Fimmtudagur 18.04.2013 - 16:30 - 3 ummæli

Með Evrópu á heilanum

Það verður oft nokkuð háfleygt og fjarlægt, allt talið með og á móti aðild að Evrópusambandinu – fyrir utan allt ruglið og nöldrið. Jamm, það þarf að finna leið út úr gjaldeyrishöftunum, og enginn hefur í raun og veru bent á neina aðra en að tengjast evrunni og taka hana svo upp. Jamm, fullveldisdeiling bæði í EES og ESB er ekkert áhlaupaverk, og þar má ekki rasa um ráð fram. Sjávarútvegsmálin, landbúnaðurinn, byggðirnar, fjármálamarkaðirnir o.s.frv. o.s.frv. En hvað kemur þetta venjulegu fólki við í daglegu brauðstriti og amstri – vandanum við að ná endum saman um næstu mánaðamót?

Margt er auðvitað óljóst ennþá um stöðuna eftir inngöngu okkar í Evrópusambandið ef af verður. Þessvegna erum við að semja. Og ýmislegt af kostum og göllum við aðild kemur ekki í ljós fyrren á líður. Það er reynsla annarra þjóða sem inn eru gengnar, svo sem Svía og Finna, Eystrasaltsþjóðanna, nýfrjálsu ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu.

Margt er líka nokkurnveginn ljóst, og varðar ekki síst hag fjölskyldnanna, almennings í landinu. Með evrunni minnkar allur kostnaður í viðskiptum okkar við evrulöndin – vöruverð fer niður. Vextir hafa verið hér alltof háir fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Þeir lækka með inngöngu og evru, og líklega strax með tengingu krónunnar við evru. Innganga og evra mundi slá á verðbólgu með sífelldum hækkunum verðlags og launa. Verðtryggingin hverfur með evrunni, enda er verðtryggingin hækja sem hin veika króna notar til að halda sér uppréttri.

Það rennur ekki upp paradís á jörðu daginn sem við göngum í Evrópusambandið. Sem fyrr eru Íslendingar sinnar eigin gæfu smiðir. Fyrir venjulegt fólk verður hinsvegar auðveldara að lifa, einfaldara að skipuleggja, meira öryggi við rekstur heimilisins.

Þessvegna skiptir svo miklu máli að klára samningana og taka til þeirra afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vel má vera að gallar við aðild vegi upp á móti þessum kostum fyrir lífskjör venjulegs fólks – það ákveður þjóðin. Þeir sem vilja stöðva samningagerðina, sem er komin á lokastig – þeir eru á hinn bóginn að útiloka þessar kjarabætur án þess að menn hafi fengið að athuga málið. Ekki kjósa þá frambjóðendur í alþingiskosningunum í mánaðarlokin.

 

 (Líka í Fréttablaðinu 18. apríl)

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Þetta geturðu X – Mörður

  • kristin geir st briem

    ágætis grein. skil reindar þessa árát með E.B. að það muni mínka allur kosnaður við viðskipti og að vextir mun lækka fynst vavasöm sanindi en aftur á mót væri gaman að sá hvernig aukaðild að evruni kæmi út því við höfum ekkert með evruna að gera

  • Nú man ég ekki betur en að matarkarfan hafi verið jafndýr á Íslandi og í Finnlandi þegar síðast bárust samanburðartölur.

    Annað landið með krónu og hitt með euro.

    Matarkarfan var ódýrari á Íslandi en í Danmmörku og Svíþjóð. Bæði þau lönd eru í „Sambandinu“.

    Vextir eru mismunandi í „Sambandinu“ og hefur munurinn verið að gliðna. Það sama má reyndar segja um verðbólguna.

    Hún er allt frá því að vera verðhjöðnun í Grikklandi í verðbólgu sem fasta að 4% í Eistlandi. Bæði ríkin eru með euro.

    Viðskipti aukast hraðar á milli Bretlands og Þýskalands heldur en Þýskalands og Frakklands. Þar gerir euroið ekki gæfumuninn. En frjáls viðskipti eru vissulega af hinu góða.

    Það hafa margar mýturnar og mörg slagorðin sem „Sambandssinnar“ hafa notað, fallið dauð og ómerk á undanförnum misserum.

    Þess sést enda merki í fylgistölum þeirra flokka sem berjast fyrir aðild og það sést í skoðanakönnunum þar sem spurt er hvort kjósendur vilji ganga í „Sambandið“:

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur