Föstudagur 01.02.2013 - 15:14 - 12 ummæli

Mikilvægt skref í fiskinum

Kostirnir við nýja kvótafrumvarpið eru þessir:

* Með nýju nýtingarleyfunum væri kominn annar lagarammi um fiskveiðar á Íslandsmiðum en áður. Sömu menn/fyritæki að stórum hluta, já, en minni hætta en áður á að „réttindi“ þeirra verði að „eign“ einsog þeir ríkustu hafa stefnt að, dyggilega studdir Hannesi Hólmsteini („landnám hafsins“) og öðrum snillingum.

* Tuttugu ár eru langur tími – en í frumvarpinu er engin sjálfkrafa framlenging einsog í síðustu tilraun Steingríms Jóhanns. Þetta er skref, ekki endanleg skipan. Strax er settur niður hópur til að endurskoða kerfið, í ljósi reynslunnar og sjónarmiða í samfélaginu —  þar á meðal er auðlindaákvæðið í nýju stjórnarskránni, þar sem sett eru skilyrði um jafnræði og fullt verð.

* Kvótaleiga – útboð á markaði – er fastur þáttur í kerfinu, og byrjar með þokkalegum tonnafjölda. Ekki nema ár í senn að vísu. Mikilvægt: Hlutfall leiguheimilda af heildarheimildum getur hækkað (hægt að „kaupa“ kvóta inn í leigupottinn).

* Opnað á frjálsan kvótaleiguaðgang að nýjum tegundum, í staðinn fyrir að nú renna nýjar tegundir inn í forréttindakerfið.

* Strandveiðar haldast inni sem fastur hluti. Þar þarf að athuga betri reglur í strandveiðifrumvarpi Ólínu, en þetta skiptir auðvitað miklu máli.

* Ráðherraræði minnkar frá fyrri frumvörpum, og frá núverandi ráðherraeinveldi. Allskyns byggðabix ennþá inni, en ég bjóst aldrei við að losna við þá sífelldu afturgöngu. Eðlileg skipan væri auðvitað að aðskilja byggðaaðstoð og sjávarútvegsstefnu (borga illa stöddum byggðum úr ríkissjóði til að kaupa sér kvóta á markaði), en taka fullt tillit til ólíkra skipagerða og veiðimáta í fiskveiðistjórnarlögum.

Aðalkosturinn: Nýtt kerfi, sem hægt er að þróa í rétta átt. Stenst stjórnarsáttmála, auðlindaákvæði stjórnarskrár (ætla ég að vona, enn óframlögð álitsgerð lögfræðinga um það mál), og samræmist stefnu Samfylkingarinnar um skynsemi og réttlæti í sjávarútvegi.

Gallarnir við nýja frumvarpið? Þeir eru legíó. Þetta er hinsvegar mikilvægt skref í áttina. Við höfum þegar náð þeim árangri að nýtendur hinnar sameiginlegu auðlindar borga fyrir afnot sín með veiðigjaldinu. Nú er hafin för í átt til jafnræðis og atvinnufrelsis í greininni.

Hér er nýja frumvarpið. Hér er spjall okkar Einars K. um þetta í útvarpinu í morgun.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Sverrir Bollason

    Takk fyrir þessa yfirferð. Hef tilhneigingu til að treysta þínum orðum um þetta. Prenta frumvarpið og hef með mér á Landsfund til að vera viðræðuhæfur.

  • Mörður þú getur ekki sett þetta svona fram. Aðalgallinn við alla umræðu hvort heldur í fjölmiðlum eða á Alþingi er sá að me3nn ganga útfrá að veiðiráðgjöf Hafró sé rétt! Ég og margir harðir andstæðingar kvótakerfisins og núverandi fiskveiðistjórnarlaga höfnum þeim gervivísindum og rannsóknaraðferðum sem Hafró notar í sínum spám. Allar þessar tilraunir sem þið hafið staðaið að á þessum fjórum árum hafa engu skilað nema að gera kerfið þyngra í vöfum og fært meira vald til ráðherra og sérfræðinga. Ef fiskiðnaðurinn byggðist eingöngu á fiskeldi þá gæti svona kvótakerfi átt rétt á sér. En við erum að tala um óendanlega fjölbreytt lífkerfi sem er hafið og þar eru veiðar bara einn af þáttunum sem ráða viðkomu fiskstofna. Aðrir þættir skipta miklu meira máli eins og hitastig, æti og afrán annarra sjávarrándýra eins og sela og hvala. Þetta er nú almennt viðurkennt og því ber að endurskoða „vísindakenningar“ Hafró. Og þeir sem lesa fyrstu grein frumvarpsins sjá strax að markmið frumvarpsins eru alger öfugmæli.
    1. þessi veiðistjórnun stuðlar að meira brottkasti og minni veiði til lengri tíma
    2. Þessi lög eiga eftir að gera endanlega útaf við byggðaþróun smærri staða sem nú þegar hafa þurft undan að láta (allir minni kaupstaðir á Vestfjörðum og Norðausturlandi og Suðurfirðirnir fyrir austan munu leggjast í eyði á næsta áratug.)
    3.Og allt þetta bull um auðlindarentu er byggt á bjánahagfræði , þeirri sömu og falsaði „eigið fé“ útrásarfyrirtækjanna

    Því sjávarútvegurinn er bara atvinnugrein. Ekki olíuvinnsla eða gullgröftur. Og arðsemin fyrir þjóðarbúið á að felast í atvinnusköpun, tækniþróun og raunverulegri byggðaþróun. Þar sem verður aftur eftirsóknarvert að búa og starfa á landsbyggðinni. Allt of fáir alþingismenn virðast skilja þessa vá. En sá tími mun koma að menn vakna upp við vondan draum. 60 þúsund opinberir embættismenn og 5 þúsund sjómenn er einfaldlega of mikil skekkja. Við þurfum að auka þjóðarframleiðslu með því að fjölga þeim sem starfa að undirstöðugreinum. Þannig getum við staðið undir auknum ferðamannaiðnaði. Ef ekki tekst að halda lífi í byggðunum þá fara fáir ferðamenn um landið.

  • Árni Gunnarsson

    Hverskonar verndar-og auðlindastefnu hefur verið fylgt hér frá því að við tókum upp kvótakerfið Mörður? Hefurðu einhverja hugmynd um hversu mikinn þorsk við veiddum ÁÐUR en við álpuðumst til að setja á þetta kerfi andskotans sem reyndar er nú ekki búið að tortíma fiskistofnum okkar alveg?
    Á meðan flestir fiskuðu á árabátum og síðan trillubátum og erlendir togarar voru að draga trollin utan um kálgarða og fjóshauga veiddum við til muna meira en eftir aldarfjórðungs FRIÐUNaraðgerðir.
    Gleymdu þau Geir og Ingibjörg ekki alveg að minnast á þetta besta fiskveiðkerfi heimsins þegar þau þeyttust um heiminn til að styrkja ímynd landsins og leiðrétta misskilning?
    Er það áreiðanlegt að brottkastið sem innbyggt er í aflamarkskerfið styrki fiskistofna en sóknarmarkið þar sem engum fiski er hent sé bara til vandræða?
    Hafið þið þarna í Samfylkingu einhverja hugmynd um að í Barentshafinu eru Rússar og Norðmenn að veiða milljón tonn af þorski á meðan okkur leyfist að veiða innan við 200 þús. tonn en árið 2000 fengum við sömu ráðgjöf og þeir, þ.e. 110 þús. tonn?
    Er áreiðanlegt að til áhrifa í Samfylkingunni séu valdar vitsmunaverur?

  • Árni Gunnarsson

    Og svo leyfir þú þér að koma með þennan óburð sem nýju tillögurnar fela í sér og bera það fyrir kjósendur eins og eitthvert undralyf til eflingar þessarar – okkar mikilvægustu auðlindar og jafnræðis við nýtingu!
    Hér átti skilyrðislaust að auka strandveiðarnar með handfæri og línu (handfæri frjáls um sumarmánuði) og halda afla togaranna óskertum í það minnsta.
    Fiskveiðlögsaga okkar er auðlind þjóðarinnar en ekki leifang Hafró, LÍÚ og dómgreindarlausra alþingismanna.

  • Einar Steingrimsson

    Hafi ég ekki misskilið er þetta frumvarp hrikalega miklu verra fyrir almenning en það sem ætla mátti að væri stefna bæði VG og Samfó fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar. Hvað veldur, Mörður?

  • Þórhildur lilja þorkelsdóttir

    Þetta nýja kvótafrumvarp SJS er alls ekki í samræmi við vilja þorra landsmanna. Því í fjáranum þarf alltaf, að taka tillit til auðlindaræningjana? Krafan var, ALLAN fisk á markað. Farið að sýna að þið séuð með (fisk) bein í nefunum. Fólk er búið að fá nóg af þessu dekri við sjálftekjufrekjurnar.

  • „Allskyns byggðabix ennþá inni, en ég bjóst aldrei við að losna við þá sífelldu afturgöngu. Eðlileg skipan væri auðvitað að aðskilja byggðaaðstoð og sjávarútvegsstefnu (borga illa stöddum byggðum úr ríkissjóði til að kaupa sér kvóta á markaði), en taka fullt tillit til ólíkra skipagerða og veiðimáta í fiskveiðistjórnarlögum“.

    Hvernig væri þá að frelsa sem allra fyrst Byggðastofnun úr áratuga herkví Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins en þar hefur aldrei neinn fengið fyrirgreiðslu nema veifa flokksskírteinum ?

  • Árni Gunnarsson

    Það sem máli skiptir er að nýta þessa auðlind en ekki gera hana að einhverri óskiljanlegri gestaþraut fyrir fólk sem heldur að það sé einhverjir vísindamenn. Fiskur gengur á mið ef skilyrði eru hagfelld s.s. átuframboð. Það ræktar engin þjóð upp fiskistofna nema ungviðið hafi aðgang að nægu fóðri. Það hafa komið ördeyðuár gegnum alla okkar sögu og síðan mokafli. Og þá veiddu allir eins og þeir gátu.

  • Einar Steingrimsson

    Hafi ég skilið rétt er þetta svona: Kvótafrumvarpið tryggir núverandi kvótahöfum yfirráð yfir honum í tuttugu ár. Því verður ekki breytt á þeim tíma, en hins vegar er ríkisstjórnum í lófa lagið að lækka veiðigjaldið niður úr öllu valdi. Með þessu er ríkisstjórnin að hygla útgerðarauðvaldinu enn frekar, þvert á yfirlýsta stefnu stjórnarflokkanna, og þvert á vilja yfirgnæfandi meirihluta almennings.

    Ég held að skýringin sé þessi: Í báðum stjórnarflokkunum er talsvert af fólki sem er í vasanum á útgerðarauðvaldinu. Hinir, sem er það ekki, eru nógu miklar lyddur til að beygja sig undir þessa svívirðu og svíkja þar með hagsmuni almennings og vilja kjósenda þeirra. Þessi undirlægjuháttur og undirförli gengur líka undir nafninu flokkshollusta.

  • Kári Jónsson

    Í fyrsta lagi, hver eru rökin fyrir því að gera nýtingar-samninga yfirleitt ? Íöðru lagi, hver er rökin fyrir því að byggja helstu gjaldeyriöflun þjóðarinnar á kerfi, sem stækkar EKKI fiskistofna ? Í þriðja lagi, hver eru rökin fyrir því, að einungis hluti úthlutaðs nýtingarréttar er leigður á kvótaþingi, en EKKI allur nýtingarrétturinn ?? Í fjórða lagi, hver eru rökin fyrir því, að strandveiðar eru kvótasettar ? Í fimmta lagi, hver eru rökin fyrir því, að það er EKKI tekið á verðmyndun á fiski upp úr sjó ? Í sjötta lagi, hver eru rökin fyrir því, að byggja á kerfi sem inniheldur hvata til brottkasts og kvótasvindls ? Ég hvet þig Mörður til að koma með þingsályktun samhliða þessum ólögum, um að allur fiskur verði seldur á markaði, ástæðan er einföld, slík tillaga tryggir jafnt aðgengi fullt jafnræði, fiskvinnslu án útgerðar að fisknum, það tryggir ennfremur að útgerðarmenn/konur geta ekki látið sjómenn, fiskvinnslufólk, hafnarsjóði og bæjarsjóði borga fyrir MEINTA HAGRÆÐINGU í sjávarútvegi. Slík tillaga tryggir síðast en EKKI síst að EKKI verða undirboð á erlendum neytenda mörkuðum og yfirboð á innlendum fiskmörkuðum, en einsog þú veist þá hefur einokunar-útgerðar-vinnslan jafnt aðgengi að fiskmörkuðunum á við kvótalausa fiskvinnslu, þetta er afleiðing af tvöfaldri verðmyndun,þ.e. einhliða ákveðið fiskverð einokunar-útgerðar-vinnslunnar og fiskmarkaðsverð.P.s. jafnræðisreglan er í fullu gildi þegar einokunar-útgerðar-vinnslan á í hlut. Mínar bestu kveðjur.

  • Halldór Guðmundsson

    Frumvarp Steingríms um Strandveiðar, er ekkert annað en hrein lítilsvirðing við öryggismál Strandveiðisjómanna, að þurfa að gefa eftir 25% af sóknardögum, til að geta valið sér góðviðrisdaga til róðra í maí og júní.
    Og verða síðan sendir í olimpískar kapp veiðar í júlí og ágúst, þetta frumvarp Steingríms á hvergi heima annarstaðar en í tætaranum, og ykkar frumvarp þarf að koma í staðinn.

    Skoða þarf vel 8.tl 7.gr. í ykkar frumvarpi „er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskini samkvæmt öðrum leyfum#
    Þetta ákvæði vil ég meina stenst ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. því jafnstórir bátar sem nýta sér ekki strandveiðar, geta valsað milli leyfa á sama tíma, grásleppa, skel, makríll og fl.
    Þannig að strandveiðibátarnir þurfa leyfi til makrílveiða þá daga sem þeir stunda ekki strandveiðar, og sömuleyðis að geta sagt sig frá strandveiðum 1.júlí til að veiða makríl.

    Allan makríl á markað strax, 6-7 miljarðar í tóman ríkissjóð.

    Frumvarp um fýtimeðferð verðtryggingar í gegnum dómskerfið strax, því ekki er hægt að semja við hrægammasjóðina fyrr en niðurstaða í því máli liggur fyrir.

  • kristinn geir briem

    já blessaðar afturgöngurnar. atiglisverð hugsun að borga ílla stödum byggðum til að kaupa hvóta. vandamálið er að það eru hvorki nógur fiskur fyrir alla, né peníngar i ríkisjði til að kaupa hvóta, þvi það er búið að eða öllum peníngnum sem menn fá úr auðlindarrentuni í annað. svo mörður verður að láta sér detta eithað annað í hug til að bjarga byggðunum.ef tekinn væri 1. króna í auðlindagjald mindi það vera innan ramma stjórnarskrárinar

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur