Mánudagur 14.01.2013 - 12:55 - 4 ummæli

Ramminn 14.1.’13 — tímamót

Tillagan um rammaáætlun var samþykkt á alþingi í hádeginu með 36 atkvæðum gegn 21 – með verulegum atkvæðamun. Framsókn og Sjallar spiluðu sig upp í að vera á móti tillögunni en auk stjórnarflokkanna greiddu þingmenn Hreyfingarinnar og BF atkvæði með tillögunni, og ennfremur bæði Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir.

Þetta eru tímamót. Í náttúruverndarmálum í fyrsta lagi – við vorum að samþykkja mestu verndaraðgerðir nokkru sinni um íslenska náttúru. Samtals 20 landsvæðum er rástafað til verndarnýtingar – þar á meðal umdeildum hluta Þjórsárvera, Torfajökulssvæðinu, Kerlingarfjöllum, Gjástykki, Ölkelduhálsi …

Í örðu lagi tímamót að því leyti að loksins hafa menn orðið ásáttur um leikreglur í deilum sem hafa staðið hér rúma fjóra áratugi um náttúruvernd og virkjanir, allt frá sjöunda áratugnum. Þessi átök hafa verið hatrömm og tilfinningaleg, og oft hafa fylkingarnar ekki skilið grundvallarsjónarmið hvor annarrar. Vígstaðan hefur líka verið ójöfn þar sem annarsvegar hafa farið voldug orkufyrirtæki, ráðandi stjórnmálaflokkar og ómælt fjármagn, sumt frá erlendum stórfyrirtækjum, en hinsvegar fjárlítil samtök áhugafólks.

Þetta samkomulag verður vonandi til þess að skapa andrúmsloft sáttar og samvinnu  – einsog hefur orðið reyndin í Noregi. Þaðan er fyrirmyndin. Átökum og deilum um ráðstöfun ákveðinna landsvæða, um einstaka virkjunarkosti, er hinsvegar ekki lokið Og stóð aldrei til.

Mikið hefur verið hrópað um pólitík – hinar skítugu pólitísku krumlur sem hafi spillt vönduðu faglegu verki. Þetta er aðallega tilbúinn áróðurslína. Það sést ágætlega af því að í raun standa deilurnar á þingi ekki nema um eina sex kosti á tveimur svæðum – af alls 67 kostum. Frá því formannahópurinn, formenn faghópa og verkefnisstjórnar, skilaði af sér drögum að tillögunni eru einu breytingarnar þær að þessir sex kostir voru settir í bið – engar ákvarðanir teknar um orku- eða verndarnýtingu heldur beðið frekari rannsókna.

Merkilegur dagur í sögu þjóðar og þings. Auðvitað skyggði á að í orkunýtingarflokki eru fleiri kostir en mér hugnaðist – sérstaklega er manni sárt um svæðin á Reykjanesskaga. Sú barátta er framundan. Heildarárangurinn er hinsvegar alveg klár.

Yðar einlægur talaði undir lok atkvæðagreiðslunnar um þá breiðu samstöðu um alla nema fimm til sjö kosti af þessum 67, og sagðist bæði sem framsögumaður málsins í umhverfisnefndinni og sem náttúruverndarmaður fyrr og síðar biðja

… alþingismenn og landsmenn alla að athuga að hvernig sem atkvæðagreiðsla hefur gengið hér í dag hefur enginn tapað – nema hann endilega vilji hafa tapað. Og hér eru heldur engir sigurvegarar – nema Íslendingar og náttúra Íslands.

Ég segi já við þessari þingsályktunartillögu, og þakka um leið fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessum áfanga frá upphafi til endis, allt frá umhverfisstefnu okkar í Samfylkingunni um Fagra Ísland fyrir fimm til sex árum – til tímamótanna hér í dag fyrir land, þjóð og náttúru, 14. janúar 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • kristinn geir st. briem

    það verður eingin sátt um þenan salernispappír bera sama noreg og þettað
    þar voru ekki ráðherrar að hríngla með tilögurnar hefur nátúran ekki tapað alt reykjanesið hefur tapað. Fyrst þú ert byrjaður má ég þá búast við að þú leggji fram tilæögu um að stiflan við sandvatn verði rifinn svo að hagavatn verði að ósnortini nátúru hvert heldurðu að sandurin fari úr hagavatni fyrst þú vllt alt þetað sandfok má þá ekki bæta við ARNALDS efur eflaus sagt þér hvert aurin fer úr hagavatni nú í dag. Á greiníngur ekki nema um sex virkjunarkosti horfði á úmræðuna það voru nouð fleiri enn sex. árnar í skagafirði. þjórsjá,reykanesi jarðvarmavirkjanir á hellisheiði þettað er nokkru meiri en sex virkjanir. einhver meiri ákreiníngur var . mikið af þessum virkjunum sem fara í verndarflokk eru ekki virkjunar hæfir það er því engin ágreinigur.ef ég hefði möppuna mína gæti ég nefnt dæmi. þettað eru einginn timmamót rifrildið heldur áfram til hvers.þið getið varla notað þettað í kosníngabarátuni ef eg skil þettað rétt með þennan verndarflokk á ekki eftir að fara fram anað ferlitil að friðlísa held það

  • Það er sorglegt hvernig nokkur komma kvikindi (þú ert þar með talinn Mörður) geta haldið atvinnuuppbyggingu á Islandi í gíslingu.

  • Garðar Garðarsson

    Til hamingju með rammaáætlun.

  • Kristbjörn Árnason

    Ég óska þér til hamingju með þennan áfanga. Vissulega er stór erfið barátta framundan sem er að vernda Reykjanesskagann og raunar einnig eitt og annað í Hellisheiði.

    Þessi áfangi réttlætir að verulegu leiti tilvist VG í þessari ríkisstjórn og ég hef áður sagt síðustu áratugi að sameina verður þessa vinstri flokka. Ég tel að það sé lag til þess næstu misseri ef flokkarnir vanda sig.

    Helstu andstæðingarnir eldast hægt og sígandi í VG og í Samfylkingunni.

    Það hlýtur að vera hægara og eðlilegra að komast að málamiðlunum innan stórs flokks heldur en milli flokka.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur