Laugardagur 03.11.2012 - 08:52 - 4 ummæli

Almannavarnir – tíu ónotaðir milljarðar!

Ofsaveðrið hérlendis undanfarna daga rétt eftir New-York-fellibylinn – jarðskjálftarnir á Norðurlandi um daginn – eldgos tíðari en áður vegna þess að jöklar dvína – óleyst almannavarnamál á höfuðborgarsvæðinu – allt hefur þetta beint sjónum að þeirri gamalkunnu staðreynd að Íslendingar búa við óblíða náttúru og margir á hættuslóðum. Á okkar eftirhrunstímum hefur samfélagið sjaldan verið óburðugra að ráðast í miklar framkvæmdir eða stofna til fastakostnaðar við rekstur.

Tíu milljarða sjóður án verkefna

Eftir hörmungarnar í snjóflóðunum fyrir vestan á tíunda áratugnumvar settur mikill kraftur í varnir við ofanflóðum svokölluðum – snjóflóðum og skriðuföllum, samanber flóðgarða víða um land. Þessar framkvæmdir hafa fengið fé úr Ofanflóðasjóði en í hann rennur gjald af öllum húseignum á Íslandi. Það er ekki mikið fyrir hverja fasteign, 0,3 prómill árlega af vátryggingarverðmæti. en safnast þegar saman kemur. Í sjóðnum eru nú næstum 10 milljarðar, og mest af því fé geymt á reikningi í Seðlabankanum. Þetta eru rúmlega Vaðlaheiðargöng.

Verkefnum við flóðgarða er að verða lokið í þeim byggðum sem búa við marktæka snjóflóðahættu, og á síðasta þingi var samþykkt að veita fé úr sjóðnum til að kanna í þrjú ár vá af eldgosum – og var þá haft á orði að sjóðurinn væri ekki bara fyrir ofanflóð heldur líka neðanflóð! Reyndi þótti nokkrum þingformalistum fulllangt gengið.

Ofanflóð > almannavarnir?

Í framhaldinu vaknar auðvitað sú hugmynd að úr því ofanflóðavarnir eru langt komnar en sjóðurinn vel gildur væri ráðlegast að gera út honum hamfara- eða almannavarnasjóð – sem styrkti framkvæmdir í tengslum við náttúruvá og aðra svipaða ógn við almannaheill. Eldgosamatið gæti þá verið fyrsta skrefið í þessari þróun.

Framkvæmdir af ofanflóðasjóðsfé hafa samkvæmt eðli máls fyrst og fremst farið fram á svokallaðri landsbyggð, og voru sjálfsagðar þótt lengi megi deila um einstök atriði og útfærslur. Eðlilegt er að nýr Almannavarnasjóður beini sjónum sínum einnig að höfuðborgarsvæðinu, þar sem búa nærfellt tveir þriðju landsmanna, og gæti þá meðal annars tekið þátt í fjármögnun varnarviðbúnaðar, áætlanagerðar og samgöngumannvirkja af ýmsu tagi sem nú vantar til að öryggi sé tryggt suðvestanlands.

22 tegundir ógna

Í skýrslu frá í fyrra um áhættumat á höfuðborgarsvæðinu er rakinn viðbúnaður og viðbragðsáætlanir í 22 áhættutilvikum, allt frá eldgosi, flugslysi og hryðjuverkaárás til ofsaveðurs og mikilla sjávarflóða – sem nú verður hvorttveggja tíðara vegna loftslagsbreytinganna. Ofanflóð eru þarna talin líka, en af þeim er óvíða ógn á okkar svæði.

Almannavarnir byggjast sem betur fer á samhæfingu margra góðra stofnana, og við búum að vel þjálfuðu lögreglu- og slökkviliði, en viðbragðsáætlunum er áfátt og óljóst um flóttaleiðir. Almennar æfingar eru engar haldnar og vitund almennings hefur líklega slævst fyrir vánni, meðal annars eftir að hætt var mánaðarlega allsherjarflautinu (í tengslum við upplýsingar í símaskránni, muniði?) án þess neitt kæmi í staðinn.

Fyrirspurn til ráðherra

Það gengur auðvitað ekki að hafa í gangi sjóð sem rukkað er í gegnum skatt og safnar bara peningum á bankareikningi af því ætluðum verkefnum er lokið. Þá er annaðhvort að leggja sjóðinn niður, skila fólki peningunum og hætta skattheimtunni – eða þá ráðast í önnur brýn verkefni á svipuðu sviði. Ég hef nú lagt fram fyrirspurn á alþingi um seinni leiðina, nýjan Almannavarnasjóð, og hlakka til að heyra svör Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem er ábyrgðarmaður Ofanflóðasjóðs í stjórnsýslunni.

Birtist líka í Reykjavík — vikublaði 3. nóvember, hér örlítið uppfært

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Auðvitað á frekar að vera almannavarnasjóður en sértækur sjóður vegna einstka vár. (Þessi sjóður er vel að merkja til forvarna á meðan viðlagatryggingasjóður bætir tjón sem orðið hefur.)

    En, það var þetta með flauturnar sem dró mig að kommentakerfinu!

    Manstu hvað fékk stóra plássið þegar almannavarnasíðurnar í símaskránni byrjuðu og hin margvíslegu flaut sem þar voru útskýrð? Ég á því miður ekki símaskrá frá þessum tíma, svo minnið verður að duga.

    Þarna voru mismunandi flaut fyrir kjarnorkuvá, m.a. sérstakt flaut fyrir „geislavirkt ský nálgast“. Í símaskránni voru líka kennd viðbrögð við kjarnorkuvá. Hvernig fólk skyldi leita skjóls í kjöllurum og mismunandi varnargildi kjallara eftir byggingarefnum, ekki horfa á blossann frá sprengingunni, dusta geislavirkt ryk úr hárinu áður en farið væri inn …..

  • Þorkell Guðbrandsson

    Það er nú með Ofanflóðasjóðsgjald eins og svo margt annað, að því var ætlað að vera tímabundið og falla niður að X árum liðnum. Eitthvað var nú svipað með Viðlagasjóðsgjaldið, sem lagt var á eftir Vestmannaeyjagosið, sem hófst í janúar 1973. Nú ætla ég alls ekki að fara að draga úr því að farið verði að huga að því að skipuleggja hvernig eigi að bregðast við vá, sem steðjað getur að almenningi á höfuðborgarsvæðinu, enda á ég eins og fleiri of mikið í húfi þar sem öll börn okkar hjóna og barnabörn búa . Mér finnst þessi hugmynd því út af fyrir sig aldeilis ágæt og þörf áminning til þings og þjóðar. En manni verður hinsvegar hugsað til þess að skattar, sem eiga að vera tímabundnir, hafa haft í gegn um tíðina haft ansi mikla tilhneigingu til að verða til allrar framtíðar.

  • Mörður Árnason

    Rétt Þorkell — ef hlutverki sjóðsins verður ekki breytt til að sinna brýnum verkefnum á að leggja hann niður og hætta skattheimtunni.

  • Örn Úlfar

    Sammála Þorkatli. Hér er gullið tækifæri til að einfalda skattkerfið og skila peningunum til eigenda sinna með því að lækka skatta, ef verkefnum sem féð var ætlað í er lokið. Mér finnst ekki boðlegt að verja þessum fjármunum í annað, þótt það séu eflaust góð og gild málefni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur