Miðvikudagur 10.04.2013 - 17:45 - 3 ummæli

Mývatn njóti vafans

Það má ekki eyðileggja Mývatn.

Mývatn er einstætt náttúrusvæði, meira að segja í rómaðri fegurð og fjölbreytileik íslenskrar náttúru. Lífríki vatnsins – þörungar, mý, silungur, fuglar – er smám saman að ná sér eftir námurekstur á botni vatnsins í fjóra áratugi. Mývatn og Laxá eru alþjóðlegt vatnsverndarsvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum. Með margvíslegum fjöllum sínum, eldhraunum, gígum, hverum, gróðursælum vatns- og árbökkum, glæsilegum sjóndeildarhring og auðnunum miklu að baki er Mývatnssveit paradís grænnar ferðamennsku, og eitt af fáum vetrarsvæðum í íslenskri ferðaþjónustu.

Bjarnarflagsvirkjun er vissulega í orkunýtingarflokki samkvæmt þingsályktun um rammaáætlun frá í vetur. Það þýðir hinsvegar ekki að alþingi hafi samþykkt að þar skyldi virkjað – ég minni á vandað álit meirihluta umhverfisnefndar (sjá 10. og 13. kafla) þar sem sérstaklega er fjallað um margvíslegan vanda við jarðvarmakostina.

Bakki – Þeistareykir

Umhverfismat Bjarnarflagsvirkjunar er að verða 10 ára gamalt. Við það aldursmark á að skoða málið upp á nýtt samkvæmt 12. grein laga um umhverfismat. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt ekki liggi fyrir að þörf sé að virkja þarna fyrir framkvæmdir á Bakka, enda eru virkjunarframkvæmdir nánast hafnar á Þeistareykjum, þar sem vart verður aftur snúið miðað við áhrif rannsóknaframkvæmda. Talað er um að allt að 200 MW fáist á Þeistareykjum. Þótt það verði að taka slíkum tölum öllum með mikilli varúð er þetta rúmlega tvöfalt meiri orka en talað er um á sama hátt í Bjarnarflagi, 90 MW.

Varúðarreglan

Varúðarregla umhverfisréttarins er komin inn í lögbók Íslendinga þótt nýju náttúruverndarlögin hafi ekki tekið gildi ennþá. Hún er svona í 9. grein þeirra laga:

Þegar tekin er ákvörðun, t.d. um skipulag, framkvæmd eða starfsleyfi, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.

Varúðarreglan segir okkur að virkja ekki í Bjarnarflagi fyrr en gengið er úr skugga um áhrif virkjunarinnar á lífríki Mývatns, og á heilsufar íbúa og ferðafólks í sveitinni. Til þess höfum við einmitt gott verkfæri. Það heitir mat á umhverfisáhrifum, og nú er eðlilegt að Landsvirkjun taki sjálf frumkvæðið og óski eftir að Skipulagsstofnun líti aftur á umhverfismatsskýrsluna sem þaðan var afgreidd hinn 26. febrúar 2014.

Samfylkingin: Mývatn njóti vafans

Náttúruverndar- og umhverfissamtök lögðu nýlega ýmsar spurningar fyrir stjórnmálasamtök í framboði við alþingiskosningarnar framundan. Þar á meðal var spurt hvort flokkurinn væri „hlynntur því að endurmeta umhverfisáhrif Bjarnarflagsvirkjunar á lífríki Mývatns og áhrif losunar brennisteinsvetnis á heilsufar heimamanna“. Samfylkingin hefur svarað:

Já. Áður en ákvörðun er tekin um hvort virkja eigi í Bjarnarflagi þarf Landsvirkjun að hafa gengið úr skugga um að öll áhrif á lífríki vatnsins liggi fyrir. Varúðarreglu umhverfisréttarins á að hafa að leiðarljósi. Mývatn á að njóta vafans.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • ÓHEIÐARLEGUR ERTU !

  • Þú hefur heldur betur staðið vaktina í umhverfismálum, Mörður. Átt heiður skilinn fyrir það.
    Hins vegar hefur Samfylkingin misst trúverðugleika meðal margra, vegna setu fulltrúa Alcoa í öðru sæti á listanum í Norðausturkjördæmi. Það var ótrúlegt klúður.

  • S.l. vor komst það í hámæli að brennnisteinsvetnismengun frá 90MW Bjarnarflagsvirkjun yrði 4X til 10X meiri í Reykjahlíð en nú mælist í Hveragerði.

    Landsvirkjun gatt ekkert við þessu sagt, -þarna var um þeirra eigin tölur að ræða. Viðbrögð fyrirtækisins voru þau að tala einungis um 45MW virkjun í stað 90MW.
    -Með því móti voru þeir ekki að losa 8.700 tonn af eiturgasi í 3Km fjarlægð frá grunnskóla! -Heldur aðeins 4.300 tonnum af eiturgasi!

    http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2935

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur