Miðvikudagur 24.04.2013 - 10:47 - 5 ummæli

Lánsveð — Staðið við fyrirheitin!

Loksins! Fékkst niðurstaða í samningum um að létta byrði lánsveðshópsins svokallaða – um tvö þúsund heimili með yfirveðsetningu en gátu ekki notað 110%-leiðina af því lánardrottnarnir höfðu augastað á veðunum sem fólkið hafði fengu hjá pabba og mömmu, Jóa bróður og svo framvegis. Augljóst sanngirnismál eftir að stór hópur í svipaðri stöðu, en án annarra veða en í íbúðinni sjálfri, hafði komist í skárri stöðu með 110%-leiðinni.

Á ýmsan veg hefur barátta lánsveðshópsins sýnt vel erfiðleikana sem við er að fást í skuldamálunum. Annarsvegar er fólk í vanda sem sanngirni og skynsemi mæla með að verði létt á – hinsvegar lánastofnanir sem fara eftir eigin lögmálum – lífeyrissjóðirnir allra harðastir og vísa til þess að þar sé geymt almannafé sem ekki megi hella út um gluggann.

Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því yfir fyrir rúmu ári minnir mig að ríkistjórnin mundi beita sér fyrir því að lánsveðshópnum yrði léttur róðurinn, og við höfum ýmis, innan þings og utan, tekið duglega undir þau markmið forsætisráðherra. Með samkomulaginu í gær er þetta fyrirheit efnt, ef næsta þing fellst á samninginn við lífeyrissjóðina, sem vissulega gerir ráð fyrir talsverðum fjárveitingum úr hinum sameiginlegum sjóði.

Óska lánsveðsfólkinu á heimilunum tvö þúsund til hamingju. Næst er það fólkið með stökkbreyttu verðtryggðu lánmin frá 2005–2008, og ekki síður vaxandi hópur leigjenda með himinháan húsnæðiskostnað.

Tíðindin um lánsveðshópinn úr Fréttablaðinu í dag:

Ríkisstjórnin og Landssamtök lífeyrissjóða gerðu í gær með sér samkomulag um aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila sem eru með lán með veð í eignum annarra. Er stefnt að því að þessi heimili fái nú svipaða lausn sinna mála og öðrum yfirveðsettum heimilum stóð til boða í gegnum 110% leiðina.

„Þessi lausn er mikið réttlætismál þar sem lánsveðshópnum býðst sama úrlausn mála og þeim sem fóru 110% leiðina. Við höfum barist fyrir þessu lengi og þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða,“ segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu um samkomulagið í gær. Samkvæmt því skal stefnt að því að eftirstöðvar húsnæðislána með lánsveð verði færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar lántaka.

Kostnaðurinn við þessar aðgerðir mun dreifast þannig að lífeyrissjóðirnir greiða fyrir 12% en ríkissjóður fyrir 88%. Áður en hægt er að framkvæma þær þarf ríkisstjórnin þó að afla lagaheimilda til þess að skuldbinda ríkissjóð til þessa kostnaðar. Auk þess þarf að afla staðfestingar frá stjórnum hlutaðeigandi lífeyrissjóða.

Samkvæmt niðurstöðum sérfræðingahóps sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið skipaði í fyrra var í lok árs 2011 1.951 lántakandi, sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveði á árunum 2004 til 2008, með húsnæðisskuld umfram 110% af fasteignamati. Þessi hópur gat ekki tekið þátt í 110% leiðinni þar sem lífeyrissjóðirnir, sem eru eigendur langflestra lánanna, töldu það ekki heimilt samkvæmt lögum.

 

Flokkar: Húsnæðisskuldir

«
»

Ummæli (5)

  • Mörður Árnason virðist með bloggi sínu fallast á röksemdir Stefáns Ólafssonar um mikilvægi þess að skuldamál og afkoma heimilanna eigi að vera í forgangi á næsta kjörtímabili. Stefán er hlynntur áherslum Framsóknarmanna og hvetur formann Samfylkingar til þess að nálgast hugmyndir þeirra og setja með því velferð heimilanna í forgang. Stefán segir: „Formaður Samfylkingar virðist hafa meiri áhyggjur af erlendu vogunarsjóðunum“, það er hefur meiri áhyggjur af velferð vogunarsjóðanna en heimilum landsmanna.
    Það er raunar furðulegt því lengi hefur loðað við Samfylkinguna að vera höll undir fjármálaöflin sbr. dekrið við Bónusveldið á dögum Ingibjargar Sólrúnar og hafði Samfylkingin ekkert nema skaða og skömm af því samneyti. Því hefði mátt ætla að nýr formaður flokksins reyndi að fjarlægjast fjármálaöflin en það er öðru nær og hefur það berlega komið í ljós í ræðum hans nú í aðdraganda kosninganna og það svo að einum helsta hugmyndafræðingi flokksins ofbýður og segir málflutning formannsins í engu samræmast hugmyndafræði jafnaðarmanna um norræna velferð.
    Hvað sem því líður hallast sífellt fleiri flokkar að þeirri stefnumörkun, að heimilin verði í forgangi á næsta kjörtimabili, að tekið verði á forsendubrestinum og stökkbreytt lán leiðrétt og skuldarar njóti verndar og réttlætis gagnvart ofurvaldi lánastofnana. Vonandi hoppar formaður Samfylkingar upp í þann vagninn þar sem leiðarljósið er jöfnuður og réttlæti.

  • Heimilin — almannahagur — hafa alltaf verið ,,í forgangi“ hjá Samfylkingunni. Endurreisn samfélagsins á Hrun-Íslandi fól líka í sér verkefni í ríkisfjármálum og við upprisu fjármálastofnana — og jafnframt vörðum við velferðarþjónustuna, hag þeirra sem verst voru settir og komum af stað umfangsmeiri aðgerðum í þágu skuldara em þekkst hafa í kreppunni hér í kringum okkur — nú síðast í þágu lánsveðshópsins. Nú eru laun heimsins alltaf það sem laun heimsins eru, en ég frábið mér subbu-ásakanir einsog um stuðning við ,,fjármálaöflin“ (á GSS við lífeyriseigendur?) og þessar gömlu Davíðslummur og -slummur um ,,Bónusveldið“ sem aldrei hefur haft neitt með flokkinn minn að gera.

    Við höfum — formaðurinn og flokkurinn allur í kringum hann — heitið leiðréttingu fyrir verstu skuldahópana, nú einkum verðtryggða hópin frá 2005-2008 plús leigjendur. Ein af reyndustu leiðtogum okkar, Össur Skarphéðinsson, hefur sett af stað samræðu um fjármögnun, og bent á tillögur um bankaskatt.

    Hinsvegar skal viðurkennt – touché: Alveg rétt að Samfylkingin hefur áhyggjur fyrir hönd eins ,,fjármagnsafls“. Nefnilega ríkissjóðs sem við eigum öll sameiginlega og borgum til skattana okkar. Hannm má ekki setja á hausinn aftur — og við verðum að lækka sem hraðast þá upphlæð sem árlega fer bara í vexti af erlendum skuldum — næstum 90 af um 580 útgjaldamilljörðum.

  • Hvernig er þá með þá sem t.d. tóku lán 2004, fá þeir enga leiðréttingu? Bara þeir sem tóku lán milli 2005-2008.

    Ef ég tók lán í sept 2004 fæ ég þá ekki leiðréttingu en Jói sem tók lán í jan 2005 fær leiðréttingu?

    Er þetta ekki soldið eins og Apartheid? Annaðhvort tilheyrirðu þessum hópi eða hinum. Er það svona sem Samfylkingin vill hjálpa heimilunum?

  • kristin geir st briem

    hef aldrei séð gæðin í 110% er aðalega gert fyrir fjámálafyrirtækinn til að skuldarrar haldi áfram að hlaupa á skuldahjólinu því ef þau hætta að hlaupa þá mun fara illa fyrir fjámálafyrirtækjum hefur þessi ríkisstjórn ekki bara fært vandræðin aftar því lán ríkissjóðs hafa hækkað gríðanlega á timmun þessarar ríkisstjórnar vandamálinn birja ekki þegar menn taka lán heldur þegar á að fara borga þau til baka.

  • Sigurður K Pálsson

    Hvað sagði talsmaður lífeyrisstjóðanna um þennan „samnn“ í viðtali, það verður langt þangað til að þetta verður að veruleika. Hvað þýðir það Mörður?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur