Miðvikudagur 17.04.2013 - 10:02 - 3 ummæli

Virkjanahagkerfið snýr aftur

Auðlinda- og umhverfisþátturinn í Sjónvarpinu var afar upplýsandi: Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur vilja koma aftur af stað gamla virkjanahagkerfinu – þegar eitthvað bjátar á eru jarðýturnar settar í gang til að laga byggðaklúður og búa til nokkur þensluár. Svo er það búið, en þá má bara virkja meira, og ennþá meira. Orkan á Íslandi er endalaus, og skiptir ekki máli þótt ýmislegt gangi, náttúrudásemdir á Íslandi eru óþrjótandi.

Þarna var fullkominn samhljómur með Illuga Gunnarssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni og kom reyndar ekki á óvart þeim sem hafa fylgst með málatilbúnaði flokkanna tveggja á þingi kringum rammaáætlun og náttúruverndarlög (sjá líka Birgi Ármannsson hér að „leiðrétta kúrsinn“).

Þeir vilja báðir „sátt“ – en með því skilyrði að„sáttin“ sé á þeirra eigin flokksforsendum, og í vil þeim sérhagsmunum sem hverju sinni þarf að sinna. Báðir bentu þeir á „vísindamenn“ sem völdin hefðu verið tekin af – einmitt þeir flokkar sem hafa staðfastlega afneitað fræðilegum athugasemdum þegar þeim þóttu þær ekki falla að eigin niðurstöðu. Frægasta dæmið: Skipulagsstofnun og Kárahnjúkar.

Sáttin – það var aldrei hugmyndin með rammaáætlun að skapa „sátt“ um ráðstöfun einstakra náttúrusvæða og virkjunarkosta. Það er nánast ógerlegt – hérna vegast á miklir hagsmunir, miklar hugmyndalegar andstæður, miklar tilfinningar. Rammaáætlun var fyrst og fremst ætlað að vera samkomulag um leikreglur, þannig að ákvarðanir yrðu teknar í ljósi allra tiltækra upplýsinga og með yfirsýn um náttúrugæði og orkukosti. Þessi skipan getur svo skapað þokkalega sátt þegar menn hafa lært að beita verkfærum hennar – samanber Noreg. En í Noregi detta engum lengur í hug virkjanir á borð við þær sem Illugi og Jón Gunnarssynir vilja fá í Urriðafossi og Þjórsárverum, eða þær sem Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson óska sér í Hólmsá og í jökulsám Skagafjarðar.

Vísindamennirnir – þeim var aldrei ætlað að taka ákvörðun um einstaka kosti. Þeir starfa í fjórum faghópum og leggja þar fram fræðilegar niðurstöður með einskonar einkunnum um margvíslega þætti. Síðan tekur við röðun kosta samkvæmt þessum einkunnum, samvegnum, og að lokum flokkun þeirra í orkunýtingu, verndarnýtingu og bið. Þetta er hinsvegar allt faglegur ferill – og þær ákvarðanir sem ráðherrar og meirihluti alþingis tók voru líka faglegar. Það sést best á því að breytingarnar sem gerðar voru frá flokkunartillögunni, á tvisvar þremur virkjunarhugmyndum, í Þjórsá annarsvegar og hisnvegar á miðhálendinu norðvestan Vatnajökuls, gengu út á bið með frekari rannsóknum, en ekki endanlega ákvörðun um orkunýtingu eða verndarflokk.

Að senda rammaáætlunina aftur „til vísindamannanna“ kann að hljóma vel í sjónvarpsþætti en er algjört bull í raunverunni. Það vita bæði Illugi og Sigurður Ingi.

Það sem þeir hljóta að vera að meina er að eyðileggja rammaáætlun – rífa hana upp, einsog flokksfélagar þeirra orða það á framboðsfundum á Suðurlandi og fyrir norðan. Velja sjálfir þá kosti sem þeim og vildarvinum þeirra líst best á. Sigurður Ingi flutti á þinginu sérstakar tillögur um að virkja Hólmsá og stífla Farið við Langjökul – þvert á ráð „vísindamannanna“ sem eindregið vildu meiri rannsóknir og gögn um þessa kosti.

Framsóknarsjálfstæðisflokkurinn hefur ekki önnur ráð en stórvirkjanastefnuna til að koma hagvexti á nýtt þensluskrið og fjármagna ofurloforð sín um skattalækkanir og almenna skuldaniðurfellingu.

Þá er það á hreinu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • kristin geir st briem

    geturþú úttskír virir mér hvaða pull það er að senda þettað aftur til sérfræðíngana sé það ekki sjálfur

  • Kristin geir st briem– Mörður er að segja að Sjallar og Framsókn vilji senda tillögur um Rammaáætlun aftur til vísindamanna til að fá „rétta“ niðurstöðu..

    Ef þú ert að spurja um Farið við Langjökul, eða Hagafellsvirkjun, þá er það á hinn veginn: Mörður og vísindamenn vilja fá að gera enn frekari rannsóknir á svæðinu áður en hafist verður handa við a virkja eða öfugt.

    Skilurðu?

    En auðvitað þvælast þessir sérfræðingar bara fyrir framsókn okkar til betri lífsgæða, ekki satt?

  • kristin geir st briem

    asi,
    þettað er skoðun marðar en bæði sjálfstæðismenn og framsókn seigja annað hef þá trú að þessir flokkar viti betur hvað þeir vilja heldur en mörður men eiga ekki að gera öðrum upp skoðanir. um farið og langjökul það er ánægulegt að þú hefur unnið heimavinnuna þar sem ég á hagsmuna að gæta er eitn landeigenda lands. að ransaka landið betur það þarf ekkert að ransaka landið betur það er alveg vitað hvernig landið lyggur aurinn úr hagavatni renur í sandvatn sem sem olli sandfoki um alt suðurland síðan var byggð styfla við sandvatn til að halda vatnsyfirborðinu stöðugu þanig að fokk hætti og vatninnu veit í hvítá í stað túngufljóts þessi aur mun hækka smám saman þángað til það kemur uppað bökkum stíflunar þá fara menn að rækta upp bakkana þanig að það verður ekker vatn eftir heldur á. eins verður það með hagavatn það mun haldast stöðugt vatnsyfirborð í marga áratugi á meðann géta menn ræktað upp landið í kríng og á meðann vatnið fillist munu menn græða þettað jafnt og þéttvandamálið er uppfokið hann rífur allan jarðveg jafn óðum. það má ekki gleima því að hagavatn er til þess að gera nýtt vatn sem varð til þegar hagafellsjökull hopaði á seinustu öld
    Um serfræðínga þessi var góður þegar hentaði þessari ríkistjórn þá voru þeir góðir en ef sérfræðíngarnir voru ekki sammála ríkisstjórninni þáhunsaðir hún þá svo hvort er verra þessi ríkistjórn eða sjáfs. og frams. að takka mark á sérfræðíngum veit ég ekki sínist það vera jafntefli er ánægður með þessa athugasemd hjá þer .vildi að mörður tæki þig til fyrirmyndar um heimildaröflun

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur