Föstudagur 12.04.2013 - 10:21 - 5 ummæli

Hætta til hægri

Hanna Birna Kristjánsdóttir er þriðji eða fjórði frambjóðandinn úr Sjálfstæðisflokknum á nokkrum dögum sem lýsir því yfir að fylgistölur flokksins merki að hann fari ekki í stjórn – næsta stjórn verði þessvegna vinstristjórn, sem er það ægilegasta sem inngrónir íhaldsmenn geta hugsað sér.

Þetta er gert til að reka kjarnafylgi Sjálfstæðisflokksins á kjörstað og hefta flóttann yfir til Framsóknar. Herbragð sem oft hefur verið notað áður í Valhöll í svipaðri stöðu – hræðsluáróður frá hægri.

Hættan er hinsvegar sú að fólk sem einmitt vill ekki Sjálfstæðisflokkinn í stjórn afturörfáum árum eftir hrun láti þennan áróður villa um fyrir sér. Finnist í góðu lagi að hrífast með af fyrirheitum Framsóknar í því trausti að með þeim veljist jafnaðarmenn eða vinstriöfl önnur í stjórnarmeirihluta.

Alveg kalt: Ekkert bendir til þess í málflutningi eða pólitískri líkamstjáningu Framsóknarmanna í kosningabaráttunni. Síðustu vikur og mánuði á þinginu var hinsvegar öllum ljóst sem vildu sjá að flokkurinn stefndi á samstarf til hægri – tók afstöðu með Sjálfstæðisflokknum í öllum málum nema var enn heiftúðugri í samningum um framgang mála í þinglok.

Það verður vissulega beiskur biti að kyngja fyrir Sjálfstæðisflokksmenn að verða „litli flokkurinn“ í samstarfi við Framsókn með Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra. Samt hefur þetta gerst áður þegar FLokkurinn var í vanda, á tímabilinu 1983–87 þegar Framsóknarmaður var forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokki í forystukreppu. Formaðurinn varð utanríkisráðherra, Geir Hallgrímsson, sem hætti í lok kjörtímabilsins. Og þá var Sjálfstæðisflokkurinn samt við þokkalega fylgisheilsu, miklum mun stærri en samstarfsflokkurinn með forsætisráðherrann.

Það er raunveruleg ástæða til að vera hræddur, og þarf ekki til neinn áróður: Langlíklegasta stjórnarmunstrið miðað við fylgistölurnar nú er hægristjórn B og D með þægilegan meirihluta á þinginu – gegn þrem-fjórum aumingjaflokkum í innbyrðis stjórnarandstöðuhasar.

Gott ráð: Efla Samfylkinguna, jafnaðarflokk með alvörulausnir, hugmyndir og reynslu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Er ekki SjálfstæðisFLokkurinn aumingjaflokkur nú um stundir?

  • Haukur Kristinsson

    Framsóknarflokkurinn segist hafa endurnýjað sig mun meira en hinir gömlu flokkarnir og þar með komið til móts við óskir kjósenda. Þetta er skoðun margra. Sverja af sér gömlu spillingar gaurana, Halldór, Finn og Ólaf og marga fleiri sem ég kann ekki að nefna, enda nöfn sem eru varla þess virði að muna. Líklega eitthvað til í þessu.
    En ef útkoman verður sú að Framsókn endurreisi B + D samsteypuna, aðeins 5 árum eftir Dóra- og Davíðshrunið, sýna þeir ótrúlega ósvífni og slaka dómgreind. Vil ekki trúa því að þeir muni gera slíka vitleysu.
    Enda eiga sjallarnir að vera áfram í stjórnarandstöðu tvö til þrjú kjörtímabil í viðbót. Þá kannski taka þeir smám saman sönsum og fari að átta sig á því, að þeir eigi ekki allt hér á klakanum.

  • Gott ráð: Efla Samfylkinguna, jafnaðarflokk með alvörulausnir, hugmyndir og reynslu. Þessi lokaorð Marðar í annars skondnum pistli lýsa engu nema veruleikafirringu manns sem er kominn í pólitískt öngstræti og neitar að horfast í augu við staðreyndir.
    Samfylkingin sat í stjórn með Sjálfstæðisflokki árin 2007-2009 þegar sú stjórn hrökklaðist frá eftir átökin á Austurvelli. Samfylkingin leiddi minnihlutastjórn með VG í nokkra mánuði þar til þeir flokkar mynduðu ríkisstjórn eftir alþingiskosningarnar 2009 og er um þessar mundir að skila af sér með þann dóm á herðum að vera ein óvinsælasta ríkisstjórn sem setið hefur á lýðveldistímanum.
    Sjö ára samfelld ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingar með það í farteskinu að hafa hrökklast frá völdum árið 2009 og verið í forsvari fyrir óvinsælustu ríkisstjórn síðari tíma gerir lokaorð Marðar í pistlinum aumkunarverð og stjórnmálaskýringar hans fáfengilegar.
    Ætli 12% í skoðanakönnunum segi ekki allt sem segja þarf um álit almennings á verkum Samfylkingarinnar.

  • Samfylkingin er búin að vera í stjórn frá 2007.

    Hvernig finnst ykkur hafa gengið á Íslandi síðustu sex árin?

  • En afhverju íhugar Árni Páll Árnason ekki að segja af sér og láta Katrínu
    Júlíusdóttur taka við? Af hverju er ekki skoðunarkannað hvort það yki fylgi Samfylkingarinnar? Segja einhverjir stjórnmálamenn af sér, þegar
    upplýsingar um reikninga Íslendinga í skattaskjólum verða opinberaðir?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur