Mánudagur 14.01.2013 - 21:57 - 2 ummæli

Upp með fánann! (og góða skapið)

Hvað merkir Evrópuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar? Ósigur Evrópusinna? Uppgjöf Samfylkingarinnar? – einsog ýmsir einlægir Evrópumenn spyrja nú í bloggi og á Snjáldru — ??

Hvorugt. Í yfirlýsingunni felst það eitt að þeir kaflar sem enn á eftir að opna – fyrst og fremst um sjávarútveg og tengd efni – verða ekki opnaðir fyrir kosningar. VG þurfti að hafa þetta á hreinu — sjálfsagt af innanflokksástæðum öðrum þræði — og við í Samfylkingunni vorum tilbúin að lýsa því yfir.

Var líklegt að þessir kaflar yrðu opnaðir fyrir kosningar? Það var auðvitað ekki fræðilega útilokað en þó harla ólíklegt. Annarsvegar vegna þess að það er ekki þægilegt fyrir samningamenn – hvorugumegin við borðið – að vinna undir þeirri pressu sem kosningarnar valda. Hinsvegar vegna þess að í ýmsum ríkjum sambandins er veruleg fýla út í okkur vegna makrílmálsins og ekki skynsamlegt að standa í samningum í því andrúmslofti.

Er komið hlé á viðræðurnar? Hefur þeim kannski verið frestað? Nei, hvorugt. Fulltrúi Stefáns Fuhle stækkunarstjóra í Brussel lýsir því þannig að ekki verði afhent fleiri samningsafstöðuskjöl fyrir kosningar, það er að segja ekki hafnar viðræður um nýja kafla. Vinna í þegar höfnum köflum heldur áfram, en reyndar var ekki von á neinum dramatískum tíðindum af þeim á næstunni – eftir síðustu ráðstefnu þar sem einir sex kaflar voru undir.

Þarf næsta ríkisstjórn að taka sérstaka ákvörðun um að taka aftur til við viðræðurnar? Nei, nema hún kjósi að breyta þeim með einhverjum hætti. Ef hún tekur ekki ákvörðun um að hætta eða fresta, þá halda viðræðurnar áfram. Á því er hinsvegar engin launung að forustumenn Evrópusambandsins fylgjast með tíðindum úr íslenskri pólitík og vita að framhald málsins ræðst af þeirri ríkisstjórn og þeim stjórnarmeirihluta sem við tekur eftir kosningar. Það hefur yfirmaður málsins þeirra megin beinlínis sagt í minni áheyrn, og voru kannski ekki miklar fréttir.

Hver ákvað þetta í Samfylkingunni? er spurt – og um leið hver ánægja sé með þessa ákvörðun í þingsveitinni. Svarið er: Þeir sem eiga að taka ákvörðun af þessu tagi. Okkar góði og reyndi formaðurinn og hinn klóki gamli lappi í stól utanríkisráðherra, í samráði við þingflokkinn, þar sem forustumenn utanþings sitja fundi, og í sérstöku samráði við fulltrúa flokksins í utanríkismálanefnd þingsins (Árni Páll, Helgi, ég). Það stökk enginn í þingflokknum hæð sína í loft upp af fögnuði yfir þessu máli, sem stjórnarflokkarnir hafa rætt af mikilli alvöru undanfarna daga – en um niðurstöðuna er fullkomin samstaða í þingflokknum. Báðir formannskandidatarnir meðtaldir.

Er þá Evrópumálið búið? Sannarlega ekki. Aldrei verið brýnna – og nú þarf að slá í klárinn að gera kjósendum grein fyrir þeim kostum sem aðild getur haft, þegar við höfum náð góðum samningum.

Framhald samningaviðræðna verður eitt helsta fyrirheit Samfylkingarinnar í kosningunum í vor — og það á að vera skilyrði fyrir stjórnarþátttöku af okkar hálfu að viðræðurnar verði kláraðar og samningur borinn undir þjóðina.

Upp með fánann – og góða skapið!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Magnús Björgvinsson

    Það má einver leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál. En skv. þeim fréttum sem komu í dag þá verða engir kaflar kláraðir, engar ákvarðanir teknar varðandi neinn af þeim köflum sem eru opnir í dag. Hvað þá að hreift verið við þeim köflum sem enn eru lokaðir. Og sorry Mörður en ég held að þið þurfið nú heldur betur að bretta upp ermar ef þið ætlið að koma Samfylkingu í þá stöðu að koma í veg fyrir að þessum aðildarviðræðum verði hætt í maí á þessu ári. Sé ekki betur en að Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Vg eftir næsta Landsfund komi allir til með að vera með slit á aðildarviðræðum á stefnuskrá sinni.
    Sem og að það verður notað gegn flokknum að hann sé tilbúin að fórna öllum stefnumálum sínum fyrir að komast í stjórn og halda sér þar.
    Svona kannski fyrir utan Mörð og nokkra aðra hafa þingmenn, fylgismenn og aðrir flokksfélagar verið aumir í að kynna kosti ESB og látið fyrrverandi ritstjóra, þingmenn á eftirlaunum og sérvitringa í Heimssýn ráða hér umræðunni og halda að fólki svoleiðis bulli um ESB að manni svíður í augun að lesa þetta og undrast að svo stór flokkur sem Samfylking geti ekki haldið úti almennilegum hóp til að leiðrétta umræðunna. Eins og menn átti sig ekki á því að skoðanamyndun fer fram á netinu og í athugasemdum þar. Ekki á lokuðum flokksfundum þar sem allir eru sammála. Svo eitt enn það er alveg út í hött að svona stórar ákvarðanir eins og að hætta viðræðum að mestu séu teknar í lokuðum hóp þingmanna og ráðherra. Því þingmenn og ráðherra eru þar til að framkvæma vilja flokksmanna og þeir eiga ekki bara að vera til að vinna að framboðsmálum 4 hvert ár og svo bara skipta þeir ekki máli.

  • kristinn geir st. briem

    fyrs að össur er búin að opna sig með að það afi komið sér ímislegt á óvart
    vill hann ekki seigja um hvað fleira kom honum á óvart hvað er samfylkínginn búin að bretika leingi um E.B. svo virðist hún vita lítið um E.B. einsog eitn maður úr evrópustofu sagði við mig samfylkínginn getur bullað eins og enni sínist um evrópubandalagið

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur