Laugardagur 20.04.2013 - 12:34 - 1 ummæli

Stóriðjan mikilvægari en skuldirnar

Sigurður Ingi Jóhannsson var opinskár í Bylgjuviðtali í gær – takk fyrir það. Hann lýsti því yfir að Framsókn væri á leiðinni í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Fyrir varaformanni Framsóknarflokksins eru tvö mál í húfi eftir kosningar. Annarsvegar einhverskonar efndir á loforðum flokksins  um almenna skuldaleiðréttingu. Það veit hann að verður erfitt en virðist þó telja að það gæti helst gengið í samvinnu við Samfylkinguna og önnur miðju- og vinstriöfl.

Hitt málið er „atvinnuuppbygging“. Þar treystir Sigurður Ingi engum nema Sjálfstæðisflokknum.

Í munni Sigurðar Inga Jóhannssonar merkir „atvinnuuppbygging“ bara eitt: Virkjanir og stóriðju. Sigurður Ingi og flokkur hans greiddu atkvæði gegn tillögunni um rammaáætlun, og Sigurður Ingi flutti þar sérstakar tillögur um tvær virkjanir á Suðurlandi sem „vísindamennirnir“ og „sérfræðingarnir“ höfðu mælt með að færu í bið og frekari athuganir – Hólmsárvirkjun og Hagavatnsvirkjun við Langjökul. Báðar yrðu fyrstu virkjanirnar á heilu vatnasviði. Báðar ganga þvert á náttúruverndarsjónarmið og hagsmuni ferðaþjónustunnar. Sú seinni var eittsinn talin mundu geta unnið gegn jarðvegseyðingu og foki, en um það eru nú mikil áhöld, svo talað sé kurteislega – og Sigurður Ingi vissi allt um þær röksemdir þegar hann lagði fram tillöguna. Þessi framganga á þinginu í vetur sýnir ágætlega hvað Sigurður Ingi á við með „atvinnuuppbyggingu“ – enda hafa hann og félagar hans síðan heitið því á kosningafundum að „taka upp“ eða „rífa upp“ rammaáætlun.

„Lowest Energy Prices“

Nú er það reyndar svo að stóriðjuáform hafa að undanförnu ekki einkum strandað á tregðu stjórnvalda – mörgum finnst ráðherrar V og S hafa verið nokkuð undanlátssamir gagnvart minnstu vísbendingum um erlendar fjárfestingar – heldur því að stóriðjufjárfestar halda að sér höndum, ekki bara hér heldur í öllum okkar heimshluta.

Ef stóriðjan á að sjá um „atvinnuuppbyggingu“ Sigurðar Inga er eina leiðin að bjóða sig niður í skítinn, lækka til hennar orkuverð og veita stórkostlegar ívilnanir í sköttum og aðstöðu. Einmitt þetta hefur – þrátt fyrir Bakka – verið að breytast síðustu árin, bæði hjá orkufyrirtækjum og stjórnvöldum. Menn eru að sjá að orkan á Íslandi er takmörkuð auðlind. Við eigum að nýta hana með varúð, með fullu tiliti til umhverfisþátta og fyrir hana verður að koma eðlilegt gjald. Og vaxtarbroddarnir í atvinnulífinu eru annarstaðar en í stóriðjunni þótt þar kunni enn sað vera færi – ekki síst í náttúrutengdum greinum á borð við ferðaþjónustu og ýmiskonar sköpunar- og þekkingargreinum, og í grænkandi sjávarútvegi og landbúnaði.

Stóriðjubandalag frekar en samstarf gegn skuldum

Þetta er óvenju skýrt hjá Sigurði Inga. Hann telur óvíst að ná saman við Sjálfstæðisflokkinn um skuldirnar, og veit að þar eru meiri möguleikar til vinstri. En finnst mikilvægara að ná öruggu bandalagi við íhaldið um stórvirkjanir og hefja útsölu á rafmagni undir merkjum „atvinnuuppbyggingar“ en gegn framtíðarhag þjóðarinnar og náttúru Íslands.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • kristin geir st briem

    nú má spirja mörð hvar samfylkínginn sé samála framsókn í atvinnumálum
    110% leið samfylkíngarinnar nítust þeim best sem voru á arnarneshhæðum en ekki þeim sem voru í greiðluvanda svo kanski er ekki svo langnt á milli framsóknar og samfylkíngar

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur