Þriðjudagur 16.04.2013 - 09:53 - 10 ummæli

Samvinnuboð um skuldirnar

Félagi Össur skrifar merka grein í Fréttablaðið í dag – og er í raun og veru boð til annarra stjórnmálaflokka um að leysa erfiðasta skuldavandann hjá heimilunum. Við höfum staðið fyrir miklum aðgerðum í þágu skuldsettra heimila einsog menn þekkja, fyrir ýmsa illa setta hópa en líka með verulegum vaxtabótum sem hjálpa öllum skuldurum. Samfylkingin hefur hinsvegar goldið varhug við uppástungum um „almenna“ leiðréttingu sem ósanngjarnrileið og óskynsamlegri.

Tveir hópar standa eftir, og vanda þeirra verður að leysa bæði af sanngirnis- og jafnræðisástæðum og af skynsemisástæðum, vegna þess að íslenskt samfélag má ekki við því að missa blómann úr mikilvægum kynslóðum í stöðugt skuldabasl. Þetta eru lánsveðshópurinn, sem vegna veðanna nýtur ekki 110%-leiðarinnar, og þeir sem keyptu verðtryggt árin fyrir hrun – en ekki sumsé gengistryggt.

Össur segir: Til að hægt sé að nýta sterka samningsstöðu okkar gagnvart kröfuhöfum bankanna þarf tíma. Það er óráð að ráðstafa þessu fé í kosningafyrirheit, og það getur hrundið af stað verðbólgu að hella inn í hagkerfið þeim milljarðahundruðum sem talað er um að hér kunni að fást. Þegar peningurinn kemur skulum við nota hann til að lækka ríkisskuldir, afnema gjaldeyrishöft og greiða fyrir nýju Evrópukrónunni í samstarfi við evruríkin.

Við getum hinsvegar fengið fé til að aðstoða skuldahópana, og reyndar á sömu slóðum að hluta til. Bankarnir græða og græða. Ekkert óeðlilegt að sá gróði sé notaður til að mynda aðstoðarsjóð, grynnka á skuldum verst settu hópanna, og bæta um leið kjör á leigumarkaði – því það má ekki gleyma þrautagöngu sívaxandi hóps fólks sem ekki hefur nein ráð til íbúðarkaupa.

Bankarnir eru ýmist í eigu ríkisins eða kröfuhafa. Ég vil með lögum láta þá borga 15 milljarða árlegan skatt á ofsagróða sinn í fimm ár. Sömuleiðis vil ég að sérstakur skattur upp á 0,1285% af öllum skuldum fjármálafyrirtækja verði líka látinn ná yfir fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Það gæfi tekjur upp á um 13 milljarða á ári. Næði þetta fram að ganga gæti þessi tvíþætta skattlagning á bankana skapað rými upp á 140 milljarða.

Hér hefur einn af reyndustu stjórnmálamönnum landsins tekið frumkvæði fyrir hönd Samfylkingarinnar í heitasta máli kosningabaráttunnar – og hugmyndir framboðanna að lausnum í þessum efnum hljóta líka að vera eitt af þremur-fjórum helstu grundvallarmálum þegar kosningum lýkur og tilraunir hefjast til stjórnarmyndunar.

Hver eru svörin?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Kjartan Eggertsson

    Það er sorglegt að lesa greinar eftir þingmenn Samfylkingarinnar þar sem þeir reyna nú að klóra í bakkann rétt fyrir kosningar. Það er sorglegt að skynja að þeir hafa týnt hugsjónaeldinum sem einu sinni var. Jöfnuðurinn er nú bara upp á punt og grundvöllurinn um jöfnuð, heilindi, heiðarleika og sanngirni er löngu horfinn í þokunni sem umlykur þingmenn Samfylkingarinnar.
    Dæmi um þetta er að enginn þessara þingmanna minnist einu orði á það að vermæti höfuðstóls íbúðalána og kauptaxta þurfi að fylgjast að, – þrátt fyrir að um það sé samið við töku allra íbúðalána síðustu áratugina og kemur fram í greiðslumati hvers láns, – en í þar eru tíundaðar forsendur lántökunnar og lánveitingarinnar.

  • Hvernig er það urðu ekki allir lántakendur fyrir tjóni í hruninu?

    Hver ætlar að skilgreina þá hópa sem verðskulda það fé sem Össur ætlar nú að útdeila?

    Hvar á að draga línuna?

    Við hvað á að miða?

    Sérkennileg jafnaðarmennska er hér á ferð.

    Allir töpuðu en aðeins sumir „verðskulda“ aðstoð.

  • Þið eruð umboðslausir Mörður. Sýnið kjósendum smá virðingu og haldið ykkur til hlés

  • Skjaldborgin vað að gjaldborg og umsátri um heimilin og okurlánin, staðan 100 % tekin með bönkum og mafíum…… Fyrir það munuð þið og VG gjalda með áður óséðu afhroði.

  • Takk fyrir.

    Mér sýnast athugasemdirnar samanlagðar endurspegla einkar vel þann vanda sem við er að fást. Kjartan virðist telja að þar sem fólk skrifaði undir vísitölubundin lán eigi það veskú að borga þau — eða er það öfugt? — að forsendurnar hafi brugðist og allir eigi að fá endurgreitt (þá væntanlega allar verðbæturnar nmeð sömu vöxtum) — Karl treystir sér ekki til að skilgreina hópana og vill að allir sem töpuðu fái ,,aðstoð“ (líka ríkikallar í 500 fermetrum?), Jóhannes á Laufásveginum skilur eftir skæting númer 25 hér í athugasemdum á þremur mánuðum til að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan, en Ólafur reiðir fram svikabrigsl í tilefni af ótrúlegri endurreisn úr hruninu undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

    Og samt segi ég þetta: Verkefnið núna, þegar það er að birta til, er að aðstoða þá sem verst urðu úti, en missa ekki hagkerfið útí vitleysu sem gæti búið til annað hrun og ennþá meiri hörmungar og óréttlæti. Tillaga Össurar snýst um þetta.

  • Hallgrímur T Jónasson

    Er einhver eðlismunur á fateignaláni teknu 2006eða láni
    sem tekið var árið 1999 ?

  • Halldór Guðmundsson

    Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að að draga stórlega úr niðurgreiðslu á krabbameislyfjum, og öðrum lyfjum fyrir þá sem eru mest veikir, á sama tíma og makrílkvótinn er afhentur án endurgjalds, þar sem hefði verið hægt að fá 4-6 miljarða fyrir makrílinn, og það er auðvelt að breyta lögum, og maður er orðinn verulega hugsi yfir því, hvernig fer fyrir ykkur í kosningunum.

  • ÖRLÍTIL athugasemd vegna svars MÁ.

    Ég sagði ALDREI að ég vildi að allir sem töpuðu í hruninu fái aðstoð.

    Aldrei.

    Að gera fólki upp skoðanir eða leggja því orð í munn hefur aldrei þótt góður siður hér í sveit.

    Eiginlega bölvuð ókurteisi.

    Ómálefnalegt svo gripið sé til stjórnmála´tals.

    Ég vakti athygli á þessu til að sýna fram á hversu fráleit þessi nálgun Össurar og hinna framsóknarmannanna er.

    Ég þarf enga hjálp og er þakklátur fyrir það.

    Ég get hins vegar þakkað sjálfum mér það, ekki stjórnmálamönnum.

  • Björn Þorláksson

    Þetta er ágætt hjá Össuri, en hugmyndin kom fram hjá Kristjáni Möller fyrir viku í Akureyri vikublaði:

    Sjá: http://www.akureyrivikublad.is/akvbl/umraedan/2013/04/15/grodi-bankanna-i-stokkbreytt-lan/

  • kristin geir st briem

    furðulegt fólk samfylkínginn og felagi össur í öðru orðinu seigist þið vilja skattlegja ofsagróða en í hinni segið þið það ekki hægt vegna málaferla sem munu koma upp þegar farið verður í lögvarða eign kröfuhafa þið getið ekki gagnrínt framsókn og fara svipað leið og þeir þið verðið að áhveða ykkur

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur