Mánudagur 05.11.2012 - 10:25 - 5 ummæli

Ég hef …

Í prófkjörsbaráttu verða til ýmsir textar og eiga sumir meira en innanflokkserindi. Hér eru nokkrar grundvallarstaðreyndir um frambjóðandann – á morgun eða hinn koma hér stefnupunktar með sama hætti. Vona menn hafi af gagn og gaman.

Ég hef 

• lagt áherslu á jöfnuð, umhverfismál og náttúruvernd, verið jafnréttissinni og íslenskumaður

Jafnaðarstefnan er grunnurinn. Jöfnuður í lífskjörum og jöfn tækifæri eru heilladrýgst fyrir einstaklinga og samfélag. Hver maður frjáls gerða sinna og hugsana svo fremi hann skerðir ekki frelsi annarra og kemur fram af heilindum. Mennirnir bera ábyrgð hver á öðrum – „bræðralagið“ úr frönsku byltingunni – en hver og einn á að taka ábyrgð á sjálfum sér sé hann þess megnugur. Jafnaðarstefna í nútímanum er ekki hugsanleg án þess að hún inniberi fyrirheit um kvenfrelsi – jafnrétti kynjanna – og umhverfisvitund – jafnrétti kynslóðanna. Íslenskir jafnaðarmenn á okkar tímum hljóta líka að vera þjóðlegir, leggja áherslu á það jákvæða í íslenskri sögu og menningararfi um leið og við tökum fordómalaust á móti alþjóðastraumum samtímans.

• verið þingmaður jafnaðarmanna í stjórnarandstöðu og frá 2010 í stjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur

Tíminn er fugl sem flýgur hratt, sagði Ómar Kajam. Samfylkingin hefur bráðum verið í stjórn í sex ár, tvö heldur vond ár og fjögur erfið en góð. Við höfum lært mikið á þessum tíma en eigum líka að minnast áranna þar áður, í stjórnarandstöðu. Við megum ekki gleyma þaðan hæfileikanum til að móta eigin stefnu og beita okkur til að ná henni fram. Í öllu málamiðlunarsátta-, nefndaskoðunar- og samráðsumþóftunartalinu Mér finnst reyndar stundum að oftar megi hljóma aprílvísur Björnstjerne Björnssons: Dog fred er ei det beste / men at man noget vil!

• síðustu misseri verið upptekinn við rammaáætlunina um verndar- og orkunýtingu

Rammaáætlunin um nýtingu náttúrusvæða er alveg hiklaust eitthvert allra merkilegasta mál síðustu ára. Með henni kann að nást samstaða um leikreglur í átökum sem nú hafa staðið í rúma fjóra áratugi um virkjanir og náttúruvernd, um nýtingu landsins okkar og um framtíðarsýn í atvinnumálum. Munum að þetta er „okkar mál“: Nýja rammaáætlunin og lögformleg staða hennar er skilgetið afkvæmi umhverfisstefnu Samfylkingarinnar frá 2006–2007, Fagra Íslands.

• unnið í umhverfismálum, menningarmálum, atvinnumálum, Evrópumálum

Starf manns í stjórnmálum ræðst annarsvegar af áhugasviði og sérþekkingu, hinsvegar af því hvernig skipað er til verka. Ég hef til dæmis ekki verið hafður mikið í velferðarmálunum vegna þess að þar er mikið úrval af hæfu fólki. En þau tengjast allri annarri pólitík – og það gera líka atvinnumálin sem meðal annars byggjast á auðlindum, menntun, skipulagi, skattastefnu, umhverfisviðhorfum, náttúruvernd.

• litið svo á að greining og gagnrýni sé nauðsynlegur hluti af hollustu við málstaðinn og flokkinn

Pólitík á stundum að vera einsog skrúðganga á 17. júní – þegar vindurinn er í bakið og allir eru sammála. Öðrum stundum skiptir máli að menn geti horfst í augu hver við annan og hafi þrek til samræðu sem byggist á vandlegri greiningu stefnumála og aðstæðna. Gagnrýni er ekki hættuleg ef menn líta á hana sem eðlilegan part af leiknum – og fara í boltann, ekki manninn.

 

Á morgun: Ég vil …

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Mörður að gleyma 🙂

    Á morgun: Ég vil … Skjaldborg heimilanna !!!!

  • Sæll Mörður; og aðrir gestir, þínir !

    Mörður !

    Þú; sem hin 62 félaga þinna, í þinghúss kumbaldanum, niður við
    Austurvöll í Reykjavík, ættuð að SKAMMAZT ykkar – öll sem eitt,
    fyrir sviksemi ykkar og lygar, gagnvart landi og miðum og fólki
    og fénaði, undanfarin ár – sem áratugi.

    Vonandi; muna einhverjir, eftir fylgispekt þinni, gagnvart Banka- og
    Lífeyrissjóða Mafíunni, varðandi verðtryggingu þá – sem öllu er að
    koma hérlendis, til verstu vegu, til dæmis að taka.

    Með; fremur kaldaranlegum kveðjum, úr Árnesþingi /

    Óskar Helgi Helgason

  • Mörður Árnason

    Takk Óskar Helgi. Góður vinur minn segir: Verðtryggingin er hækja. Læknum hinn sjúka, þá getur hann fleygt hækjunni.

  • Sælir; á ný !

    Mörður !

    Innantómt stagl; ykkar 63ja, er einskis virði.

    Hygg; að þið ættuð að manna ykkur upp í,
    að afsegja Banka- og Lífeyrissjóða Mafíuna –
    og við fengjum LEIÐRÉTTAR allar þær ákomur
    sem við höfum orðið fyrir, af hálfu þessa glæpalýðs,
    sem trónir í Bönkum og Lífeyrissjóðum.

    Það er víðar; hægt að brenna Banka, en í
    Thailandi og Grikklandi Mörður, þó úrkynjun
    íslenzka þjóðarbrotsins sé slík orðin, að vart sé
    að vænta frumkvæðis landsmanna í þeim efnum,
    nema að mjög takmörkuðu leyti.

    Að óbreyttu; skuluð þið ÖLL 63,, Landeyður kallast,
    á meðan þið dinglið áfram, í vefjum fáránleika og
    blekkinga, Mörður Árnason.

    Sömu kveðjur; sem seinustu /

    Óskar Helgi Helgason

  • Óðinn Þórisson

    Rammaáætlun var breytt vegna þröngra pólitískra hugsjóna.

    Varðandi ESB – þá hefur Samfylkingin þvi miður 2 sinnum sagt NEI við því að málið fari til þjóðarinnar.

    Aðalverkefni næstu ríkisstjórnvar verður að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur