Föstudagur 19.04.2013 - 13:51 - 2 ummæli

Svör vantar frá B og D

Það er sérkennilegt að hvorki stóri Framsóknarflokkurinn né litli Sjálfstæðisflokkurinn hafa hirt um það hingað til í kosningaumræðunni að gefa svör við brýnum spurningum á sviði náttúruverndar og umhverfismála – þar sem vaxtarbrodda atvinnulífsins er ekki síst að finna nú um stundir. Þó hafa síðustu fjögur ár í stjórnmálum einkennst ekki síst af framþróun á þessu sviði, í löggjöf annarsvegar, hinsvegar áætlunum, áformum og framkvæmdum bæði á opinberum vegum og hjá fyrirtækjum og félagasamtökum.

Fjögur dæmi:

Eitt: Á þessu kjörtímabili komust loksins í gagnið nýjar leikreglur um orkuvinnslu og verndarnýtingu eftir fjögurra áratuga deilur. Rammaáætlun. Þetta var að frumkvæði Samfylkingarinnar – eitt af kjarnamálum í stefnunni um Fagra Ísland. Fyrst voru lög um þetta samþykkt samhljóða, og svo kom fyrsta rammaákvörðunin – sem skilaði víðtækari verndaráformum á náttúrusvæðum en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni. Tímamót. Framsóknar- og Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn fyrstu rammaáætluninni á þingi og hafa síðan lýst yfir að það eigi að „taka upp“ rammaáætlun. Hvað merkir það? Ætla þeir að færa ákvarðanir um þetta aftur til ráðherranna, til Landsvirkjunar og HS og OR, og til bankanna og erlendu stóriðjufyrirtækjanna, með gömlu formúlunni Lowest Energy Prices?

Tvö: Aðgerðaáætlunin um græna hagkerfið er í gangi, og í hana eiga að renna verulegir peningar samkvæmt fjárfestingaráætluninni. Með því erum við að styðja til þroska atvinnufyrirtæki framtíðarinnar, á sviði þekkingar, lista, náttúruverðmæta og skapandi greina, en einnig græn verkefni í hefðbundnum atvinnugreinum. Alger þögn ríkir hjá stóru Framsókn og litla FLokki um áform á þessu sviði. Vilja þau halda áfram fyrir samtíð og framtíð að þroska Græna hagkerfið? Eða ætla þau að endurreisa Gamla hagkerfið?

Þrjú: Ísland er nú um heimsbyggðina talið í fyrsta flokki í loftslagsmálum. Annarsvegar vegna þess að við höfum gengið til samstarfs við Evrópusambandsríkin um losunarmarkmið og loftslagskvóta, hinsvegar af því að við vinnum eftir sérstakri áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum, ekki síst um orkuskipti í samgöngum, sem ásamt eldsneyti á miðunum er helsti loftslagsvandi okkar. Eru Sjálfstæðisflokksmenn tilbúnir í metnaðarfullan losunarsamdrátt? Ætlar Framsókn að halda áfram loftslagssamstarfinu við Evrópusambandið?

Fjögur: Ný náttúruverndarlög voru samþykkt í þinglok og taka við af gölluðum lögum frá 1999. Lögin eru mikið framfaraskref – gætu tryggt náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu verndarsvæða til frambúðar, leyst misjafnar þarfir útivistarmanna og náttúruunnenda með skynsamlegu skipulagi, eflt möguleika ferðaþjónustunnar. Þegar þau voru samþykkt núna í mars voru 17 þingmenn á rauða takkanum, úr B og D. Lögin taka ekki gildi fyrren á næsta ári – og þessvegna er óskað svara við brýnni spurningu sem enginn af þessum sautján svaraði á sínum tími: Hverju nákvæmlega ætla Litli og Stóri að breyta í nýju náttúruverndarlögunum?

Stjórnarmeirihlutinn hefur staðið fyrir verulegum framförum á þessum sviðum, í félagi við náttúruverndar- og umhverfissinna, við forustumenn í nýjum greinum og stórefldri ferðaþjónustu, við fræðimenn og frumkvöðla. Ætli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn að eyðileggja þennan árangur – þá er núna tíminn til að segja frá því. Kjósenda er síðan að segja til um hverjum þeir treysta best til forystu við umhverfisframfarir, náttúruvernd og nýja atvinnulífið.

 

(Líka í DV föstudaginn 19. apríl.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Óðinn Þórisson

    Umhverfis og náttúruvermd vg&sf = að stoppa og koma í veg fyrir. ?

    Við skulum vona fyrir hagsmuni þjóðarinnar að næsta ríkisstórn hefji hér nýtt framfara og hagvaktarskeið – ég sé ekki vg eða sf hafa neitt erindi í slíka ríkisstjórn – ekki viljum við önnur 4 ár með vinstri stjórn.

  • Er það hugsanlega vegna þess að sl. fjögur ár hafa mál er varða sjálfstæði okkar til framtíðar setið á hakanum og því þurfi að huga að þeim málum núna?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur