Föstudagur 26.04.2013 - 09:58 - 5 ummæli

Kjósum gegn stóriðjustjórn

Tólf eða þrettán frambjóðendur í hverjum sjónvarpsþætti eða málefnafundi í kosningabaráttunni og tala hver upp í annan – svörin oftast þokukennd og óskýr eða þá passa ekki við spurningarnar sem brenna á. Tveir flokkar að koma úr ríkisstjórn sem ekki kláraði sitt prógramm og skilur eftir sig fullt af vandamálum , og svo allir hinir, gömlu og nýju, sem hrópa og kalla: Sjáiði mig, mig, nei mig!

Já, þetta finnst frambjóðendunum sjálfum stundum líka, og ég get vel skilið þá sem yppta öxlum.

Einfalt

Og samt er staðan einföld. Jafnaðarmenn eru að skila af sér kjörtímabili þar sem allir kraftar stjórnar og almennings fóru í að ná efnahagslífinu upp úr hruni án þess að samfélagsgerðin rifnaði í sundur. Það tókst, og nú eru allar vísbendingar upp á við. Það tókst ekki allt á þessum fjórum árum, og var engin von til – en flokkarnir tveir sem höfuðábyrgð bera á hruninu nýta sér hinsvegar óþol og óánægju eftir langt erfiðleikatímabil. Lofa gulli og grænum skógum, skattalækkun og skuldaniðurfellingu langt umfram það svigrúm sem nú er búið að skapa og án tillits til þess að við þurfum jafnframt að létta á bókhaldi heimilanna hvers fyrir sig og allar saman með því að lækka himinháar vaxtagreiðslur úr ríkissjóði og bæta velferðarþjónustuna, ekki síst heilbrigðiskerfið.

Fyrir utan töfrabrögð benda flokkarnir tveir aðeins á eina leið til að fjármagna dæmið. Hún heitir „atvinnuuppbygging“ sem í þeirra orðabók þýðir virkjanir og stóriðja. Vegna þess að fjárfestar veraldarinnar bíða ekki í röð með peningana sína eftir fjárfestingarfærum á Íslandi frekar en annarstaðar á kreppuslóðum okkar tíma – en BD-flokknum liggur á – er eina aðferðin að nú renni upp gamlir tíma undirboða, í orkuverði, sköttum og umhverfistilliti. Stóriðjustjórn framundan – með hefðbundnum helmingaskiptum á forsendum sérhagsmunanna.

Ekki eyðileggja atkvæðið

Til að koma í veg fyrir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verður að tryggja að öll atkvæði nýtist. Í síðustu könnunum eru þessir flokkar tveir með góðan meirihluta þingmanna – en minnihluta atkvæða! Því olli veruleg dreifing atkvæða á framboð sem mældust með kringum 2 prósent hvert um sig. þau atkvæði falla niður dauð. Tvö framboð í viðbót eru samkvæmt könnunum rétt yfir mörkunum, og eru í verulegri hættu. Þar er líka veruleg hætta á ónýtum atkvæðum.

Svarið: S

Til að koma í veg fyrir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verður líka að tryggja að til mótvægis sé jafnaðarflokkur með skýra og samstæða stefnu í þeim málum sem mestu varða næstu ár – um hagstjórn, skuldir, vinnu og velferð, umhverfi og náttúruvernd, menntun og menningu, og um Evrópu. Flokkur sem er ókvíðinn hjörs í þrá – en tilbúinn að leita samkomulags og málamiðlunar á forsendum almannahagsmuna. Sterk Samfylking getur komið í veg fyrir pólitískt stórslys um næstu helgi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Atkvæði til þín er atkvæði gegn stóriðjustjórn, það er satt og er það vel, en hins vegar eru til svokallaðir stóriðjukratar í þínum flokki og atkvæði til þeirra er atkvæði með stóriðju, þannig að öll atkvæði til Samfó eru ekki til þess fallin að kjósa gegn stóriðju.

  • Heimir L Fjeldsted

    Kjósum forsætisráðherra, kjósum Bjarna Ben.

  • Kannski rætist sá draumur Marðar, að Samfylkingin með sín 13% komist í ríkisstjórn að loknum kosningum. Það væri þá í samræmi við það sem gerðist í borginni eftir síðustu borgarstjórnarkosningar. Fylgishrunið þá kom ekki í veg fyrir, að flokkurinn myndaði meirihluta með Jóni Gnarr og félögum. Þetta er það undarlega við lýðræðið. Flokkur sem fær afgerandi höfnun í kosningum nær með klókindum að viðhalda valdastöðu sinni.
    Og kannski rætist draumur Marðar því tíðindi berast úr bakherbergjum, að þreifingar séu hafnar um myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Satt eða logið eða einungis skraf fótgönguliða í flokkunum yfir kaffibolla þá er hugmyndin komin í loftið og á ekki eftir að auðvelda Sjálfstæðisflokknum kosningabaráttuna. Bara sú hugsun að endurvekja eigi samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vekur hroll og skelfingu í huga þúsunda sjálfstæðismanna, sem mega ekki til þess hugsa að hefja Samfylkinguna til vegs eftir það sem á undan er gengið. Óheilindin í sambandi við ákæruna á hendur Geri Haarde, hvernig Samfylkingin frýjaði sig af ábyrgð eftir hrunið og taumlausar árásir Jóhönnu, forsætisráðherra á Sjálfstæðisflokkinn á kjörtímabilinu sem er að líða. Flökkusagan um meinta samstjórn þessara flokka kemur því á versta tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
    En kannski rætist samt draumur Marðar. Pólitíkin er ólíkindatól eins og Össur og í valdatafli má með góðum vilja og aðstoð ímyndarfræðinga breiða yfir gamlar væringar. En það er ekki víst að grasrótin, hinn almenni flokksmaður fallist á plottið.

  • Mörður.

    Þið í samfylkingunni ásamt vinstri grænum tókuð að ykkur að hreinsa upp eftir sukkið og svínaríið í sjálfstæðisflokknum og framsókn til áratuga !

    En þið í samfylkingunni lofðu líka ákveðnum hlutum, en svikuð það !

    Fyrsta vinstri stjórn sýndi að ekkert gengur ef eintómir kóngar eru settir inn til að gegna störfum alþingismanna !

    Formaður samfylkingarinnar er einn þessara kónga sem ég gæti aldrei kosið !

    Það er eitt atriði sem mig langar að þú og þið samfylkingarfólk spyrjið ykkar að , vegna þess að þú telur þig umhverfisvernarmann .

    Hvers vegna eru þið búinn að gera Hvalfjörðin að algjöri ruslakistu í umhverfismálum ? Þið hafið haft umráðarétt í ríkisstjórn og borgarstjórn lengi til að gera allt til að verna Hvalfjörðin !

    Hérna getur þú lesið gjörðir þínar og ykkar samfylkingarfólks :

    http://kjos.is/Files/Skra_0061228.pdf

  • Sæll Mörður.

    Vill bæta fyrir augljósa villu , Hvalfjörður er með tveimur n-um !

    Hvalfjörðurinn !

    Ég veit að þú íslenskufræðingurinn er ekkert hress !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur