Mánudagur 22.04.2013 - 22:21 - 1 ummæli

Og var ekki í framboði

Aðeins einn umræðufundur hefur verið haldinn um umhverfisstefnu og náttúruvernd núna fyrir kosningarnar. Hann fór fram í Odda í dag á vegum Ungra umhverfissinnna og Politica, félags stjórnmálafræðinema.

Ágætur fundur miðað við fjölda framsögumanna, þökk sé snarpri fundarstjórn. Svandís frá VG, ég fyrir Samfó, Róbert frá BF, Ólöf Guðný frá Dögun, og svo framvegis. Þorvaldur á R-listanum kom annaðhvort byltingunni eða kapítalismanum inn í hvert einasta svar, sem mér þótti vænt um að heyra.

Vigdís Hauksdóttir var Framsóknarmaðurinn og tókst að komast frá fundinum nánast án þess að hönd festi nokkurstaðar á umhverfisstefnu Framsóknarflokksins. Því miður er erfitt að fá ófúst fólk til að standa fyrir máli sínu þegar þátttakendurnir eru tólf. Þó kom í ljós að Vigdís og Framsóknarflokkurinn telja af hinu illa viðskiptakerfi Evrópusambandsríkja, Noregs og Íslands með loftslagsheimildir og þrá ennþá gömlu og góðu ,,íslenska ákvæðið“ (sem að vísu kom ESB ekkert við). Flokkurinn ætlar líka að virkja einsog þarf og ,,taka upp“ rammaáætlun (en enginn veit hvernig). Ennþá er óljóst hvaða virkjanir komast upp nema Þjórsárvirkjanir tvær, hugsanlegt að Urriðafoss verði látinn bíða. Svo heyrðist mér hún ætlaði að ,,hlífa háhitasvæðunum“ en gæti hafa verið misheyrn.

Ég leit í kringum mig í upphafi fundarins að vita hvort þarna væri Birgir Ármannsson eða Guðlaugur Þór Þórðarson – og kannski sjálfur Jón Gunnarsson! en greip í tómt.

Milli Píratans og Júlíusar húmanista sat geðþekkur ungur maður, Magnús Júlíusson að nafni. Þessi Magnús reyndist vera fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ég mundi ekki eftir honum á D-listunum á höfuðborgarsvæðinu og datt í hug að gá að Magnúsi á vefsetri Valhallar.

Í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn hafði sent á eina umhverfisfund kosningabaráttunnar mann sem ekki er í framboði.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Leifur A. Benediktsson

    “ í ljós kom að að Sjálfstæðisflokkurinn hafði sent á eina umhverfisfund kosningabaráttunnar mann sem ekki er í framboði“.

    Kemur alls ekki á óvart að svo hafi verið.

    FLokkurinn hatar umhverfis- eitthvað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur