Mánudagur 07.01.2013 - 15:11 - 11 ummæli

Samorka breytist í stjórnmálaflokk

Samorka – samtök orkufyrirtækja – sendi rétt í þessu frá sér ályktun sem stjórnin samþykkti á fundi fimmtudaginn í síðustu viku um rammaáætlun. Í tæka tíð fyrir atkvæðagreiðsluna um hana á alþingi mánudaginn kemur. Rök og málatilbúnaður í ályktun forstjóranna virðist reistur á vanþekkingu um gang mála í rammaáætlun – og er reyndar á skjön við umsagnir sem veigamestu fyrirtækin sendu um málið til þingsins.

Í stuttu máli finnst forstjórunum í stjórninni að þingsályktunartillagan sé „óásættanleg“. Ljóst sé sumsé að um hana geti orðið „engin sátt“ – enda „eyði“ hún „á engan hátt óvissu“ nú „örfáum  mánuðum fyrir kosningar“.

„Fjöldi orkukosta sem verkefnisstjórnin raðaði ofarlega út frá sjónarhorni orkunýtingar eru í tillögunni ýmist settir í biðflokk eða verndarflokk,“ segja stjórnarmenn Samorku.

Í lokagerðinni sé varpað „fyrir róða áralangri faglegri vinnu verkefnisstjórnar,“ enda víki hún „í veigamiklum atriðum frá faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar“.

Hvaða niðurstaða?

Afsakið – en hver var sú faglega niðurstaða? Verkefnisstjórnin sendi ekki frá sér neina niðurstöðu um flokkun þessara kosta. Þaðan kom vönduð skýrsla þar sem sett var fram tvennskonar  röðun kostanna, út frá virkjunarvænleik og umhverfismikilvægi.

Þessi röðun er hin eiginlega niðurstaða verkefnisstjórnarinnar – en þar eru engar tillögur um flokkun. Þær tillögur koma frá sérstökum hópi sem í voru formenn faghópa ásamt formanni verkefnisstjórnar. Formannahópurinn skilaði af sér drögum að þingsályktunartillögu sem send var til umsagnar sumarið 2011. Á grunni þeirra umsagna smíðuðu ráðherrarnir Katrín Júlíusdóttir, Oddný Harðardóttir og Svandís Svavarsdóttir þá tillögu sem nú liggur fyrir.

Við hvað eiga forstjórarnir? Varla við tillögu formannahópsins – eða getur verið að þar hafi verið varpað fyrir róða áralangri vinnu einmitt þeirra sem í honum störfuðu? Og ummælin um „fjölda orkukosta“ sem hafi orðið úti geta varla átt við endanlegu tillöguna – því á henni og formannatillögunni munar aðeins 6 af 67 orkukostum, 6 virkjanir á tveimur svæðum.

Borgaraleg óhlýðni?

Ályktun Samorku er að þessu leyti óskiljanleg – en þó í dásamlegu samræmi við lélegustu ræðurnar í málþófinu um rammann nú fyrir jólin, þegar röðin var komin að þeim þingmönnum sem allra minnst þekktu til málsins sem til umræðu var og til starfsins kringum rammaáætlun.

Það er reyndar engu líkara en að forstjórarnir séu að breyta Samorku í stjórnmálaflokk – sem kannski ætlar sér sæti í næstu ríkisstjórn?

Eða hvað merkir það að komandi þingsályktun sé „óásættanleg“? Merkir hótanatónninn í lok ályktunar Samorku til dæmis að orkufyrirtækin á Íslandi ætli sér í aðgerðir?  Kannski undir merkjum borgaralegrar óhlýðni?

Enn furðulegri verður þessi ályktun þegar það rifjast upp að Samorka samanstendur að sirka 95% af fyrirtækjum í eigu almennings. Landsvirkjun, OR, Rarik og Norðurorka  eru hrein almannafyrirtæki, HS Orka að miklu leyti.

Þessvegna hlýtur að vakna spurning um afskipti stjórna þessara fyritækja af pólitík forstjóranna. Vissi Bryndís Hlöðversdóttir af þessu pólitíska frumkvæði Harðar Arnarsonar hjá Landsvirkjun?  Er Haraldur Flosason samþykkur Bjarna í OR um óásættanleik rammáætlunar – eða eru borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar kannski með í Samorkuflokknum?

Faglegur rekstur – pólitísk ábyrgð?

Útúr klíku- og sérhagsmunadellu síðustu áratuga kringum almannafyrirtæki hafa menn að undanförnu tekið það ráð að stjórnir þeirra eigi umfram allt að vera faglegar. Það þurfi meiri fjarlægð milli  pólitíkusanna – ráðherra eða sveitarstjórnarmanna – og fyrirtækjarekstrarins.

Forsendan fyrir því fyrirkomulagi er ekki síst sú að hinn faglegi fyritækjarekstur sé raunverulega faglegur – að fyrirtækin séu ekki í sérhagsmunapólitík, og forstjórarnir láti stjórnmálamenn, kjörna fulltrúa almennings, um að móta heildarstefnu. Á móti verður að vera ljóst hvar hin pólitíska ábyrgð liggur.

Ályktun stjórnar Samorku frá 3. janúar bendir til að þetta fyrirkomulag hafi misheppnast í mikilvægustu orkufyrirtækjum landsmanna, Landsvirkjun, OR og Rarik.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Gústaf Adolf Skúlason

    Mörður, tillagan færir eina átján orkukosti niður lista verkefnisstjórnar yfir það sem þú nefnir virkjanavæna kosti. Þingsályktunartillagan fyrri sem þú nefnir var unnin í lokuðu og algerlega ógagnsæu ferli innan tveggja ráðuneyta og þar færðust flestir þessara kosta niður, eins og þú auðvitað þekkir. Einhverra hluta vegna færðust engir kostir upp. Svo bættust þessir sex í hópinn í seinni breytingapakkanum, sem aftur var í öllum tilfellum í sömu átt. Þetta má t.d. sjá tekið stuttlega saman hér í grein undirritaðs sem birt var í Morgunblaðinu 16. nóvember sl.: http://www.samorka.is/id/2123&detail=13625.

  • Mörður Árnason

    Takk Gústaf Adolf.

    Gott að vita að í ályktuninni eru Landsvirkjun OR, HS-orka, Rarik og önnur orkufyrirtæki að gagnrýna verk formannahópsins. Í honum störfuðu Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar, og svo fjórir formenn faghópanna, en þrír þeirra sátu einnig í verkefnisstjórninni, þau Anna G. Sverrisdóttir, Guðni Jóhannesson, Kjartan Ólafsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir. Til aðstoðar voru lögfræðingar úr iðnaðar- og umhverfisráðuneytum.

    Það er hinsvegar alrangt hjá þér að drögin hafi verið unnin ógagnsætt. Forsendur flokkunarinnar eru allar raktar rækilega í niðurstöðum hóspins (sjá m.a. greinargerð með þáltill.), og flokkun einstakra virkjunarkosta rökstudd.

    Rétt hjá þér að ráðherrarnir breyttu svo 2×3 kostum eftir umsagnarferli — og öllum í eina átt, nefnilega úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Þar eiga einmitt heima virkjunarkostir sem vafi leikur á um og þarf að kanna betur.

    Þið eruð bara úti að aka í þessu, ágæti Gústav Adolf, og það er verulega óheppilegt þegar samtök orkufyrirtækja á Íslandi eru farin að reka pólitík í hótanastíl.

  • Gústaf Adolf Skúlason

    „…voru teknar saman greinargerðir um umsagnir sem bárust og afstaða tekin til þeirra.“ Þetta er dæmi um meintan rökstuðning í þingskjalinu. Samorka hefur ávallt lagt áherslu á að styðjast ætti við niðurstöður verkefnisstjórnar (þótt ýmsir innan Samorku hefðu vissulega viljað sjá aðrar niðurstöður um einstaka orkukosti, þarna er hins vegar fagleg niðurstaða, grundvöllur að sátt). Frá þeim er vikið að mjög verulegu leyti, 18 kostir færast niður, og í báðum tilvikum gerðist það í ógegnsæu ferli sem við vitum ekkert um hvernig vannst, innan ráðuneytanna. Á vegum verkefnisstjórnar fóru hins vegar fram ítrekuð umsagnarferli og úr þeim var unnið með faglegum hætti á vettvangi verkefnisstjórnar.

    Annars er ekki ástæða til að þrasa meira hér um þetta, kemur allt fram í umsögn Samorku sem má nálgast hér: http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=140&mnr=727

  • Mörður Árnason

    Niðurstöður formannahópsins eru allar rökstuddar — og kostirnir 2×3 sem ráðherranir lögðu til að yrðu settir í biðflokk eru líka rökstuddir. Menn geta fallist á þennan rökstuðning eða verið ósammála honum — en ekki látið einsog hann sé ekki til.

    Aftur og nýbúinn: Engar ,.niðurstöður“ komu frá verkefnisstjórn. Þaðan kom röðun kosta miðað við könnun faghópanna. Líka er til skoðanakönnun í hópnum, þar sem hver og einn svaraði á blaði hvað honum fyndist um flokkun, án umræðu eða sameiginlegs mats. — Verkefnisstjórnin sjálf var reyndar þannig samsett að flokkun var varla á hennar færi — fulltrúar frá einstökum ráðherrum og ríkisstofnunum plús maður frá Samorku og annar frá náttúruverndarsamtökum. Einn af þessum var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem skipaður var í tíð fyrri stjórnar. Hópur sem hefði átt að setja fram tillögu um flokkun hefði verið öðruvísi.

    En vissulega grundvallaðist allt starf formannahóspins og ráðherranna á vinnu faghópanna og síðan verkefnisstjórinnar. Sjá t.d. kafla 5 í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar, hér: http://www.althingi.is/altext/141/s/0526.html

    Segðu mér svo Gústav: 1. Hvað merkir það að væntanleg þingsályktun sé ,,óásættanleg“? 2. Voru allir stjórnarmenn mættir á fundinn, og studdu ályktunina?

  • Kristinn Petursson

    Mörður.
    Í gildi er – lagalega – allt kjörtímabilið – gamla rammaáætlunin. Hún er enn í gildi. Samt eruð þð að stjórna orkumálum – eins og sú rammaáætlun – sem þið ætlið að samþykkja – sé í gildi. Svona gengur ekki. Nú er nánast komið að kosningum – og þá er tæplega við hæfi að fara að hrossakaupa í gegn rammaátælun sem endist þá ekki nema nokkra mánuði. Það er tæplega boðlegt. Þú ert í pólitík Mörður. ekki Samorka. Ekki reyna að troða fram svona óþinglegri aðgerð eins og pólitískri rammaáætlun. Rammaátælun á að vera þverfagleg – eins og lengi hefur verið stefnt að. Vinsamlega sofa á þessu og hugleiða það vel. Bestu kveðjur. Kristinn Pétursson

  • Þrándur

    Samorka var í upphafi hugsuð sem fagleg samtök veitnanna í landinu og þannig hefði hún getað gert gagn. Þegar Friðrik Sófusson varð forstjóri Landsvirkjunar og í framhaldi af því formaður stjórnar Samorku þá var samtökunum breytt í útbú Sjálfstæðisflokksins. Það kaldhæðnislega var að samtökin voru látin ganga í önnur samtök, samtök atvinnurekenda og eru nú málpípa þeirra. Til samtakanna var ráðinn pólitískur fúnksjónalisti á kostnað fagmanns. Nánast allar tekjur Samorku sem ekki fara í laun starfsmanna renna til SA. Eins og þú nefnir þá eru það opinberir aðilar sem eiga meðlimi Samorku 95% og ótrúlegt að þetta skuli látið viðgangast.

  • kristinn geir st. briem

    eitvað búin jafna þig eftir jólin sé ég ættir að koma endurnærður þegar þýngið birjar. finst þetað eðligar atugasemdir hjá þér. En var að velta þú talar um að katrín oddný og svandýs. Hafi klárað þetað ekki setust þær bara niður með kaffibollan og röðuðu þessu niður hlítur að hafa farið í gegnum ferli í ráðuneitunum hvar gét eg fundið það eru þettað nokkuð sem ráðuneitin þurfa að skammast sín yfir

  • Mörður

    Kristinn Pétursson — Engin rammaáætlun í gildi núna. Svokallaður 1. áfangi fólst í ágætri vinnu og svo góðri skýrslu sem kom út 2003, en svo gerðist ekkert meira, og niðurstöðurnar fengu ekkert lagagildi. Nú erum við hinsvegar að samþykkja þessa ályktun í samræmi við sérstök lög, að norskri fyrimynd. Þar hafði mikið gengið á en þótt enn sé deilt um einstakar virkjanir/landsvæði í Noregi eru menn sammála um leikreglurnar. Verður vonandi hér líka.

    Kristinn Briem — Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra lögðu fram sína tillögu eftir að hafa farið yfir umsagnir um tillögudrögin frá formannahópnum, og lögðu til breytingar um þrjá kosti á tveimur svæðum, samtals 6 (reyndar 5, af því Hágöngur eru í tveimur áföngum). Þessar breytingar eru skýrðar í greinargerð með þingsályktunartillögunni — í stuttu máli einkum laxamál í Þjórsá og nálægð við Vatnajökulsþjóðgarð í tilviki Hágangna/Skrokköldu. Hvort þær drukku kaffi yfir þessu veit ég ekki, en tillagan var unnin á venjulegan hátt í ráðuneytunum einsog önnur mál sem ráðherrarnir leggja fram á þinginu.

  • kristinn geir st. briem

    það var leit að þú vitir ekki drukku kaffi það skiptir öllu máli kaffið hlítur að hafa verið þunt hef svolitla insín í hvernig ráðuneitinn störvuðu í gamla daga ef þar getur ekki rökstutt þettað betur en í greinargerðini þá eru menn altof fámenir í ráðuneitunum vil bara ekki trúa því menn hafa auðvitað ekkert að fela eða er þetað ens og stundum áður ég vil ég gét og tala við sem fæsta en auðvitað er þeta alt davíð að kenna hann birjaði á þessu en þið eruð ekki föðurbetrúngur. hef meiri trú á ráðuneitunum en þetað. að ransaka alt undir drep. jafnvel ég heði getað rökstutt þetað betur en fyrst ráðuneitin eru ekki betur mönuð ælla ég ekki gera það gétur riðið þeim að fullu
    með kveðju.
    k.g.b.

  • kristinn geir st. briem

    ég gleimdi
    að þakka þér fyrir fyrir svarið það er gott svo langt sem það nær. bjóst ekki við meiru. þú afsakar kaldhæðnina.

  • kristinn geir st. briem

    nú bíst ég við að þú munir gorta um rammaáælun sé því miður lítið gott við hana að menn séu bar ósátir með örfá atriði í henni þú ert að grínast.gott og vel nú hef ég verkefni fyrir þig um hagavatn að leggja raflínur í jörðu að rjúfa stiflur við sandvatn við verðum að auka en meira á sandfokið á svæðinu svo að ólafur örn verði ánægður alt fyrir óspilta nátúru þó vill þeta fólk leggja betri veigi á svæðið til að ferðamaðurinn geti sparkað það meira út heldur enn í dag. svo kalla menn þettað óspilta nátúru

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur