að blöffa sig inn í eitt kjörtímabilið enn.

    Það vekur örugglega athygli fleiri en mín að endurnýjun í þingflokki Samfylkingarinnar virðist ætla að vera svo gott sem engin – þjóðinni er boðið upp á sömu áhöfnina enn eitt skiptið. Lítum nú yfir afrekaferil síðustu 6-8 ára og veltum fyrir okkur hvort afköstin og afrekin verði eitthvað betri á næsta kjörtímabili. Eru einhverjar líkur á því?

    Nei, auðvitað ekki. Því eigum við auðvitað að senda Merði – og öðrum stjórnmálamönnum af hans sauðarhúsi sem eru nú af örvæntingu að reyna að halda vinnu og völdum fjögur ár í viðbót – skýr skilaboð með atkvæðaseðlunum okkar. Kanski þeir átti sig loks þegar þeir standa uppi utan stjórnar og utan þings; umkomulausir á víðavangi; öll þeirra óhæfuverk afhjúpuð og öðrum mönnum aðhlátursefni.

  • Leitar Sjálfstæðisflokkurinn í smiðju til repúblíkana í Bandaríkjunum?

    Þvílík endemis vitleysa!

    Íslenskir stjórnmálamenn hafa reyndar löngum verið illa að sér um umheiminn.

    En þessi fullyrðing er alveg út í bláinn.

  • Samfylkingin ætti að vera stærri flokkur en raun ber vitni miðað við sjálfsmorðsleiðangurinn sem flokkseigandafélags Sjálfstæðisflokksins er í, en hún er það ekki einfaldlega vegna þess að fylkingin er í sínum eigin sjálfsmorðsleiðangri sem heitir ESB.

    Ætlast til þess að vera forystuafl í Íslenskum stjórnmálum með helsta stefnumál sit í andstöðu við 2/3 þjóðarinnar er álíka gáfulegt og að ætla að hafa opin bar á AA fundi.

  • Sigurður #1

    Það er ekki laust við að það sé smá fyndið að sjá ykkur fara at stað með öll sömu loforðin aftur núna, og fyrir síðustu kosningar.

    Þetta væri náttúrlega fyndið, ef þetta væri ekki svona óendanlega sorglegt.

    4 flokkurinn allur er eins og krabbamein í landinu, er allt lifandi að drepa.

  • Garðar Garðarsson

    Sammála Merði.
    Við eigum að sækja upp vinstri kantinn og upp miðjuna. Skoðanakönnun Gallups sýnir að það eru möguleikar á myndun ríkisstjórnar Samfylkingar með VG og Bjartri framtíð.

    Það er stór munur á stefnumálum og árangri núverandi ríkisstjórnar og þeirri sem Samfylking villtist í með Sjöllum fyrir hrun.

  • Mörður talar eins og frelsarinn, „leyfið börnunum að koma til mín, bannið þeim það ekki“. Þetta hljómar einhvern veginn eins og Samfylkingarfólk telji sig vera í lykilstöðu að loknum næstu kosningum. Geti pikkað út samstarfsaðila fyrir næsta kjörtímabil. Flokkur sem hefur hrapað í fylgi, svo þess eru fá eða nokkur dæmi. Ríkisstjórnin nýtur minna fylgis en fylgi Sjálfstæðisflokksins er líklega ekki í neinni stöðu fyrir slíkt.

    Auðvitað gæti komið upp sú staða að „úthýst“ fylgi Samfylkingarinnar s.s. gegnum aðra flokka s.s. Besta flokkinn, Nýja Dögun eða hvað þessir gervi-krataflokkar heita í dag, geti hjálpað Samfylkingu við að halda völdum og sitja við völd enn eitt kjörtímabilið. Það verður þó að telja harla ólíklegt.

    Mörður talar um að Sjálfstæðismenn læri ekkert af hruninu. Var sá flokkur ekki dæmdur til stjórnarandstöðu, ólíkt Samfylkingunni, sem hélt áfram að spinna sinn vef í ríkisstjórn eftir að hafa setið í hrunstjórninni. Annar í hruni stjórn Samfylkingar var að auki mönnuð fólki sem sat í hrunstjórninni að mestu leyti. Jafnaðarmannaskútan var ekki munstruð upp á nýtt. Ekki var kúrsinum breytt svo neinu næmi hvað varðar stefnuna, allt við það sama.

  • Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er Samfylking með sama fylgi og í síðustu kosningum þ.e. í kringum 30%.

    Munurinn er sá að nú dreifist fylgið á tvo flokka þ.e. móðurflokkinn og Bjarta framtíð.

    Plottið er að ganga upp!

    Alveg magnað!

  • Mikið finnst mér „bjórunglingar“ fallegt orðaval til að lýsa ungu fólki. Greinilegt að barátta Uj fyrir því að fá meiri virðingu hefur ekki virkað á þig ef þetta er orðin sem þú velur að nota.

  • Mörður Árnason

    Kæri Natan — þetta er stílbragð einsog sjá má af öðrum heitum á hinum meintu hópum innan flokksins, og lýsir ekki afstöðu höfundar — nema hann bregður á leik um alvarleg efni. Það er auðvitað varasamt, en kannski þarf ekki alltaf allt að vera leiðinlegt? Hvernig gengur annars í Svíþjóð?

  • Það hlýtur að vera erfitt að útiloka sig frá samstarfi við aðra fyrir kosningar, sérstaklega þegar það liggur fyrir að líklegast munu Sjálfstæðismenn fá mikið fylgi í næstu kosningum…það er tvennt sem mun henda þann flokk, munu verða í lykilstöðu eða þeim verður hafnað , sem er ólíklegra núna…..
    Samfylkingin er í dauðafæri og á síðasta sjens núna að koma í gegn stóru málunum, Stjórnarskráfrumvarpinu, og að gera eitthvað varðandi manndrápsverðtrygginguna. sem er að drepa stóran part þjóðarinar í boði Stjórnvalda ,fjármálaelítunar og hinna illa reknu Lífeyrissjóða.
    Takist það vel upp hjá Samfylkingu , þá verður sá flokkur í efsta sæti.

  • Þetta gengur bara allt svo ljómandi vel „innan flokksins“.

    Alveg botnlaust STUÐ!

    Það tíðkast meira að segja „stílbrögð INNAN FLOKKSINS“.

    Já, hvað haldið þið krakkar!

    „STÍLBRÖGГ, nema hvað?

    Já, FLOKKURINN klikkar aldrei!

    Á kona að hlæja, gráta eða bara gefa skít í þessa vitleysu?

  • Svíþjóð er góð og kennt mér margt. Vinn mikið með SSU og læri á þennan æðislega flokk jafnaðarmanna í heimalandi okkar jafnaðarmanna og mun koma fullur af fróðleik heim og sem sterkari jafnaðarmaður.
    Gangi þér allt í haginn í komandi prófkjöri og vonum að flokkurinn sem við báðir vinnum af öllu hjarta fyrir verði leiðandi stjórnarmálafl eftir næstu kosnignar 🙂

  • Takk Natan — málstaðurinn sameinar, þú kennir okkur svo allt um jafnaðarsvíana …

  • Eftir aðgerðaleysi þessarar óstjórnar vonar maður bara að landinn færi þeim 0 atkvæða.

    Því miður hef ég verið svo blind eða trúgjörn eins og fleiri að halda að ef Jóhanna Sigurðardóttir kæmist í valdastöðu, yrði hér allt betra. Það var þá raunin eða hitt þó heldur. Hún hlýtur að vera í uppáhaldi (fær kannski vel greitt?) fyrir alla þjónkunina við bankana og fjármálafyrirtækin í landinu. Spyr sá sem ekki veit en heldur.

    Fyrrum „gól“ hennar (eftir á sér maður að þetta var ekkert annað) úr ræðustól alþinngis um hversu óskaplega hún teldi að hjálpa ætti almenningi, öryrkjum, sjúkum í þjóðfélaginu, minna okkur bara enn og aftur á að Júdas er alls staðar. Um leið og seðlum og valdi er veifað framan í fólk er eins og hugsjónir og vilji, hverfi út í veður og vind.

    Að Jóhanna Sigurðardóttir yrði jafn snögglega afhuga fyrri husjónum kom hins vegar á óvart.

    Vona að almenningur hafi áttað sig á því að við þurfum að hreinsa þetta fólk ALLT saman út úr alþingi okkar. Þau hafa öll sannað í eitt skipti fyrir öll að það er ekki hagur þjóðar sem þau bera fyrir brjósti.

    Nema kannski svona korter í kosningar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur